25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í þessu frv. eru nokkur höfuðatriði, sem ég vildi leyfa mér að gera stutta grein fyrir við þessa 1. umr. málsins.

Þá er þess fyrst að minnast, að þegar skattalöggjöfin var til heildarendurskoðunar um árið, var lokið við þann kafla löggjafarinnar, sem fjallaði um skattgreiðslur einstaklinga, en aftur á móti varð ekki lokið þá að endurskoða þann kafla laganna, sem fjallaði um skattgreiðslur félaga. Að vísu var sá kafli einnig endurskoðaður af þeim mönnum, sem áttu þá sæti í n. til þess að íhuga skattamálin, en það mál komst ekki svo langt, að hægt væri að byggja upp nýja löggjöf um félagaskattinn. Þetta mál hefur verið til athugunar síðan, og er nú að finna í þessu frv. till. um úrlausn í þessu efni.

Það er enginn vafi á því, að mikil nauðsyn er á, að fjölbreytni aukist í atvinnulífi landsmanna, m.a. þarf iðnaðurinn að taka vexti í mörgum greinum. Mörg af þeim verkefnum, sem þarf að taka fyrir, eru stór, til þeirra þarf mikið fjármagn, og það þurfa víða að koma til samtök margra og félagsskapur til þess, að þau geti orðið leyst.

Vafalaust er æskilegast, að sem flestir geti orðið beinir þátttakendur í atvinnurekstri og framleiðslu á einhverja lund. En þegar verkefnin eru stórfelld og stórfelldari en svo, að einstaklingar ráði vel við þau, þá verða menn að leggja saman í eitt fé og atorku, til þess að vel megi fara. Mörg af þeim verkefnum, sem óleyst eru, eru þannig vaxin, að æskilegt væri að leysa þau með mjög almennri þátttöku í félögum.

Enginn vafi er á því, að skattalöggjöfin hefur veruleg áhrif á atvinnumálin. Í nútímaþjóðfélagi hefur það mjög mikla þýðingu t.d., hvernig félög eru skattlögð. Við höfum undanfarið haft hér mjög stighækkandi skatta á félögum, einkum síðan 1940, að lögleiddur var stríðsgróðaskatturinn. En þessi tilhögun hefur ekki gefizt vel. Í fyrsta lagi hefur þessi tilhögun gert mjög erfitt fyrir um fjármagnsmyndun yfirleitt í félögum, allt of erfitt fyrir. Í annan stað hefur þessi mjög stighækkandi skattur á félögum fælt frá því að stofna myndarleg félög til þess að glíma við örðug verkefni. Þessi háttur hefur líka ýtt undir menn að dreifa efnahagsstarfseminni í mörg smærri félög, og hefur þetta vafalaust orðið til baga. Reynt hefur verið að bæta úr þessum ágöllum, sem menn hafa komið auga á, með því að leyfa mjög ríflegar fyrningarafskriftir á vissum þýðingarmiklum tækjum, sem þarf að kaupa til atvinnurekstrar. En þótt það sé mjög þýðingarmikið og geri mikið gagn að leyfa slíkar ríflegar fyrningarafskriftir til þess að byggja þannig upp fjármagn, þá er það ekki fullnægjandi. Meira að segja getur farið svo, ef ákaflega langt er gengið í því efni, en skattalög hörð að öðru leyti, að það ýti jafnvel undir ýmsa óeðlilega fjárfestingu. Og félög, sem eru að byggja sig upp og hafa lítið fjármagn í byrjun til að kaupa fyrir atvinnutæki og litinn aðgang að lánsfé, fá ekki notið þeirra hlunninda, sem fyrningarafskriftirnar veita, vegna þess að þau komast ekki yfir tækin, sem leyft er að afskrifa ríflega.

Eins og ég gat um áðan með örfáum orðum, hafa þessi mál verið alllengi í athugun, sérstaklega á vegum fjmrn. Þessi athugun hefur tekið langan tíma, því að málið er mjög vandasamt viðfangs og margir erfiðleikar hafa reynzt á leiðinni. Hér hefur einnig blandazt inn í, að auk hinna mjög stighækkandi skatta, sem hafa verið lögleiddir til ríkissjóðs og sveitarfélaga sameiginlega með stríðsgróðaskattslögunum, hefur lengi tíðkazt hér að leggja á til tekjuöflunar, fyrir sveitar- og bæjarfélög, svokölluð veltuútsvör. Og þetta veltuútsvaramál hefur alla tíð blandazt inn í þetta efni og gert það enn torveldara viðfangs, en ella hefði verið. Það má segja, að vandamálið hafi verið tvíþætt: annars vegar, hvernig skattleggja skyldi félögin til ríkissjóðs, og hins vegar, hvernig skattleggja skyldi þau til sveitarfélaganna. En það hefur æ betur og betur komið í ljós, eftir því sem meira hefur verið unnið að þessu máli, að það er ákaflega vafasamt að bíða með það að stíga nokkurt skref í þessu máli, þangað til hægt verður að leysa báða þætti þess. Það liggur í því, að til þess að leysa veltuútsvaramálið þarf að endurskoða fjárhagsgrundvöll bæjar- og sveitarfélaga, og það hefur mjög glöggt komið í ljós, að það er ekki létt verk. Þess vegna hef ég að þaulathuguðu máli og þeir, sem með mér hafa mest verið til ráðuneytis um þetta mál, og ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að afnema nú stighækkandi skatt á öllum félögum, og ættu þá félögin að greiða jafnan hundraðshluta af tekjum sínum öll saman. Hefur það orðið að ráði að beita sér fyrir þessari lausn á vandamálinu, enda þótt veltuútsvaramálið sé þá að sjálfsögðu ekki leyst um leið, eins og þetta frv. ber með sér.

Fyrir þessari breytingu sýnast vera mjög skynsamleg rök auk þeirra, sem ég hef raunar þegar drepið á. Það er í fyrsta lagi, að stærri félög verða óstarfhæf eða lítt starfhæf, ef stighækkun er mjög veruleg, því að þau þurfa að eignast fjármagn, eins og ég hef drepið á, en geta ekki að ráði safnað fjármagni, ef stighækkunin er jafnstórfelld og hún var lögleidd 1940. Þá kemur einnig til, að stighækkandi skattur kemur til hjá einstaklingunum, þegar arði er úthlutað úr félögunum.

Ég gat þess áðan, að í þessu frv. væri ekki fjallað um veituútsvörin, og það mál er þá óleyst eftir sem áður, því að það kostar endurskoðun á fjármálum bæjar- og sveitarfélaga, en slíkt hefur ekki reynzt neitt áhlaupaverk, eins og ég tók fram. En hér var um tvennt að ræða, annars vegar að láta allt óbreytt enn um óákveðinn tíma varðandi skattlagningu félaga, þótt aðkallandi nauðsyn væri á því að breyta skattstiganum til ríkisins, eða þá að taka þennan mikilvæga þátt, þ.e.a.s. skattgreiðslurnar til ríkisins, út úr til úrlausnar út af fyrir sig og gera ný lagaákvæði um það, hvernig félög skuli greiða skatt til ríkisins, leysa þann merka áfanga sér í lagi. Og eftir að hafa glímt við þetta mál nú missirum og raunar árum saman, hikaði ég ekki við að taka þennan kost, þegar ég fann, að það mundi vera hægt að fá fylgi fyrir skynsamlegri úrlausn. Því er það, að nú liggur þetta frv. hér fyrir, þar sem gert er ráð fyrir þessu nýmæli, að í stað hinna mjög stighækkandi skatta á félögin verði lagður á þau einn skattur, hlutfallslega jafn á félögin öll.

Ég skal geta þess, að við höfum fylgzt allvel með í því, hvað gerzt hefur í þessum málum annars staðar undanfarið, og rétt er að taka það fram, eins og raunar er gert í grg., að í Noregi og Svíþjóð hefur nú sá háttur verið upp tekinn, sem gert er ráð fyrir að hér verði framvegis um skattlagningu á félög, en í Danmörku er að vísu nokkuð annar háttur á hafður, þótt þar sé ekki sami háttur eins og hér var. Í Danmörku greiða t.d. hlutafélögin skatt eftir því, hversu hagnaður þeirra er hár samanborið við innborgað hlutafé. Ég hika ekki við að láta í ljós þá skoðun, að ég tel hér um mjög merkilegt nýmæli að ræða.

Þá vil ég næst greina frá, að í þessu frv. eru ný ákvæði um lækkun skatta á lágum tekjum, en eins og hv. þm. vafalaust rekur minni til, þá var lögfest lækkun á skatti á lágum tekjum hér í fyrra, en nú er gert ráð fyrir að lækka þennan skatt enn meira, en þá var ákveðið, og eru nýmælin þau, að í staðinn fyrir 331/3% lækkun á að koma 50% lækkun, og gert er ráð fyrir því, að tekjuhámarkið sé miðað við 55 þús. kr. hreinar tekjur hjá hjónum með tvö börn, en í fyrra var miðað við 47.500 kr. hreinar tekjur hjóna með eitt barn á framfæri.

Þá er í því sambandi leiðrétt óeðlilegt þrep, sem varð í skattstiganum í fyrra við þessar breytingar og ýmsir bentu þá á, en tóm vannst ekki til þess að laga þá.

Þessi breyting kemur hv. þm. vafalaust ekki á óvart, því að ríkisstj. hafði lýst því yfir, að hún mundi beita sér fyrir frekari lækkun á skatti á lágum tekjum, en orðinn var.

Þá eru ákvæði í frv, um að auka þann sérstaka frádrátt, sem fiskimönnum er heimilaður í skattalögunum, og hækka hann úr 500 kr. á mánuði upp í 850 kr. á mánuði. Þessi frádráttur er veittur fiskimönnum umfram þann frádrátt, sem þeir hafa vegna sjófatakostnaðar, eins og hv. þm. vafalaust kannast við, og rökin fyrir þessum sérstaka frádrætti fiskimönnum til handa umfram aðra eru þau fyrst og fremst, að þeir eru langvistum fjarverandi frá heimilum sínum og geta því alls ekki unnið fyrir sjálfa sig neitt líkt við það, sem aðrir geta við komið, sem að staðaldri starfa heima hjá sér. Eins og við vitum, þá er því þannig varið, að langflestir vinna sér mjög mikið til hags í frístundum sínum heima við, og þær tekjur þurfa þeir, ef þeir vinna að byggingum t.d., ekki að telja með skattskyldum tekjum. Fiskimenn geta yfirleitt alls ekki komið þessu við. Er litið svo á af þeim, sem standa að þessu máli, að með þessu sé verið að jafna þann aðstöðumun.

Loks vil ég minna á, að í frv. eru ný ákvæði um eignarskatt. Þegar ákveðið var að gera nýtt fasteignamat, var um leið sett í lög, að breyta skyldi sköttum þannig, að skattabyrðin í heild ykist ekki við það, að fasteignamatinu væri breytt. Í samræmi við þetta eru hér till. um eignarskattinn, þar sem skattstiganum er breytt þannig, að gert er ráð fyrir því, að hann gefi í heild til ríkisins jafnmikið og áður þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins. Verður þá nýja fasteignamatið aðeins til þess að auka samræmið í því, hvernig eignarskatturinn kemur niður. En eins og við vitum, var áður í því geysilega mikið ósamræmi, því að menn urðu að telja meginhluta eigna sinna, aðrar en fasteignir, fram með nokkurn veginn gangverði, en fasteignirnar voru áður taldar langt undir verði.

Loks vil ég minna á, að enn eitt veigamikið atriði er í athugun varðandi skattalöggjöfina, og það eru skattgreiðslur hjóna eða samsköttun hjóna, en þeim athugunum er ekki að fullu lokið. Það mál er þannig vaxið, að það þarf að athugast í sambandi við tekjuöflun til að mæta rýrnun á skatttekjum ríkisins, sem verulegar breytingar á lögum um þetta efni mundu hafa í för með sér, og það er af þessum ástæðum, sem það atriði er ekki með í þessu frv.

Ég hef þá greint frá höfuðatriðum málsins og vildi leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.