12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

59. mál, barnalífeyrir

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Eitt þeirra mála, sem flestir eru sammála um, er nauðsyn þess að hlaupa undir bagga með einstæðum foreldrum, sem ekki geta af fjárhagsástæðum veitt börnum sínum viðunandi aðhlynningu. Þess vegna hafa kvennasamtökin haft það á stefnuskrá sinni, að barnalífeyrisgreiðslum sé breytt þannig, að þær komi að meira liði, en nú er, og í samræmi við það er till. á þskj. 94 flutt.

Upphæð barnalífeyrisins, sem greiddur er samkvæmt lögunum um almannatryggingar, er nú 376 kr. mánaðarlega á 1. verðlagssvæði. Það ætti að vera óþarft að útlista það með mörgum orðum hér, hve fjarri fer því, að þetta sé nálægt raunverulegum framfærslukostnaði barns. Upphæðin hrekkur ekki fyrir þeim venjulega mat, sem börn þurfa, hvað þá fyrir klæðnaði eða þjónustu. Margir forráðamenn barna grípa til þess að hafa þau á barnaheimilum, og hrekkur þá lífeyrisupphæðin hvergi nærri til að greiða daggjöld þar, sem þó er haldið undir raunverulegum rekstrarkostnaði við barnaheimilin.

Helzt þyrfti upphæð barnalífeyris að geta miðazt við það, að einstæð móðir, sem er bótaþeginn í flestum tilfellum, gæti sem mest annazt barn sitt eða börn sín sjálf í stað þess að koma þeim einhvers staðar fyrir, sem annars oft vill verða.

Það eru því miður allt of mörg dæmi til um konur, sem aldrei hafa beðið þess bætur að hafa neyðzt til að láta börn sín frá sér í bernsku, og um börn, sem ekki hafa þolað að vera á hrakningum í bernsku og fara algerlega á mis við venjulega foreldraumhyggju.

Þegar lögin um almannatryggingar, þau sem nú gilda, voru sett í marz árið 1956, var grunnupphæð barnalífeyris á 1. verðlagssvæði ákveðin 2.400 kr. á ári eða sama grunnupphæð og verið hafði, frá því að lögin um almanna- tryggingar voru fyrst sett. Hins vegar voru grunnupphæðir annarra bóta hækkaðar allmikið árið 1956.

Þótt ekki sé langt um liðið, að tryggingalögin voru endurskoðuð, er samt fullkomlega tímabært, að ákvæði um barnalífeyri séu tekin til nýrrar athugunar. Samkv. lögunum, eins og þau eru nú, er barnalífeyrir greiddur vegna látins föður eða ef annaðhvort foreldranna er elli- eða örorkulífeyrisþegi. Hins vegar er yfirleitt ekki greiddur barnalífeyrir vegna látinnar móður. Að vísu er það stundum gert með sérstakri heimild tryggingaráðs, þegar tekjur ekkils verða fyrirsjáanlega ekki nægilegar til að sjá börnunum farborða, Það þykir hins vegar eðlilegra að almenna reglan verði sú, að heimilt verði einnig að greiða ekki fullan barnalífeyri, er hann hefur misst móður barna sinna. Það dylst engum, að þá missir barnið framfæranda, og að öðru jöfnu er ekki síður ástæða til þess að bæta móðurmissi en föður, að svo miklu leyti sem það verður gert með fjárhagsaðstoð. Þess vegna er æskilegt að skipa málum þessum þannig, að barn, sem á föður á lífi, en ekki móður, gæti átt rétt á barnalífeyri, og af sömu ástæðum yrði heimilað að greiða tvöfaldan lífeyri vegna munaðarlausra barna. Nú er aðeins heimilt að hækka lífeyri vegna munaðarlausra barna um 50%.

Þær breytingar, sem bent er á í þessari þáltill., að hafa þyrfti einkum í huga við athugun á þessum ákvæðum, hafa óhjákvæmilega allmikinn kostnað í för með sér. Nú er tvenns konar barnalífeyrir greiddur samkv. lögunum um almannatryggingar, annars vegar óafturkræfur barnalífeyrir, sem greiddur er samkv. 17. gr. laganna, og nam upphæð hans árið 1956 8.158.942 kr. Bótaþegarnir voru 1.307 og börnin, sem greitt var með, 2.548.

Hins vegar er samkv. 83. gr. laganna einnig greiddur barnalífeyrir samkv. úrskurði um barnalífeyri með óskilgetnum börnum og eftir því sem við á með börnum skilinna hjóna. Þessi lífeyrir er endurkræfur frá feðrum, og ef vanskil verða, þá frá framfærslusveit þess föður, sem um er að ræða. Heildarupphæð þessa lífeyris er að jafnaði allmiklu hærri, en upphæð óendurkræfa lífeyrisins, og nam hún á árinu 1956 11.278.722 kr.

Það gefur að skilja, að þarna koma til aukin útgjöld sveitarfélaga, sem ábyrg eru fyrir greiðslum vanskilamanna. Það væri því full ástæða til að athuga, um leið og það er at- hugað, sem um ræðir í till., hvort ekki væri unnt að fara nýjar leiðir til að auðvelda innheimtu þessara greiðslna, ekki sízt þar sem svo hefur skipazt, síðan þessi till. var lögð fram, að þingmenn stjórnarflokkanna ákváðu, að ríkið skyldi hætta stuðningi við þá stofnun, sem var vanskilamönnum stærsta bæjarfélagsins aðhald um greiðslur. Þessi og ýmis fleiri vandamál rísa í sambandi við þessa athugun.

Hins vegar nam hækkun lífeyris vegna munaðarlausra barna ekki nærri eins miklu, eða á árinu 1956 nam hún 16.765 kr.

Ef miðað er við svipaðan fjölda bótaþega og barna og um var að ræða í þessum dæmum, næmu hækkanir í samræmi við hugmyndirnar í þessari till. um það bil 10 millj. kr., en auk þess mundi óendurkræfi barnalífeyririnn hækka talsvert hlutfallslega, ef ekklar bættust við bótaþegafjöldann.

Tilgangur með greiðslu á barnalífeyri hlýtur að vera að skapa þeim börnum, sem um er að ræða, skilyrði til þess að njóta sem beztrar umhyggju foreldris eða foráðamanna. Þannig þyrfti þá barnalífeyririnn að geta komið í veg fyrir, að einstæðum foreldrum verði nauðugur einn kostur að senda börn sín frá sér við missi fyrirvinnu. Það er því nauðsynlegt að gefa því gaum, á hvern hátt mætti hækka barnalífeyrinn, svo að hann yrði að raunverulegu liði, en varla er hægt að segja, að svo sé nú.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar, en hygg, að þetta mál eigi helzt heima í hv. fjvn., og legg því til, að umr, verði frestað og málinu vísað þangað.