11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það er nú erfitt að ætla sér að reyna að rökræða við hv. 1. þm. Reykv., þegar hann hagar máli sínu á þá lund, sem hann hefur gert nú í þessari ræðu, því að þar má segja, að hann hafi ekki borið við að reyna að sanna mál sitt og koma fram með staðhæfingar, sem hægt er að valda, heldur eingöngu sveiflar hann fram fullyrðingum út í bláinn, sem eru gersamlega staðlausar í öllum meginatriðum og hann veit manna bezt að eiga engin rök á bak við sig og opinberar skýrslur geta afsannað jafnótt.

Aðalatriði þess máls, sem hér er til umræðu, er það, að þessi hv. þm. kemur hér einn daginn upp í ræðustólinn og heldur því fram, að hér sé á ferðinni frv., sem ríkisstj. sé að pukra með efni úr, vilji ekki gera alþm. kunnugt um, vegna hvers málið sé flutt og um hvað málið raunverulega sé. Strax og aðstaða veitist til, er þetta auðvitað rekið ofan í hann, og hann verður nú að standa þannig uppi,að hann verður þarna að gefast upp, játa það og segja svo, að það beri að vísu að þakka, að það hafi upplýsingar verið gefnar um málið áður. En það liggur alveg ótvírætt fyrir, að yfirlýsingar höfðu verið gefnar um það, vegna hvers þetta frv. var flutt, hvaða ástæður lágu til þess, og þegar upphaflega hafði verið ákveðið, að þessi löggjöf yrði sett, þá var frá því skýrt opinberlega í blöðum, svo að allt nöldur hans um það, að hér hafi verið reynt að draga fjöður yfir eitthvað í sambandi við efni málsins, er vitanlega staðleysu stafir, sem hann hefur ekki getað rökstutt á neinn hátt, og þá er vitanlega sú ein leiðin fær að flýja úr þessu vígi og minnast ekki á það meir. En það vill nú svo til, að hvort tveggja er það, að þingræður manna liggja hér fyrir skrifaðar og blöð landsins liggja fyrir prentuð, og vegna þess er erfitt að ætla að neita slíkum sannindagögnum.

Hitt var svo aftur annað atriði, að það hefði verið heldur fróðlegt, að þessi hv. þm. hefði rætt efni þessa máls, sem hér er til umræðu, að hann hefði gefið einhverjar upplýsingar um það, hvort hann er efnislega með því frv., sem hér liggur fyrir, eða ekki. Er hann því samþykkur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að lögfest verði, að bæta nokkuð samkeppnisaðstöðu íslenzkra flutningaskipa gagnvart erlendum flutningaskipum? Er hann samþykkur því? Um það vitanlega fer hann ekki einu einasta orði, líklega vegna þess, að sjálfur hefur hann í stjórn eins af þeim skipafélögum, sem hér eiga hlut að máli, gert kröfu um það að fá helmingi hærri bætur, en þetta frv. gerir ráð fyrir. En það eru ekki óalgeng vinnubrögð einmitt hjá þessum hv. þm. að iðka það á einum stað að gera þar kröfu um svo og svo miklar hækkanir, m.a. á verðlagi í landinu, en koma svo fram á öðrum stað, t.d. á Alþingi, og deila þar á þá, sem hafa orðið við kröfum hans að litlu leyti, en deila þar á þá fyrir að hafa staðið fyrir of miklum hækkunum, og þannig er því nú varið í þessu máli.

Hv. þm. velur sér svo þá leið út úr sínum vanda að hefja hér umr. um farmannadeilu þá, sem hér var á s.l. sumri. Og svo segir hann, eins og hann hefur reyndar gert nokkrum sinnum áður, hinar furðulegustu sögur af því, hvernig þessi deila hafi orðið til og hvernig hún hafi gengið til. Hann segir m.a. hér, að það hafi verið mér að kenna, að þessi deila leystist ekki og ég hafi haldið þannig á því máli á allan hátt, að það hafi tafizt að leysa deiluna um 7 vikur. Auðvitað gat hann ekki fært nokkurn skapaðan hlut fram þessari fullyrðingu sinni til sönnunar. Hitt aftur liggur alveg ljóst fyrir, að þeir aðilar, sem í þessari deilu stóðu, jafnt fulltrúarnir frá skipafélögunum sem fulltrúarnir frá farmönnum, hafa opinberlega tekið það fram, að þeir telja, að ég hafi manna mest unnið að því, að lausn fékkst á deilunni. Þegar svo þessi hv. þm., sem gjarnan vildi fá að halda öðru fram, fékk í miðri deilunni grg. frá einum aðalforustumanni í deilunni einmitt um þetta atriði, þá neitaði hann að birta slíkt, því að hann vildi geta haldið áfram að fullyrða um það út í bláinn, að það stæði á mér í sambandi við lausn þessarar deilu.

Nei, hið rétta er það, og skulu þá aðeins dregin fram nokkur aðalatriði í sambandi við farmannadeiluna, að farmannadeilan varð til, eins og nokkrar aðrar deilur um svipað leyti, m.a. vegna þess, að Sjálfstfl. hafði mjög lagt sig fram um það í mörgum félögum og í aðalblöðum sínum, að það yrði ofan á í ýmsum stéttarfélögum, að samningum yrði sagt upp og heimtaðar yrðu verulegar kauphækkanir. Það fór vitanlega ekkert á milli mála, að í sambandi við farmannadeiluna stóð svo á, að sjálfstæðismenn voru mjög sterkir í þeim samtökum og einn af varaþm. flokksins var forseti í því sambandi, sem þar átti hlut að máli. Þeir drógu því ekkert af sér þarna að efna til deilu og gera deiluna þannig, að sem erfiðast væri að leysa hana, Þannig var þessu auðvitað líka farið í samtökum flugmanna. Þar voru sjálfstæðismenn líka mjög sterkir og fóru þar fyrir liði. Alveg eins var þessu varið í Iðju, félagi verksmiðjufólks. Þar höfðu sjálfstæðismenn eignazt formann og tekið við forustu, og af því gerðu þeir þar einnig kauphækkunarkröfur. Og þannig var þessu farið í samtökum verzlunarmanna. Þar voru þeir sterkir, og þar efndu þeir líka til kaupátaka. Það fer vitanlega ekki milli mála hjá nokkrum manni, sem er sjáandi og heyrandi, hver afstaða Sjálfstfl. var í þessum efnum og hvaða áhrif hann hafði almennt. Og Morgunblaðið dró heldur ekkert af sér. Hitt er svo annað mál, að þar varð eðlilega Sjálfstfl. í þessum efnum mest ágengt, sem málin lágu þannig við, að auðveldast var að fá menn innan þessara félaga til þess að halda nokkuð út í kaupstreitubaráttuna. Þannig t.d. stóð af sér, eins og ég sagði hér í umræðunum fyrir nokkrum dögum, varðandi flugmenn, að það er alveg rétt, að ef borin eru saman laun íslenzkra flugmanna og erlendra flugmanna og laun íslenzkra starfsmanna í hvaða grein yfirleitt sem er og laun erlendra starfsmanna í sams konar greinum, þá kemur í ljós, að launamismunur milli flugmanna hér og erlendis er miklum mun meiri, en í nokkurri annarri starfsgrein. Það var þetta, sem ég sagði. Af því var það svo, að á ýmsan hátt sneru málin þannig við, að það var sterkari aðstaða til þess að knýja hér fram launakröfur eða samþykktir um launakröfur hjá flugmönnum, en mörgum öðrum, þó að þeir væru út af fyrir sig allvel launaðir menn. Og þegar þeir gátu einnig bent á það með réttu, að þeir sem farmenn höfðu miklu minni gjaldeyrishlunnindi, en aðrir farmenn hafa haft um margra ára skeið, sem þó dveljast ekki lengur erlendis yfir árið en þeir, þá var nokkuð eðlilegt, að þeir þrýstu þarna á.

Af þessum ástæðum tókst betur að koma flugmönnum út í þessa deilu, en ýmsum öðrum. Hið sama átti sér stað með farmennina. Það hafði verið haldið þannig á málum hjá farmönnum, að þeir höfðu yfirleitt fengið litla breytingu á grunnkaupi sínu um 8 ára skeið. Og það var alveg greinilega komið launamisræmi fram þar, sérstaklega hjá þeim, sem lægst voru launaðir og höfðu orðið aðnjótandi á þessu tímabili, minnstra launabreytinga. Og í skjóli þessa skákaði forusta Sjálfstfl., sem gjarnan vildi koma hér á erfiðum launadeilum fyrir ríkisstj. til að glíma við. Þetta er nú kjarni málsins.

Þegar svo fór aftur, eins og ég hafði bent hér á áður, að flugmennirnir undir þessum kringumstæðum, fengu nálega enga launabreytingu, þeir urðu að samþykkja sinn gamla launasamning svo að segja alveg óbreyttan að öðru leyti en því, að þeir fengu þann hluta af kaupi sínu, sem greiða á þeim í erlendum gjaldeyri, nokkuð hækkaðan, eða sem má meta frá 17%, sem var mjög algengt áður að þeir fengju af kaupi sínu greitt í erlendum gjaldeyri, og nú hækkaði upp í ca. 23 – 25%, þá er þessu slengt yfir og þetta reiknað út í 35–40% kauphækkun og Mbl. látið básúna það út, að þessi breyting á samningi flugmanna hafi raunverulega þýtt 35–40% kauphækkun. Þetta er auðvitað alveg hreint að snúa við staðreyndum, að skýra svona frá málunum, og þetta var vitanlega gert í ákveðnum tilgangi. Það átti að reyna að hamra á því, að launahæstu menn í landinu hefðu fengið 35–40% kauphækkun, og á þann hátt átti að spana á stað almennar kaupkröfur til óþæginda fyrir ríkisstj. Þetta vitanlega skilja allir menn og vita allir. Hvers vegna hefur ekki Mbl. á alveg sama hátt verið að reikna það út svona og tilkynna það jafnóðum, að sjómennirnir allir, sem fá vissan hluta af kaupi sínu greiddan í erlendum gjaldeyri, væru að fá sífellda kauphækkun á þennan hátt, bara vegna þess að þeir fá nú fleiri krónur greiddar með hækkandi verðlagi almennt í erlendum gjaldeyri, og vitanlega eru þeir þá að fá á sama hátt hækkað kaup, ef þessi reikningur ætti að teljast réttur gagnvart flugmönnunum? En þetta hefur nú ekki verið gert.

Nei, hér var sem sagt aðeins um það að ræða viðvíkjandi flugmönnunum, að þeir fengju þá leiðréttingu í sambandi við sinn kjarasamning að fá nokkuð aukinn hundraðshluta af sínu kaupi greiddan í erlendum gjaldeyri frá því, sem áður var.

Afstaða Mbl. og alveg sérstaklega þessa hv. þm., sem hér hefur blandað farmannadeilunni inn í þessar umr., var svo sú að vera með eilífar skröksögur, meðan á vinnudeilunni stóð, og alveg sérstaklega um þá menn, sem stóðu að því að reyna að koma á sáttum í deilunni. Því var haldið fram, að ríkisstj. væri að beita sjómenn ofsóknum, — þannig var skrifað um málið í Mbl., vegna þess að ríkisstj. vildi ekki verða við öllum þeirra kröfum. En ríkisstj, lét fljótlega uppi þá afstöðu sína, að hún teldi, að ekki kæmi til mála að hækka kaup hinna hæst launuðu af farmönnunum, en teldi hins vegar ekki óeðlilegt, að hinir lægst launuðu fengju nokkrar launabætur. Afstaða skipaeigendanna var hins vegar alveg skýr frá upphafi, og hún var sú, að skipaeigendur töldu, að ekki kæmi til greina að verða við kröfum sjómannanna yfirleitt, ekki að neinu leyti nema — eins og þeir orðuðu það — „óveruleg hækkun á lægstu launin“, sem átti að þýða 1% launabætur handa þeim lægst launuðu. Þetta vitanlega vildu sjómenn ekki líta á, og því fór það svo, að umræður á milli farmannanna annars vegar og útgerðarmannanna hins vegar, féllu niður og málið var lagt í hendur sérstakrar sáttanefndar, sem skipuð var strax og þessir aðilar gáfust upp á sínum venjulegu samningaumræðum.

Mín afskipti afmálinu voru svo aðeins þau, að ég var beðinn um að vinna með sáttanefndinni og starfaði með henni í fullkomnu samkomulagi við sáttanefndarmennina allan tímann, og var þar vitanlega enginn ágreiningur á milli mín og þeirra, þó að Mbl. væri alltaf að glósa um það, en hefur ekki getað fært fyrir því nokkur rök og mun aldrei geta, því að samstaða Gunnlaugs Briems ráðuneytisstjóra og sáttasemjara ríkisins og mín var alveg fullkomin í málinu allan tímann. Það var ekki mitt verk að ákveða það, hvenær sáttatillögur yrðu lagðar fram eða hvað þær yrðu margar í þessari deilu, og allar sögusagnir hv. 1. þm. Reykv. (BBen) í þeim efnum, að ég hafi boðað, að svo og svo margar sáttatill. kæmu fram, eru, eins og þegar var upplýst, meðan á verkfallinu stóð, algerlega úr lausu lofti gripnar, og hann hefur ekki getað fært nokkrar sannanir fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Svo sagði hv. 1. þm. Reykv., að það hefði t.d. verið athyglisvert, að þessi langvinna deila hafi strax leystst, þegar það varð kunnugt, að ríkisstj. ætlaði að mæta kröfum skipafélaganna á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frv. Þetta er vitanlega út í bláinn sagt eins og annað, sem þessi hv. þm. segir um þessa deilu. Hið rétta er það, að strax í upphafi sáttatilrauna voru skipafélögin spurð um það, hvort þau gætu fyrir sitt leyti fallizt á leiðréttingar í áttina til þess, sem sjómenn gerðu kröfur um, einnig án tillits til þess, hvort þeir teldu, að efnahagur félaganna fengi risið undir auknum útgjöldum, einnig án tillits til þess. Og þá svöruðu fulltrúar skipafélaganna því, að alveg án tillits til þess, hvernig væri ástatt með rekstrarafkomu skipanna, þá gætu þeir ekki fallizt á frekari launabætur til farmanna, en sem næmi 1% á lægstu launin. Og þeir neituðu enn þá að verða við því að taka upp þau lífeyrissjóðsréttindi, sem sjómenn lögðu megináherzlu á og sérstaklega vörðuðu eitt af stærstu skipafélögunum, Eimskipafélagið, svo að þessi fullyrðing hv. þm. er eins og aðrar varðandi þetta mál vitanlega staðleysa. Hitt varð svo aftur reyndin á, að það varð að ganga svo til, að sáttanefndin í umboði ríkisstj, varð að taka að sér að gera samningana við skipafélögin, og það varð að vera verk sáttanefndar í þessu tilfelli að semja algerlega við fulltrúa farmanna, vegna þess að fulltrúar útgerðarmanna viku sér hér alveg undan vandanum og vildu ekki koma nærri. Síðan varð að taka upp samningana sérstaklega við skipafélögin, og þegar þau sáu, að þau áttu ekki undankomu auðið í sambandi við lausn þessa máls, þá létu þau hendur fallast og héldu áfram að reka skipin.

Ég mun nú ekki, nema frekar gefist tækifæri eða tilefni til, fara að elta ólar við það, sem hv. þm. sagði hér að öðru leyti, því að ég tel, að þetta nagg hans beri aðeins vott um það, að hv. þm. finnur, að í fyrsta lagi hlaut hann verðskuldaða, ja, ég vil segja fyrirlitningu flestra manna í landinu fyrir afskipti sín af farmannadeilunni, skrifum sínum um þá deilu og framkomu blaðs hans í sambandi við deiluna og a.m.k. verðugan dóm þeirra manna sjálfra, sem í deilunni stóðu. Hann er svolítið særður eftir þessa meðferð, og hann er núna eilítið að reyna að klóra hér í bakkann og segja slíkar tröllasögur, eins og hann var að segja hér áðan varðandi þetta frv., um mig, en það hefur engin áhrif hvorki á mig né gang þessa máls. Hitt stendur svo eftir, að hans upphaflegu athugasemdir hér um þetta frv. hafa verið með öllu tilefnislausar, því að full skýring hefur verið gefin á því hér á Alþingi, hvaða ástæður liggja til þess, að þetta frv. er flutt, og einnig var frá efni þess skýrt, strax eftir að vinnudeilunum lauk s.l. sumar, svo að ég ætla, að umr. af því tagi, sem hv. þm. hefur hér haldið uppi um farmannadeiluna, hafi ekki ýkja mikið að segja, þó að hann kannske rói sjálfan sig svolítið með slíku áframhaldi.