04.11.1957
Sameinað þing: 10. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Forseti (EmJ) :

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá forseta neðri deildar:

„Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá Einari Olgeirssyni, formanni þingflokks Alþb., fyrir hönd Hannibals Valdimarssonar, 7. þm. Reykv.:

„Með því að ég er á förum til útlanda og verð fjarverandi næstu vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 144. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óska þess, að varamaður, Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur, taki sæti á Alþingi, á meðan ég verð fjarverandi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu Alþingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.“

Kjörbréfið liggur hér fyrir. Ég tel sjálfsagt, að þetta bréf fari, eins og venja er, til kjörbréfanefndar og hún taki það til athugunar. Það hefur borizt ósk um það frá Sjálfstfl., vegna þess að hann er allur fjarverandi og getur ekki tekið þátt í störfum fundarins í dag, að fundinum verði að öðru leyti frestað til morguns og málið afgreitt þá. Málinu verður því frestað, kjörbréfinu vísað til nefndarinnar og væntanlega þá afgreitt á morgun.

Meðferð málsins frestað.

Á 11. fundi í Sþ., 5. nóv., var tekin til meðferðar rannsókn kjörbréfs.