12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

57. mál, ferðamannagjaldeyrir

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja mikið um þessa till., sem hér liggur fyrir, enda þótt hún gefi fullt tilefni til þess, því að hér er í rauninni að minni hyggju ekki um neitt veigalítið mál að ræða. Sannleikurinn er sá, að það ástand, sem ríkjandi er í okkar landi í sambandi við ferðamál og þá sérstaklega heimsóknir erlendra ferða- manna og þeirra gjaldeyrisviðskipti hér, er með þeim hætti, að það er fullkomin þjóðarskömm. Það mætti margar sögur um þetta segja, og vafalaust er öllum hv. þm. um það kunnugt. Mér sýnist sannast sagna, að eins og ástandið er í þessum efnum nú, ætti beinlínis að reyna að koma í veg fyrir það, að erlendir ferðamenn kæmu hingað til landsins, Það er að vísu enn þá svo, að ýmsir erlendir ferðamenn fara hingað í banka með sinn gjaldeyri, og á þann hátt — með því að hlýða lögum landsins — verða þeir fyrir stórkostlegu tjóni í sambandi við sín gjaldeyrisviðskipti. En sannleikurinn mun þó vera sá, að meginhluti þess gjaldeyris, sem erlendir ferðamenn koma með hingað, kemur alls ekki inn í banka, heldur er seldur hér á svörtum markaði, og í sambandi við það fara fram viðskipti, sem vægast sagt eru niðurlægjandi og lítil landkynning fyrir okkar þjóð.

Það er svo, að fjöldi fólks er sífellt á snöpum eftir erlendum ferðamönnum, sem hingað koma, til þess að reyna að kaupa af þeim gjaldeyri. Og það gefur auga leið, hvaða álit hinir erlendu ferðamenn fá á þjóðinni í gegnum slík viðskipti. Við þekkjum vafalaust sögur um það sjálf, sem við höfum heyrt frá öðrum þjóðum, þar sem eru hópar manna, sem gera sér það að atvinnu sums staðar að kaupa gjaldeyri af ferðamönnum, og í okkar huga hefur það víst áreiðanlega ekki aukið álit okkar á viðkomandi þjóðum. Og auðvitað gildir sama erlendis gagnvart okkur, þegar slík viðskipti eiga sér stað sem hér er um að ræða, ekki sízt þegar þau eru í það stórum stíl, að það mun áreiðanlega vera mjög mikill meiri hluti þess gjaldeyris, sem erlendir ferðamenn koma hingað með, sem aldrei kemur inn í banka, Ég man ekki gerla tölur í því sambandi, en ég minnist þess, að Ferðaskrifstofa ríkisins lét eitt sinn fyrir allmörgum árum rannsaka þetta mál, og ef ég man rétt, komst hún að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera a.m.k. milljónatugur, — og þá vafalaust mun hærri fjárhæð nú, — sem erlendir ferðamenn kæmu með inn í landið og beinlínis væri verzlað með utan bankanna, en aðeins um 2 millj. króna eða tæplega það, sem kæmi inn í gjaldeyrisverzlun bankanna.

Í sambandi við þetta eru líka aðrir hættir, sem kannske eru þó enn þá lakari, og það eru þær reglur, sem bankarnir fylgja sjálfir.

Ég get ekki stillt mig um að segja hér sögu af erlendum ferðamanni, sem fékk hér heldur óþægilega og óskemmtilega reynslu í því sambandi í fyrra. Þá, eins og menn muna, gerðist það, að hér var alllengi verkfall á kaupskipaflotanum, og það voru farþegar, sem hingað höfðu komið með Heklu, sem hér urðu tepptir. Þeir höfðu að sjálfsögðu haft hér gjaldeyrisviðskipti, og viðkomandi maður, sem ég á hér við, hafði farið inn í banka og skipt sínum gjaldeyri að verulegu leyti. Svo kom það á daginn, að hann gat ekki komizt út með þeirri ferð skipsins, sem áætluð hafði verið, vegna verkfallsins, og varð hins vegar að velja þann kostinn að fara með flugvél. En þá kom í ljós, að það varð hann að greiða í erlendum gjaldeyri, og það var því ekki um annað að ræða en fara í viðkomandi banka og óska eftir því að fá til baka nokkurn hluta af þeim gjaldeyri, sem skipt hafði verið, til þess að sitja hér ekki uppi gersamlega í vandræðum út af þessum erfiðleikum, sem skapazt höfðu með farkost. En þegar í bankann er komið, kemur það í ljós, að vísu eftir allmikið þref, að hann getur fengið þar aftur nokkurn hluta af sínum peningum, sem hann sannanlega hafði þar inn lagt og skipt, en þó með því einu skilyrði, að hann greiddi það mun hærra verði, — ég má ekki nákvæmlega með tölur fara, en a.m.k. sem svaraði 60 kr. hvert sterlingspund, en hafði selt bankanum það á 45 kr. Þetta þóttu viðkomandi manni hinir furðulegustu viðskiptahættir, — úr því að á annað borð var gengizt inn á að afhenda honum aftur þennan gjaldeyri, sem skipt hafði verið, út af þessum vandræðum, væri beinlínis af hálfu opinberrar lánsstofnunar hann hafður að féþúfu á hinn allra ósmekklegasta hátt. Vafalaust hefur bankinn farið eftir eðlilegum og réttum reglum í þessu sambandi, en ég verð að segja það, að slíkir starfshættir eru sannast sagt ekki til þess fallnir að vekja sérstaka virðingu fyrir okkar viðskiptum hér við erlenda ferðamenn. Svo mikið er víst, og væri mjög æskilegt, ef viðkomandi yfirvöld, sem þeim málum stjórna, tækju þessa hlið til athugunar, hvort það raunverulega getur verið svo, að þessir viðskiptahættir tíðkist hér í bönkum okkar í sambandi við þess konar gjaldeyrisviðskipti.

Ég held, að það verði ekki með nokkru móti fram hjá því komizt fyrir íslenzk stjórnarvöld og Alþ. að gefa þessum málum meiri gaum, en gert hefur verið og gera hér án frekari tafar ráðstafanir til úrbóta. Þetta breytist að sjálfsögðu, ef það er ætlun stjórnarvaldanna að gera hér einhverjar breytingar á skráningu erlends gjaldeyris. Þá getur það lagazt með þeirri ráðstöfun. En ef hugsunin er að fara aðrar leiðir í því efni, þannig að engin lagfæring fáist á þessu með því móti, tel ég, að það sé algerlega óumflýjanlegt til þess blátt áfram að viðhalda sæmd okkar þjóðar og gera okkur ekki að hálfgerðu viðundri í augum þess fólks, sem við erum að hvetja til þess að koma hingað til Íslands, að gera einhverjar ráðstafanir í þessum gjaldeyrismálum ferðamanna og það fyrr en seinna.