11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (2910)

28. mál, togarakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Hv. þm. spyr nú um það, hvort ákveðið sé nokkuð um það, að auglýst verði, hvenær síðast megi sækja um þessi skip, og bendir það mjög til þess, að hann og flokksbræður hans ætli nú að draga það fram á síðustu stund að leggja inn umsókn. Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um það enn þá, enda hygg ég, að það mætti nú hafa sama hátt á í þessu og hafður hefur verið á áður, að menn sýndu það, án þess að það þyrfti að auglýsa það beinlínis, hvort þeir hafa áhuga á að fá eitthvað af þeim tækjum, sem hér er um að ræða, og þeir væru nokkurn veginn einfærir um að koma þá umsóknum sínum á framfæri án beinlínis eggjana í auglýsingum. En e.t.v. verður það svo, að þetta verður auglýst. En þó ætla ég, að málið sé þannig, að þessum skipum verði varla úthlutað þannig, að það geti farið fram hjá a.m.k. bæjarstjórnum í landinu almennt eða þær missi af neinu af þeim sökum, að þær viti ekki um það, þegar úthlutunin hefst.

Hv. þm. sagði hér, að hann teldi, að meginatriði þessa máls væri þó það að fá úr því skorið, hvort hægt væri raunverulega að fá fé til þessara skipakaupa. Ja, ég hafði upplýst þegar í upphafi máls míns, og síðan hef ég reyndar endurtekið það tvisvar eða þrisvar sinnum, að það lægju fyrir lánsmöguleikar til kaupa á skipunum og þeir væru þess eðlis, þessir lánsmöguleikar, að ríkisstj. mundi ekki, þó að hún annars væri að leita að enn þá hagstæðari lánum, setja það fyrir sig að ganga frá formlegum smíðasamningum um skipin, vegna þess að hún hefur nokkra lánsmöguleika nú þegar á hendinni. Þetta er þegar upplýst í málinu. En að öðru leyti verður unnið að því áfram að reyna að fá þarna hagstæðari lán. Þetta er aðalatriði málsins, og þetta hefur verið upplýst.

Hitt atriðið, hvort ríkisstj. er svo að vinna hér að almennri lántöku og hvar hún vinnur að því og hvernig, það er í rauninni allt annað mál, sem m.a. hefur nú verið rætt hér á Alþ., ekki alls fyrir löngu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil aðeins segja það, að það, sem skiptir hér höfuðmáli, er það, að samið verði sem allra fyrst um byggingu þessara skipa og reynt verði þar að semja við þá aðila, sem geta afhent skipin á skemmstum tíma og með beztum kjörum, en jafnframt verði unnið að því, eins og tök eru á, að reyna að fá hér sem hagstæðust lán. En þó legg ég svo mikla áherzlu á það, að skipin verði byggð þar, sem þau fást ódýrust og afgreidd á skemmstum tíma, að fremur vildi ég þar sæta eitthvað lakari lánskjörum heldur en að kaupa vafasöm skip með betri lánskjörum. Því legg ég höfuðáherzlu á það, að samningum á hagstæðustum grundvelli í sambandi við afhendingu og verð skipanna verði hraðað, og ákvörðun hefur nú verið tekin um það og verður væntanlega samninganefnd send út til þessara álitlegustu skipasmíðastöðva nú næstu daga, og það tel ég fyrir mitt leyti aðalatriði þessa máls.