19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. n. hefur nú gert grein fyrir þeim till., sem fluttar eru á þskj. 189 sem brtt. frá meiri hl. n. Mér þykir rétt í upphafi máls míns að víkja nokkuð að þessum till., til þess að það komi skýrt fram, hver afstaða okkar í minni hl. n. er til þeirra.

Þær till., sem fluttar voru við 2. umr., voru fluttar í nafni n. allrar, en við fulltrúar Sjálfstfl. gerðum hins vegar grein fyrir því, að um einstakar þeirra till. værum við ekki alls kostar ásáttir meiri hl., þótt við gerðum ekki ágreining um þær og féllumst á að flytja till. frá n. í heild, þar sem við höfum verið samdóma meiri hl. um allan þorra tillagnanna.

Í sambandi við brtt. meiri hl. n. nú við þessa umr. kom í ljós, að um sumar þeirra erum við svo mjög á öðru máli en meiri hl., að við töldum rétt, að till. í heild yrðu þá fluttar sem till. meiri hl. n., en við kæmum þá í nál. og framsögu að okkar afstöðu til þeirra.

Minni hl. n. hefur skilað allýtarlegu nál., þar sem vikið er að okkar afstöðu til till. í stórum dráttum, og get ég því verið fáorður. Mig langar þó til þess að víkja að þeim till. n., sem við höfum einhverjar aths. við að gera, en við erum sammála þeim till., sem ég ekki sérstaklega geri hér athugasemdir við, eða a.m.k. teljum ekki ástæðu til að hreyfa andmælum gegn þeim.

Ég mun koma síðar í máli mínu að tekjuáætlun hv. meiri hl. n., en eins og allur sá málatilbúnaður var, liggur í augum uppi, að við getum enga ábyrgð tekið á þeim till. til tekjuhækkunar hjá ríkissjóði, sem þar eru fram bornar og deilt er niður á ýmsa tekjuliði, bæði tolltekjur og ríkisstofnanir.

Við erum algerlega andvígir till. þeim, sem fyrir liggja um eignabreytingar landssímans, en þær till. eru í því fólgnar að draga frá fjárveitingum til landssímans á næsta ári umframgreiðslur, sem orðið hafa á einstökum framkvæmdaliðum í ár. Þetta hefur ekki verið áður gert og hlýtur að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum á vegum símans, og erum við andvígir þessum aðferðum.

Ein af sparnaðartill. hv. meiri hl. n. er sú að fella niður rekstur vinnuhælis að Kvíabryggju, þ.e.a.s., að ríkið hætti að reka þetta hæli. Upphaflega var hæli þetta sett á stofn til þess, að þangað væri hægt að ráðstafa vanskilamönnum, sem ekki hirtu um að greiða lögboðin barnsmeðlög, og varð það að samkomulagi milli bæjarstjórnar Reykjavíkur annars vegar og ríkisstj. hins vegar, að bæjarstjórn legði fram stofnkostnað til þessa hælis, en ríkisstj. tæki síðan að sér að annast rekstur hælisins. Við lítum svo á í minni hl. n., að með þessari till. sé verið að rjúfa samkomulag, sem gert hefur verið, og hins vegar sé þann veg háttað ástandi í þessum málum, að ógerlegt sé með öllu að hætta rekstri þessa hælis. Það er vitað mál, að hælið hefur haft mjög góð áhrif varðandi innheimtu þessara óreiðuskulda, og það hlýtur að leiða tii nýs ófremdarástands í þeim efnum, ef hælið verður lagt niður. Það er ekki aðeins Reykjavíkurbær, sem hér á hlut að máli, heldur hafa einnig önnur sveitarfélög notið góðs af þessari stofnun, og nú mun vera þannig ástatt, eftir því sem mér er tjáð, að mikil þörf er að koma þangað allmörgum mönnum vegna mjög mikilla vanskila á þeim gjöldum, sem þeir eiga að inna af hendi. Okkur í minni hl. sýnist því, að ógerlegt sé með öllu að hætta rekstri þessa heimilis og ótilhlýðilegt sé að samþykkja af ríkisins hálfu að falla frá uppfyllingu þess samkomulags, sem gert var á sínum tíma, nema þá að undangengnu nýju samkomulagi um það efni.

Meiri hl. n. leggur til að jafna að nokkru greiðsluhalla þann, sem er á skipaskoðun ríkisins, og ég vil taka það sérstaklega fram, að við í minni hl. n. erum mjög ásáttir þeirri till. og teljum í meginatriðum, að hinar opinberu eftirlitsstofnanir eigi að standa straum af tilkostnaði sínum.

Við í minni hl. n. erum algerlega andvígir 20. brtt, meiri hl. um að fella niður fjárframlag til leirbaða í Hveragerði. Hveragerðishreppur hefur ákveðin áform um framkvæmdir í þessu efni og hefur ekki horfið frá þeim áformum sínum, og það var gert ráð fyrir því á s.l. ári, að ríkið veitti nokkurn styrk í þessu skyni, og teljum við ekki fært á þessu stigi að fella niður þessa styrkveitingu.

Þá kem ég að þeim liðnum, sem er langstærstur í till. meiri hl. n. nú, en það er varðandi skólamálin. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, var komið hið mesta ófremdarástand á fjármál skólanna, þegar sérstök lög voru sett um það efni að tilhlutan fyrrv. menntmrh. Var þá komið föstu skipulagi á þessi mál og ákveðnar reglur settar um greiðslur ríkisins til skólabygginga. Hirði ég ekki að fara nákvæmlega út í þær reglur, þær eru öllum hv. þm. kunnar, en einmitt vegna þess skipulags, sem þá var tekið upp, eru nokkuð fastar reglur um það, hvernig haga skuli fjárveitingum til barnaskóla- og gagnfræðaskólabygginga í framtíðinni.

Það er um mjög verulega hækkun að ræða á framlögum til nýbyggingar skóla frá því, sem er í fjárlagafrv., eins og ríkisstj. lagði það fyrir Alþingi, og teljum við í minni hl. n. þá hækkun mjög ánægjulega, þó að málið liggi þannig fyrir og þarfirnar séu svo brýnar, að það hefði vissulega verið þörf á að hækka þessar fjárveitingar enn meir. Það er þó ekki ágreiningur um þessa heildartölu, sem er meginatriði málsins, heldur er annað, sem ég vildi vekja athygli á, og það er aðferðin við úthlutun þessa fjár og skiptingu þess niður á einstaka skóla. Það er auðvitað alltaf álitamál, eftir hvaða reglum á að fara í því sambandi, en við í minni hl. n. teljum mjög varhugavert að fara inn á handahófsreglu í þessu efni, eins og gert hefur verið af meiri hl. n. Við álítum, að það sé mjög mikils um vert til þess að forðast óánægju og árekstra út af þeim takmörkuðu fjárveitingum, sem hér er um að ræða, að föstum reglum sé fylgt og enginn geti sagt með réttu, að hans hlutur sé fyrir borð borinn. Þess var enginn kostur á þeim nauma tíma, sem var til athugunar á till. meiri hl. um þetta efni, að mynda sér skoðun um það, hvaða reglum væri æskilegast að fylgja í þessu efni, það hefði þurft að ræða það nánar og ýtarlegar. En við í minni hl. teljum þó ástæðu til þess að láta það sjónarmið koma hér fram við þessa umr., að við teljum nauðsynlegt, að þessi úthlutun verði í föstu formi og fyrir afgreiðslu næstu fjárlaga komi menn sér saman um einhverjar ákveðnar reglur, sem eftir verði farið, þannig að allir aðilar, sem í skólabyggingum standa, viti, á hverju þeir mega eiga von og að hve miklu leyti þeir geta gert sinn rétt gildandi. Það var aflað um þetta mál upplýsinga, bæði frá fjármálaeftirliti skólanna, sem lét í té mjög glöggar sundurliðanir á fjárveitingum til skóla og þörfum í því efni samkvæmt gildandi lögum, og jafnframt frá fræðslumálastjóra, sem lét n. í té álitsgerð um það, hvar þarfir væru brýnastar á nýjum skólum. Ég verð að láta í ljós í því sambandi nokkra óánægju, vegna þess að í þeim efnum var ekki nema að nokkru leyti farið eftir þeirri niðurröðun, sem fræðslumálastjóri gerði um hinar brýnustu þarfir í þessu efni. Auðvitað má segja, að þetta sé alltaf nokkurt álitamál einnig, þannig að það megi rökstyðja það til og frá, en það verði þó hins vegar sem meginregla að leitast við að fylgja ábendingum þeirra trúnaðarmanna, sem bezta aðstöðu hafa til þess að meta þessi mál hlutlaust og ekki eru haldnir af neinum sérstökum sjónarmiðum í því efni, sem að sjálfsögðu hlýtur alltaf að gæta nokkru meira hjá þm., sem eru fulltrúar ákveðinna kjördæma og hafa jafnan allir, hver og einn okkar, margvíslegar óskir og teljum þá oft og tíðum, — og það er einnig mannlegt, - að þarfirnar séu þar mestar, sem við þekkjum bezt til.

Varðandi útgjöld í sambandi við fjárfestingarliðina tel ég ekki sérstaka ástæðu til þess að gera athugasemdir. Við erum sammála þeim öllum að því undanskildu, að ég tel rétt, að það komi fram, að við teljum ekki skynsamlega fjárfestingu þá, sem hafin hefur verið á Laugarvatni, og vorum í n. andvígir fjárveitingu til byggingar fjóss og hlöðu á Laugarvatni.

Ein sparnaðartill. hv. meiri hl. n. var um það að skera niður, um meira en helming, fjárveitingu til iðnskólans í Reykjavík, sem verið hefur á fjárlögum undanfarin ár. Það lágu nú ekki fyrir fullkomnar upplýsingar um, hversu sakir stæðu með eftirstöðvar þeirra skulda, en hins vegar var þó upplýst af meiri hl. n., að þessi niðurskurður stafaði ekki af því, að það mundi ekki vera réttur til þessarar greiðslu allrar úr ríkissjóði, heldur að það mætti biða að greiða þetta framlag nema að hluta til. Við í minni hl. vildum ekki fallast á að skera niður þessa fjárveitingu, því að sannleikur málsins er sá, að fjárframlög til þessa skóla hafa mjög verið á eftir áætlun hjá ríkissjóði, þannig að bæjarsjóður Reykjavíkur hefur orðið fyrir fram að leggja fram stórar fjárhæðir upp í ríkishlutann.

Varðandi bjargráðin sjálf mun ég ræða nánar síðar, en enn einn sparnaðarliður hv. meiri hl. var að skera niður um 100 þús. kr. fjárveitingu til byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík. Ég hygg nú, að það sé e.t.v. fátt, sem er nauðsynlegra af sambærilegum fjárfestingarliðum en einmitt bygging lögreglustöðvar hér í Reykjavík vegna þess öngþveitis, sem hér er ríkjandi í þeim efnum og margoft hefur verið að vikið á opinberum vettvangi. Úr þeim málum verður ekki bætt nema með því að koma hér upp nýrri lögreglustöð sem skjótast, og það er þess vegna mjög einkennilegt að leggjast sérstaklega á þennan fjárfestingarlið og draga úr honum, þegar þörfin er jafnbrýn og hér er tvímælalaust um að ræða. Við í minni hl. erum því andvígir þessari till.

Þá vil ég leyfa mér að víkja nokkuð að brtt. minni hl. n. á þskj. 192, en að því loknu mun ég ræða viðhorfin, eins og þau eru, eftir að bjargráðatill. hv. meiri hl. n. og ríkisstj. eru fram komnar.

Við í minni hl. n. leggjum fram 23 eða raunar 24 brtt, við fjárlögin. Ég skal taka það fram, að það eru að sjálfsögðu mörg önnur atriði, sem við hefðum mjög gjarnan viljað taka upp og teljum að brýn þörf sé að hrinda áleiðis, en við höfum viljað miða till. okkar við það, að það yrði hóf í þeim efnum, þótt hins vegar liggi í augum uppi, að það er óhjákvæmilegt, að bæði frá einstökum kjördæmum og einnig frá minni hl. n. hljóti að koma fram ýmis sérsjónarmið og séróskir, sem verði að taka tillit til og sé ekki hægt að lasta, þó að fram komi, ef þær eru í hófsemi fram bornar og með fullri hliðsjón af öllum atvikum málsins. Meiri hl. n. hefur haft aðstöðu til þess að móta till., sem fram hafa verið lagðar annaðhvort af n, allri við 2. umr. eða meiri hl. n. einum nú, og þó að þær falli saman í mörgum efnum við óskir okkar í minni hl., fer þó auðvitað ekki hjá því, að ýmis sjónarmið eru þar, sem ekki falla þar alveg saman, og sérstakar óskir, sem við hljótum að bera fram og ekki er óeðlilegt að komi fram.

Eins og ég gat um við 2. umr. fjárlagafrv., lögðum við sjálfstæðismenn til í n., að n, tæki til sameiginlegrar athugunar úrræði til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Þessari till. okkar um samstarf innan n. var hafnað, og hefur ekki úr því síðar orðið, enda hefur tími mjög verið naumur til stefnu og því litið svigrúm til allra íhugana í því efni frá þeim tíma, sem raunveruleg afgreiðsla mála hófst í n. og fyrst var tilefni til að bera fram einhverjar ákveðnar till. Þrátt fyrir það, þó að aðstaða okkar í minni hl. n. hafi fyrir margra hluta sakir verið erfið í þessu efni, bæði vegna þess, að okkur hefur verið neitað um upplýsingar, svo sem ég mun síðar koma að, og enn fremur vegna hins, að fyrir stjórnarandstöðu í n. er að sjálfsögðu miklum mun erfiðara að afla í gegnum ríkisstofnanir og ráðuneyti ýmissa upplýsinga heldur en meiri hl. n., sem styðst við ríkisstj. og ríkiskerfi og getur fengið allar þær upplýsingar og leiðbeiningar, sem nauðsynlegar eru. Þrátt fyrir þetta höfum við í minni hl. viljað freista þess að flytja nokkrar brtt, til sparnaðar, sem ég skal stuttlega víkja að.

Fyrsta till. okkar er um tekjuauka. Það er ekki hægt að telja það sparnaðartill., heldur um það, að rekstrarhagnaður bifreiðaeftirlitsins verði tekinn inn sem sérstakur tekjuliður fyrir ríkissjóð. Þar er um að ræða 1 millj. kr. tekjur, sem líklegt er að fari fremur vaxandi, en minnkandi, og er ástæðulaust annað, en að reikna með því sem tekjum fyrir ríkið, úr því að útgjöld annarra eftirlitsstofnana eru allar færðar út, þar sem halli er á þeim.

Sú skoðun hefur jafnan verið uppi, að það væri nauðsynlegt, að þjónusta póstsins væri rekin hallalaust. Halli á póstsjóði er orðinn mjög mikill, og er nú gert ráð fyrir honum 1.1 millj. kr. í fjárlagafrv. Við í minni hl. n. leggjum til, að ráðstafanir verði gerðar til þess að lækka þennan halla um 750 þús. kr., sem gera má ráð fyrir að ekki sé hægt að gera nema með hækkun póstburðargjalda. En þessari þjónustu sýnist okkur óeðlilegt að sé haldið uppi af öðrum tekjustofnum ríkissjóðs eða það skuli þurfa að afla sérstakra tekna til þess að standa straum af þessari starfsemi.

Þá er þriðja till. okkar um það að lækka „annan kostnað“ ráðuneytanna um 400 þús. kr. Ég þykist mega ganga út frá því, að hæstv. ríkisstj. sé mjög ásátt um þessa till., vegna þess að henni muni vera umhugað að sýna í verki, að hún sé samkvæm sinni stöðvunarstefnu og vilji því ekki fara að hækka stórkostlega ýmsan kostnað ráðuneytanna sjálfra, Sparnaðartill. okkar gengur ekki lengra, en það að leggja til, að varið sé til þessara þarfa ráðuneytanna sömu fjárhæð og er í fjárlögum þessa árs, og samkvæmt kenningunni um það, að enginn tilkostnaður hafi hækkað, ætti ekki að vera þörf á því að hækka þessa fjárveitingu.

Þá leggjum við til, að lækkaðar séu um 160 þús. kr. fjárveitingar til þátttöku í ýmsum alþjóðaráðstefnum. Sparnaðarnefnd, sem starfandi var á árinu 1954, benti á það, að þátttaka í alþjóðaráðstefnum væri kostnaður, sem væri æði mikill, enda er hann yfir 1 millj. kr., og vakti athygli á því, að æskilegt væri að koma því þannig fyrir, að fulltrúar ríkisins í viðkomandi landi yrðu oftar látnir mæta á þessum ráðstefnum, en nú er gert og hefur raunar einnig verið gert að undanförnu. Við verðum í þessum efnum sem öðrum að gæta hófs, þó að það sé hins vegar okkur fullkomlega ljóst í minni hl. n., að vegna þátttöku Íslands í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi, sem allir eru sammála um, sé nauðsynlegt, að við eigum okkar fulltrúa á þeim ráðstefnum, sem haldnar eru í sambandi við þau alþjóðlegu samtök. Hins vegar teljum við, þegar um það er að ræða að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, að þá sé ekki óeðlilegt, að reynt sé að hafa nokkurt aðhald í þessu efni.

Ég vék áðan að viðhorfi okkar í minni hl. til tillagna meiri hl. um að lækka halla skipaskoðunar ríkisins með hækkuðum gjöldum. Við leggjum í minni hl. einnig til, að hækkuð verði gjöld löggildingarstofunnar eða dregið úr kostnaði hennar á annan hátt, þannig að greiðsluhalli hennar verði jafnaður.

Þá leggjum við til, að hið svokallaða matvælaeftirlit, sem er rekið sem sjálfstæð stofnun, verði lagt niður. Matvælaeftirlitið mun fyrst og fremst, ef ekki eingöngu hafa eftirlit með mjólkursölu. Það er vissulega þarft og nauðsynlegt að hafa slíkt eftirlit, en mjög vafasamt, hvort á að hafa sérstaka stofnun til slíks eftirlits. Okkar till. er sú, að þetta eftirlit verði falið iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans, sem mun annast á ýmsum sviðum matvælaeftirlit, og verði iðnaðardeildinni veittar 150 þús. kr. vegna þessa nýja verkefnis, en hins vegar afgangurinn komi fram sem sparnaður hjá ríkissjóði.

Þá leggjum við til, að fjárveiting til húsaleigueftirlits verði felld niður. Með þessari till, er ekki verið á neinn hátt að leggja til, að dregið verði úr húsaleigueftirliti, en ég hygg, að það sé öllum hv. þm. kunnugt, að húsaleigueftirlit í því formi, sem það nú er, er gersamlega tilgangslaust og hefur enga minnstu þýðingu. Það er rétt, að til þess að fella niður þennan kostnaðarlið mun þurfa lagabreytingu, en ef samkomulag yrði um það hér á Alþingi að fella þennan útgjaldalið niður, ætti að mega skjótlega koma fram lagabreytingu í því sambandi, þannig að það gæti komið ríkissjóði til góða á næsta ári.

Samkvæmt fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að skattstofan í Reykjavík bæti við sig mjög auknu húsrými, þannig að húsaleiga hennar hækki um 320 þús. kr. frá fjárlögum þessa árs. Nú er ekki kunnugt um, að starfsemi skattstofunnar hafi svo stórkostlega aukizt á þessu ári, að það geti verið nauðsyn að taka svo stórt nýtt húsrými til ráðstöfunar. Við í minni hl. teljum, að í þessu efni sé ástæða til að hafa nokkurt hóf, viðurkennum, að skattstofan muni þurfa eitthvað að rýmka við sig, en leggjum hins vegar til, að húsaleiguliður skattstofunnar verði lækkaður um 150 þús. kr.

Það eru jafnan uppi margar óskir um fjárveitingar til ýmiss konar heilbrigðisstofnana, og þarfirnar eru þar jafnan meiri, en svarar þeim framlögum, sem ríkið hefur getað lagt til þeirra hluta. Ríkið mun skulda nú verulega til heilbrigðisstofnana í Reykjavík og einnig til sjúkrahúsa víðar. Í fjárlagafrv. eru ákveðnar fjárveitingar í þessu skyni, en við leggjum til, að þær fjárveitingar verði hækkaðar samtals um 750 þús. kr., sem skiptist þannig, að 500 þús. kr. verði til læknisbústaða og sjúkraskýla víðs vegar um landið, en 250 þús. kr. til heilbrigðisstofnana í Reykjavík, og er sú skipting í hlutfalli við þær fjárveitingar, sem nú eru í frv.

Náttúrulækningafélag Íslands hefur leitað til n. um aukinn byggingarstyrk vegna heilsuhælisins í Hveragerði. Meiri hl. n. hefur ekki talið sér fært að fallast á að veita aukinn styrk til þessarar byggingar. Við í minni hl. viljum hins vegar mæta óskum félagsins á þann hátt að veita því til viðbótar 100 þús. kr. á næsta ári.

Þá kem ég að 13. till. okkar, sem er veigamesta sparnaðartill., en hún er þess efnis að lækka fjárveitingu til Skipaútgerðar ríkisins um 3 millj. kr. á næsta ári. Þróunin í þessu efni hefur verið til sífelldrar hækkunar, og skipaútgerðin er orðin mjög þungur baggi á ríkissjóði. Hér á Alþingi hafa á undanförnum árum komið fram margar till. í sambandi við þetta mál. Hirði ég ekki að rekja þá sögu, en ég hygg, að öllum hv. þm., hvar í flokki sem þeir eru, sé ljóst, að hér sé um mikið vandamál að ræða. Samgöngur, bæði á landi og í lofti og raunar á sjó líka, hafa vaxið mjög mikið á undanförnum árum og batnað, en þetta hefur aftur leitt til þess, að skipaútgerðin hefur haft minna verkefni að gegna, og rekstrarhalli hennar hefur því farið vaxandi. Það hefur ekki þótt fært að draga úr skipaferðum skipaútgerðarinnar, enda þótt það liggi nú ljóst fyrir og hafi verið á undanförnum árum, að stóran hluta ársins sé engin þörf fyrir bæði hin stærri skip skipaútgerðarinnar, og hefur því sá kostur verið valinn að láta annað skipið vera í ferðum til útlanda, sem ekki hafa gefið skipaútgerðinni, a.m.k. ekki nú síðustu árin, neinn sérstakan hagnað, heldur jafnvel halla. Að halda uppi skipi með stórkostlegum rekstrarhalla til slíkrar starfsemi verður að teljast mjög óheppilegt og óeðlilegt, ef ríkið hefur ekki úr því meira fé að spila, sem það veit ekki, hvað það á að gera við.

Till. okkar um þennan sparnað byggist á því, að við leggjum til, að Esja verði seld. Það er í samræmi við þá skoðun, sem kom fram í áliti sparnaðarnefndarinnar frá 1954, Esja er elzt skipanna. Rekstrarhalli hennar á næsta ári er áætlaður rúmar 5 millj. kr. Við gerum okkur grein fyrir því, að halda verði út til vorsins þeirri áætlun, sem skipið gengur eftir, auk þess náttúrlega að, að sjálfsögðu þarf nokkra athugun á því, hvernig koma eigi fyrir sölu skipsins, þannig að við reiknum með því, að hún gangi áfram til vors. Í sumar er engin þörf fyrir skipið, það liggur óvefengjanlega upplýst fyrir, og mætti þá taka Heklu til þeirrar starfsemi hér í kringum landið. En miðað við þær stórauknu samgöngur, sem eru nú bæði á landi, í lofti og á sjó, ætti að vera hægt að koma því þannig fyrir með samningum við skipafélögin fyrir næsta haust, að ekki þyrfti að draga úr þjónustu við þá staði, sem sérstök nauðsyn hefur verið að halda uppi samgöngum við, með ferðum Esju. Það mun nú vera þannig, að þarfirnar eru mestar, enda óskirnar alltaf háværastar um að fá þjónustu frá hinum minni strandferðaskipum, þannig að ég býst við, að ef ætti á einhvern hátt að bæta úr skipakosti skipaútgerðarinnar og auka hann á öðrum sviðum, þá yrði heppilegast að kaupa aftur heldur lítið skip, ef það yrði talið nauðsynlegt við nánari athugun. En ég hygg, að það sé á engan hátt óraunhæft að leggja til, að Esja verði seld. Með þessu reiknum við að sparist 2.5 millj, kr., en 1/2 millj, kr. upphæðin, sem eftir er, leggjum við til að spöruð sé á þann veg, að vöruafgreiðsla skipaútgerðarinnar sé rekin hallalaust. Hún er nú með um 1/2 millj. kr. halla, og hefur forstjórinn lagt á þetta áherzlu, enda sýnist það vera óverjandi með öllu að reka ekki þá starfsemi hallalaust og láta þjóðina verða að greiða til hennar með skattaálögum.***

Hér höfum við í minni hl. endurflutt till. okkar frá s.l. ári varðandi ferðaskrifstofu ríkisins. Félag sérleyfishafa hefur ákveðnar óskir uppi um það, enda er þörfin brýn að koma hér upp afgreiðslumiðstöð í Reykjavík fyrir sérleyfisbifreiðar, en hér hafa sérleyfisbifreiðar víðs vegar að af landinu afgreiðslu á mjög mörgum stöðum, og fólk hefur ekki hugmynd um, hvar það á að hafa samband við þessar bifreiðar. Það er því hin mesta nauðsyn að koma þessari starfsemi allri á einn stað, og vel getur verið þörf á því að koma síðar upp afgreiðslustöðvum í minni stíl á öðrum stöðum á landinu. Eina vonin til þess, að þetta þokist eitthvað áleiðis, er að nota til þess sérleyfissjóðinn, en með þeirri ráðstöfun að láta sérleyfissjóðinn greiða halla af ferðaskrifstofunni safnast þessum sjóði ekkert fé.

Till. okkar er sú um þær fjárhæðir, sem ætlunin var að sérleyfissjóður greiddi af halla ferðaskrifstofunnar á árunum 1954–57, að þeim árum báðum meðtöldum, sem mun vera um 1.2 millj. kr., að ríkissjóður endurkrefji sjóðinn ekki um þetta fé og jafnframt verði felld niður úr fjárlfrv. nú ákvæði um það, að halli ferðaskrifstofunnar greiðist úr sérleyfissjóði. Ef þessar ráðstafanir verða gerðar, er lagður grundvöllur að því, að hægt verði að hefjast handa um framkvæmdir varðandi byggingu afgreiðslumiðstöðvar.

Stúdentaráð og stjórn lánasjóðs stúdenta hafa sótt um að fá hækkun fjárveitingar til lánasjóðsins vegna fjölgunar stúdenta og vaxandi fjárþarfar sjóðsins. Við leggjum til í minni hl., að fjárveitingin verði hækkuð um 150 þús. kr.

og jafnframt verði styrkur til stúdentaráðs vegna aukinnar starfsemi ráðsins hækkaður um 10 þús. kr.

Þá leggjum við til, að nokkuð sé komið til móts við óskir góðtemplarareglunnar í Reykjavík, sem á undanförnum árum hefur sótt mjög fast á að fá nokkurn styrk til þess að koma upp húsi fyrir starfsemi sína hér í bænum, og leggjum til, að 100 þús. kr. verði veittar í þessu skyni, sem að sjálfsögðu er ekki stór fjárhæð. Ríkið hefur vitanlega engar skuldbindingar í sambandi við þessa byggingu, og það leiðir því ekki af sér neinar sérstakar kvaðir, þó að þessi fjárveiting væri veitt nú.

Fyrir nokkru hefur verið rætt í Alþingi um hina miklu nauðsyn þess að koma áfram byggingu kennaraskólans. Ég þarf ekki að rekja það mál, það var rætt þá mjög ýtarlega, enda mun hv. þm. öllum vera kunn þessi mikla nauðsyn. Kennaraskólinn annar nú ekki einu sinni því að útskrifa nægilega marga kennara til þess að fullnægja eftirspurninni á hverju ári, og er því sjáanlegt, að það þarf að gera sérstakar ráðstafanir varðandi skólann og bæta aðstöðu hans á margan hátt, ef ekki eiga að verða alger vandræði í þessu efni. Það er að vísu ekki stór fjárhæð, 200 þús. kr., en þó nokkur viðleitni samanborið við aðrar fjárveitingar, og leggjum við til, að fjárveitingin í fjárlfrv. verði hækkuð um þessa upphæð.

Í fjárlfrv. var lækkuð um 1.5 millj, kr. fjárveiting til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu. Við í minni hl. n. leggjum til, að þessi fjárveiting verði aftur hækkuð í 15 millj. kr., sem er í samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. lýsti yfir sem vilja sínum á s.l. Alþingi, og enn fremur í samræmi við það, sem er lagt til í frv., sem er flutt hér á Alþingi og flutt hefur verið hér nokkur undanfarin ár af nokkrum þm. Sjálfstfl, varðandi fjárframlög til jafnvægissjóðs.

Það hefur verið allmikið rætt um ráðstöfun þessa fjár, og það hefur ekki náðst samkomulag um að koma neinni fastri skipan á úthlutun þess, heldur hefur ríkisstj. á hverjum tíma haft það til ráðstöfunar og getað úthlutað því að eigin vild. Þetta er að sjálfsögðu gersamlega óviðunandi ástand og því meir óviðunandi sem fjárveitingin er hærri. Í fyrra var þessi upphæð hækkuð í 15 millj., og miðað við sömu fjárhæð og raunar einnig þó að ekki væru veittar nema 13.5 millj., verður að teljast algerlega óhæfilegt að setja ekki nein ákvæði um úthlutun þessa fjár. Miðað við það, að Alþingi er hér að skipta margvíslegum smáfjárveitingum til ýmissa þarfa, teljum við í minni hl. ekki óeðlilegt, að þingið hafi afskipti af þessu máli, og leggjum því til, að sameinað Alþingi kjósi 5 manna n. til þess að ráðstafa þessu fé, og vonum við, að ef sú skipan kæmist á, að ákveðnir aðilar fengjust við þetta af þingsins hálfu, þá yrði auðveldara um vik að koma einhverju föstu skipulagi á þessi mál.

Þá er hér till. um að heimila Tóbakseinkasölu ríkisins að leggja 3% á heildsöluverð allra tóbaksvara, og er ætlunin, að þær tekjur renni að hálfu til Skógræktar ríkisins og að hálfu til sandgræðslunnar. Það hefur verið í gildi heimild um að setja merki landgræðslusjóðs á tilteknar vindlingategundir og að sá tekjuauki rynni til skógræktarinnar. Þetta mun nema á þessu ári um 1.2 millj, kr. og hefur að sjálfsögðu orðið skógræktinni til mjög mikils framdráttar, sem verðugt og maklegt er.

Fyrir fjvn, hafa legið óskir frá sandgræðslunni um auknar fjárveitingar í ýmsu skyni, m.a. til þess að kaupa flugvél, og er ætlunin að nota hana bæði til frædreifingar og til að dreifa áburði yfir beitilönd. Það er að sjálfsögðu hin brýnasta nauðsyn hér að auka gróðurlendið með auknum bústofni, og verður það eigi gert betur með öðru móti, en efla þessa starfsemi, sem sandgræðslan hyggst nú færa út meir, en gert hefur verið. Sérstök n. er starfandi að þessum málum nú, en þrátt fyrir það, þótt hennar till. liggi ekki fyrir, hefur n. mjög óskað eftir því að fá nú þegar aukin fjárráð til ákveðinna verkefna, svo sem kaupa á flugvél, eins og ég gat um. Það virðist ekki þægilegt um vik, að leggja stórfjárhæðir úr ríkissjóði beint til þessarar starfsemi, en hér hefur verið rudd brautin með fjárveitingu til skógræktarinnar á þennan hátt, og við teljum ekki óeðlilegt, að sandgræðslan njóti sömu fyrirgreiðslu, og skiptist féð þá að hálfu milli þessara aðila og ætti, miðað við sölu á vörum tóbakseinkasölunnar nú, að geta numið um 1.5 millj. kr. til hvors aðila, þannig að hlutur skógræktarinnar mundi einnig batna að nokkru.

Ríkissjóður á stöðugt vangoldin framlög til hafnarframkvæmda, og fara þau vangoldnu framlög hækkandi. Á s.l. ári námu þau um 10 millj. Nú um næstu áramót munu þau nema um 13.5 millj. Allir hv. þm., sem hafa einhver afskipti af hafnarmannvirkjum og hafnargerðum, og það mun nú vera í flestum kjördæmum landsins, þekkja þá miklu erfiðleika, sem eru hjá sveitarfélögunum að afla síns hluta af framlagi til hafnargerða, hvað þá ef leggja á einnig út hluta ríkissjóðs. Því hefur verið hreyft af ýmsum aðilum, að gera yrði einhverjar ráðstafanir í þessu sambandi. Á síðasta þingi fluttum við í minni hl. n, till. um 25 millj. kr. lán, sem í senn skyldi varið til greiðslu vangoldinna framlaga og til nýrrar fjáröflunar til að endurlána sveitarfélögunum. Við takmörkum nú till. okkar við það að taka 10 millj. kr. lán til að greiða upp í hin vangoldnu framlög og teljum, að slíkt ætti að vera viðráðanlegt fyrir hæstv. ríkisstj., miðað við aðrar fjárútveganir, sem yfirleitt eru alltaf í gangi og eru leystar eftir venjulegum leiðum hér innanlands.

Að lokum er till. um að lána Geðverndarfélagi Íslands allt að einni millj. kr., ef félagið ræðst í að kaupa eða byggja hús til þess að reka þar heimili fyrir öryrkja vegna geð- og taugasjúkdóma. Ég þarf ekki að útskýra nauðsyn þessa máls fyrir hv. þm. Það hefur áður verið rætt hér í Alþingi og flutt um það frv., og ég hygg, að allir hv. þm. séu á einu máli um, að það sé hin brýnasta nauðsyn að ráða fram úr því vandræðaástandi, sem ríkjandi er í þessum efnum, því að ekki er nándar nærri hægt að taka til meðferðar á heilsuhælum þeim, sem nú eru til, þá sjúklinga, sem haldnir eru geð- og taugasjúkdómum, og það er hin brýnasta nauðsyn að koma hér á sérstöku heimili, sem nokkuð sé svipað heimilinu í Reykjalundi, þar sem öryrkjar vegna þessara sjúkdóma geti notið nauðsynlegrar aðhlynningar.

Till. okkar í minni hl. n. til útgjalda nema 3.1 millj. kr., en till. til sparnaðar 5 millj, 46 þús., og tekjuauki vegna bifreiðagjalda 1 millj., þannig að tekjuhlíðin hækkar samkvæmt þessu um 6 millj. 48 þús., og greiðslujöfnuður, þ.e.a.s. tekjuauki umfram gjaldaauka á okkar till., ef samþ. yrðu, mundi vera tæpar 3 millj. kr. Held ég, að ekki verði með neinu móti sagt, að þær till. séu á ábyrgðarleysi byggðar, né heldur það, að sparnaðartill. okkar séu ekki byggðar á raunsæi. Það kann auðvitað vel að vera, að það séu einhver sérstök atvik, sem geti verið til trafala, varðandi framkvæmd einstakra liða, sem okkur hefur ekki verið kunnugt um, En við höfum þó reynt að bera fram þær till. einar, sem við töldum að væri nokkurn veginn öruggt að hægt væri að koma í framkvæmd, því að vitanlega eru ýmsir aðrir liðir, sem komu til álita hjá okkur.

Ég orðlengi ekki frekar um þessar sérstöku till. okkar í minni hl. n., en leyfi mér þá að víkja að öðrum atriðum og þá fyrst að vinnubrögðum varðandi undirbúning frv. til 3. umr.

Þrátt fyrir aðfinnslur okkar við 2. umr. málsins hafa ekki orðið neinar úrbætur varðandi vinnubrögð í n. Þetta stafar auðvitað að meginhluta til af því, hversu til var stofnað við 2. umr. og ekkert tóm til athugunar milli 2. og 3. umr. En það verður þó mjög að átelja, að vissum atriðum málsins var haldið algerlega leyndum fyrir okkur í minni hl. n. þar til á síðustu stundu.

Ég gat þess í framsöguræðu minni við 2. umr. fjárl., að til þess að geta myndað sér einhverja heildarsýn yfir fjármálastefnuna og væntanlega afkomu ríkissjóðs á næsta ári, yrðu að liggja fyrir till. um, hvernig ætti að brúa bilið milli gjalda og tekna, og áætlanir um tekjuhorfur á næsta ári.

Upplýsingar um bjargráð ríkisstj. fengum við í minni hl. n. rétt fyrir kl. 11 að kvöldi á síðasta fundi n., og var það síðasta málið, sem fyrir n. var lagt, áður en hafizt var handa um að semja nál. Jafnframt var okkur tjáð um nál. okkar og till., að það væri ætlunin, að þeim yrði útbýtt daginn eftir á hádegi, þannig að til athugunar á þessum málum var okkur aðeins eftir skilin nóttin. Það var því sannarlega ekki vonum fyrr, að við fengum að sjá þessi snjöllu úrræði hæstv. ríkisstj., og kann nú að vera, að mönnum skiljist, þegar þeir sjá úrræðin, af hvaða ástæðu var dregið svo lengi að sýna þau.

Þá vil ég jafnframt geta þess í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh. við 2. umr. fjárl., að við í minni hl. n. hefðum nákvæmlega sömu aðstöðu og meiri hl, til að fá upplýsingar um alla skapaða hluti, að þrátt fyrir óskir um að fá vitneskju um álit n., sem starfaði á vegum ríkisstj. í sumar til að kanna úrræði og leiðir til sparnaðar í ríkisrekstrinum, var það aldrei fengið okkur í hendur og hæstv. fjmrh. mun hafa neitað óskum formanns n. um að veita n. aðgang að þessu áliti. Þetta held ég að liggi nú í augum uppí að sé ekki beinlínis hægt að segja að sé að veita okkur sömu aðstöðu og meiri hl. n., nema þá það sé þannig, að meiri hl. n. hafi ekki fengið að sjá þetta heldur, þannig að þetta sé eitthvert leynivopn, sem eigi að notast einhvern tíma seinna og enginn megi sjá nema hæstv. fjmrh. og þá væntanlega sparnaðarnefndarmennirnir bundnir fullkominni þagnarskyldu.

Ef hæstv. ráðh. kæmi til með að segja hér, að þessi n. hefði verið sett ríkisstj. til ráðuneytis til þess að gera till. til hennar og því ekki eðlilegt, að n. fengi þetta til afnota, þá vil ég minna hann á, að 1954 var starfandi n., einmitt með nákvæmlega sama verkefni og skipuð af ríkisstj, sjálfri, einn fulltrúi fyrir hvert ráðuneyti. Álit þessarar n. var afhent fjvn. og engin leynd yfir því, enda engin ástæða til þess að vera að leyna slíkum plöggum, sem vissulega ættu að vera þm. og þá ekki hvað sízt fjvn. til leiðbeiningar um leiðir til raunhæfra ráðstafana til sparnaðar í ríkisrekstrinum. En af hvaða ástæðum sem það er, var nú þessu áliti svona vandlega leynt fyrir okkur í minni hl. nefndarinnar.

Varðandi tekjuáætlun hv. meiri hl. n. er það að segja, að sú áætlun var ekki lögð fyrir okkur fyrr, en síðast á síðasta fundi n., eins og till. n. um úrræði til að jafna halla á frv. að öðru leyti. Ég verð að finna að þeim vinnubrögðum nokkuð, að þegar þessar till. voru lagðar fram, var ekki gerð hin minnsta grein fyrir því, á hverju þær byggðust. Við höfum að vísu fengið yfirlit um rekstrarafkomu ríkissjóðs til mánaðamóta nóvember–desember. Hins vegar er það yfirlit þannig, að það er ákaflega erfitt um samanburð við fyrri ár, bæði vegna þess, að tekjuliðir hafa breytzt nokkuð, vegna þess að skattaálögum hefur verið breytt, m.a. hefur söluskattur í smásölu verið felldur niður, og einnig vegna hins, að algerlega nýir tekjuliðir hafa komið inn. Á undanförnum árum hefur sú tilhögun verið á þessu höfð, að ákveðnir trúnaðarmenn n. hafa rannsakað þetta mál niður í kjölinn og gefið n. skýrslu um, hvaða horfur væru með afkomu ríkissjóðs á líðandi ári, og þá jafnframt gert grein fyrir, hvernig ástatt væri um horfur varðandi gjaldeyrisöflun og innflutning af þeim sökum, þannig að hægt væri, að svo miklu leyti sem unnt er, að mynda sér einhverja raunhæfa skoðun á afkomu ríkissjóðs og hans tekjuhorfum. Þetta var ekki gert nú, vafalaust vegna hins nauma tíma eða hæstv. fjmrh. hefur ekki haft sína pappíra tilbúna, heldur voru aðeins lagðar fram till. um að hækka um 1 og 2 og upp í 4 og 6 millj. einstaka tekjuliði án þess að gera nokkra grein fyrir heildarhorfunum. Þetta tel ég mjög miður farið og torvelda vinnubrögð.

Ég hef reynt lauslega að gera mér hugmynd um það, hvernig tekjuhorfur séu hjá ríkissjóði á þessu ári, og er sú áætlun þó með öllum fyrirvörum varðandi það, sem ég áðan sagði, að það eru margvíslegir erfiðleikar að mynda sér á þessu skoðun, eins og erfitt er um samanburð og ýmiss konar raskanir hafa verið í sambandi við innflutning á þessu ári. En samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er þannig ástatt, að tekjur ríkissjóðs til 30. nóv. nema 675.4 millj. kr. Tekjur í nóvembermánuði hafa farið nokkuð fram úr tekjum í nóvembermánuði í fyrra, eða um rúmar 3 millj, kr., eru 84 millj. í stað 81.1 millj. Í desembermánuði í fyrra urðu tekjur ríkissjóðs 140.8 millj., en það er vafalaust ekki óvarlegt að áætla, að tekjur ríkissjóðs nú verði allt að 150 millj., og sennilega verða þær meira. En um þetta er ákaflega erfitt að mynda sér skoðun nema hafa yfir þeirri þekkingu að ráða, sem rn. eitt hefur í sínum höndum. En ef ganga má út frá þessari tölu, virðast horfur á, að tekjur ársins í ár verði 825–830 millj. kr., en voru í fjárl. áætlaðar 811 millj., ef ég man rétt. Það sýnist því sem tekjur ríkissjóðs fari nú nokkuð fram úr áætlun, þó að það sé miklum mun minna en undanfarin ár, og útkoman verði að því leyti betri en hæstv. fjmrh. taldi horfur á, er hann flutti fjárlagaræðu sína í haust.

Samkvæmt áætlun meiri hl. n. nú eru tekjur á næsta ári áætlaðar 806.8 millj. kr., þannig að miðað við það, að tekjur yrðu sömu á næsta ári og má gera ráð fyrir að þær verði í ár, þá ætti að vera þarna mismunur 20–25 millj., sem gera má ráð fyrir að tekjuáætlunin fari fram úr áætlun. Auðvitað kann þetta að breytast margvíslega vegna gjaldeyrisástandsins. Það hefur hins vegar verið talið sérstaklega erfitt í ár og oft verið á það bent af hæstv. ríkisstj., að það væri óvenjulega erfitt ár.

Eftir því sem manni skilst, eru miklar lántökur í aðsigi erlendis, og slíkt hlýtur að sjálfsögðu að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar, ef innflutningur vex, sem vafalaust verður í sambandi við þær lántökur, eða a.m.k. verður þá meiri gjaldeyrir til ráðstöfunar, þannig að það virðist á engan hátt óvarlegt að gera ráð fyrir því, að tekjurnar verði a.m.k. ekki lægri á næsta ári. Þetta taldi ég rétt að kæmi hér fram, og þætti mér vænt um, ef hæstv. fjmrh. gæti hér upplýst mig um það, hvort þessar tölur mínar væru nærri sanni eða hvort vegna skorts á upplýsingum kunni myndin að vera eitthvað á annan veg.

Þegar fjárlfrv. var lagt fram í haust, var því yfir lýst af talsmönnum tveggja stjórnarflokka, hv. form. Alþfl. og hæstv. félmrh., sem talaði fyrir Alþb., að þeir teldu, að möguleikar væru til að afgr. fjárl. á þann einfalda hátt að spara á ýmsum liðum og jafnframt að hækka tekjuáætlunina meir, en hæstv. fjmrh. hafði gert. Um þetta komst hæstv. félmrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„En það er skoðun Alþb., að vandann beri að leysa með varlegri, en þó réttri tekjuáætlun, eftir þeim horfum, sem við kunna að blasa undir áramót, og síðan, ef með þarf, með niðurskurði útgjalda, þar til greiðslujöfnuði er náð. Slík fjárlagaafgreiðsla væri líka í fullu samræmi við þá viðnáms- og stöðvunarstefnu gegn verðþenslu og vaxandi dýrtíð, sem ríkisstj. fylgir.“

Hv. þm. Hafnf. sagði um þetta: „Greiðsluhallabilið efast ég ekki um að megi brúa á venjulegan hátt við nákvæma yfirferð og endurskoðun hinna einstöku liða fjárlfrv, hjá fjvn., sem nú fær málið til meðferðar. Þó að einstaka gjaldaliðir þurfi jafnvel að hækka, a.m.k. eitthvað, eins og ég hef áður bent hér á, virðist mér við fljótan yfirlestur, aðrir liðir vera þannig, að þeir mundu þola nokkra lagfæringu, bæði tekjuliðir til hækkunar og gjaldaliðir til lækkunar í þá átt að ná endunum saman, ef vilji er fyrir hendi og án þess að rýra verulega gildi frv. nokkuð sem nemur fyrir alla alþýðu manna.“

Hæstv. fjmrh, taldi hins vegar, að það mundi þurfa verulega nýja tekjuöflun. Varðandi úrræði til sparnaðar var hann ekki eins bjartsýnn og þeir hv. fulltrúar Alþb. og Alþfl., sem ég vitnaði til, því að hann sagði í sinni ræðu:

„Fjmrn. hefur á undanförnum árum sífellt óskað eftir till. um sparnað í ríkisrekstrinum.“ Sjálfur flutti hann enga till. um það efni og hefur því væntanlega ekki talið, að mikil úrræði væru til sparnaðar. En ég get þó ekki látið það liggja á milli hluta, hversu kynlega það hlýtur að hljóma, að sá maður, sem á að hafa forgöngu um að benda á úrræði í þessu efni, skuli fyrst og fremst fara þá leið að auglýsa eftir till. annarra um þá hluti, sem hann hlýtur stöðu sinni samkvæmt að eiga að hafa forgöngu um að meta.

Við sjáum nú fyrir okkur í fjárlagafrv., eins og það er lagt fram af hv. meiri hl. fjvn. til 3. umr., hver hefur orðið útkoman á þessum sparnaðarboðskap hæstv. félmrh. og hv. þm. Hafnf. Það liggja fyrir frá meiri hl. n. sparnaðartill. upp á 2.5 millj. kr. Það er nú allt og sumt, þangað til kemur að stóra sparnaðinum, sem ég veit ekki, hvort þeir hafa átt við í byrjun, að þeir hafi þá haft í huga að leggja til, eða hvort það er samkvæmt þeirra till., að sú leið er farin að taka út úr fjárlagafrv. 65 millj. kr., eða raunar 85 millj. kr., því að það er upplýst í grg, frv., að ekki séu þar meðtaldar niðurgreiðslur, sem muni kosta ríkissjóð á árinu 20 millj. kr. Á þennan einfalda hátt hefur bilið milli tekna og gjalda verið brúað.

Ég held, að varla muni finnanleg í víðri veröld öllu lélegri brú. Og þó að maður hefði grun um, að þessa leið hafi átt að fara, þá sannast sagna vildi ég þó ekki í lengstu lög trúa því, að hæstv. fjmrh. hugkvæmdist að fara þessa leið. Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. sé kappsmál að slá met og þá helzt heimsmet, og það hefur ríkisstj. og hæstv. fjmrh. áreiðanlega tekizt með þessari dæmalausu till., sem hér liggur fyrir, því að hafi fjárlagafrv. áður verið falsað og gefið ranga mynd af raunverulegri fjárhagsafkomu ríkissjóðs, eins og oft hefur verið bent á af okkur sjálfstæðismönnum, þar eð útgjöld til útflutningsframleiðslunnar eru ekki meðreiknuð, þá keyrir þó nú um þverbak. Það má þó á vissan hátt rökstyðja það að halda í sérstökum sjóði því fé, sem varið er til útflutningsuppbóta, því að það eru að sjálfsögðu gjöld, sem eru nokkuð sérstaks eðlis, þó að vísu tekna til þessara þarfa sé aflað á sama hátt og til annarra þarfa ríkissjóðs. En að láta sér hugkvæmast að taka út úr fjárlagafrv. hluta af fjárveitingu til niðurgreiðslna á vöruverði, er eitthvert það furðulegasta uppátæki, sem hægt er að hugsa sér. Látum vera, að öll upphæðin hefði verið tekin. Þá mætti kannske segja að væri einhver heil brú í þeirri setningu í nál. meiri hl. n., þar sem þeir segja: „Verður að teljast eðlilegt og líklegast til samræmingar, að sá þáttur efnahagsvandamálanna, sem þessi fúlga var ætluð til, verði leystur samtímis öðrum þáttum þeirra mála á framhaldsþinginu eftir áramótin, að lokinni þeirri athugun framleiðslu- og efnahagsmálanna, er nú stendur yfir á vegum ríkisstj.

Hvernig í ósköpunum er nú hægt að bera það á borð fyrir nokkurn mann, að það sé til samræmingar að taka út úr frv, niðurgreiðslur á mjólk, en halda eftir í frv, niðurgreiðslum á kjöti? Það þarf sannarlega alveg sérstakt hugvit og sérstaka „innstillingu“ til þess að láta sér hugkvæmast að hafa slík ummæli um hönd, hvað þá, svo að maður sleppi nú hugvitinu, að láta sér detta aðra eins endaleysu í hug.

Ég verð satt að segja, að segja það, að ég hefði óskað hæstv. fjmrh. annars hlutskiptis eftir stjórn hans á fjármálum ríkisins um margra ára bil, en hann kæmist inn á aðra eins óhappabraut og hér er gengið inn á. Það liggur við, að maður ímyndi sér, sem hefur haft kynni af hæstv. ráðh., að hann sé undir dáleiðsluáhrifum og sé alls ekki sjálfs sín húsbóndi, þegar honum hugkvæmist að leggja til aðra eins fásinnu og hér er á borð borin fyrir þjóðina. Hefði nú átt að lækka þessi útgjöld, þá væri ekkert nema gott um það að segja. En það er upplýst í nál. meiri hl. n., að það sé alls ekki ætlunin, heldur eigi að geyma þessa gjaldaliði, af því að ríkisstj. hafi nú gersamlega gefizt upp við að benda á leiðir til að brúa bilið. Það getur litið vel út á pappírnum, en ég veit ekki, hversu farsælt það yrði í búreikningum hvers og eins okkar, ef við tækjum upp á því, ef hölluðust þar metin, að taka t.d. kostnað við matvælakaup út úr reikningnum og segja svo: Ja, þetta lítur ljómandi vel út, þetta hlýtur að vera ágætt, nú get ég lagt þetta plagg fram til að sýna mína afkomu.

Það þarf í rauninni ekki að eyða mörgum orðum um þetta atriði, því að hvað sem hæstv. ríkisstj. og hv. meiri hl. fjvn. reynir að gera til að vefja þetta í einhverjar umbúðir, þá mun það áreiðanlega ekki takast. Með þessari játningu sinni og þessari till. sinni hefur ríkisstj. auglýst algert gjaldþrot sitt í þessum málum, og nú er það eina sagt, eins og hæstv. ríkisstj. er mjög tamt að segja, að málin séu í athugun og till. komi síðar. Og hver hefur átt þátt í þessum loddarabrögðum, veit ég ekki, en ábyrgðin hlýtur að sjálfsögðu að falla á hæstv. fjmrh. Niðurstöður fjárlaga í þessu efni með þessum aðferðum eru gersamlega falsaðar og þjóðin blekkt um afkomu ríkissjóðs í heild. Og það sem verra er, að með því að taka upp fjárlagaafgreiðslu sem þessa, hlýtur að skapast hætta á tortryggni hjá erlendum fjármálastofnunum í garð Íslendinga, því að ég efast um, að slíkt þekkist í víðri veröld, að fjárlög séu afgreidd á þann máta, sem hér er gert. Og það er það alvarlegasta í þessu máli.

Hæstv. ríkisstj. hefur stundum verið að bera fram á hendur okkur sjálfstæðismönnum gersamlega að ástæðulausu sakir um það, að við með ýmsum upplýsingum okkar varðandi ástandið í landinu værum að spilla fyrir lántökum þeim, sem ríkisstj. starfaði að erlendis. Ég held sannast sagna, að ef nokkuð getur spillt fyrir því, að aðrar þjóðir vilji veita okkur lán, sé það, ef farið er að gera af ríkisvaldsins hálfu tilfæringar í þá átt að blekkja og gefa algerlega rangar hugmyndir um fjárhagsafkomu ríkissjóðs. Þau úrræði, sem hér hefur verið gripið til af hæstv. ríkisstj., eru áður óþekkt í okkar fjármálasögu. Hæstv. fjmrh, hefur tekizt þar að slá met, sem ég hygg að sé heimsmet, en ég get ekki óskað honum til hamingju með og áreiðanlega þjóðin mun síður en svo, gleðjast yfir sjálfs sín vegna, hvað sem því líður, að hve miklu leyti hún ber umhyggju fyrir hæstv. ríkisstj., sem fer nú tvímælalaust minnkandi dag frá degi. Og ég skil ekki í, að það verði margir, sem vilji ljá sig til þess að verja það dæmalausa fálm og úrræðaleysi, sem hæstv. ríkisstj. hefur gerzt ber að með þessum till. sínum.