16.05.1958
Neðri deild: 99. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru vissulega mörg atriði, sem hafa komið hér fram, sem fróðlegt væri að gera að umtalsefni, en ég skal reyna að takmarka mig við nokkur atriði aðeins til þess að lengja þessar umræður ekki allt of mikið.

Því miður missti ég af verulegum hluta af ræðu hæstv. sjútvmrh., og þótti mér það leitt, því að mér hefði þótt mjög fróðlegt að heyra hann skýra frá því, hvaða atvik hafa valdið því, nú á tveimur mánuðum, frá því í marzlok, að hann ritaði grein sína í Þjóðviljann, þar sem hann upplýsti, að aðeins vantaði 90 millj. kr. til þess að leysa allan þann vanda, sem við væri að glíma, bæði varðandi ríkissjóð og útflutningssjóð, og þar til þetta frv. nú kemur hér fram, að þar er æði miklu öðru til að dreifa. Þar er gert ráð fyrir stórkostlegri viðbótartekjuöflun fyrir bæði ríkissjóð og útflutningssjóð, sem — eins og áður hefur verið greint frá — nemur samtals í nýjum álögum 790 millj. kr., en felur að vísu ekki í sér aukna þörf sjávarútvegsins eða útflutningsatvinnuveganna sem því nemur, en þó er samkvæmt þeim skýrslum, sem fyrir liggja, gert ráð fyrir því, að til þess að leysa þarfir ríkissjóðsins annars vegar þurfi hann að fá 144 millj. kr. í staðinn fyrir þær 25 millj., sem var áætlað að hann þyrfti fyrir 2 mánuðum, og gert er ráð fyrir því, að útflutningssjóður þurfi einnig stórkostlega nýja tekjuöflun, eða rúmar 300 millj. kr. Þessi stórkostlega breyting, sem verður á þessu örstutta tímabili, er ákaflega eftirtektarverð, og það hefði því verið mjög fróðlegt að heyra skýringar hæstv. ráðh. á þessu fyrirbrigði. Að vísu skilst mér á ýmsum þm., sem hlýddu á ræðu hans, að það hafi farið lítið fyrir því, að þessi skýring væri gefin. En þegar svo er ástatt, að sjálfur sjútvmrh., sem á að sitja inni með manna mestan fróðleik um vandamál útflutningsframleiðslunnar, lætur frá sér fara slíkar tölur eins og hann gerði í marzlok og síðan aftur samþykkir og berst mjög ötullega fyrir frv. sem þessu, þá hlýtur það að vekja talsvert mikla undrun, því að það er ekki sjáanlegt, hvaða atvik hafa gerzt nú á tveimur mánuðum, sem valda því, að þessar tölur þurfi að margfaldast. Allar upplýsingar um þetta efni hljóta að hafa legið fyrir hæstv. ráðh., þegar hann ritaði sína frægu grein í Þjóðviljann, þar sem hann upplýsti, að hér væri í rauninni ekki við neinn vanda að glíma. En í dag, tveimur mánuðum seinna, er þetta orðið svo stórkostlegur vandi, að til þess að leysa hann þarf að leggja á landslýðinn 790 millj. kr.

Ég skal ekki nánar út í þessa sálma fara, en það var eitt atriði, sem ég hjó eftir í ræðu hans, sem mér þótti einkennilegt og get ekki séð, hvernig fær staðizt. Hann hélt því fram, að tekjur framleiðslusjóðs hefðu orðið meiri, en ætlað var, eða 175 millj. kr. Hins vegar taldi hann tekjuaukann af jólagjöfinni í fyrra ekki nema 130 millj. Þetta verða samtals 305 millj. kr. Samkvæmt þeirri áætlun, sem hins vegar liggur fyrir um tekjur útflutningssjóðs eftir núgildandi kerfi, er gert ráð fyrir, að þær tekjur nemi 508 millj. Hvaðan þessar 200 millj. eru komnar, það virðist vera hulinn leyndardómur, hvernig þær hafa yfirleitt fengizt, að það væri mjög fróðlegt að heyra skýringar á því atriði.

Hæstv. sjútvmrh. endurtók hér ummæli sín um það frá því í fyrrinótt, að Sjálfstfl. hefði í rauninni kollvarpað stöðvunarstefnunni, vegna þess að hann hefði efnt til verkfalla, sem hefðu haft slæmar afleiðingar og orðið til þess að kalla yfir þjóðina það frv., sem hér liggur fyrir nú. Ég vék nokkuð að þessu í ræðu minni í fyrrinótt og sé ekki ástæðu til að endurtaka þær röksemdir mínar þá, en hann sagði eitt atriði í þessu sambandi, sem mér þætti fróðlegt, ef hann vildi upplýsa nánar um. Hann sagði, að hvað eftir annað hefði í Morgunblaðinu verið egnt til verkfalla. Ég vildi gjarnan, að hann tilfærði ummæli í Morgunblaðinu, þar sem egnt hefði verið til verkfalla.

Það, sem gert var, var, — eins og áður hefur verið hér skýrt frá, — að í Morgunblaðinu var sagt frá því, þegar kjarasamningum var sagt upp, og frá þróun þeirra vinnudeilna, sem urðu. En það er eitt ákaflega einkennilegt fyrirbrigði, sem hefur gerzt í sambandi við þessa hæstv. ríkisstj. og er ekki eingöngu í sambandi við þessar vinnudeilur, heldur ótalmargt annað, sem gerist, og það er það, að ekki hefur mátt segja yfirleitt frá neinu, sem hana hefur varðað.

Ég man t.d. eftir því, að það var mjög fundið að því í einu stjórnarblaðinu og talið, að það væri verið að rægja þjóðina á erlendum vettvangi, af því að það var sagt frá því í Morgunblaðinu, að hæstv. forseti þessarar deildar hefði tekið sæti í einni nefnd. Og það var talið, að verið væri að reyna að spilla fyrir Íslandi með því að skýra frá þessu. Ég get nú sannast sagna ekki skilið, að það hafi neitt spillt fyrir Íslandi, þó að það væri gert, og segi a.m.k., að ef það er svo, að ríkisstj. hafi þar verið að spilla fyrir Íslandi, þá held ég, að það sé ekki Morgunblaðsins sök, þó að það hafi sagt frá því, heldur náttúrlega þess aðila, sem verknaðinn fremur. En þetta hefur verið svona í ótalmörgum tilfellum, að það hefur ekki mátt segja frá því, sem hefur verið að gerast, þá hefur það verið talið að gera ríkisstj. bölvun eða þjóðinni ógagn, annaðhvort inn á við eða út á við. Eitt af því, sem aldrei hefur mátt segja frá núna, er það, ef einhver verkalýðsfélög hafa sagt upp sínum samningum. Það þótti ekki áður fyrr, þegar aðrir menn voru hér við völd, neinn óskaplegur glæpur, þó að sagt væri frá uppsögn samninga og jafnvel ýtt töluvert á eftir því, að það væri ekki látið sitja við uppsögnina eina, heldur æði ríflegar kröfur gerðar líka, Þá þótti það sjálfsagt. En það er eins og margt annað, sem áður þótti harla gott hjá þessum ágætu mönnum, að það þykir nú, eftir að þeir eru komnir í valdastóla, hin mesta óhæfa.

Hitt atriðið er auðvitað mjög lærdómsríkt fyrir okkur sjálfstæðismenn og ekki síður lærdómsríkt fyrir hæstv. ríkisstj., ef svo er nú komið, að við sjálfstæðismenn ráðum verkalýðssamtökunum, en þeir aðilar, sem hingað til hafa talið sig verkalýðsflokka, verða þar alveg undir og þeirra stefna bíður slíkt skipbrot, að þeir verða að falla frá henni vegna þess, hvað við séum áhrifaríkir í verkalýðsfélögunum.

Ræða hæstv. fjmrh. var fyrir ýmissa hluta sakir fróðleg. Hann taldi, að með þessu frv. væri mjög stefnt í rétta átt. En ég get ekki betur séð, ef það er rétt hjá honum og hans raunveruleg skoðun, að með þessu frv. sé stefnt mjög í rétta átt, og hann fordæmdi mjög það, sem áður hefur verið gert í þeim efnum, að þá hafi það, sem gert var í fyrra, verið mesta hringavitleysa, því að eftir hans skilgreiningu eru þær ráðstafanir allt annars eðlis og hljóta einmitt að hafa verkað í öfuga átt, skapað erfiðleika fyrir atvinnuvegina og þar fram eftir götunum, sem hann átaldi svo mjög. Ég skal ekkert mótmæla því, að þær ráðstafanir hafi verið rangar. En því í ósköpunum voru þær þá gerðar og barizt fyrir því af jafnmiklum áhuga eins og hæstv. fjmrh. þá líka barðist fyrir þeim ráðstöfunum?

Og það er ekki nóg með það, að það hafi verið þá af ríkisstj. valin sú ranga leið, heldur skildist mér eftir ræðu hans, að þeir hefðu verið reiðubúnir í haust líka til að velja þessa sömu röngu leið, því að þá sagði hann, að það hefði verið uppi sú skoðun hjá ríkisstj. að leysa vandann eftir nákvæmlega sömu aðferðum, þ.e.a.s. með því að auka eitthvað uppbætur og ná því upp með álagningu á hátollavörur, sem hlyti að hafa aukið stórkostlega erfiðleika atvinnuveganna, sem hann lýsti hér mjög í sinni ræðu. Þetta kemur manni nokkuð einkennilega fyrir sjónir, að það skuli ekki hafa verið fyrr, en núna alveg síðustu vikur eða mánuði, sem ríkisstj. datt í hug að taka upp stefnu, sem gæti haft eitthvert gagn fyrir atvinnulífið í landinu.

Ég get svo ekki stillt mig um að svara hæstv. félmrh. nokkrum orðum. Ræða hans mundi verðskulda, að það væri farið um hana nokkuð mörgum orðum, því að hún var á margan hátt mjög eftirtektarverð, ekki fyrir þá sök, að hún hefði inni að halda svo sérstaklega sterkar röksemdir fyrir því máli, sem hér liggur fyrir, en það voru mörg önnur atriði í ræðunni, sem eru lærdómsrík og sérstaklega merkileg samanborið við fyrri tíma og það ekki fyrir alllöngu.

Hæstv. félmrh. átaldi mjög hv. þm. G-K. fyrir það, að hann hefði verið á móti þeirri aðstoð, sem gert væri ráð fyrir í þessu frv. Það er vissulega misskilningur hjá hæstv. félmrh., að hv. þm. G-K. hafi verið á móti þeirri aðstoð, sem veitt er í frv. Það er síður en svo, og ég hygg, að það sé ekki hægt með neinum rétti að halda því fram, að sá hv. þm. hafi ekki bæði nú og endranær fullan skilning á þörfum atvinnuveganna og vilji leggja sitt lið til þess að halda þeim gangandi. Hitt er annað mál, að hann taldi marga galla vera á þessu frv. að öðru leyti, eins og við sjálfstæðismenn yfirleitt teljum, en það var ekki vegna þess, að hann teldi ekki nauðsynlegt að gera nægar ráðstafanir til þess að halda útflutningsframleiðslunni gangandi. Og þá mætti jafnframt spyrja að því þennan hæstv. ráðh., hvort afstaða verkalýðsforingjanna, sem hann er mjög nátengdur sem forseti Alþýðusambandsins og voru á móti þessu frv., hafi mótazt af andstöðu gegn því að halda atvinnulífinu í landinu gangandi. Ætli það hafi ekki verið af öðrum ástæðum, sem þeir lýstu andstöðu sinni gegn frv., vegna þess að þeir hafi ekki talið, að þetta væru skynsamlegar ráðstafanir til þess að ná þeim árangri? En þetta vekur hjá manni aðra hugsun, þegar hæstv. félmrh, er að tala um erfiðleika atvinnuveganna og talar mjög fjálglega um, að það verði að rétta þeim hjálparhönd, og vitir það mjög, að menn séu að vega að þeim og vilji ekki styrkja þá nægilega til þess að geta starfað á eðlilegum grundvelli. Hefur hæstv. ráðh. hugleitt það í alvöru, hver það er, sem muni eiga manna mesta sök á erfiðleikum þeim, sem nú er við að glíma og þessi hæstv. ríkisstj. og hann sjálfur eru nú að glíma við? Ég held, að hann hafi ekki íhugað það nægilega, vegna þess að ég efast um, að það sé nokkur maður, sem eigi þar meiri sök, en hann. Það nefnilega vill svo til, að ég hygg, að hann hafi átt æði mikinn hlut að verkfallinu mikla 1955, sem er mesta óhappavinnudeila, sem hér hefur verið háð, vegna þess að hún var ekki byggð á þeim grundvelli að reyna að bæta lífskjör almennings, heldur beinlínis háð út frá pólitískum forsendum. Og það eitt er næg sönnun þess, að í þeirri vinnudeilu voru gerðar slíkar óheyrilegar kröfur um launahækkanir, að það náði ekki nokkurri átt, og getur enginn með heilbrigða skynsemi látið sér detta í hug, að það væri neinn grundvöllur undir slíkum kröfum, heldur væri þeim ætlað að koma atvinnulífinu úr jafnvægi. Ég veit, að það hefur ekki verið vilji verkalýðsins almennt, að sá yrði árangurinn af þessari baráttu, en það getur naumast hjá því farið, að þeir menn, sem leiddu þá baráttu, hafi gert sér fulla grein fyrir því, hvað þeir voru að gera og hverjar afleiðingarnar yrðu. Ég hygg líka, að það sé almenn skoðun í dag, — innan verkalýðssamtakanna einnig, — að þessi vinnudeila hafi verið þeim mesta óhappaverk, og það er eitt víst, að hefði hún ekki verið háð, þá stæðum við ekki frammi fyrir þeim bjargráðum, sem liggja fyrir okkur nú hér á þessari stundu. Þetta held ég, að væri mjög æskilegt fyrir hæstv. félmrh. að íhuga, áður en hann fer að átelja aðra fyrir að vilja ekki leysa vandamál atvinnuveganna og tala mjög fjálglega um vandræði þeirra og hvað sé leiðinlegt, að það sé ekki hægt að reka þá með skynsamlegu móti.

Eitt upplýsti þessi hæstv. ráðh., sem mér fannst ásamt öðru merkilegt í hans ræðu. Hann sagði, að allar vísitöluvörurnar, þ.e. nauðsynjavörur almennings, væru í 30% yfirfærslugjaldsflokki. En hvað haldið þið, að þessar nauðsynjavörur séu há upphæð? Jú, það eru 70 millj. kr. Þetta eru lífsnauðsynjar fólksins í landinu af 14–15 hundruð millj. kr. innflutningi. Innflutningurinn er nú töluvert miklu meira, en þúsund milljónir, ég þori ekki nákvæmlega að fara með töluna, en það skiptir ekki máli, jafnvel þó að hann væri ekki nema þúsund, en hann er nú meira. Ef lífsnauðsynjar almennings eru ekki nema 70 millj. af þessum, ja, við skulum segja 1000–1100 millj., svo að ég taki þá tölu, sem hæstv. ráðh. vill halda sér að, hljómar þetta þá ekki næsta einkennilega? Ég held, að þá hljóti að vakna sú hugleiðing hjá manni, hvort það sé mögulegt, að lífsnauðsynjar fólksins í landinu séu ekki stærri hluti, en þetta af innflutningnum, og það liggur a.m.k. fyrir, að það kemur ekki meira inn í vísitöluna, en þetta innflutningsmagn. Ég skal satt að segja játa það, að ég hef ekki íhugað þessa tölu, en mér þótti hún mjög eftirtektarverð, þegar hún var sögð, því að það hlýtur að vekja hjá okkur miklar efasemdir um það, hversu haldgóð þessi vísitala er til þess að sýna eðlilega þróun framfærslukostnaðarins. Að vísu eru nú ýmsir hlutir kallaðir af hæstv. ráðherrum lúxus, sem ég held að hljóti að verða að teljast nauðsynjavara, t.d. sagði einn hæstv. ráðh, í dag, að hann teldi silkisokka vera lúxus. Ég held, að þetta sé nokkuð mikið sagt. Ég veit ekki, hvort hann ætlast til þess, að kvenfólkið gangi allt berfætt eða kannske í duggarabandssokkum, að það eigi að taka það upp aftur. Ég hef hingað til haldið, að það væri talið til nauðsynjavöru að vera í sokkum, en það fer kannske ekki að verða það úr þessu. Það kann vel að vera, að það verði ýmislegt, sem fólkið verður líka að vera án, ef þessi hæstv. ríkisstj. verður lengi áfram við völd, — kannske fleira en sokkarnir, sem verður að kasta.

Hæstv. félmrh. sagði, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, væri ákaflega einfalt, Ég spyr nú bara: Ef málið er svona einfalt, yfir hverju hefur ríkisstj. setið alla þessa mánuði? Er hún þá svona miklu einfaldari en málið, að hún hafi alls ekki getað komizt að nokkurri niðurstöðu, þrátt fyrir það þó að málið væri svona einfalt? Ég hef satt að segja haldið, að efnahagsmálin væru töluvert flókin. En það er gott og blessað, ef þau eru allt í einu orðin svona auðveld viðureignar. En mjög hefði þá verið æskilegt, að það hefði verið hægt að sjá framan í þessi bjargráð fyrr.

Þá kem ég að því atriðinu, sem hæstv. félmrh. eyddi mörgum orðum að, en það var samráðið við verkalýðshreyfinguna. Ég vil fyrst leiðrétta það, sem hann sagði hér um ummæli hv. þm. G-K., þar sem hann taldi, að hann hefði verið á móti því að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Það er alrangt. Hann sagði, að það væri sjálfsögð nauðsyn á hverjum tíma að hafa vinsamleg samskipti við launþegasamtökin. En það, sem hann átaldi og allir hljóta að átelja, hvort sem þeir eru innan launþegasamtakanna eða utan þeirra, — einnig þeir, sem eru innan þeirra, því að það eru svo fráleit vinnubrögð, — er það, að sett skuli vera upp aukaþing úti í bæ, sem gerir út um það, hvort tiltekin mál séu lögð fyrir Alþ., og það er verið að birta manni ályktanir í blöðum, þar sem er tekin afstaða til einstakra mála, t.d. skattamála o.fl. mála, sem er sagt að eigi að lögfesta á Alþ. og hafa ekki einu sinni verið lögð fram á þinginu. Þetta eru auðvitað svo fráleit vinnubrögð, að það tekur ekki nokkru tali að leyfa sér að viðhafa þau, og það er vissulega hægt að hafa samráð við bæði verkalýðshreyfinguna og önnur stéttasamtök í landinu án þess að taka upp þau vinnubrögð að gera þau eða önnur stéttasamtök að yfirþingi í landinu, svo lengi sem við höfum hér þingbundna stjórn. Þetta sýnir ekki á nokkurn hátt neina vantrú á verkalýðssamtökunum sem slíkum eða fjandskap til þeirra.

En svo kom að kjarna málsins hjá hæstv. félmrh. og það var að rökstyðja það hér, hvað verkalýðssamtökin væru full af velvilja til þessa máls, sem hér lægi fyrir. Og maður skyldi nú halda, að hæstv. félmrh., sem jafnframt er forseti Alþýðusambands Íslands, vissi gerla um þetta mál og a.m.k. mundi hann ekki leyfa sér annað, en að segja alveg nákvæmlega rétt frá öllum atvikum málsins.

Varðandi hið mikla traust verkalýðshreyfingarinnar á hæstv. ríkisstj. nægir e.t.v. að vitna í það, sem mjög áhrifamikill stuðningsmaður ríkisstj. sagði hér í fyrrinótt, hv. 3. þm. Reykv., en hann komst svo að orði, að verkalýðurinn væri að missa traust á ríkisstj. Það eitt út af fyrir sig held ég að sé nægilegt til að sýna, að það er ekki ástæða til þess fyrir hæstv. félmrh. að vera mjög glaðan. En ekki skal ég að vísu hafa neitt á móti því, að hann gleðjist í sínum huga, honum mun ekki af veita, það er svo margt, sem hrellir hann um þessar mundir. En hann féll í þá slæmu gildru að segja alls ekki rétt frá atvikum málsins. Hann hélt því í fyrsta lagi fram, að hv. þm. G-K. hefði sagt, að ályktun sú, sem var endanlega samþ., hefði verið gerð með eins atkvæðis mun. Það er alrangt. Hann sagði, að hún hefði verið samþ. með 16 atkv., 12 setið hjá og einn greitt atkv. á móti. En það var önnur atkvgr., sem fór fram í þessari n. og var eins atkv. munur, en hæstv. félmrh. skýrði ekki frá hér áðan, og það var atkvgr. um till. þeirra fjórmenninganna, sem áður hefur verið skýrt hér frá og hæstv. ráðh. að vísu segir nú að hafi ekki verið sérlega óvinveitt ríkisstj. En ég held, að það felist dálitið annað í ályktuninni sjálfri, því að þar segir svo, — ég sé ekki ástæðu til þess að lesa ályktunina alla, hann vitnaði í einstök atriði hennar, en aðeins taka það atriði, sem hann vildi halda fram að ekki fæli í sér neina sérstaka andstöðu gegn þessu máli, og þar segir svo í niðurlagi þeirrar till.:

„Efnahagsmálanefnd og miðstjórn A.S.Í. vísa því frá sér þeim till. um ráðstafanir í efnahagsmálunum, er nú liggja fyrir, þar sem þær eru ekki í samræmi við það, sem síðasta Alþýðusambandsþing heimilaði þessum aðilum að semja um.“

Þetta er vissulega ekki neitt sérstaklega vinsamleg afstaða til þessara umræddu till. Og hvernig fór svo með þessa till.? Jú, það fór þannig með hana, að flutt var við hana brtt., sem hæstv. ráðh. skýrði frá, en sú brtt. var samþ., þegar hún var borin upp sem Brtt. við áðurgreinda till., með aðeins eins atkv. mun, eða 15:14 atkv., sem var hin raunverulega atkvgr. í n., vegna þess að allur þorri þeirra, sem um þá till. greiddu atkv., sat síðan hjú með þeim rökstuðningi, að þeir hefðu áður mótað sína afstöðu í sambandi við þessa till. og sæju ekki ástæðu til að greiða atkv. um endanlegu till., þannig að þetta er hin raunverulega atkvgr. í n., sem sýnir viðhorfið í n. til málsins. Það er að vísu rétt, að það munaði aðeins einu atkv. Hæstv. félmrh. sagði hér áðan, að hann hefði ekki ráðið úrslitum um það. Ég spyr, hvort hann hafi ekki greitt atkv. um þá till. Ég hygg, að það muni samt vera svo, því að það koma þar fram öll þau atkv., sem þarna áttu að vera, og einu atkv. betur. Þetta er sá mikli stuðningur, sem hæstv. félmrh. segist hafa frá sínum samtökum, Alþýðusambandi Íslands, og þegar þess er gætt, að á bak við þessa 14, sem voru á móti, munu standa um 3/4 hlutar verkalýðshreyfingarinnar, en aðeins um 1/4 hluti á bak við hina 15, þá fer þessi stuðningur að verða mjög vafasamur.

Það voru enn ýmis atriði, sem fram komu hjá hæstv. ráðh., sem mig langar að víkja örfáum orðum að. Hann sagði, að verkalýðshreyfingin hefði oft áður neyðzt til þess að fara í kaupdeilur vegna ósamræmis vísitölunnar við hið raunverulega verðlag. En nú sagði hann, að það væri enginn áhugi hjá verkalýðshreyfingunni annað, en að fá smávægilegar lagfæringar, sér væri kunnugt um, að það væru ekki uppi neinar kröfur í þá átt. Það er sannarlega alltaf gleðilegt að þurfa ekki að standa andspænis alvarlegum kaupdeilum, og því ber að fagna því, ef þær eru ekki nú fram undan. En það, sem mér finnst einkennilegt við þessa afstöðu hjá hæstv. félmrh., er það, að hann taldi ástæðu til þess að fara í vinnudeilu, þegar verðlag hafði verið stöðugt á þriðja ár, og gera kröfur um allt að 70% kauphækkun. Þá var hann að vísu ekki ráðh. En nú, eftir að þessar stórkostlegu álögur hafa verið tvö ár í röð lagðar á þjóðina og reynt með öllum hugsanlegum ráðum að hafa vísitöluna í sem mestu ósamræmi við raunverulega verðlagsþróun í landinu, þá er engin ástæða til þess að hækka kaup. Þá eru góðir menn í stjórn. Og hæstv. ráðh. bætti því við: Hver sem reynir að villa um fyrir verkalýðshreyfingunni fer bónleiður til búðar. — Þá vitum við það.

Það var fleira athyglisvert í ræðu hæstv. félmrh., m.a. um vísitölukerfið. Vísitölukerfið er búið að haldast hér síðan 1940, og nú kemur á daginn, að aðalbaráttumenn fyrir vísitölukerfinu munu hafa verið hálaunamenn, segir hæstv. ráðh. Ég spyr nú: Ef þetta er svona og ef vísitölukerfið er til óhagræðis fyrir verkalýðshreyfinguna, hvernig í ósköpunum stendur þá á, að það hefur ekki verið gerð tilraun til þess af verkalýðshreyfingunni að fá þetta kerfi afnumið? Ég man ekki betur, en ég hafi lesið það í blöðum þeirra flokka, sem telja sig verkalýðsflokka, og þá ekki hvað sízt í blaði, — ja, það er nú kannske of mikið sagt, blaði þess flokks, sem hæstv. félmrh, telur sig til, því að sá flokkur hefur víst ekkert blað, en hann mun eiga innangengt í eitt blað, Þjóðviljann, og það blað birtir ræður hans núna um þessar mundir, hvað lengi sem það verður, og í því blaði hefur, ef ég man rétt, verið ákaflega fast í það haldið, að vísitölukerfið ætti að þróast með eðlilegu móti, og verið deilt harkalega á það, ef það hefur ekki verið talið verka nógu vel og ef nokkurn tíma hafa verið skerðingar á því gerðar, þ.e.a.s. að undantalinni einni skerðingu, sem var gerð, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, Það var góð og nytsöm skerðing að þeirra dómi, en allar fyrri skerðingar höfðu verið alveg óhæfilegar á þessu kerfi. Nú stöndum við andspænis því í dag, að þetta er eitthvert uppátæki hátekjumanna í þjóðfélaginu og forustumenn verkalýðssamtakanna og þ. á m. hinn skeleggi forseti Alþýðusambandsins hafi ekki nokkurn hlut hafizt handa um að fá þessu breytt fyrr en núna, að hann er að hugsa um að láta ræða það á Alþýðusambandsþingi í haust, hvort ekki sé bezt bara að hætta við þetta allt saman. Ja, þetta er sannarlega merkileg uppgötvun. Ég skal síður en svo hafa á móti því, að þetta kerfi sé endurskoðað, og það er alveg rétt, sem hv. þm. A-Húnv. hefur haldið fram, að þetta kostar mikla óhappaþróun í þjóðfélaginu, þessi stighækkun verðlags og kaupgjalds eftir vísitölu. En það, sem vekur undrun manns í dag, — að vísu ætti maður nú að hætta að verða undrandi yfir því, sem kemur úr stjórnarherbúðunum, því að það koma þaðan furðulegir hlutir á hverjum degi, — er það, að það skuli nú allt í einu vera talið nauðsynlegt að hverfa frá þessu skipulagi. Ég veit, að vinur minn, hv. þm. A-Húnv., muni hugsa: Ja, batnandi mönnum er bezt að lifa — og fagna þeim væntanlega stuðningi, sem þaðan er að fá, og ef þeir verða þar í fylkingarbrjósti, hann og hæstv. félmrh., þá trúi ég ekki öðru en vísitalan láti fljótt undan síga.

Hæstv. félmrh. og fleiri ráðh. raunar, sem hér hafa talað, hafa talið þetta afkvæmi sitt harla gott og glaðzt mjög yfir því, ef við sjálfstæðismenn höfum fallizt á, að eitthvað gott væri í frv. Það er vitanlegt, eins og hv. 9. landsk. sagði hér áðan, að það er útilokað, að 6 menn, greindir menn, ásamt mörgum sérfræðingum geti setið mánuðum saman til að koma saman frv., án þess að það sé eitthvað í því af viti. Og það er því ekki neitt sérstaklega mikið til að gleðjast yfir, þó að við sjálfstæðismenn höfum fundið ýmislegt nýtilegt við þetta frv. Okkur hugkvæmist ekki að berjast gegn frv. vegna þess, að það sé frv. þessarar hæstv. ríkisstj., heldur vegna þess, að við teljum það stórgallað, En við getum líka unnt ríkisstj. þess, sem er gott við málið, og það eru ýmsir hlutir í þessu frv., sem eru til bóta óneitanlega. En í rauninni er stærsti gallinn á frv. sá, að því virðist vera nánast ætlað að lifa í svona 4–5 mánuði, og hvað þá tekur við, veit enginn. Hvaða lokatakmark það er, sem hæstv. forsrh. sagði að nú væri stigið stórt skref að, veit enginn. Og eftir að hafa hlustað á þessar umr. eru menn enn fjær því að vita það, vegna þess að hæstv. ráðh. virðast stefna þar sitt í hvora áttina. Það mætti þess vegna segja mér, að það gæti farið svo fyrir hæstv. ríkisstj., þó að ég vilji ekki óska henni í raunveruleika þeirra örlaga, eins og fer fyrir manni, sem væri hundinn sinn hvor fóturinn á aftan í tagl á hestum og svo færu hestarnir sitt í hvora áttina. Það verður ekki skemmtileg útkoma úr því fyrir aumingja manninn, og ef ríkisstj. ætlar að stefna áfram eins og virðist koma fram hér í ræðum hennar talsmanna, — það hafa nú engir talað hér af hennar talsmönnum nema ríkisstj. sjálf, þá lízt mér ekki á þá þróun, sem fram undan er. Það virðist fullkomið öryggisleysi um það, hvort þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, nægja nema e.t.v. út árið. Það er enn þá engin vissa fyrir því, að sú 19 stiga hækkun á vísitölu, sem vitað er um nú í dag að muni verða, verði ekki til þess að spenna verðbólguþróunina svo hátt, að þessar 790 millj., sem hér er gert ráð fyrir, verði um næstu áramót orðnar allt of litlar til þess að bjarga þessu við. Og það er eitt versta atriðið við þetta mál allt saman, það mikla öryggisleysi, sem hér er um að ræða.

Það náttúrlega gegnir hinni mestu furðu, að ríkisstj., sem ætlaði sér að styðjast við stéttasamtökin og leysa vandamálin með þeirra aðstoð, skuli vera nú, eftir að ríkisstj. er búin að sitja um nærfellt tveggja ára skeið, ekki komin lengra en það, að hún segir í sínu frv., að það sé ætlunin á næsta hausti að ræða við stéttasamtökin um það, hvað eigi að gera, eftir rúmlega tveggja ára umhugsunartíma. Það hefðu þótt heldur slæleg vinnubrögð hjá einhverjum öðrum. Nei, ég er ákaflega hræddur um það, svo að ég taki líkingu hæstv. félmrh., að þessi veggur, sem hæstv. ríkisstj. er nú að hlaða og hæstv. félmrh. finnst dæmalaust traustur og fallegur, standi ekki lengi. Og ég er jafnframt hræddur um það, einmitt vegna þess, hve hæstv. ríkisstj. er ánægð með þennan vegg, að veggurinn muni blátt áfram hrynja yfir hana sjálfa, því að hún heldur sig hafa svo mikið skjól af veggnum, að þar geti hún örugglega legið og hvílt sig eftir frækilega unnið starf síðustu mánuðina, sem hún hefur setið yfir þessu frv. Það má að vísu segja, að það muni ekki saka þjóðina mikið, ef ríkisstj. verður bara ein undir veggnum. En því miður er ég hræddur um, að með þessu spori, sem hér er stigið, sé verið að stíga æði stórt spor lengra inn í eyðimörkina, sem hæstv. forsrh. varð svo tíðrætt um einu sinni, þ.e.a.s. áður en hann tók við völdum, en hefur nú lítið talað um eftir það, af hvaða ástæðum sem það er. Og það væri vissulega sorglegt fyrir alla aðila, ef svo yrði.

Ég efast ekkert um, að það mundu allir fagna því og það ekkert síður við sjálfstæðismenn en aðrir, ef hér lægju fyrir frá hæstv. ríkisstj. úrræði, sem væru líkleg að leysa okkur út úr þeim mikla vanda, sem okkar atvinnuvegir eiga við að glíma í dag. Það væri áreiðanlega ósk okkar allra, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að efla atvinnulíf okkar þjóðar og reyna að stuðla að því, að hún geti lifað hér við góð kjör í landi sínu. Ég veit, að við erum allir sammála um það. En því miður er ég hræddur um, að þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, eigi ekki það lán til að bera, að henni auðnist að þoka íslenzku þjóðinni áfram til bættra lífskjara. Reynslan af hennar setu þessi tæp tvö ár, sem hún hefur setið, bendir ekki til þess. Og nú í dag stendur hún andspænis því, að hún mætir síþverrandi trausti, einnig frá þeim samtökum, sem hún helzt ætlaði að styðjast við, og hvernig hún ímyndar sér, að hún geti leyst þann vanda, sem hér er við að glíma, eftir að hún úr öllum áttum fær vantraust, það get ég ekki skilið. Og þó að við sjálfstæðismenn flokkslega séð, gætum haft töluverðan áhuga á því, að þessi hæstv. ríkisstj. sæti nokkurt skeið enn þá, af því að við vitum ósköp vel, hvað út úr því kemur, þá er þó sennilega ekki leyfilegt fyrir okkur að ala slíka von í brjósti, vegna þess að sú seta ríkisstj. mundi geta orðið of dýru verði keypt fyrir íslenzku þjóðina.