19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að því að tala um fjárlagaafgreiðsluna í heild, vildi ég minnast hér fyrst á tvær brtt. frá hv. minni hl.

Það er fyrst, að þá leggur hv. minni hl. til að heimila ríkisstj. lántöku vegna hafnargerða. Ég vil út af þessu máli minna hv. þm. á, að ríkisstj. álítur óhjákvæmilegt að láta útvegun lánsfjár til sementsverksmiðjunnar, til ræktunarsjóðs, til fiskveiðasjóðs og til raforkuáætlunar dreifbýlisins sitja fyrir öðru og hefur miðað lánsumleitanir sínar við þetta sjónarmið. Þær lánsumleitanir, sem standa yfir og hafa staðið yfir, miðast við það fyrst og fremst að fá fjármagn til þessara framkvæmda. Fjárþörf þessara framkvæmda er svo mikil, að lántaka til hafnargerða hefur ekki komizt að enn þá, en lánsvonir, sem hafa verið metnar, eins og þessi mál standa, einhvers staðar í kringum jafnvirði 7 millj. dollara eða eitthvað þar í kring. Það er náttúrlega allmikil fjárhæð, en þó sýnir það sig, þegar fjárþörf einstakra fyrirtækja er skoðuð, að það fé verður allt að ganga til þessara fjögurra framkvæmda, og mundi ekki verða hægt að taka neitt til hafnarlána af því. En ríkisstj. hefur lýst því yfir áður, og ég vil endurtaka það í tilefni af þessari till., að lántökur til hafnargerða koma í hennar starfsáætlun næst á eftir þessum fjórum framkvæmdum, sem ég þegar hef gert að umtalsefni, og togarakaupunum, og sú stefna er óbreytt. Enn fremur vil ég taka greinilega fram, að það skortir ekki lánsheimildir til þess að notfæra sér möguleika, sem kynnu að verða fyrir hendi til að taka lán í hafnargerðir. Lánsheimildir eru nógar fyrir hendi, bæði í einstökum hafnarlögum og eins hefur Framkvæmdabankinn miklar lánsheimildir ónotaðar, sem hægt væri áreiðanlega að nota í þessu sambandi, ef tækifæri gæfist til að útvega slíkt lán. Þessi till. hv. minni hl. er því óþörf og ástæðulaust að samþykkja hana.

Þá vil ég út af annarri till., sem hv. minni hl. flytur um að leggja ofan á tóbaksverð og verja því fé til sandgræðslu og skógræktar, taka það fram, sem raunar kom fram hjá hv. talsmanni minni hl. fjvn., að sandgræðslumálin eru til sérstakrar athugunar í mþn., og sýnist alveg sjálfsagt að bíða eftir till. þeirrar n. varðandi hvað gera skuli í þeim málum, og því sýnist ekki ástæða til að sinna þessari till. Sandgræðslumálin verða vafalaust tekin fyrir, þegar heildarálit n. liggur fyrir. — Þessar tvær till. vildi ég gera að umtalsefni.

Þá vil ég segja örfá orð almennt um afgreiðslu fjárl.

Fyrst vil ég taka fram um tekjuáætlun fjárl., eins og hún er gerð af hv. meiri hl. fjvn., að ég tel hana óvenjulega teygða orðna. Miðað við reynslu á þessu ári, mun þessi tekjuáætlun t.d. ekki gefa nægar umframtekjur til þess að standa undir óhjákvæmilegum umframgreiðslum á næsta ári, ef næsta ár verður ekki betra afla- og framleiðsluár en það, sem nú er að líða. Hér er því að mínum dómi komið á fremstu nöf um tekjuáætlunina, að ekki sé meira sagt. Næsta ár þarf sem sé að verða betra framleiðsluár en það, sem nú er að líða, til þess að áætlun þessara fjárl., sem nú er verið að ganga frá, fái staðizt.

Í þessu sambandi vil ég enn upplýsa það, að augljóst er, að það verður greiðsluhalli á ríkissjóði á þessu ári. Það er ekki hægt að nefna tölur enn þá í því sambandi, enda ekki von, þar sem árið er ekki einu sinni liðið. En það er þó augljóst, að það verður greiðsluhalli, og sýnilegt, að tekjur ríkissjóðs fara miklu minna fram úr áætlun, en nokkru sinni hefur áður verið undanfarið, ef þær fara þá nokkuð fram úr áætlun. En á hinn bóginn eru talsverðar umframgreiðslur, eins og alltaf vill verða, þó að þær séu sízt meiri, en áður hefur verið, að undanskildum greiðslum vegna niðurborgunar á vöruverði, sem fara talsvert mikið fram úr áætlun, því að það hefur verið aukin niðurgreiðsla á ýmsum vörutegundum einmitt á þessu ári umfram það, sem fjárl. gerðu ráð fyrir.

Hv. 2. þm. Eyf., frsm. minni hl., kvartaði yfir því, að minni hl. hefði vart haft sömu aðstöðu til þess að kynna sér um þessi mál eins og hv. meiri hl. En þetta er alveg á misskilningi byggt hjá hv 2. þm. Eyf., því að hv. meiri hl. hefur ekki haft annað við að styðjast í þessu, en bráðabirgðauppgjör þau, sem til eru um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, og þar með upplýsingar um tekjur til nóvemberloka, og eru það sömu gögn og hv. minni hl. hefur aðgang að.

Ríkisstj, hefur lagt áherzlu á, að fjárl. gætu orðið afgr. fyrir áramót. Mikill halli var á fjárlagafrv., og ótaldar voru á því verulegar fjárhæðir vegna niðurgreiðslna, ef halda á áfram að greiða niður vöruverð innanlands, eins og nú hefur verið gert. Það hefur orðið að ráði að taka út af fjárl. verulegan hluta dýrtíðargreiðslnanna, en skilja þó eftir fé til þess að mæta þessum greiðslum næstu mánuðina, á meðan ráðið er fram úr þessum málum. Þetta er gert til þess, að unnt sé að afgreiða fjárl. nú fyrir áramót, enda þótt óákveðið sé, hvernig þetta vandamál verður leyst, hvernig það bil verður brúað, sem niðurgreiðslurnar valda, enda liggur ekki fyrir nú, hver niðurstaða verður þeirrar athugunar, sem fram fer á málefnum framleiðslunnar og efnahagsmálunum yfirleitt. En eðlilegt er, að saman fari sem mest afgreiðsla framleiðslumálanna og dýrtíðar- og efnahagsmálanna yfir höfuð. Verða því ákvarðanir um það, hvernig mæta skuli þeim vanda, sem fyrir liggur, að bíða framhaldsþingsins eftir áramótin, eins og svo oft áður, þegar svipað hefur staðið á um afgreiðslu framleiðslu- og efnahagsmála. Það gerir einnig þessa málsmeðferð tiltækilegri, að greiðslur til þess að lækka vöruverð innanlands eru alveg sérstaks eðlis og eiga ekki skylt við önnur ríkisútgjöld, en eru hliðstæðar uppbótagreiðslum og öðrum slíkum ráðstöfunum, sem uppbótakerfinu fylgja.

Samkvæmt því, sem fyrir liggur nú við þessa 3. umr. fjárl. og lokaafgreiðslu þeirra, er mikill vandi óleystur, því að það liggur nú fyrir, að það vantar nálega 90 millj. kr., til þess að hægt væri að greiða niður vöruverð innanlands, eins og nú er gert, allt næsta ár. Í þessu sambandi vil ég einnig rifja það upp, að ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um að lækka skatta á lágtekjum, enda samrýmist slíkt afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárl., og enn fremur hefur ríkisstj. lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir hækkun þess sérstaka frádráttar á skattframtölum, sem fiskimönnum er heimilaður vegna sérstöðu þeirra. Þá hef ég og ríkisstj. sem heild mikinn hug á að taka upp á framhaldsþinginu hjónaskattsmálið, eins og það er kallað, en það veltur m.a. á því, hvort hægt verður að ná samkomulagi um tekjuöflun á móti.

Allt þetta sýnir, að verulegir þættir í þessum málum eru óleystir og biða framhaldsþingsins, og er það út af fyrir sig ekkert nýstárlegt, því að þannig hefur það oft verið á undanförnum árum.

Hv. talsmaður minni hl., 2. þm. Eyf., viðhafði talsvert stór orð um þá afgreiðslu, sem hér væri fyrirhuguð á fjárl., og það sama gerir hv. minni hl. í nál. Þar stendur, held ég, hvað eftir annað, að með þessu séu fjárl. fölsuð, og hv. 2. þm. Eyf. sagði, að með þessu væri þjóðin blekkt, sem sé með því að taka út úr fjárlagafrv. þessar dýrtíðargreiðslur, án þess að ráðið væri fram úr því, hvernig þeim skuli mætt. En ekkert af þessu fær staðizt hjá hv. minni hl. eða hv. frsm. Hér er ekkert dulið fyrir neinum, ekki farið dult með neitt. Þvert á móti liggur þetta mál núna miklu skýrara fyrir þjóðinni, af því að þessi háttur er á hafður, heldur en ef hin aðferðin hefði verið viðhöfð, að afgreiða fjárl. alls ekki fyrir áramót og láta þetta allt liggja í þoku. Með þessu móti er myndin alveg skýr á þessa lund, sem ég hef lýst. Hér hefur því ekki verið farið dult með neitt, og hér er einmitt enginn blekktur, heldur er með þessu móti brugðið upp skýrri mynd af vandamálinu, eins og það liggur fyrir.

Hv. minni hl. getur þess í nál. sínu, og hv. 2. þm. Eyf. kom að því einnig í framsöguræðu sinni, að hv. fjvn, eða a.m.k. minni hl. hefði ekki fengið aðgang að því, sem hann kallaði sparnaðarnefndarálitið. Um þetta efni er það að segja, að í fyrravetur fékk ríkisstj. sér til aðstoðar þrjá menn til að íhuga og gefa bendingar um, hvar tiltækilegt gæti þótt að gera ráðstafanir til sparnaðar í ríkisútgjöldum eða aðhalds í ríkisrekstrinum. Þessir menn hafa gefið ríkisstj. vissar bendingar í þessu efni, sem hún hefur haft til athugunar og hefur enn til athugunar, og á m.a. eftir að hafa samráð við þessa sömu menn um þessi efni, þannig að í þessum málum liggur ekkert fyrir endanlegt. Þess vegna hef ég ekki talið ástæðu til að efna til birtingar á þessum hendingum að svo vöxnu máli a.m.k.

Hv. 2. þm. Eyf. ræddi um, og það er getið um það líka í nál. minni hl., að minni hl. hefði erfiða aðstöðu til þess að kanna úrræði til sparnaðar. Ég held, að þetta verði nú að teljast fullkomin tyllirök, þegar þess er gætt, að forustumenn hv. minni hl. hafa setið í ríkisstj. samfleytt í 17 ár og eru nýlega þaðan komnir og fáir menn á landinu munu kunnugri ríkisrekstrinum yfir höfuð, en sumir af forráðamönnunum í stjórnarandstöðunni. Þetta eru þess vegna fullkomin tyllirök hjá hv. minni hl., en á að gilda sem afsökun fyrir því, hversu magrar eru uppástungur þeirra um sparnað. Þessi röksemdafærsla fær sem sé á engan hátt staðizt, auk þess sem hv. minni hl. hefur að sjálfsögðu aðgang að upplýsingum margvíslegum til viðbótar þeirri þekkingu, sem þeir hafa á ríkisrekstrinum.

Ég vil þá aðeins víkja fáeinum orðum að sparnaðartill. hv. minni hl. eða lækkunartill., en skal ekki vera langorður um þær.

Það er fyrst, að þeir vilja minnka hallann á póstrekstrinum um 750 þús. kr. Því miður fór fram hjá mér það, sem hv. frsm, sagði um þetta atriði, en ég geri ráð fyrir því, að þetta hljóti að vera hugsað þannig, að það eigi þá að hækka póstgjöldin, því að um minnkaða póstþjónustu getur alls ekki verið að ræða. Þvert á móti er alltaf krafizt síaukinnar póstþjónustu. En póstgjöldin hafa nú ekki alls fyrir löngu verið hækkuð, að vísu með dálítlum undantekningum, og ég veit ekki, hvort það er hægt að kalla það nokkra sparnaðartill. að gera till. um að hækka afnotagjöldin fyrir póstþjónustuna. Það er mjög vafasamt, að það geti kallazt sparnaðartill., að ekki sé meira sagt.

Þá er næsta till. Hún er um að lækka þá fjárhæð, sem áætluð er fyrir ýmsum kostnaði í stjórnarráðinu eða ráðuneytunum, og þau rök færð fyrir henni, að þessi fjárhæð sé þarna sett hærri, en í gildandi fjárlögum, en rétt sé, að stjórnin komist af með það sama og áður. Þessi fjárhæð mun nú vera miðuð við reynsluna í þessum efnum. Þetta er áætlunarfjárhæð, og mun vera sett miðað við reynsluna, og þess vegna hefur þessi till. náttúrlega engin áhrif í raun og veru á það, hversu mikið fé er notað í þessu skyni.

Þá kemur næst till. um að lækka fjárveitingu til þess að standast kostnað við þátttöku í alþjóðaráðstefnum. Þetta er einn af þeim liðum, sem mjög hefur borið á góma í umr. á milli hv. meiri hl., stuðningsmanna stjórnarinnar í fjvn., og ríkisstj., og hefur komið fram í þeim umr. mikill vilji til þess að reyna að draga úr þessum kostnaði, ef það væri mögulegt. M.a. hefur hv. meiri hl. fjvn. verið þessa mjög hvetjandi, og ég hef fyrir mitt leyti verið þessa mjög hvetjandi, og ráðh. þeir, sem hér eiga hlut að máli aðallega, þeir sem ákvarða mest sendingar á slíkar ráðstefnur, hafa þetta mál til athugunar hjá sér í framkvæmdinni. Það verður þess vegna áreiðanlega reynt að draga úr, og ég vona, að það verði einhver árangur af því. En það hefur engin áhrif á þetta mál, hvort þessi till. hv. stjórnarandstæðinga verður samþ. eða ekki. Það verður reynt eins og mögulegt er að draga úr þessum kostnaði, og ef tækist að gera það, þá eyðist ekki öll fjárhæðin, sem á fjárlagafrv. er, og þá mætir það óhjákvæmilegum umframgreiðslum annars staðar. En það er út af fyrir sig engin sparnaðartill. að leggja til að lækka þennan lið. Reynslan ein getur skorið úr um það, hvort hér verður raunverulega komið við sparnaði eða ekki, og áreiðanlega hefur hv. meiri hl. fjvn. í viðræðum sínum við ríkisstj. veitt allt það aðhald í því og gert allar þær áskoranir um það efni, sem að haldi geta komið.

Þá er það fjórði liðurinn, að lækka fjárveitingu til mjólkureftirlits um 200 þús. kr. Verð ég að segja, að mér sýnist ekki röksemdafærsla hv. minni hl. benda neitt til þess, þótt þessi liður yrði lækkaður, að það yrði þá raunverulega hægt að komast af með þá fjárhæð, sem eftir væri á fjárlagafrv. Yrði þá aðeins stofnað til umframgreiðslu á liðnum,

Þá er till. um að lækka fjárveitingu til húsaleigu skattstofunnar um 150 þús. kr. Um þetta skal ég ekkert fullyrða. Forráðamenn skattstofunnar hafa talið sér alveg nauðsynlegt að hafa þetta húsnæði eins og það er og hafa talið, að þeir hafi undanfarið búið við algerlega óviðunandi húsnæðisskilyrði.

Um húsaleigueftirlitið er það að segja, að félmrn. telur ekki fært að fella þann lið niður, það verði að halda uppi þessum kostnaði, og ef það er nauðsynlegt, verður hann að vera á fjárl., því að annars verður umframgreiðsla, sem þessari lækkun svarar, enda skilst mér, að lögboðið sé að hafa þetta eins og gert er ráð fyrir í fjárl.

Loks kemur svo aðaltill. um að fella niður eða lækka um 3 millj. framlagið til strandferða. Það er fróðlegt að sjá, að þegar Sjálfstfl. loksins flytur örfáar smátill. til niðurfærslu, er aðaltill. um að skera niður strandferðaframlagið, Það er fróðlegt að sjá, að það er þarna, sem þeim finnst helzt vera hægt að skera niður. Það má vel vera, að það ætti að breyta til á næstunni, eitthvað um skipakost skipaútgerðarinnar, en víst er, að þjónustan má ekki rýrna, og þá er óraunhæft að skera niður framlögin til strandferðanna, enda er þessi till. líka óraunhæf að því leyti til, að þessi sparnaður mundi aldrei koma fram á næsta ári, jafnvel þótt farið væri eftir till. tillögumanna um að kippa Esjunni úr umferð.

Sú stefna að selja bara Esju og ætla einu skipi farþegaflutningana mundi valda stórfelldri afturför í samgöngum á sjó við strendur landsins, og þetta mál allt saman, strandferðamálið, er miklu vandasamara og meira mál en svo, að það sé hægt að afgreiða það með till. eins og þessari, sem kastað er fram óundirbúið og verður raunar að teljast yfirskin eitt, eins og hún liggur fyrir, a.m.k. að því er varðar sparnað af framkvæmd hennar næsta ár.

Það kemur nú fram af þessu, sem ég hef sagt, alveg glöggt, að flestar af þeim till., sem hv. minni hl. telur sparnaðartill., eru einvörðungu málamyndatill., sem engin áhrif mundu hafa á ríkisbúskapinn og alls ekki hafa þau áhrif á næsta ári, sem látið er í veðri vaka af hv. tillögumönnum.

Ég vil svo að lokum aðeins benda á, að hv. minni hl. hefur mjög gagnrýnt þá afgreiðslu á fjárl., sem fyrirhuguð er, og fært fyrir því ástæður frá sínu sjónarmiði. En þeir eiga enn eftir það, sem mikilsverðast er, og það er að gera grein fyrir því, hvernig þeir vildu þá afgreiða fjárl., fyrst þeir telja slíka óhæfu að afgreiða þau á þann hátt, sem nú er gert ráð fyrir. Þeir telja alveg óhæfu að taka dýrtíðargreiðslurnar út að einhverju eða öllu leyti. Það er gert ráð fyrir að taka út 65 millj., sem þeir eru á móti, og þeir mundu sjálfsagt í framhaldi af því telja eðlilegt, að inn væru settar 20–23 millj. til að standa undir þeim niðurgreiðslum, sem ekki eru taldar á frv. Þetta eru samtals um 88 millj. Og þó að við tækjum málamyndatill. þeirra til lækkunar til greina, sem nema 5 millj., mundi eftir þeirra mati vera a.m.k. um 83 millj. kr. bil, sem ætti að brúa. Og þá kemur spurningin: Hvernig vilja þeir brúa þetta bil? Hvernig vilja þeir afgreiða fjárl., fyrst þeim finnst alger fjarstæða að afgreiða þau á þann hátt, sem meiri hl. stingur upp á? Það mun áreiðanlega verða tekið eftir því, hverjar till. þeir hafa um þetta, því að ég trúi því ekki, að það sé raunverulega þannig, að allar till. þeirra séu komnar fram og að þeir ætli ekki að leggja fram till. um það, hvernig eigi að afgr. fjárl., því að um það hefur engin till. komið af þeirra hendi. Þetta er allt í þoku, engin mynd af því, hvernig þeirra afstaða er í heild. Eins og afstaða þeirra liggur nú fyrir, endar þar allt í botnleysu.