29.04.1959
Efri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

81. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég klauf ekki n., en ég tel mjög vafasamt, hvort þetta frv. eigi að ná fram að ganga. Ég hef talið frá því fyrir löngu, þegar Reykjavíkurbær var að leggja hér undir sig Mosfellssveitina og fyrst Skildinganesið, að það væri mjög hæpið, hvort ætti að taka svona í smááföngum þessar nærliggjandi sveitir og hvort ekki ætti að gera það í einu skrefi og gera Reykjavík, Hafnarfjörð og svæðið hérna á milli allt saman að einu og sameiginlegu lögsagnarumdæmi.

Nú er svo komið náttúrlega í Hafnarfirði, að þeir voru búnir að byggja úti á landi Garðahrepps á milli 20 og 40 hús, og uppgötvuðu fyrst, þegar þeir fóru að búa til kjörskrá og þessi hús voru talin í Hafnarfirði, en stóðu í Garðahreppi, að þeir, sem í þeim bjuggu, áttu alls ekki kosningarrétt í Hafnarfirði, þau væru í allt öðrum hreppi. Þá var það fyrst uppgötvað, og þá var farið að flýta sér að reyna að laga þetta með því að innlima þetta svæði og meira til inn í Hafnarfjörð. Svona yfirgangur gengur ekki. Það nær ekki neinni átt fyrir einn kaupstað að byggja á lóðum annars hrepps, þótt ónotaðar séu, láta borga lóðargjald til sín og setja mennina í útsvar og allt hjá sér, þegar þeir eiga heima í öðrum hreppi. Þetta líkist ekki neinu, þetta þarf að laga, og ég held, að það eigi að athuga þessi mál miklu betur og reyna að ná samkomulagi um miklu meiri samruna á þessu þéttbýli, sem er hér í kringum Reykjavík, heldur en gert er með þessu frv. Þar að auki kann ég ákaflega illa við það, ef menn líta á kortið, sem er þarna inni í stigaherberginu, að hafa land eins kaupstaðar sundurskorið í ótal parta og innan í því land úr öðrum hreppum. Innan í miðju Hafnarfjarðarlandinu er núna land frá Bessastaðahreppi, sem ekki er hægt að komast að nema fara í gegnum Hafnarfjörð, og svo á að gilda sama vatnsveita um allt svæðið fyrir Hafnarfjörð o.s.frv. Þetta er allt saman hálfhugsað og varla það, og ég mun ekki greiða frv. atkv., þó að ég klyfi ekki nefndina.