07.03.1958
Efri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér á dögunum til 1. umr., hafði ég þegar tekið til máls, en óskaði eftir, að hæstv. fjmrh. væri við umræðurnar, af því að ég hafði í hyggju að leggja fyrir hann spurningar og yfirleitt að ræða eitthvað við hann um þetta mál. En hann hefur nú lýst því, að hann hafi af öðrum ástæðum orðið að vera fjarri, og hef ég vitaskuld ekkert við það að athuga, en vil þá nota tækifærið nú til þess að ræða nokkuð um það frv., sem hér liggur fyrir, og ætla, að það sé ekki gegn þingsköpum, þótt eitthvað sé minnzt á lögin í heild, sem þetta frv. á að breyta.

Það hefur víst verið svo sem hæstv. ráðh. lýsti, að þeim mörgu tugum manna, sem hann hafði í sinni þjónustu fyrir áramótin eða í haust til að vinna að þessu máli, vannst ekki tími til að vinna að því þannig, að álagningu skattsins yrði lokið á þeim tíma, sem í lögunum var fram tekið, og því horfið að því ráði að setja brbl. til að lengja þann frest fram á þetta ár, eins og hæstv. ráðh. raunar lýsti.

Ég ætla, að í því sambandi, þar sem bráðabirgðalagafrumvarpið fer fram á að breyta ákvæðum, sem eru í þessum lögum, sé heimilt og ekki á móti þingsköpum á neinn hátt að ræða um hugsanlegar fleiri breytingar á löggjöfinni, því að það virðist hafa komið í ljós og það mjög átakanlega á ýmsum stöðum, að þetta harkalega eignarnám, sem núverandi stjórnarflokkar standa fyrir, er svo tillitslaust og æðisgengið á hag þegnanna, að það er sannarlega athugandi fyrir hæstv. ríkisstj., ekki sízt athugandi að breyta að einhverju til bóta eða til léttingar, annaðhvort með breytingum á sjálfum lögunum eða þá í framkvæmdinni.

Það er nú eins og vitað er, að stóreignaskattur var settur á 1950, og það er ekki langur tími liðinn síðan, rúm sjö ár, og fjöldi af þeim, ég vil ekki fullyrða allir, en allur fjöldinn af þeim, sem þá urðu fyrir stóreignaskattinum, dregst enn þá með skuldahala, sem þeir verða að borga af á hverju ári, og eignir sínar þar veðsettar fyrir, þegar þessi stórskattur dynur á, þannig að það er útllt fyrir, að þessir sömu þegnar verði í framtíðinni að reyna að mæta kröfum ríkisins á þennan veg á tveimur sviðum, stóreignaskattsins frá 1950 og svo þessa stóreignaskatts, sem nú er á ferðinni og virðist vera lagður á, í fyrstunni í löggjöfinni af miklu meiri óaðgætni og ónærgætni við þegnana. Og sérstaklega er það svo undirbúið af handlöngurum hæstv. fjmrh., sem hafa farið með mat fasteigna og mat verðbréfa í þessu sambandi og úrvinnslu á skattinum, að það er sýnilegt, að þar þarf stórra bóta við, ef menn eiga ekki margir hverjir að dæmast úr leik sem sjálfstæðir atvinnurekendur og ég vil segja sjálfstæðir borgarar í þessu þjóðfélagi, og það get ég þó varla skilið að sé sú innsta tilætlun þeirra, sem fyrir ríkinu ráða hverju sinni.

Því er ekki að leyna, að þetta stórskattsmál, þetta tryllta eignarán hæstv. fjmrh. hefur vakið stórkostlega gremju hjá þjóðinni, ekki aðeins þeirra milli sex og sjö hundruð manna, sem verða beint fyrir barðinu á eignaráninu, heldur líka þeirra manna, sem vita, hvað það þýðir, að rekstur manna er keflaður og niðurskorinn, sem þýðir það, að sá hinn sami verður ófærari til, en ella, að standa undir atvinnurekstri, sem hefur það í för með sér að hafa margt fólk á launum.

Þeim mun furðulegri tiltök eru þetta hjá hæstv. ríkisstjórn, þegar þess er gætt, að í frv. að lögunum um stóreignaskattinn sagði í fyrra, þegar þau voru lögð fram, að þetta ætti að vera einn liðurinn í sókn ríkisstj. og stjórnarflokkanna til að fá heilbrigðara efnahagslíf í landinu o.s.frv. og einn liðurinn í þeim efnahagslegu framkvæmdum, sem hæstv. ríkisstj. lofaði að gera til þess að fá að fjarlægjast meira verðbólguástandið og nálgast meira heilbrigt atvinnulíf í landinu. Það hefur ekki sézt framan í þessar ráðstafanir enn þá, sem hæstv. ríkisstj, hefur haft á prjónunum sjálfsagt, nema þessi lög eru uppfylling eins af loforðunum, því að það mun hafa verið samningsatriði við kommúnistana að leggja stóreignaskatt á menn í landinu, sem þeir tala um sem auðvald, og hæstv. fjmrh. nauðugur eða viljugur hefur tekið að sér að túlka það og framkvæma með þessum ólögum, sem samþ. voru hvað þetta snerti á síðasta þingi.

Ég hef ekki séð þakkarávarp frá vinstri flokkunum í stjórninni til ríkisstj, fyrir neina framkvæmd á loforðum stjórnarsamvinnunnar nema um þetta mál. Þar var kommúnistablaðið alveg ánægt yfir aðgerðum hæstv. fjmrh. og sem sagt lofaði ríkisstj. fyrir þessar framkvæmdir, þó að það sé nú ekki alltaf lof um ríkisstj., sem maður les í því blaði. Þar var þetta greinilega látið í ljós. Og hæstv. fjmrh. og forsrh. létu sína sauðtryggu flokksmenn á miðstjórnarfundi Framsóknar, held ég að það heiti, sem haldinn var hér á dögunum, og ályktanir frá honum lesnar upp í útvarpinu, — þar var rætt um álagningu stóreignaskattsins af hálfu þessara manna, sem hafa hæstv. fjmrh. fyrir sitt leiðarljós og hæstv. forsrh., og þar tóku þessir fulltrúar eða miðstjórnarráðsmenn fyllilega undir lof kommúnistablaðsins, sjálfsagt eftir fyrirlagi sinna húsbænda. Annars staðar af landinu veit ég ekki til að neinn hafi upphafið sína raust til að telja þetta með lofsverðum aðgerðum, stóreignaskattinn.

Þegar það mál var til umræðu hér á síðasta þingi, var tónninn sá í stjórnarliðinu, að þetta ætti bara að snerta „auðvaldið“ í landinu og þá kannske helzt heildsalana, sem löngum hafa verið taldir til auðvaldsins á máli þessara manna, og enn fremur var það mjög látið í ljós, að stóreignaskatturinn mundi verða um 80 millj. Ég held, að í þremur ræðum, sem ég hef hérna fyrir framan mig eftir hæstv. forsrh., sé einmitt þessi tala nefnd. Ég skal taka það fram, að á sumum stöðum segir hæstv. ráðh. að vísu: ekki undir 80 milljónir, en því aðeins virðist þessi tala vera nefnd, að mönnum er ætlað að trúa á það og skilja, að stóreignaskatturinn verði 80 millj., enda fer hæstv. ráðh. í sumum af þessum ræðum inn á að reikna, hvað það sé mikið á ári, 10 millj. í átta ár sé ekki stórvægilegt o.s.frv.

Ég veit, að við útvegsmenn lét hæstv. sjútvmrh, það mjög í ljós, að þeir yrðu fyrst og fremst ekki fyrir þessum skatti, enda yrði hann ekki stórkostlegur. Þeir stóðu í þeirri meiningu eftir þeim upplýsingum, eftir því sem þeir hafa tjáð mér, margir hverjir af þeirra forustumönnum, að útvegurinn og iðnaðarfyrirtæki útvegsins, sem hvort tveggja nýtur opinbers styrks og hefur gert að undanförnu, yrðu ekki fyrir barðinu á stóreignaskattinum. En mér virðist, að reyndin sé nokkuð mikið önnur. Í fyrsta lagi er þess að geta, að í staðinn fyrir að stóreignaskatturinn væri umtalaður sem 80 milljóna skattur, þá er hann nú ákveðinn 135 milljónir. Hæstv. ráðh. sagði að vísu, að þar mætti búast við frádrætti út af kærum. Ég skal ekki vefengja það, að þeir aðilar, sem fjalla um kærur um þennan skatt, kunni að taka eitthvað til greina, en hann er álagður 135 millj. í stað 80 millj., sem hæstv. ráðh. var búinn að gefa í skyn og ítreka.

Með marga af þeim mönnum, sem fá þennan stóreignaskatt, er því sjálfsagt svo varið, að þeir eigi eignir, verulegar eignir, til þess að láta taka af sér í þessu skyni eða á annan hátt, eða kannske geti risið undir, en allur fjöldinn fer mjög illa út úr þessari skattálagningu, ekki sízt fyrir það gífurlega fasteignamat, sem hæstv. ráðh. styðst við, fasteignamat og álag á það, sem er fram úr öllu hófi, og það gífurlega yfirmat á skuldabréfum og hlutabréfum, sem fram kom að sögn á ýmsum stöðum.

Ég hef ýmis dæmi handbær í þessu efni, en vil ekki að þessu sinni nefna þau án tilefnis. Það getur þó vel að því dregið, að það tilefni sýni sig. En ég tel, að jafngreindur maður og hæstv. fjmrh. er mundi jafnvel nú vera farinn að átta sig á, að hér væri of hart af stað farið. Þess vegna tel ég að, að væri vel þess vert, að hann tæki vel í að breyta einhverju nú á þessu stigi málsins til mildunar þessu fjárnámi eða eignaráni, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið af stað.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann geti upplýst, hversu mikið af skattinum, þessum 135 milljónum, sem hann er í dag á pappírnum, verður tekið af útvegsmönnum eða fyrirtækjum, sem útvegsmenn eru riðnir við.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, sem hann á eflaust hægt með að svara, hversu mikið mundi vera ógreitt af eignakönnunarskattinum, af stóreignaskattinum, sem á var lagður 1950, og þá um leið, að hvað miklu leyti þessi nýi stóreignaskattur kemur á sömu aðila. Ég veit um nokkra, sem hann kemur á, en ég veit það ekki að fullu, en það hlýtur aðalskattheimtumaður ríkisins að vita, að hvað miklu leyti þessi stóreignaskattur kemur á sömu aðila sem standa enn undir stórum skuldum með eignir sínar veðsettar til þess að fylla upp í þá hít, sem byrjað var að krefja í 1950.

Þá vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hversu mikill væri hluti stóreignaskattsins, sem kæmi á þá aðila, sem standa undir hinum fyrri stóreignaskatti.

Í fjórða lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðh. um það, sem mörgum þykir dálítið undarlegt: Hví liggur ekki frammi skrá yfir þennan stóreignaskatt, á hverja hann er álagður nú að þessu sinni? Hvað tekjuskattinn snertir venjulega samkv. tekjuskattslögunum, þá held ég, að skrá yfir eignar- og tekjuskatt sé opinbert plagg, sem liggi frammi til athugunar fyrir þá, sem vilja. En ég verð ekki var við, að stóreignaskatturinn eða hans álag sé neins staðar til sýnis fyrir almenning.

Þá vildi ég í fimmta lagi spyrja hæstv. ráðh., hvað því valdi, að stóreignaskatturinn virðist ekki vera eftir lögunum frádráttarhæfur við álagningu tekju- og eignarskatts, eins og ég held að eignarskatturinn samkvæmt eignarskattslögunum sé, að hann sé frádráttarhæfur. Og ef svo er, sem mig minnir, vildi ég sem sagt spyrja að því: Hvað veldur því, að stóreignaskatturinn getur ekki verið frádráttarhæfur eins og annar eignarskattur? Stóreignaskatturinn er vitaskuld lagður á eignir eða á að vera, þó að það „fígúruverk“, sem heitir stóreignaskattur núna í löggjöfinni, sé lagt á eignir, sem eru fengnar með fölsuðu mati, vitlausu mati á ímynduðum hag skattgreiðandans.

Ég sagði áðan, að þessi skattur mundi vera mörgum svo þungur í skauti, að þeir hefðu ekki eignir í hann, nema þá láta taka fasteignir eða þau hlutabréf, sem þeir ráða yfir. Þetta átti sér stað líka, þegar skatturinn 1950 var lagður á. Í framkvæmd hans t.d. er snerti verzlunarfyrirtæki og útgerðarfyrirtæki í Eyjum, sem ég var við riðinn, hirti ríkissjóður gamalt pakkhús, sem við áttum, upp í skattinn, og ég sé, að það er núna horfið af sjónarsviðinu, og ég er næsta vonlítill um, að ríkisstjórninni hafi orðið sá matur úr að ná því húsi undir sig eins og út var látið líta, þegar það var tekið. Svona kann að vera á fleiri stöðum.

En að því leyti sem menn, eins og var 1950, tóku þann kostinn að gefa út skuldabréf og veðsetja að einhverju leyti eignir sínar, þá gæti það vitaskuld komið til mála enn að gera það, býst ég við, eða menn mundu kannske heldur vilja gera það, en láta selja ofan af sér húsin, en í lögunum, sem nú eru í gildi um stóreignaskattinn og ég hef hugsað mér að fara fram á breytingu á, er talað um aðeins tíu ára frest og nokkuð háa vexti, 6% vexti. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann vildi ekki vera því meðmæltur, að sá frestur væri lengdur, ef það yrði ofan á í fjhn. Ég mun flytja um það till. þar, en vil leggja þessa spurningu á þessu stigi fyrir hæstv. ráðh., hvort hæstv. ráðh. mundi ekki vilja fallast á að hafa þann frest lengri, t.d. 20 ár, og vextina miklu lægri, t.d. 3% vexti eða eitthvað því um líkt, því að það er sannarlega þess vert fyrir ríkið að tryggja sér, að það fái eitthvað upp úr þessu, sem verið er að burðast með hér í löggjafarformi, að ríkið hafi þá eitthvað upp úr því annað, en bara að koma einstökum mönnum á kné.

Ég tók fram, að mér vitanlega hafa engir fagnað þessum stóreignaskatti opinberlega aðrir en kommúnistar og svo hv. miðstjórn Framsfl., sem sýnir þann andlega skyldleika, sem er á milli forustumanna beggja þessara háttvirtu flokka.

Ég skal svo ekki tefja umr. meira að þessu sinni, en vildi gjarnan heyra álit hæstv. ráðh. um þetta, sem ég hef spurt um, og þó sérstaklega um það, hversu viðmælandi hann vildi láta sína flokksmenn vera um mildandi breytingar á þessari löggjöf á þann hátt, sem ég hef nú komið auga á enn þá, en það getur vel verið á fleiri stöðum, sem ég hef ekki kynnt mér eða ekki séð, sem breytinga þurfi á stóreignaskattinum, eins og hann er í lögum frá síðasta ári.

Ég mun þá bíða átekta í bili og heyra álit hæstv. fjmrh., sem má segja að fór um borð í þessa stjórnarskútu með það merki uppi að leysa úr efnahagsvandræðum landsmanna og hefur nú í sérstakri velþóknun kommúnista leyst þennan hnút eða komið í framkvæmd þessu eignaráni, en eigandi eftir allt á öllum sviðum snertandi önnur mál, til viðreisnar efnahagslífi þjóðarinnar.