05.11.1957
Sameinað þing: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skil mjög vel, að hæstv. sjútvmrh. uni því illa, að um þetta mál sé rætt. Ég bjóst við því, og það var einungis staðfesting á því, sem lýsti sér í orðum hans. Hitt er alger misskilningur hjá honum, að það sé utan dagskrár nú að ræða þetta efni. Ég gat þess, og unnt er að færa að því glögg rök, að hægt er að benda á ákvæði bæði í þingsköpum og kosningalögum, sem ekki aðeins bendi til þess, heldur segi fyrir um, að kanna beri, hvort um raunveruleg forföll sé að ræða eða ekki. Hitt játaði ég og sagði hér fyrstur, að það hefur ekki verið þingvenja að rekja það mál ýtarlega, heldur hefur verið látið sitja við bréf frá formönnum þingflokka til forseta deilda og það, að því er mér er kunnugt um, verið tekið athugasemdalaust til greina. Það haggar ekki því, að lagastafirnir eru eins og þeir eru og að þeir veita a. m. k. fulla heimild, ef þeir leggja ekki skyldu á herðar, að þessi mál séu rædd í Alþ., þegar sérstök atvik eru fyrir hendi. Og ég fullyrði, að allir Íslendingar játi, að nú séu mjög sérstök atvik fyrir hendi.

Það er mjög athyglisvert, að hæstv. sjútvmrh. furðaðist mjög að kalla þá þm., sem hér er um að ræða, sínum réttu titlum innan Alþingis, hæstv. félmrh. og hæstv. forseta neðri deildar, heldur lét svo sem hér væri einungis um venjulega óbreytta ferðalanga að ræða, sem hefðu farið í eins konar kynnisför til okkar bezta viðskiptalands, og lét meira að segja svo, að ég hefði verið á höttunum eftir heimboði þangað. Hæstv. ráðh. er nú frægastur af því að vera mestur ósannindamaður, sem setið hefur í okkar tíð á Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég vil vekja athygli herra forsetans á því, að ég sagði ekki, að ráðherrann væri mesti vísvitandi ósannindamaður, sem setið hefði á Alþingi Íslendinga, en hæstv. forseti hafði ekkert við það að athuga á dögunum, þegar það var borið upp á einn þm., að hann hefði farið með vísvitandi ósannindi. En ég þori að fullyrða, að jafnóheimilt eins og það er eftir réttum þingsköpum að kalla mann vísvitandi ósannindamann, þ. e. a. s. lygara, þá er það viðtekin og góð þingregla að segja þann vera ósannindamann, sem er ósannindamaður, eins og hæstv. sjútvmrh., svo að hæstv. forseti hefur einungis sýnt hlutdrægni með sinni bjölluhringingu nú, en ekki röggsemi í fundarstjórn, sem ég annars óska að hann sýni, vegna þess að ég hvorki biðst þess, að mér sé hlíft, ef ég mæli af mér, né mæli ég með því, að öðrum sé hlíft. En í þessu tilfelli notaði ég einungis þinglegt orðbragð og sagði einungis það, sem allir þm. vita að satt er, um hæstv. sjútvmrh.

En svo að ég haldi þar áfram, sem sögu var komið, þá þarf ekki að undrast, þó að hæstv. sjútvmrh. segi nú þetta um mig ofan á allan sinn annan söguburð, og læt ég mig það litlu máli skipta, enda kemur það þessu máli ekkert við. Ég hef aldrei sótzt eftir því að fara til Rússlands, hefði átt kost á að fara þangað með auðveldu móti óboðinn, ef ég hefði óskað, en venjulegar ferðir til Rússlands skipta engu máli í þessu sambandi. Það er í raun og veru svo gerólíkt sem tvennt má verða. Og ég legg höfuðáherzlu á það, að þó að ég út af fyrir sig sé ekki sérstaklega hrifinn af för þeirra MÍR-manna eða fylgdarsveina hæstv. félmrh. frá Alþýðusambandinu né þess, sem fer frá Sósfl. með hæstv. forseta Nd., þá er þar allt öðru máli að gegna heldur en um þessa hæstv. forustumenn þjóðarinnar, hæstv. félmrh. og hæstv. forseta neðri deildar. Það er vegna þess sérstaka trúnaðar, sem þessum mönnum hefur verið falinn umfram aðra Íslendinga, sem ég tel, að það sé verið að óvirða íslenzku þjóðina og Alþingi Íslendinga, þegar þessir menn leggja nú í sína pílagrímsgöngu austur til Moskvu til þess að vera þar viðstaddir hátíðahöldin 7. nóvember.

Það er gamalkunnugt, að vandi fylgir vegsemd hverri. Þessum mönnum hefur verið fengin óvenjuleg vegsemd, annar gerður að einum af sex ráðherrum íslenzku þjóðarinnar, hinn að valdamesta forseta á elzta frjálsa löggjafarþingi í hinum frjálsa heimi, og fram hjá þessum trúnaðarstöðum geta þeir ekki komizt. Þeir geta ekki brugðið sér úr þeim vanda, sem þessi vegsemd leggur þeim á herðar. Og það er vegna þess, að ég tel, að það sé á móti vilja íslenzku þjóðarinnar, að einn af ráðherrum hennar og einn af forsetum Alþingis mæti á þessu byltingarafmæli, það sé á móti vilja íslenzku þjóðarinnar, það sé henni til óvirðingar, henni til smánar í bráð og lengd, sem ég hreyfi þessu máli hér á Alþingi.

Hæstv. sjútvmrh. bregður því fyrir sig, að ég sé að níða eina beztu viðskiptaþjóð Íslendinga. Þarna komum við að einu meginatriði í málflutningi kommúnista. Viðskiptin við Rússland eiga að verða til þess að svipta Íslendinga málfrelsi og skoðanafrelsi. Af ótta við að missa þessi viðskipti eigum við að hætta við að láta uppi skoðanir okkar hér á Íslandi, jafnt meðal almennings sem á Alþingi þjóðarinnar. Það er þetta, sem hæstv. viðskmrh. vill ná með þeirri eflingu viðskiptanna, sem hann stefnir að. Það eru ekki eðlileg viðskiptatengsl, miðuð við hagsmuni hvors aðila um sig, heldur viðleitnin til að gera Íslendinga þessu ríki svo háða, að við þorum ekki lengur að fara okkar sjálfir fram, heldur verðum eins og múlbundnir þrælar, sem verðum að lúta fyrirskipunum annars staðar að.

Þessi skoðun hefur ekki ríkan hljómgrunn hjá íslenzku þjóðinni, og fulltrúar hennar munu ekki tala í hennar þökk eða þegja í hennar þökk, ef þeir létu þetta eða svipað ráða ferðum sínum. En einkanlega vil ég þó leggja áherzlu á og ljúka máli mínu með því, að þó að sagt sé, að það sé óboðlegt fyrir íslenzkan ráðherra og forseta neðri deildar að fara til að vera viðstaddir byltingarafmælið í Moskvu, þá er ekki verið með því að víta eða gera hlut rússnesku þjóðarinnar lítinn, heldur þvert á móti er verið að standa með rússnesku þjóðinni gegn því harðsvíraðasta einræði og kúgun, sem veraldarsagan kann frá að greina.

Núverandi valdhafar í Rússlandi eru ekki kosnir umboðsmenn sinnar þjóðar. Þeir sitja þar ekki í skjóli þess trúnaðar og trausts, sem þjóðin hefur sýnt þeim, heldur sitja þeir í mætti ofurherveldis og yfirgangs, meiri en nokkurn tíma fyrr fara sögur af, og þess vegna er ekkert fjarlægara eða sönnum anda frelsisins ósamboðnara en að leggja að jöfnu rússnesku þjóðina, þá miklu og göfugu þjóð, og þá blóði drifnu harðstjóra, sem ætla nú að halda gestaboð fyrir félmrh. Íslands og forseta neðri deildar Alþingis.