30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (2686)

22. mál, fréttayfirlit frá utanríkisráðuneytinu

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það þarf ekki langt mál til að fylgja úr hlaði þeirri till., sem hér um ræðir á þskj. 28, en hún er um það efni, að ríkisstj. gefi út öðru hverju, mánaðarlega eða jafnvel oftar, sérstakt fréttayfirlit um helztu atburði í landinu. Það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að fréttayfirlit þetta verði á erlendu máli og það verði sent öllum sendimönnum Íslands erlendis og einnig kjörræðismönnum og ýmsum þeim aðilum og stofnunum, sem ætla má að hafi áhuga á að kynnast íslenzkum málum eða annast á einn eða annan hátt landkynningu.

Í grg. er í stuttu máli vikið að orsök þess, að þetta mál er hér flutt, en hún er sú, að þess hefur orðið vart, að ýmsir fulltrúar Íslands erlendis, sér í lagi kjörræðismenn, telja sig hafa mjög litlar upplýsingar um íslenzk mál, eru hins vegar oft spurðir um mörg atriði varðandi Ísland og verður þá oft erfitt um að gefa nauðsynlegar upplýsingar.

Það liggur í augum uppi, að Íslendingar hafa ekki aðstöðu til að hafa útsenda sendiherra eða sendifulltrúa nema á tiltölulega fáum stöðum, og hefur því reyndin orðið sú, að íslenzka ríkið hefur tilnefnt kjörræðismenn á mörgum stöðum, þarlenda menn búsetta, oft og tíðum menn, sem ekki einu sinni skilja íslenzku og eru mjög fákunnugir um íslenzk mál. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að sjálfsögðu, þar sem slíkir menn starfa, af þarlendu fólki, að þeir hafi handbærar ýmiss konar upplýsingar, og auðvitað nauðsynlegt, að þeir hafi þær. Þó að þeir fái íslenzk blöð, gagnar það lítt, ef þeir skilja ekki íslenzkt mál, auk þess sem erfitt er fyrir þá, sem ekki eru kunnugir öllum háttum hér, að átta sig á því úr blöðum, hver eru meginatriði málsins oft og tíðum.

Það er öllum hv. þm. vafalaust kunnugt, að utanrrn. eða jafnvel sendiráð margra þjóða, ef til vill flestra, gefa út í ýmsu formi fréttayfirlit, jafnvel daglegt yfirlit um gang mála í sínu heimalandi. Það er auðvitað ekki um slíkt að ræða hér hjá okkur, að hafa það svo víðtækt, en ég hygg, að það væri til mikilla bóta, ef hægt væri að koma því á, að með hæfilegu millibili væri slíkt yfirlit gefið út af utanrrn. Utanrrn. hefur sérstakan blaðafulltrúa í sinni þjónustu, og það ætti því ekki að þurfa að verða ýkja mikill kostnaður af útgáfu slíks fréttayfirlits, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að umr, um það verði frestað og því verði vísað til, ja, væntanlega utanrmn. eða allshn., allshn., ef forseti telur það eðlilegra. Þetta er náttúrlega nánast utanríkismál. Ég legg það í vald hæstv. forseta, hvað hann telur eðlilegt í því sambandi. (Forseti: Er engin tillaga?) Ég mundi telja, að það væri utanrmn.