19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki hingað kominn vegna þess, að ég hafi flutt brtt. við frv., og er það ekki vegna þess, að ég hafi ekki haft miklar ástæður til þess að reyna að fá slíkar till. samþ., heldur er það vegna þess, að ég hef þreifað fyrir mér áður hjá fjvn. um þær óskir, sem ég hafði þar komið á framfæri, og orðið þess var og reyndar sannfærzt um, að það var þýðingarlaust að bera fram till. í því skyni að fá þær samþ., enda hefðu þær till., sem ég hefði flutt, orðið til þess að hækka verklegar og nauðsynlegar framkvæmdir, en það virðist vera erfiðast í sambandi við afgreiðslu þessa máls að fá það fram, sem er nauðsynlegast. Hitt gengur jafnvel fyrir, sem mætti frekar bíða, og frekar keppzt um að samþ. það, sem ekki ætti í fjárl. að vera.

Ég get tekið undir með þeim þm., sem töluðu hér síðast, og lýst því yfir, að ýmislegt af því, sem nauðsynlegt er fyrir kjördæmin, svo sem meira til vegagerðar og annarra nauðsynlegra framkvæmda, þyrfti nauðsynlega að hækka. Það er svo með vegaféð í mínu kjördæmi, Rangárvallasýslu, að vandræði voru að þessu sinni að skipta því upp, því að eins og geta má nærri eru miklar þarfir fyrir vegi í kjördæmi, sem er hafnlaust, er 90 km að lengd og víða 50–60 km að breidd. Að þessu sinni er skipt sömu upphæð og er á fjárl. yfirstandandi árs, og er því ljóst, að fjárveitingin hefur raunverulega lækkað, þar sem vitað er, að minna fæst fyrir hverja krónu á næsta ári, en á líðandi ári.

Í öðru lagi er framlag til skóla, en þrír hreppar í Rangárvallasýslu hafa sameinazt um að byggja barnaskóla, og hlýtur það að vera rétt stefna, að skólahéruðin sameinist, því að rekstur slíkra skóla verður miklu ódýrari, en að hver hreppur sé út af fyrir sig. Áætlun um byggingarkostnað á þessum skóla er 3.6 millj., og til viðbótar 400 þús. kr., sem gert er ráð fyrir að innanstokksmunir muni kosta, eða 4 millj. alls. Hús þetta er komið undir þak, og hefur kostað 1.200 þús. kr. að gera það fokhelt. Gert er ráð fyrir í þeim till., sem hér liggja fyrir, að fjárveitingin á næsta ári verði 500 þús. Ríkissjóður á lögum samkvæmt að greiða 3/4 af byggingarkostnaðinum, þar sem þetta er heimavistarskóli. Skólalöggjöfin gerir ráð fyrir, að sá hluti ríkissjóðs sé greiddur á 5 árum. Hér er um nærri 4 millj. að ræða, og er því augljóst, að með þessari fjárveitingu, ef hún yrði ekki hærri síðar, yrði hluti ríkissjóðs ekki greiddur á fimm árum, enda hefði hluti ríkissjóðs á næsta ári átt að vera um 750 þús. kr. til þess að vera í samræmi við skólalöggjöfina og að greiðslum væri lokið á tilsettum tíma.

En vegna þess, að vonlaust er að fá þetta hækkað, þótt ég sýndi till. hér í hv. Alþingi, þá hef ég ekki séð ástæðu til þess að gera það, en vil vekja athygli á því, að hér er mjög þrengt að hlutaðeigandi hreppum, þar sem þeir fá ekki þá fjárveitingu, sem þeir höfðu reiknað með, og erfiðleikar á að útvega lánsfé til þess að koma byggingunni áfram eru miklir, eins og allir hv. alþm. vita.

Eitt var það, sem ég gerði tilraun til að fá samþ. í fjvn. og ekki tókst, það var landþurrkun í Landeyjum. Farið var fram á, að liðurinn yrði hækkaður um helming, úr 40 þús. í 80 þús., en það fékk ekki nægilegt fylgi í n., og stjórnarliðið treysti sér ekki til þess að ganga á neinn hátt á móts við Landeyinga í þessu efni.

Þá er eitt mál, sem snertir okkur Sunnlendinga austan Hellisheiðar mjög, og það er endurlagning hinna gömlu vega, þ.e. vegarins í Ölfusinu, Flóanum og Holtunum. Vegamálastjóri hefur sótt mjög fast á stjórnarvöldin að þessu sinni um það að fá fjárveitingu til endurlagningar á gömlum vegum hækkaða, en vegamálastjóri fékk daufar undirtektir, og stjórnarliðið sá sér ekki fært að hækka þennan lið. Vitað er þó, að fleiri gamlir þjóðvegir eru þannig, að nauðsynlegt er að endurbyggja þá, og 800 þús. kr., eins og nú er á frv., er vitanlega allt of lítil upphæð, og er það leitt og mjög skaðlegt, að þessar aðalleiðir skuli sökkva ofan í mýrarnar og ekki vera vel færar með þung ökutæki nema yfir sumarmánuðina, enda er það stöðug áskorun hjá vegamálastjóra á vorin og þegar færð fer að þyngjast að fara nú ekki með þessa þungu bíla með fullu hlassi yfir vegina vegna þess, hvað þeir séu veikir. En við, sem búum á þessu svæði og höfum ekki höfn, þurfum að draga allt að okkur á bifreiðum, og við höfum hin síðari árin reynt að stækka bifreiðarnar til þess að leitast við að gera flutningana ódýrari, en þeir verða því aðeins ódýrari, að það verði leyft að hafa fullt hlass á bifreiðunum.

Það er gerður að þessu leyti reginmunur á þeim sýslum, sem eru hafnlausar og verða að draga að sér allt á hinum stóru vörubílum, og öðrum héruðum, sem nota strandferðirnar, því að ríkissjóður greiðir árlega miklar hækkanir í taprekstur með strandferðunum, á meðan flutningar á landi er skattlagðir í stórum stíl og ekki telst fært að endurleggja hina gömlu vegi og fjölförnu samgönguleiðir á hafnleysissvæðinu, og ekki aðeins það að láta það vera að endurleggja þessa vegi, heldur hefur núverandi hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar skattlagt þessi flutningatæki stórkostlega, þannig að stórir dieselvagnar hafa hækkað um 40–50 þús. kr. á einu ári vegna skattlagningar hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka, en því var þó lofað, þegar rætt var um jólagjöfina stóru á s.l. ári, að svo nauðsynleg tæki sem vöruflutningabifreiðar skyldu ekki hækka.

Ég vil aðeins minna á þetta hér í sambandi við afgreiðslu fjárl., enda þótt mér sé ljóst, að talað er fyrir daufum eyrum og stjórnarherrarnir hafa ekki mikinn skilning á þessum málum, og um leið og þeir tala um fjármagnsskort hjá ríkissjóði, er ekki gerð tilraun til þess að draga úr rekstrarkostnaði Skipaútgerðar ríkisins eða sparnaðarviðleitni sýnd á nokkurn hátt.

Ég tel ekki, að það sé sparnaðarviðleitni, þótt hv. meiri hl. fjvn., stjórnarliðið, komi með sparnaðartill. þær, sem nú liggja fyrir upp á 21/2 millj. kr. Það er ekki sparnaðarvilji, og það eru ekki efndir á þeim loforðum, sem stjórnarliðið hefur gefið undanfarið og þá sérstaklega um það leyti, sem núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum. Það fer með sparnaðarviðleitnina hjá hæstv. ríkisstj. í afgreiðslu fjárl. og þau loforð, sem gefin eru í sambandi við það, eins og önnur loforð þessarar hæstv. ríkisstj., og það er áberandi, að sumir hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. geta ekki á sér setið að vekja athygli á þessu og flytja raunalestur yfir því, að hæstv. ríkisstj, hefur ekki sýnt viðleitni í sparnaðarátt. Þetta eru þeir hv. stjórnarliðar, sem leyfa sér að tala af hreinskilni, eins og einn hv. stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. gerði hér í kvöld, og verð ég að segja, að slíkt er virðingarvert.

Það er í öðru orðinu talað um, að ekki sé til fé til hinna nauðsynlegustu framkvæmda, en svo að hinu leytinu ekki á neinn hátt dregið úr óþarfaeyðslu og fjárveitingar veittar til þeirra framkvæmda, sem sýnast ekki vera nauðsynlegar eða þarfar. Ég veit, að þeir eru t.d. fáir, sem skilja nauðsynina á því að veita á fjárl. fyrir yfirstandandi ár 200 þús. kr. til þess að byggja fjós á Laugarvatni og svo aftur á næsta árs fjárl. einnig 200 þús. kr. í þessu skyni. Ég býst við, að þeir séu margir hv. þm., sem teldu, að það mætti verja þessu fé betur á annan hátt, og þeir munu vera fáir, sem skilja, að það hafi verið nauðsynlegt að byggja svona dýrt fjós, jafnvel þótt á Laugarvatni sé. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um margt af því, sem hv. stjórnarlið samþykkir að þessu sinni í sambandi við afgreiðslu fjárl. Og það mætti, ef ekki væri svo langt liðið á kvöldið, telja mýmörg dæmi þessu lík, en þess gerist tæplega þörf, vegna þess að hv. þm. sjá tillögurnar, sem eru fluttar, hafa frv. fyrir framan sig og eru dómbærir á þetta, og margir í hv. stjórnarliði munu hugsa eitthvað svipað og hinn hreinskilni hv. þm., sem talaði hér í kvöld af einlægni, þótt aðrir hv. stjórnarstuðningsmenn láti það vera að láta hug sinn uppi.

Hv. stjórnarlið hefur nú ákveðið, hvernig fjárl. skuli vera afgr., og Þjóðviljinn og önnur stjórnarstuðningsblöð hafa lýst því yfir, að fjárl. séu afgr. greiðsluhallalaus, en það eigi á framhaldsþinginu samt sem áður að afla tekna til þess, sem vantar. Sumir hv. stjórnarstuðningsmenn segja, að það vanti 65 millj. til dýrtíðarráðstafana, sem teknar voru út af frv. Aðrir segja, sem rétt er, að það séu a.m.k. 85 millj., og getur vitanlega orðið mun meira, ef gjöld fara fram úr áætlun, eins og oftast hefur átt sér stað.

Fjárl. verða því að þessu sinni afgr, greiðsluhallalaus, eins og stjórnarliðið segir, en þó vantar allt að 100 millj. kr. í tekjur, til þess að unnt verði að standa við þær skuldbindingar, sem hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarlið hefur tekið, um leið og fjárl. eru afgr., því að engum dettur í hug að halda, að niðurgreiðslum verði hætt.

Ég hitti í dag einn hv. framsóknarmann hér í bænum, og hann sagði: Það verður gengislækkun á framhaldsþinginu, og þá strikast þetta allt saman út. — En ég spurði þann góða mann að því, hvort hann héldi, að unnt væri að hætta niðurgreiðslum að öllu leyti, þótt gengislækkun yrði framkvæmd. Mundi vera unnt að taka niðurgreiðslurnar af mjólkinni og láta útsöluverðið verða 5 kr. í staðinn fyrir kr. 3.48, sem mig minnir, að það sé núna? Niðurgreiðslurnar á hvern mjólkurlitra núna eru kr. 1.52, en voru aðeins 86 aurar um það leyti, sem stjórnarskiptin urðu. Ég býst við því, að þótt stjórnarliðið hverfi að því ráði að lækka gengið í vetur, eins og margir spá, en ég skal ekkert fullyrða um, þá verði tæplega unnt að hætta niðurgreiðslum. Og hvað mundu launþegar segja, ef mjólkin hækkaði um kr. 1.52 í útsölu, og ef niðurgreiðslu á kjöti væri einnig hætt? Mundu þá ekki koma fram kröfur um kauphækkanir, og mundi þá ekki árangurinn af gengislækkuninni verða harla lítill?

Ég hygg, að það verði að reikna með því, að niðurgreiðslur verði áfram. Ég hygg þess vegna, að það verði illt fyrir hæstv. ríkisstj. að losna undan því að afla tekna, sem nema allt að 100 millj. kr., til þess að jafna hallann á þeim fjárl., sem hæstv. ríkisstj. segir í dag að séu greiðsluhallalaus.

Og það er vitanlega miklu meira en þetta, sem hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar þurfa að afla til tekna, áður en lýkur, og því hefur verið lýst bæði við þessa umr. og 2. umr. þessa máls, hvernig stendur með útgerðina að þessu sinni. Vitað er, að sjómannafélögin hafa sagt upp, vitað er, að útgerðarmenn telja sig ekki geta gert út nema fá eitthvað meira, og vitað er, að bankarnir, hvað sem útgerðarmenn sjálfir vildu gera, munu segja við útgerðarmennina: Til þess að þið getið fengið nauðsynleg rekstrarlán og útgerðarlán, til þess að svo megi verða, verðið þið að sýna okkur, að það sé einhver rekstrargrundvöllur fyrir hendi, — því að bankarnir hætta að lána þeim fyrirtækjum og þeirri útgerð, sem fyrir fram er dæmd til taprekstrar.

Ég er þess vegna hræddur um, því miður, að hæstv. ríkisstj. komist ekki hjá því að afla nýrra tekna vegna útgerðarinnar, og það hefur verið gizkað á, að það þyrfti allt að 200 millj. kr. í nýjar tekjur fyrir útgerðina og fyrir fjárlögin. Þess vegna er það, að hæstv. ríkisstj. frestar tekjuöfluninni, að hún er hrædd um, að það verði óvinsælt núna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar að láta fólk sjá framan í úrræðin, láta fólk taka á móti annarri jólagjöf svipaðri og þeirri, sem fólkinu var rétt við síðustu áramót. Það getur jafnvel verið, að hæstv. ríkisstj. geri sér grein fyrir því, að með því að láta fólk sjá framan í þetta í skýru ljósi, þá detti henni í hug, að allur almenningur í landinu trúi ekki lengur, að hæstv. ríkisstj. sé fær um að leysa efnahagsmálin og hún hafi horfið frá því í einu og öllu að standa við hin stóru loforð, sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar, sem gefin voru haustið 1956, þegar leysa átti efnahagsmálin án Sjálfstfl. og umbótaflokkarnir allir tækju saman höndum, léttu byrðunum af almenningi í landinu, sköpuðu heilbrigðara atvinnu- og fjármálaástand, en þessu var lofað, ég verð að segja: var lofað af miklu yfirlæti. En nú hefur risið lækkað á hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkum, vegna þess að nú lýsa þeir eftir úrbótatillögum frá Sjálfstfl. og spyrja: Hvað hafið þið að segja, hverjar eru ykkar till., því að við, stjórnarherrarnir, við höfum engar till.? — Það er sannleikurinn í málínu, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa engar till, í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar í dag.

Hæstv. fjmrh. talaði um það við 1. umr. fjárl. í haust, að það hefði ekki gefizt tími til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að ráðgast við stuðningsflokkana, vegna þess að þm. hefðu ekki verið í bænum. Síðan er liðinn langur tími, a.m.k. níu vikur, en hæstv. ríkisstj. virðist vera á svipuðum punkti nú og þegar Alþingi kom saman, Hún veit ekkert frekar nú en þá, hvað á að gera, og þess vegna m.a. biður hún um frest og aftur frest.

Ég man, að það er ekki lengra síðan, en í haust, að stjórnarherrarnir lýstu því yfir, að þeir ætluðu að leysa þessi mál með stuðningsflokkum stjórnarinnar, og það átti ekki að tala við Sjálfstfl. Sjálfstæðismenn munu ekki láta á sér standa að fylgja góðu máli og góðum till., og sjálfstæðismenn munu gera till. í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, þegar að því kemur, að þeir verða í alvöru kvaddir til ráðuneytis og ráða, og þegar það liggur fyrir, hvað hæstv. ríkisstj. hefur til málanna að leggja, munum við sjálfstæðismenn segja ákveðið um það, hvort við erum með eða á móti. En sú hæstv. ríkisstj., sem hefur lýst því yfir, að hún ætlaði að leysa efnahagsmálin með stuðningsflokkum sínum án þess að tala við stjórnarandstöðuna, og sú hæstv. ríkisstj., sem enn hefur ekki fundið neinar till. til að bera fram til úrbóta, getur ekki ætlazt til, að stjórnarandstaðan, á meðan svo stendur, beri fram till. í þessa átt. Ef hæstv. ríkisstj, er alveg úrræðalaus, eins og hún virðist vera, þá á hún vegna velferðar þjóðarinnar að segja sannleikann og gefast hreinlega upp, til þess að aðrir taki við og úrræði verði fundin. Hæstv. fjmrh. á að hafa forustuna í því að bera fram till. í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, en hann hefur ekki till. fyrir hendi. Hann hefur þó komið með „patent“, sem er alveg nýtt í þingsögu Íslendinga og er sennilega alveg óþekkt um allan heim, en það er þetta „patent“ að taka einn stærsta útgjaldalið fjárl. í burt af fjárlögunum og leggja hann til hliðar í frysti, eins og sagt var hér í kvöld, fram yfir bæjarstjórnarkosningar. En ég býst við því, að þótt sumum finnist þetta vera gott „patent“, þá verði þeir fleiri, sem í alvöru hugsa um þetta og telja, að hér sé meira ábyrgðarleysi á ferðinni, en unnt sé að una við, og ég veit, að þeir verða margir, sem vildu taka undir áskorun til hæstv. fjmrh, að segja af sér, þegar á þann hátt sem hér er lýst er alger uppgjöf.

Hæstv. fjmrh. og stjórnarliðið allt ætlaði að stöðva dýrtíðina, ætlaði að vinna gegn verðbólgunni, en hefur hins vegar þrátt fyrir þessi miklu loforð orðið að horfa á það, að fjárl. hafa hækkað gífurlega, eins og öllum er þegar ljóst. Síðustu fjárl. fyrrverandi stjórnar voru aðeins 661 millj. kr., fjárl. yfirstandandi árs 811.6 millj., en fjárl. næsta árs, ef allt er með talið, sennilega yfir 900 millj. kr., og fjárl. hafa aldrei hækkað meira, en í tíð núverandi hæstv. ríkisstj.

Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um vöxt dýrtíðarinnar, um getuleysi hæstv. ríkisstj. til þess að standa við gefin loforð, um greiðsluhallann og hina fáheyrðu og nýju aðferð til þess að fá fjárl. greiðsluhallalaus á pappírinn, — ég held, að þess gerist naumast þörf, svo augljós fölsun sem þetta er. Það mundi vera sagt um hvert fyrirtæki, sem léki leik á þennan hátt, þótt í smáum stíl væri, að það falsaði bókhaldið. Slíkt varðar við lög á Íslandi, og þeir, sem ábyrgð bera á fölsuðu bókhaldi, ef á þá sannast, eru dregnir fyrir lög og dóm. En þótt fjárl. íslenzka ríkisins séu fölsuð á þann hátt, sem hér er verið að gera, liggur ekki við refsing samkvæmt lögum. En refsingu munu þeir fá eigi að síður, sem ábyrgð á þessu bera, því að almenningur í þessu landi hlýtur að skilja, hvað hér er á ferðinni og hvaða dilk þetta dregur á eftir sér, ef þessu á að halda fram nú og eftirleiðis. Hlýtur ekki þetta að leiða til þess, að eftirleiðis, á meðan þetta ástand varir og á meðan þessi stefna ræður með hæstv. ríkisstj. í broddi fylkingar, að öll þjóðin missi trúna á Alþingi Íslendinga og þeirri forustu, sem fer með atvinnu- og fjármál þjóðarinnar? Hlýtur ekki þetta, ef það á að halda áfram, að færa allt úr skorðum, færa allt úr jafnvægi, vinna að upplausn, gera hlut alls almennings í landinu verri? Og mun ekki þetta verða til þess að setja okkar þjóðfélag í alvarlega hættu, að setja þjóðina og sjálfstæði hennar í alvarlega hættu fjárhagslega séð, efnalega séð og pólitískt séð? Eru ekki margir hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem gera sér ljóst, hvert er stefnt, þótt þeir þegi? Ég hafði gert mér vonir um, að ýmsir hv. stuðningsmenn ríkisstj. geri sér grein fyrir því, að það er farin óheillabraut og það verður að snúa við.

Það virðist vera sem sumir, er tala fyrir hönd hæstv. ríkisstj, við þessi fjárl. um afgreiðslu málsins, um stefnu hæstv. ríkisstj. eða stefnuleysi, séu dálítið kaldrifjaðir. Það virðist svo, að þeir brynji sig, og þeir láta svo, að allt sé í lagi, að þjóðarskútunni sé siglt í lygnum sjó og engin hætta sé á ferðum. Hæstv. ríkisstj. virðist hafa það að markmiði að slá lán erlendis til flestra þeirra hluta, sem gera skal í landinu. Það virðist vera algerlega horfið af þeirri braut að vinna verklegar framkvæmdir í þessu landi með spöruðu fé alþjóðar eða tekjuafgangi ríkissjóðs, eins og gert var í tíð fyrrv. ríkisstj.

Þegar ég sagði hér við 2. umr. þessa máls, að 4 millj. dollara lánið, sem tekið var við síðustu áramót, væri eyðslulán, þá virtist sem sumir hv. stjórnarstuðningsmenn og hæstv. ráðherrar yrðu hneykslaðir yfir þessari fullyrðingu. En ég sagði, að það væri eyðslulán, vegna þess, að það var notað til þess að greiða venjulegan innflutning á erlendum varningi til landsins, en ekki notað til þess að byggja upp framkvæmdir, sem auka framleiðsluna og síðar mundu greiða þessi erlendu lán, og ég sagði, að það væri eyðslulán, vegna þess að lánið var fyrst og fremst tekið til þess að borga eyðslu, sem orðið hafði vegna stefnuleysis hæstv. ríkisstj, og vegna þess, að í stað tekjuafgangs, sem verið hafði undanfarið á fjárlögum, kom greiðsluhalli. Ég hef lesið um það í Tímanum tvo síðustu daga, að úr því að ég kallaði þetta eyðslulán, væri ég sennilega á móti því, að ræktunarsjóður Búnaðarbankans og byggingarsjóður, raforkuframkvæmdir og fiskveiðasjóður gætu fengið fé til sinnar starfsemi. Mér er alveg sama, þótt Tíminn segi, að ég sé sennilega á móti þessum framkvæmdum. Það skiptir mig engu máli. En ég vil benda á, að áður, í tíð fyrrverandi ríkisstj., var þessum sjóðum séð fyrir fé, þá voru framkvæmdir unnar á vegum þessara sjóða í ekki smærri stíl, en eftir að erlenda lánið var tekið til þessara framkvæmda, og það var vegna þess, að þá var þjóðarbúskapurinn rekinn á allt annan hátt en nú. Þá hafði hæstv. núverandi fjmrh. Sjálfstfl. með sér í stjórn, þá hafði fólkið í landinu traust á stjórninni og stjórnarstefnunni, þá safnaði þjóðin sparifé, og þá var ríkisbúskapurinn rekinn með þeim hætti, að það var hægt að halda uppi meiri framkvæmdum á því þriggja ára tímabili, sem fyrrv. ríkisstj. sat, heldur en nokkru sinni áður án erlendrar lántöku. Og það er þessi stefna, sem er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að halda áfram, því að það eru takmörk fyrir því, hvað við megum taka af erlendum lánum, lánum, sem við verðum, ef við ætlum að teljast sjálfstæð þjóð, að endurgreiða aftur. Það er heilbrigðari og eðlilegri stefna, að miklar framkvæmdir séu gerðar í landinu fyrir innlent fé, eins og gert var í tíð fyrrv. stjórnar. Ég skal viðurkenna, að það er nauðsynlegt að taka erlend lán til hinna stærri framkvæmda, svo sem til stórvirkjana eins og Sogsins, því að það getum við ekki unnið með eigin fjármagni og slíkar framkvæmdir eiga að standa undir sér og skila beint eða óbeint aukinni framleiðslu, þannig að það á að gera þjóðinni hægara með að standa undir vöxtum og afborgunum erlendra lána, en áður, og það er ekki rétt, að ég kallaði Sogslánið eyðslulán. Ég tók fram, að 5 millj. dollara lánið, sem ætlað var til efniskaupa í Sogsvirkjunina, væri lán, sem tekið væri með eðlilegum hætti. Hitt hefur alltaf verið talið vafasamt og ekki heppilegt, að taka erlend lán fyrir innlendum kostnaði þeirra framkvæmda, sem eru unnar í landinu. Ég tel þó, að Sogsvirkjunin sé það stór framkvæmd, að það sé tæplega mögulegt að vinna að henni án þess að taka erlent lán fyrir innlenda kostnaðinum, að nokkru leyti að minnsta kosti, og ég vítti þá lántöku ekkert við 2. umr. fjárl., þótt Tíminn hafi viljað láta í það skína, en í rauninni afsannað fullyrðingu sína með því að birta ræðukafla minn, því að þar er ekki talað um eyðslu í þessu sambandi, heldur nefndi ég þetta lán því nafni, sem það hefur alltaf verið nefnt manna á milli, einnig á meðal stuðningsflokka stjórnarinnar, það er matarlán. Þetta er ekki peningalán. Við fáum þetta lán að mestu leyti í matvörum frá Bandaríkjunum, og síðan á að nota andvirði þessara vara til greiðslu á innlenda kostnaðinum. En Tíminn og hæstv. fjmrh. segir, að það sé skömm að nefna þetta réttu nafni. Þeir um það. En sjálfir hafa þeir margir, hv. framsóknarmenn, borið þetta nafn á vörum sér, þegar þeir tala um þetta lán sín í milli.

Ég býst við því, að mönnum sé nú að verða ljósara, en áður, að það var óheillaspor að fylgja ekki till. okkar sjálfstæðismanna í ársbyrjun 1956 og stöðva dýrtíðina, eins og við þá vildum, og halda ríkisbúskapnum að mestu eða öllu leyti í því formi, sem hann var rekinn í tíð fyrrverandi ríkisstj. Ég býst við því, að margir hv. stuðningsmenn ríkisstj. geri sér það ljóst nú, að þetta var óheillaspor, að þetta var ábyrgðarleysi, að þetta var gönuhlaup og ævintýrapólitík, sem gengið var út í með því að knýja fram kosningar vorið 1956 og láta allt laust, mynda ríkisstj. á þann hátt, sem gert var, — ríkisstj., sem á engan hátt hefur getað staðið við kosningaloforðin, en flýtur nú sofandi að feigðarósi og horfir aðgerðalaus á það, að dýrtíðin hækkar, að fjárlögin eru afgreidd með allt að 100 millj. kr. greiðsluhalla, að útgerðin vegna vaxandi dýrtíðar krefst stöðugt aukinna styrkja, að efnahags- og atvinnuástandið í landinu er nú á þann veg, að menn eru kvíðandi um sinn hag og horfa nú um þessi jól dimmum huga á það, sem fram undan er.

Það dugir ekki að reyna að leiða athyglina frá staðreyndunum, Staðreyndirnar verða staðreyndir. Það dugir ekki að reyna að hylja þessar staðreyndir reykskýi, því að menn vita, hvernig ástandið er, að núverandi hv. stjórnarflokkar hafa raunverulega gefizt upp og horfa nú á, að þjóðarskútan stefnir að strandi, og ég spurði hæstv. fjmrh. við 2. umr., hvort það væri meiningin að bæta á katlana og keyra upp í landsteina eða hvort hæstv. stjórn vildi freista þess að sveigja til hliðar og gefa öðrum tækifæri til þess að bjarga þjóðarfleyinu. En það virðist vera, að hæstv. stjórn ætli að fara upp á skerið og vilji ekki fá björgun.

Ég skal ekki orðlengja þetta öllu meira. En ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, minna enn á eitt, sem hefur verið gert mjög að umtalsefni, bæði við þessa umr. og við 2. umr., og það er úthlutunin og meðferðin á atvinnubótafénu. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að breyting hafi verið gerð á við úthlutun atvinnubótafjárins frá því, sem gilti í tíð fyrrverandi ríkisstj., en þá var sú regla viðhöfð, að þrír ráðuneytisstjórar gerðu megintill. um þessa skiptingu, gerðu till. um þetta af kunnugleika og af samvizkusemi og sjaldan sem ríkisstj. þurfti þar nokkru um að breyta. En hæstv. fjmrh. upplýsti, að það hefði verið skipt um menn, sem fjalli nú um þessi mál, og ég vil spyrja: hvers vegna var skipt um menn? Var það vegna þess, að þessir þrír ráðuneytisstjórar voru ekki hlutdrægir og gerðu till. sínar af kunnugleika og samvizkusemi? Ég fullyrði, að þeir gerðu það. Er hæstv. núverandi ríkisstj. á móti því, að það verði einnig gert nú, eða ef hún vill láta gera það svo, hvers vegna var þá skipt um menn? Ég hef séð lista um úthlutun atvinnubótafjárins, og það er ýmislegt í þeim lista, sem bendir til þess, að úthlutunin hafi ekki farið fram með svipuðum hætti og áður, enda höfum við orð eins hæstv. ráðh. fyrir því, að úthlutunin hafi verið gerð á mjög óviðeigandi hátt.

Það mætti margt fleira segja í sambandi við afgreiðslu og meðferð fjárl., en það er orðið áliðið nætur, og ég hef þegar talað nokkuð lengi. Það virðist vera vonlítið og reyndar vonlaust að fá nokkru breytt að þessu sinni um niðurstöður, en ég hef talið mér skylt að vekja athygli á því, að það verður að breyta um stefnu, að okkar unga og fámenna lýðveldi má ekki við því að rekast stjórnlaust, eins og það gerir nú, því að það er raunverulega stjórnlaust, þar sem hæstv. ríkisstj. er gersamlega úrræðalaus í hinum mestu vandamálum og hefur lýst því yfir, að hún viti ekki enn, hvað hún ætli að gera.