06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

131. mál, samvinnufélög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mér virðist hæstv. ráðh. fara í kringum þá spurningu, sem ég lagði fyrir hann. Ég spurði beint: Hvaða áhrif hefur þetta frv., ef að lögum verður, á skattgreiðslu samvinnufélaga? Þessu svaraði ráðh, ekki, heldur kom með alls konar útúrdúra. Hæstv. ráðh. sagði í sinni frumræðu, að samvinnufélögin væru einu félögin, sem lögum samkvæmt er skylt að leggja í varasjóð. Þetta er rétt. En hann gat þess ekki, hæstv. ráðh., að þetta eru einu félögin, að ég hygg, þar sem skattgreiðslan er miðuð við varasjóð. Og það er þetta, sem máli skiptir í þessu sambandi. Ef kippa á þessum grundvelli burt, þá hlýtur að verða að gera breytingu á hinum almennu skattalögum, ef það á að koma fram, sem hæstv. ráðh. gefur hér í skyn, að samvinnufélögin eigi að lúta sömu reglum um skattgreiðslu og önnur félög. Það er alveg rétt, að samvinnufélögunum er skylt að leggja hundraðsgjald af veltu, 1%, í varasjóð. 2/3 þessa eru skattskyldir samkvæmt núgildandi reglum. Með þessu frv. er hins vegar lagt á vald félaganna sjálfra, hvort þau leggja nokkurn eyri í varasjóð, — ef það eru félög, sem eingöngu skipta við félagsmenn, — eða ekki. Það þýðir vitaskuld að óbreyttum lögum að öðru leyti, að þessi samvinnufélög verða skattfrjáls í ríkissjóð. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ég vil, að þetta komi skýrt fram, að það sé ekki farið í neinn feluleik með þetta. Er það meiningin að gera þessi samvinnufélög skattfrjáls í ríkissjóð eða ekki? Það er þetta, sem máli skiptir. Allt annað eru málalengingar, sem koma ekki þessu máli við. Félögin þurfa ekki annað, en leggja í stofnsjóð, og stofnsjóður er skattfrjáls. Þetta er þungamiðja þessa frv.