23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (2875)

165. mál, biskup í Skálholti

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að byrja á því að þakka hv. 1. flm. þessa máls, hv. 1. þm, Árn., þá ágætu ræðu, sem hann flutti hér í upphafi máls, og mættu fleiri slíkar ræður vera fluttar hér á hv. Alþingi. Annars var það erindi mitt hingað upp í ræðustólinn, að ég vildi gjarnan með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef gerzt meðflm. að þessari till. til þál. um, að biskup Íslands skuli hafa aðsetur í Skálholti.

Eins og kunnugt er, hefur á undanförnum árum verið mikið rætt um það, að nauðsyn bæri til að endurreisa Skálholt. Og þar hefur ekki verið látið sitja við orðin tóm, heldur hafa ríkisstjórnir beitt sér fyrir því, að Alþ. hefur heimilað allmikið fé til þess að framkvæma endurreisn, og hefur verið undanfarin ár unnið að framkvæmdum þar á staðnum. Þarna hefur verið varið miklu fé til framkvæmda. Það hefur verið unnið að ræktun, það hafa verið lagðir vegir, það hefur verið byggður bóndabær þar, það hafa verið reist útihús fyrir búskap, ef ég man rétt. Langt er komið að reisa þar veglegt íbúðarhús og verið að byggja kirkju. En það hefur komið fram hvað eftir annað, þegar minnzt hefur verið á Skálholt og framkvæmdirnar, sem þar hafa átt sér stað undanfarin ár og verið veitt allmikið fé til, að menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því, að hverju væri stefnt með þessum framkvæmdum, og þá sérstaklega að hverju væri stefnt með því að reisa íbúðarhús það hið mikla og veglega, sem þar stendur nú á Skálholtsstað. Og eins og einn hv. þm. sagði hér áðan í umræðunum, hefur það komið fram í ummælum ýmissa manna, að enn sé vandi á höndum að finna Skálholti hlutverk. Þegar nú svo stendur á, og þó að ekki væru fyrir hendi aðrar ástæður, en þessi, þá finnst mér einsætt, að það sem eigi að gera til þess að endurreisa þennan fornfræga stað, sé að fá þeim embættismanni, yfirmanni kirkjunnar, sem þar átti setu öldum saman, aðsetur á staðnum á ný.

Eins og fram kom í ræðu hv. 1. flm., höfðu biskupar aðsetur í Skálholti í 7 aldir, og þegar ákveðið var að flytja biskupinn til Reykjavíkur, var það eins konar neyðarráðstöfun, sem gerð var af erlendu valdi og á þeim tíma, þegar menn höfðu litla trú á framtíð Íslands. Ég er alveg sammála hv. 1. flm. um, að það færi vel á því, að Alþ. afnæmi nú þessa konungstilskipun.

Í sambandi við flutning biskupsstólsins að Skálholti sýnist mér, að þar sé ekki um mikið fjárhagsmál að ræða. Sá flutningur mun ekki hafa mikinn kostnað í för með sér. Ég held, að það sé misskilningur, sem fram kom hjá einum hv. þm., að til þess mundi þurfa að verja stórum fjárhæðum. Byggingu hússins, sem biskupinn mundi hafa aðsetur í, er langt komið, og henni mun áreiðanlega verða lokið. Hins vegar yrði þá um leið komizt hjá því að reisa embættisbústað fyrir biskup landsins í Reykjavík, sem trúlega verður gert, ef hann hefur þar aðsetur til frambúðar.

Ég vil í öðru lagi segja það, að ég er að vísu leikmaður og ætti líklega ekki að fara langt í því efni að tala um kirkjunnar mál. En ekki er ég nú í neinum vafa um, að það mundi mjög auka reisn íslenzkrar kirkju, ef hún hefði framtak í sér til þess og sýndi þann myndarskap að vera því fylgjandi og beita sér fyrir því, að hinn forni biskupsstóll yrði endurreistur í Skálholti, og slíkt mundi vekja athygli, ekki einungis hér á Íslandi, heldur einnig utanlands, athygli á þjóðkirkju okkar og á hinum fornfræga stað. Það sýna gjafirnar, sem hér var minnzt á áðan, sem borizt hafa frá mörgum löndum til Skálholtskirkju, að í kristninni víða um lönd, sérstaklega í nágrannalöndunum, er mikill áhugi fyrir staðnum.

Það hefur verið minnzt lítils háttar á Hólastól í þessu sambandi, og einn hv. þm. lét svo ummælt, að hann gerði ekki ráð fyrir, að Norðlendingar mundu gleyma Hólum. Ég tek undir það. Ég geri ekki ráð fyrir, að Norðlendingar muni gleyma Hólum. En við erum nokkrir norðlenzkir þingmenn eða þingmenn héraða á Norðurlandi flm. að þessari þáltill.

Nú er það svo, að ég er í raun og veru sammála hv. þm. A-Húnv. um það, að ég sé ekki brýna þörf á því nú, eins og sakir standa, að tvö biskupsembætti séu á Íslandi. Ég sé ekki brýna þörf á því. En mér finnst, að þessi eini biskup eigi að sitja í Skálholti, en ekki í Reykjavík, Og hafa verið færð fyrir því rök margvísleg fyrr í þessum umræðum, hvað styður að því, að svo eigi að vera.

Það var nú svo í öndverðu, þegar kirkja var stofnuð hér á landi, að þá var biskup aðeins einn. Hann var þá í Skálholti. Um hálfri öld síðar kom fram ósk um það frá Norðlendingum, að settur yrði biskupsstóll í fjórðungi þeirra, og varð það þá til þess, að biskupsstóllinn var settur á Hólum. Ég gæti vel hugsað mér eitthvað svipaða þróun í þessum málum nú. Þjóðinni fer nú ört fjölgandi, og vera má, að eftir ekki mjög langan tíma yrði svo ástatt, að teljast mætti eðlilegt, að biskupar væru tveir. Þá mundi ég telja sjálfsagt, að biskup yrði einnig á Hólum. Þar með vil ég ekki segja, að ég mundi vera því mótfallinn, að biskupsstóll væri endurreistur á Hólum nú á næstunni, ef það mál gæti fram gengið, en satt að segja hafði ég ekki beinlínis gert ráð fyrir því, að menn mundu vera þess sinnis nú að vilja hafa tvo biskupsstóla á landinu.

Um Hólastað gegnir nokkuð öðru máli, en Skálholt, að því leyti, að það er nokkuð langt síðan þar var byrjað á endurreisn, ef svo mætti segja, og þá var ráðizt í að koma þar upp skóla, búnaðarskóla Norðlendinga, sem þar er, og framkvæmdir á staðnum hafa yfirleitt verið miðaðar við þessa stofnun, sem þar hefur verið, En það þarf auðvitað ekki að vera því til fyrirstöðu, að biskup geti setið þar á staðnum. Yfir hann þyrfti þá að sjálfsögðu að byggja þar að vísu sæmilega veglega. En eins og stendur hefur Hólastaður verið endurreistur á þann hátt, sem ég nú nefndi, með byggingu og starfrækslu búnaðarskóla þar.

Það var nefnt hér áðan í umr., að naumast gæti það verið rétt regla að setja hverja þá stofnun, sem hér hefði verið fyrrum, á þann stað, sem hún áður hefði verið á, og var þá um það talað, að ef því væri haldið fram, að flytja ætti biskupinn frá Reykjavík til Skálholts, mætti eins ræða um að flytja Alþingi frá Reykjavík til Þingvalla og halda það þar, eins og Fjölnismenn vildu á sínum tíma.

Ég tel ekki útilokað, að einhvern tíma komi að því, að fylgi verði fyrir því með þessari þjóð að heyja Alþingi á Þingvöllum, en ég býst ekki við, að það verði nú á næstunni, enda er hér ólíku saman að jafna að flytja biskupinn að Skálholti að kostnaðarlausu eða kostnaðarlitlu eða flytja Alþingi til Þingvalla, því að það mundi þó áreiðanlega kosta ærið fé að gera það. En varðandi það, sem nefnt hefur verið, að það mundi valda miklum óþægindum fyrir þá menn, sem eiga erindi við biskup landsins, ef hann hefði setu í Skálholti, þá sé ég að vísu ekkert á móti því, að þetta sé nefnt, því að sjálfsagt er að tína til þau rök, sem eru með og móti hverju máli, en mér hefur alltaf fundizt þetta vera ákaflega lítilvæg ástæða. Og það viðurkenndi reyndar sá hv. þm., sem þetta nefndi, að hún væri ekki mjög mikilvæg og að aðrar ástæður mundu eiga að vega þar meira.

Það er nú svo, að þeir prestar, sem heima eiga á Suðurlandi fyrir austan fjall, eiga að sjálfsögðu styttri leið til Skálholts, en til Reykjavíkur. En segja má, að aðrir eigi lengri leið að fara, ef þeir þurfa að fara í gegnum Reykjavík. Það var nú einu sinni svo, að ef menn hér á Íslandi vildu komast úr einum landshluta í annan, þá urðu þeir stundum að taka á sig krók með skipi til Kaupmannahafnar. Þeir tímar eru nú löngu liðnir, en einu sinni var þetta nú svo. Og ég held, að þeir tímar séu nú ekki mjög langt undan, að menn, sem eiga erindi t.d. við biskup þjóðkirkjunnar í Skálholti, þurfi ekki endilega að leggja leið sína um Reykjavík til þess. Og enda þótt svo væri, þá er nú ekki fyrirhöfnin ýkja mikil til að komast á fornhelgan stað fyrir kirkjunnar þjóna. Þetta er 90 km leið eftir góðum vegi. Menn annarra trúarbragða leggja það á sig að fara þúsundir mílna pílagrímsferðir til helgra staða, og þá er þessi vegalengdin stutt fyrir þá, sem telja sér það einhvers virði að heimsækja þennan stað.

Ég hef heyrt það í þessum umræðum, hv. 2. þm. Rang. benti á það, að um mál eins og þetta mundi samkv. lögum um kirkjuþing þurfa umsögn kirkjuþingsins. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því ákvæði, sem er í lögum um það efni, og sýnist mér nú við fljóta athugun, að hér sé um nokkurt vafamál að ræða. En hins vegar ætti að sjálfsögðu að mega vænta þess, að stofnun eins og kirkjuþingið styddi slíkt mál sem þetta er. Öðru vil ég a.m.k. ekki trúa að óreyndu.