12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

5. mál, tollskrá o. fl

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég er ekki á móti því, að byggð sé tollstöð hér í Reykjavík, því að á því er mikil nauðsyn, enda er tollafgreiðsla hér, svo að vægt sé til orða tekið, mjög óviðunandi, og afgreiðsla á tollpappírum gengur miklu seinna, en vera ætti.

En það er svo annað mál, að gerð sé ráðstöfun til þess að byggja tollstöð, og hitt, hvernig fjár er aflað til þess að reisa hana. Hér færist sá ósiður stöðugt í vöxt, að tekna sé aflað í sérstöku skyni með því að mynda nýja liði í tollafgreiðslu innfluttra vara. Þetta er sú aðferð, sem hefur verið notuð nú aðallega síðustu tvö árin til þess að innheimta það fé í ríkissjóð, sem þurft hefur til þess að standa undir meðgjöfinni með útflutningsatvinnuvegunum. Þetta eru fylgifiskar verðbólgu í öllum löndum, og þetta er bezta lýsingin, sem hægt er að fá á sjúku fjármálaástandi.

Hérna eykst fjölbreytnin í innheimtu tolla frá ári til árs, og tollheimtan er í svo mörgum liðum og orðin svo flókin, að fáir menn skilja í henni. Það minnir mann á viturlega samlíkingu, sem einn hv. þm. gerði hér einu sinni. Hann sagði: það er spýta og svo kemur spýta og svo er spýta í kross. Þetta er nákvæm lýsing á tollakerfinu hjá okkur í dag. Þetta minnir dálítið á það ástand, sem var hjá Bretum í byrjun 19. aldarinnar eða í lok átjándu aldarinnar, þegar þeir áttu í stríði við Napóleon. Þá var orðið svo bágborið fjármálaástandið hjá þeim, að það er talið, að þeir hafi þá haft 68 mismunandi tollliði, og til dæmis hefur verið tekið, að átta mismunandi tollar hafi verið á vörum eins og hnetum. Þetta er ákaflega ljós lýsing á því, þegar fjármálakerfið er orðið sjúkt og komið út í öfgar. Það er það, sem er að gerast hér. Ef okkur vantar peninga til að greiða eitthvað sérstakt, þá er bætt nýjum lið í tollalögin.

Þetta getur náttúrlega ekki gengið til lengdar. Og það eina skynsamlega, sem hægt væri að gera og ætti að gera, er að vinda þegar í stað bug að því að gera allt þetta kerfi einfaldara og koma því á heilbrigðan grundvöll, en láta ekki landsmenn vera að dragast með þetta flókna og erfiða kerfi ár eftir ár með nýjum viðbótum á hverju ári.

Ég verð að segja það, að mér finnst, að vel megi taka tillögu hv. 1. þm. Reykv. (BBen) inn í með þessari till., sem hér liggur fyrir, að þetta gjald renni líka til byggingar lögreglustöðva og fangahúsa, því að þó að mikil nauðsyn sé á því, að byggt sé yfir tollgæzluna hér í Reykjavík, þá er ekki minni nauðsyn á því að veita þessum framkvæmdaaðila í þjóðfélaginu viðunandi vinnuskilyrði.

Ef hæstv. fjmrh. fyndist of lítið, að 1% gengi til þess að greiða hvort tveggja, þá geri ég ekki ráð fyrir, að honum yrði neitt flökurt, þó að liðurinn yrði færður upp í 2%, og gæti þá hvor framkvæmdin um sig fengið 1 % til þess að tryggja þessar nauðsynlegu byggingar.