24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og sjá má á nál. minni hl. stjskrn., var ráð fyrir því gert, að hv. þm. N-Þ. (GíslG) hefði á hendi framsögu í þessu máli fyrir minni hl. n. En sökum lasleika hefur hann orðið að halda kyrru fyrir á heimili sínu nokkra daga og er enn í dag ekki svo heilsuhraustur, að hann geti tekið þátt í þessari umr. Ég mun því vegna forfalla hans fylgja till. okkar og grg. í minni hl. hér úr hlaði með nokkrum orðum.

Íslenzka þjóðin hefur oft verið nefnd söguþjóðin, og það eru ekki auðæfi eða höfðatala þjóðarinnar, sem þetta land byggir, sem veitir henni rétt til landsins og rétt til þess að halda hér uppi sjálfstæðu lýðveldi, heldur grundvallast það fyrst og fremst á sögulegum rétti.

Saga Alþingis er veigamikill þáttur af sögu þjóðarinnar í heild. Ekki leið langur tími, frá því að þjóðin tók að lyfta sér upp úr þeim öldudal, sem harðindin í lok átjándu aldar höfðu fært hana niður í, þangað til beztu menn þjóðarinnar tóku að bera fram óskir og kröfur um það, að Alþingi yrði endurreist. Og þessi barátta forvígismanna þjóðarinnar á þeim tímum leiddi til þess, að með tilskipun frá 8. marz 1843 var ákveðið, að Alþingi skyldi endurreist.

Þá var jafnframt ákveðin kjördæmaskipun þannig, að sérhver sýsla landsins, sem voru 19 að tölu, skyldi kjósa einn þm. og höfuðstaðurinn Reykjavík enn fremur einn þm:, svo að þjóðkjörnir þm. skyldu þá verða 20, en konungkjörnir þm. 6.

Þróun mála að þessu leyti, síðan Alþingi var endurreist, er í stórum dráttum þannig:

Með stjórnarskránni 1874 var þjóðkjörnum þm. fjölgað upp í 30, og varð þá heildartala þm. 36. Árið 1903 er þm. enn fjölgað um fjóra, svo að tala þeirra verður 40. Árið 1920 er enn bætt við tveimur þm., og varð þá tala þeirra 42. 1934 er þingmönnum enn fjölgað upp í 49. Og loks 1942 er bætt við þremur þm., svo að síðan hafa þingsæti verið allt að 52 og venjulega fyllt þá tölu, þar sem öll uppbótarsæti hafa að jafnaði komið til úthlutunar.

1857 var Skaftafellssýslu skipt í tvö kjördæmi. 1902 er Ísafjarðarsýslu skipt í tvö kjördæmi. 1903 er bætt við þremur nýjum kjördæmum, þ.e. Ísafjarðarkaupstað, Akureyri og Seyðisfjarðarkaupstað. 1922 var Húnavatnssýslu skipt í tvö kjördæmi, 1928 var Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði skipt í tvö einmenningskjördæmi, og 1942 er enn stofnað nýtt kjördæmi, Siglufjörður, sem er einmenningskjördæmi.

En þróun þessara mála gagnvart Reykjavík hefur verið á allt annan veg. Eins og ég gat um, fékk Reykjavík rétt til þess með tilskipuninni 1843 að kjósa einn þm. En 1903 er bætt við einu þingsæti í Reykjavík. 1920 er enn bætt við tveimur þm. í Reykjavík, þannig að þar skyldu þá kosnir fjórir, og þá er tekin þar upp hlutfallskosning. 1934 er enn fjölgað í Reykjavík upp í 6 þm. og hlutfallskosningum haldið. Og 1942 er enn fjölgað í Reykjavík upp í 8 þm. eða þá fulltrúatölu, sem höfuðborgin hefur nú, og hlutfallskosningum haldið.

Þegar litið er á þessa sögulegu þróun, er augljóst, að hún greinist í þrjá þætti. Í fyrsta lagi: Þegar stjórnarskránni er breytt, þá er að jafnaði gerð nokkur fjölgun á þingmannatölunni í samræmi við fjölda þjóðarinnar í heild. Í öðru lagi: Breytingarnar utan Reykjavíkur hafa farið fram þannig, að kjördæmum hefur verið skipt, félagsheildirnar smækkaðar og hið persónulega samband milli þm. og kjósendanna þar með styrkt. En í Reykjavík hefur þróunin verið á þann veg, þar sem höfuðstaðurinn er eitt lögsagnarumdæmi og ein fjárhagsleg og félagsleg heild, bæði menningarlega skoðað og atvinnulega, að þá hefur henni ekki verið skipt, heldur þingmönnum fjölgað og þar teknar upp hlutfallskosningar.

Nú er rætt um það, hvað Framsfl. vilji leggja til og hvernig á því standi, að hann geti hugsað sér annað kosningafyrirkomulag í Reykjavík, heldur en annars staðar á landinu. Áður en ég kem að því að ræða nánar till. Framsfl., vil ég benda á það og leggja á það sérstaka áherzlu, að Framsfl. hefur ekki ráðið þeirri þróun, sem ég hef verið að lýsa. Það hefur raunar enginn þeirra stjórnmálaflokka, sem nú starfa, heldur gert, því að þeir eru ekki svo gamlir. Þetta er söguleg þróun, sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu nokkuð á aðra öld.

Það má segja, að þessi þróun sé ekki í fullu samræmi við það, sem orðið hefur með öðrum þjóðum. En sjálfstæðisbarátta Íslendinga á að ýmsu leyti sérstæða sögu. Það hafa aðrar þjóðir háð frelsisbaráttu eins og við, t.d. Finnar og Norðmenn, svo að dæmi séu nefnd. En atburðarásin og röð atvikanna í þeirri frelsisbaráttu hefur ekki orðið að öllu leyti hin sama og í frelsisbaráttu Íslendinga. Þó að svo sé, tel ég mega fullyrða, að þeir forustumenn þessarar þjóðar, sem fyrir frelsisbaráttunni stóðu, hafi á hverjum tíma gert það eins og atvik lágu til og bezt dugði þessari þjóð.

Hið sama vil ég segja um þá þróun, sem átt hefur sér stað um kjördæmaskipun landsins. Forustumenn a.m.k. þriggja kynslóða hafa mann fram af manni mótað þessa þróun, og ég vil fullyrða, að þeim forustumönnum hafi einungis gengið gott til að beina málefnum þjóðarinnar inn á þessa braut og að þeir hafi með því víssulega verið að vinna þjóðarheildinni gagn.

Þegar litið er á þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá verður það fyrst fyrir að athuga tvö atriði: Annars vegar, að með þessu frv. á að gera algera brotalöm á þá sögulegu þróun um skipun kjördæmanna í landinu, sem ég hef verið að drepa á, og hins vegar, að með þessu frv. á að auka flokksræðið í landinu, en að sama skapi draga úr persónulegu sambandi þm. og kjósenda.

Þegar litið er á stjórnmálasögu síðari ára og einkum afskipti þeirra flokka, sem nú starfa í þjóðfélaginu, þá verður ljóst, að þeir hafa haft mikla tilhneigingu til þess á ýmsum tímum að grípa inn í þessa þróun og reyna að koma fram breytingum, ýmist í kenningu eða í framkvæmd. Það hefur undanfarna áratugi verið kenning Alþfl., að gera ætti landið að einu kjördæmi. Þessa kenningu hefur flokkurinn boðað í blöðum sínum og oft í ræðum. En til þess hefur ekki komið enn, að beinar till. um þetta hafi legið fyrir Alþ. En þó að Alþfl. hafi haldið fram þessari kenningu, er að ýmsu leyti saga flokksins þannig, að ferillinn er a.m.k. mjög krókóttur, svo að vægt sé til orða tekið, sem liggur í þessa átt. 1928 beitti Alþfl. sér fyrir því að skipta Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði, þannig að þar mynduðust tvö einmenningskjördæmi, en áður var þar tvímenningskjördæmi. Í samræmi við það, sem nú er lagt til, hefði mátt ætla, að þá hefðu verið fluttar till. um að taka upp hlutfallskosningar í þessu tvímenningskjördæmi. En það var ekki það, sem Alþfl. kaus þá, heldur að fjölga einmenningskjördæmum í landinu með því að skipta Gullbringu- og Kjósarsýslu. Og 1942 tók Alþfl. upp hér á þingi kjördæmamálið eða breytingar á stjórnarskránni með því að flytja um það frv., og voru flm. frv. Ásgeir Ásgeirsson, Emil Jónsson, Finnur Jónsson og Haraldur Guðmundsson. Í grg., sem fylgdi því frv., er lýst í fáum orðum skilmerkilega afstöðu Alþfl. þá og hvernig hann vildi leysa málið. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En þá er þrennt til:

1) Að taka upp stór kjördæmi, þar sem alls staðar sé viðhöfð hlutfallskosning,

2) að hafa uppbótarþingsæti ótakmörkuð, eða

3) að byggja á núverandi kjördæmaskipun að mestu og láta haldast núverandi uppbótarsætafjölda óbreyttan og gera aðrar breytingar, sem horfa til jöfnunar.

Það er hin síðasta leiðin, sem farin er í þessu frv. En þar er lagt til:

1) Að hafa hlutfallskosningu í öllum kjördæmum, þar sem kosnir eru fleiri en einn þingmaður. Miðað við atkvæðatölur við síðustu kosningar mundi hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum hafa nægt til að jafna þingmannatölu og atkvæðamagn flokka.

2) Að fjölga þingmönnum í Reykjavík um tvo. Miðar það í áttina til að tryggja jöfnuð, því að þar er hlutbundin kosning. Verður ekki skemmra farið um fjölgun þingmanna í Reykjavík, þegar litið er til mannfjölda, en það, sem á vantar, bætist upp af þátttöku Reykjavíkurkjósenda í uppbótarsætum, ef þau nægja til jöfnunar, eins og líklegt er eftir þessum till.

3) Að allir kaupstaðir verði einmenningskjördæmi. Ný kjördæmi verða þá þrjú: Siglufjörður, Akranes og Norðfjörður. Má gera ráð fyrir, að það miði einnig til jöfnunar, og réttmætt að taka upp ný kjördæmi, þar sem gætir öflugra útgerðarhagsmuna. Sá atvinnuvegur er nú afskiptur, þegar litið er á kjördæmaskipunina í heild. Það er og gömul og góð regla, að lögsagnarumdæmi séu sér um þingmann.“

Þannig var viðhorf Alþfl. 1942. Það átti að fjölga einmenningskjördæmum með því að gera Siglufjörð, Akranes og Norðfjörð að sérstökum kjördæmum, og það var gömul og góð regla, að lögsagnarumdæmi landsins séu sér um þingmann. Þeir eru hugsjónaríkir og frumlegir, Alþfl.-menn. Það má heita nýstárlegt sjónarmið að sönnu að stofna kjördæmi vegna útgerðarhagsmuna. En jafnvel í þessu leynist þó viðurkenningin á því, að það séu fleiri sjónarmið, sem þurfi að taka tillit til í sambandi við kjördæmaskipun landsins, heldur en það eitt að tryggja svokallað „réttlæti“ á milli stjórnmálaflokkanna, sem starfa í landinu.

Ef samræmi væri í kenningu Alþfl. og framkvæmd, ef samræmi væri milli þeirra raka, sem haldið var fram um sama mál eða hliðstætt mál 1942, og þess, sem nú liggur fyrir, þá hefði sýnzt eðlilegt og rétt framhald á brautinni að gera Eyjafjarðarsýslu að þriggja manna kjördæmi með hlutfallskosningu. Allir viðurkenna þó, að hlutfallskosning njóti sín betur, ef kosnir eru fleiri menn en tveir. En það mátti ekki vera samkvæmt till. Alþfl, og ákvörðun þeirra, sem flytja þetta frv. 1942, heldur varð að gera Siglufjörð að einmenningskjördæmi og taka upp hlutfallskosningu í Eyjafjarðarsýslu að öðru leyti.

Alþb. og forustumaður þess getur sjálfsagt sagt á þessa leið: Seint kom ég til þessa leiks. — Það mun ekki hafa verið fyrr en 1937, að Kommúnistaflokkur Íslands kom manni á þing. Það leiðir því af sjálfu sér, að þær stjórnarskrárbreytingar, sem áður höfðu farið fram, gátu ekki hlotið samþykki fyrir áhrif eða atbeina þess flokks eða þeirra manna, sem nú skipa Alþb. Það er fyrst 1942, að þeir koma til þessa leiks. En hv. 3. flm. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv. (EOl), lýsti því í áheyrn alþjóðar við 1. umr. þessa máls, að hann hefði raunar viljað stíga miklu stærra skref, en gert var 1942, hann hefði raunar viljað þá þegar skipta landinu í stór kjördæmi, t.d. 6 að tölu. Það bendir því til, að hann hafi myndað sér þá skoðun, sem hann virðist styðja nú, fyrir mjög mörgum árum. Það er og kunnugt, að það ríki, sem hv. 3. flm. þessa máls horfir mjög til sem fyrirmyndar, þess þjóðskipulag er þannig, að það er grundvallað á alræði eins flokks. Það er því í sjálfu sér ekki óeðlilegt og þarf raunar ekki að koma neinum á óvart, þó að þeir, sem þessar hugmyndir aðhyllast, vilji gjarnan auka flokksræðið í hinu íslenzka lýðveldi.

En Sjálfstfl. á að þessu leyti nokkuð ólíka sögu við Alþfl., þó að hann beiti sér nú sérstaklega fyrir framgangi þessa máls og formaður Sjálfstfl. sé 1. flm. frv. Því er þannig varið með Sjálfstfl., að hann hefur eiginlega til mjög skamms tíma lagt á það mikla áherzlu í sínum málflutningi, að því mætti treysta, að hann mundi ekki beita sér fyrir því að afnema núverandi kjördæmi. Um þetta eru margar yfirlýsingar og ummæli í Alþingistíðindum eftir ýmsa forustumenn Sjálfstfl. Sumt af því hefur verið birt í blöðum og sumt af því rifjað upp við 1. umr. þessa máls, svo að ég skal ekki fara langt út í að rekja það, en vil þó þessum orðum til stuðnings nefna aðeins örfá dæmi.

Í þingræðu frá 1931 standa m. a. þessi ummæli eftir Jón Þorláksson, þáverandi formann Sjálfstfl.:

„Í ummælum hv. flm., Héðins Valdimarssonar, fólst, að honum finnst líka þurfa sérstaklega að bæta úr því, ef einhver víðáttumikil kjördæmi eru svo fámenn, að kjósendatala þar verði langt fyrir neðan meðaltal þeirrar kjósendatölu, er kemur á hvern þm. Ég get ekki fylgt honum í því. Landshagir eru svo víða hér á landi, að sum kjördæmi hljóta að verða miklu fjölmennari, en önnur, og mér finnst mannfleiri kjördæmin ekki hafa yfir neinu að kvarta. Það er sanngjarnt, að hver staður líti til þess, að hans hagur sé ekki stórlega fyrir borð borinn. Ég álít rétt að tryggja það, að fámennari, fjarlægari og afskekktari landshlutar séu ekki sviptir réttinum til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþingi, því að þeir þurfa að eiga þar hver sinn fulltrúa til að tala máli sínu á þingi sérstaklega.“

Jón Þorláksson lét oft koma fram á hv. Alþingi samkvæmt því, sem Alþingistíðindin votta, svipaða skoðun og þessa. Í nál., sem Jón Þorláksson gerði úr garði 1928 í sambandi við skiptingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, varar hann mjög sterklega við þeirri þróun að færa þungamiðju valdsins til í landinu. Í þessu nál. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Algert nýmæli er það í frv. að fjölga þm. kaupstaða á þann hátt að taka þingsæti frá sveitakjördæmunum til þess: Það hefur aldrei verið gert. Ef farið er inn á þá braut, þá er mjög hætt við áframhaldi, svo framarlega sem kaupstaðirnir halda áfram að fjölga og stækka. Með þessari uppástungu er í rauninni stigið fyrsta sporið til að flytja þungamiðju valdsins úr sveitunum í kaupstaðina.“

Og síðar í nál. segir:

„Ef það yrði nú ofan á að stíga þetta afar varhugaverða byrjunarspor, þá verður að fara til þess aðra leið heldur en þá, sem hér er stungið upp á.“

Og ég vek eftirtekt á því, að þessi orð: „að flytja þungamiðju valdsins úr sveitunum í kaupstaðina“ — eru auðkennd í Alþingistíðindunum í nál. Jóns Þorlákssonar til sérstakrar áherzlu.

1942 gaf núverandi formaður Sjálfstfl. í útvarpsumr. héðan frá þessum stað mjög skorinorða yfirlýsingu um það fyrir flokksins hönd, að Sjálfstfl. ætlaði sér ekki að leggja það til að afnema hin gömlu sögulega þróuðu kjördæmi í landinu. Orð hv. 1. flm. þessa frv. þá voru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Eða vill Framsfl., að kjördæmin séu fá og stór? Ég veit ekki um einn einasta þm. Sjálfstfl. að undanskildum hv. 4. þm. Reykv. (SK), sem það vill, og Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri skipan.“

Nú vil ég spyrja: Hvers vegna hafa yfirlýsingar af þessu tagi verið fluttar og fram bornar á undanförnum árum af forustumönnum Sjálfstfl.? Hafa þær ekki verið sagðar í alvöru, eða hvað hefur breytzt, svo að nú þurfi að draga strik yfir yfirlýsingar af þessu tagi? Ef það er rétt röksemd nú, að héruðunum sé til hagsbóta sú skipulagsbreyting, sem stefnt er að því að koma á með því frv., sem hér liggur fyrir, hefur það þá ekki verið héruðunum til hagsbóta fyrr? Hvers vegna mátti það þá ekki komast upp að, að því væri stefnt?

En nú liggur hér fyrir frv. um breytingu á 31. gr. stjórnarskrárinnar. Nú hafa félagsbræðurnir frá 1942 komið sér saman um að taka upp þráðinn og bera sameiginlega fram þetta frv. Þess verður þó vart jafnvel í sambandi við þetta mál, að „hornaugum vinir skjóta“, eins og vitur maður komst að orði á sinni tíð. Það er sjálfsagt ánægja fyrir hæstv. núverandi forsrh. að standa nú ekki einn með sínum flokki að flutningi þessa frv., heldur að hafa sinn til hvorrar handar, hv. formann Sjálfstfl. og hv. formann Alþb. En við 1. umr. þessa máls lýsti 3. flm. frv. öðrum flm. og flokki hans, Alþfl., þannig eins og Alþfl. væri tækifærissinni í stjórnarskrármálinu, en orðið tækifærissinni er áreiðanlega ekki virðingarheiti í orðasafni hv. 3. flm. þessa frv., en orð hans féllu á þá leið, að þó að Alþfl. vildi nú í bili aðhyllast jafnrétti, þá hefði hann oft áður viljað braska í misréttinu.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að landinu öllu verði skipt í 8 stór kjördæmi, eitt 12 manna, tvö 6 manna og fimm 5 manna kjördæmi. Allir kjördæmakjörnir þm., 49 talsins, verði kosnir hlutfallskosningu, og að lokinni kosningu í kjördæmum verði svo úthlutað 11 uppbótarsætum til þingflokka, en ekki allt að 11, eins og nú er ákveðið. Samkvæmt þessu verður þá tala þm. 60 í stað allt að 52 nú, og er þá ekki gert ráð fyrir, að þingmannatalan geti lækkað úr 60. Það er tekið fram, að á bak við þetta frv. standi samningar þriggja flokka, sem að málinu standa, og að þeir samningar séu trygging fyrir því, að málið muni verða lögfest hér á hv. Alþ., er nú situr.

Ég held, að þeir, sem að máli þessu standa og þennan samning hafa gert, ættu, áður en málið verður lögfest, að bæta framan víð frumvarpsgreinina nýrri grein, þar sem tekið væri fram, hvers eðlis þessi samningur er, og virðist mér, að þá geti farið vel á að koma þar að orðalagi Gamla sáttmála um, að forn goðorð skuli nú upp gefast.

Þegar lýðveldið var stofnað 1944, var því lýst yfir, að landinu yrði sett svokölluð lýðveldisstjórnarskrá, og var þá sérstakri nefnd falið að undirbúa slíka stjórnarskrárbreytingu. Með ályktun af hálfu Alþ. hefur skipan þessarar n. að ýmsu leyti verið breytt. En n., sem síðast var skipuð samkvæmt þál. 1947, hafði málið til athugunar á vissu skeiði eða allt þangað til í árslok 1952, en það er kunnugt, að síðan hafa störf n. að miklu leyti fallið niður, þó að ekki sé kunnugt um, að nefndin hafi verið svipt umboði sínu, og ekkert mun vera bókað um það í gerðabókum hennar, að svo sé eða hún áliti starfi sínu lokið.

Við, sem skipum minni hl. stjskrn., teljum eðlilegt, að stjórnarskrárnefnd taki nú til starfa á ný. Nú hefur komið í ljós í sambandi við umr. um þetta mál, að allir flokkar virðast hafa aukinn áhuga á því, að málið fáist leyst, og virðist nú sú stund runnin upp, að meiri líkur séu um samkomulag milli flokka um tillögur í málinu, en áður hefur verið. Ýmsir hafa haldið því fram, og tillögur um það hafa verið til athugunar og hlotið samþykki hjá Framsfl. á undanförnum árum, að æskilegast væri, að kvatt yrði saman sérstakt stjórnlagaþing til þess að afgreiða stjórnarskrármálið. Þá yrði málið losað úr tengslum við dægurmálin, og mundi viðhorf kjósenda, ef kosið yrði sérstaklega til stjórnlagaþings, geta orðið nokkuð annað, þegar kosningarnar snerust um þetta eina mál, stjórnarskrármálið, heldur en þegar kosið er milli flokkanna um þjóðmálin almennt.

Við leggjum því til í minni hl., gerum það að aðaltill. okkar, að afgreiðslu málsins sé nú frestað, en stjórnarskrárnefndinni falið að taka það til nánari íhugunar og afgreiðslu á þessu ári, þannig að frv. geti legið fyrir í byrjun næsta þings. En fari svo, að stjórnarskrárnefndin yrði ásátt um að leggja það til, að sérstöku stjórnlagaþingi yrði falið endanlega að fjalla um málið, þá mundu tillögur stjórnarskrárnefndarinnar að athuguðu máli í nefndinni að sjálfsögðu beinast í þessa átt.

Á þetta sjónarmið okkar hefur hv. meiri hl. stjskrn. ekki viljað fallast, heldur leggur meiri hl. til, að það frv., sem hér liggur fyrir, verði nú afgreitt á þessu þingi, samþykkt, áður en þingi því lýkur, sem nú stendur yfir.

Þá ber á það að líta, hvaða rök eru færð fyrir því af meiri hl. og þeim, sem að þessu frv. standa, hvaða nauðsyn beri til þess að afgr. málið nú og hvaða áhrif það muni hafa.

Í fyrsta lagi eru færð fram rök fyrir því, að breyting sé nauðsynleg á kjördæmaskipuninni, eins og hún er, vegna þess að þeir, sem í þéttbýlinu búa, hafi of fáa fulltrúa á Alþ. móts við hina, sem í strjálbýli og afskekktari landshlutum búa. Þetta er hægt að leysa eftir fleiri leiðum en þeirri, sem lagt er til með þessu frv. að farin verði. Þessu er hægt að breyta á þann veg að fjölga kjördæmakjörnum mönnum þar, sem þéttbýlið er mest. Og fari svo, að aðaltill. okkar framsóknarmanna um, að málinu í heild verði frestað og kjördæmaskipunin enn tekin til endurskoðunar í sambandi við heildarafgreiðslu stjórnarskrárinnar, fari svo, að sú till. nái ekki fram að ganga, þá viljum við til samkomulags með sérstökum till. ganga á móts við það sjónarmið að auka tölu fulltrúa í þéttbýlinu.

En það eru jafnframt færð fram önnur rök eða tylliástæður fyrir því, að breytinga sé nú þörf. Það er reynt að telja fólki trú um, að það muni verða betra fyrir hina fámennari staði að eiga fyrir fulltrúa 5–6 þm. úr stóru kjördæmi heldur en einn eða tvo fulltrúa úr sýslu eða kaupstað.

Þetta er ekki haldgóð röksemd, þegar málið er brotið til mergjar. Ef koma þarf máli á framfæri, mun það reynast fyrirhafnarminna að flytja það mál á einum stað við einn þm., sem er þaulkunnugur staðháttum á takmörkuðu svæði, heldur en að þurfa að leita um þann málflutning til margra manna, sem búa mjög dreift og flestir eða jafnvel allir eru ókunnugir staðháttum, þar sem málsástæður eru fyrir hendi. Og það er ekki sýnt, hvernig fer um samkomulag fimm eða sex fulltrúa, t.d. við skiptingu fjárveitinga milli hinna ýmsu sýslufélaga, og þá vil ég segja, að það sé veikari aðstaða fyrir eitt sýslufélag að fá mál sitt flutt af klofnum, kannske margklofnum hópi manna, heldur en að fá það flutt af einum manni, sem stendur einhuga að þess málstað.

Þá er því haldið fram, að það muni verða auðveldara fyrir menn búsetta úti á landsbyggðinni að sinna þingstörfum, eftir að kjördæmin hafa verið stækkuð. Þetta virðist ekki sennileg röksemd, ef sambandið milli kjósenda og þm. á ekki að rofna frá því, sem einmenningskjördæmin hafa tryggt. Það er auðskilið mál, að ef þm., hvaða flokkur sem í hlut á, leggur alúð við það að reyna, eftir því sem föng eru á, að kynnast mönnum og málefnum í hinum stóru kjördæmum, sem stofna skal samkvæmt þessu frv., þá kostar það hann meiri vinnu og fyrirhöfn og tíma að hafa það á hendi heldur en með þeirri kjördæmaskipun, sem nú er.

Þá er vakin athygli á því, að kosningabaráttan sé oft hörð og sótt af miklu kappi í einmenningskjördæmunum og ekki sízt í fámenni. Ekki vil ég neita því, að svo sé eða geti verið. En kosningafyrirkomulagið í Reykjavík hefur nú verið þannig, að þar hefur átt að velja marga menn sameiginlega í kjördæmi, bæði við alþingiskosningar og bæjarstjórnarkosningar. Og kannast menn ekki við, að kosningar í Reykjavík séu sóttar af miklu kappi? Kannast menn ekki við, að jafnvel í næturhúmi, eftir að hinn eiginlegi kjördagur hefur verið liðinn, hefur verið lagt kapp á að fá á kjörstað einmitt hér í Reykjavík ýmsa, sem virtust ekki hafa áhuga á að neyta kosningarréttarins, jafnvel menn, sem af heilsufarslegum ástæðum gat orkað tvímælis, hvort eðlilegt væri, að þeir neyttu kosningarréttarins? Það virðist því furðuleg röksemd, að kapp í kosningum muni hverfa við þá stórútgerð landsmálaflokka, sem nú á að koma á um land allt samkvæmt þessu frv.

Þá er eðlilegt að beina þeirri spurningu til þeirra manna, sem að þessu frv. standa, hvaðan þeim hafi borizt áskoranir utan af landsbyggðinni um að flytja þetta mál og knýja það nú fram. Hvar er að finna samþykktir úti í héruðunum, þar sem knúið er á um þetta mál? Jú, við 1. umr. um þetta frv. var það tekið fram, að á Austurlandi og Norðurlandi hefði myndazt hreyfing um aukið vald héraðanna, og einn hv. ræðumaður, hv. 5. landsk. þm., sem er stuðningsmaður þessa frv. og talaði þá fyrir því, sagði um þetta orðrétt, eins og það kom fram á stálþræðinum, með leyfi forseta, þegar hann ræðir um hreyfingu Austfirðinga og Norðlendinga: „Og hvað vildi þessi hreyfing? Hún vildi stofnsetja úti á landsbyggðinni stærri, sterkari og sjálfstæðari félagsheildir. Hún vildi endurreisa byggðasjálfstæðið og leggja sýslurnar niður.“

Mér þyklr rétt, þar sem þetta mál er flutt með þessum hætti, að víkja að þessu nokkrum orðum.

Þess er þá fyrst að geta, að till. Austfirðinga og Norðlendinga voru alls ekki um það að leysa kjördæmamálið eitt út af fyrir sig og taka það út úr heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þvert á móti lögðu þeir höfuðáherzlu á, að stjórnarskrármálið yrði leyst í heild. Það virðist ekki vera samræmi milli þeirra till. annars vegar og hins vegar þess, sem nú er stofnað til með þessu frv., þegar á þetta atriði er litið.

Í öðru lagi, hvað snertir kosningafyrirkomulagið og þingmannafjöldann, þá lögðu Norðlendingar og Austfirðingar til, að þm. yrðu alls 48, í Ed. skyldu sitja 18 fulltrúar, en í Nd. sitja 30 þm., samtals 48. En samkvæmt þessu frv. á að ákveða þingmannatöluna 60. Ekki er samræmi á milli þessara till, um þetta atriði.

Um kjördæmaskipunina lögðu Norðlendingar og Austfirðingar til, að til Ed. yrði kosið úr hverju fylki, en fylkin yrðu 6, og að þeir fulltrúar skyldu kosnir á fylkisþingum hlutbundnum kosningum, en til Nd. skyldi kjósa í einmenningskjördæmum og gætu þau orðið allt að 10 innan hvers fylkis. Ekki virðist samræmi á milli þessara till. og þess frv., sem hér liggur fyrir.

Enn er þess að geta, að Austfirðingar og Norðlendingar ætluðust ekki til, að sýslurnar yrðu lagðar niður. Það kemur hvergi fram í þeirra till.

En höfuðatriði till. Austfirðinga og Norðlendinga er það að auka vald héraðanna, en ekki að rýra það og auka flokksvaldið í landinu að sama skapi. Þvert á móti miðuðu þeirra till. að því að dreifa ríkisvaldinu út um landsbyggðina, en ekki að þjappa því saman undir yfirráð flokkanna, sem hafa sín höfuðaðsetur hér í höfuðstað landsins. Og til þess að koma þessu fram, þá vildu þeir, að það væri margt fleira, sem kæmi í kjölfarið, heldur en breyting á kjördæmaskipuninni einni. Þessu til sönnunar ætla ég að leyfa mér að lesa upp nokkur orð úr grg. fyrir till. þessum, sem mótaðar voru úti í héruðunum og sýna þetta glöggt, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögin um fjárhagsráð eru glöggt dæmi þess, hversu allir landsmenn, hvar sem þeir eru búsettir, verða nú að lúta boði eða banni valdamanna í höfuðstaðnum. Ekki má t.d. byggja hlöðu eða bílskúr án þess að fá til þess leyfi þeirra. Hér skal ekki vefengd nauðsyn þeirrar meginreglu, sem fram kemur í nefndum lögum varðandi alls konar fjárfestingu. Hins vegar virðist, að mátt hefði haga eftirlitinu meira í hag landsmanna með því að dreifa því í stað þess að leggja það umsvifalaust undir skrifstofubákn í höfuðstaðnum. Það er bæði tafsamt og kostnaðarsamt að þurfa að leita um öll slík leyfi til fjarlægra staða, og þess má enda vænta, að eftirlit allt verði handahófskennt, þegar það er framkvæmt af mönnum, sem ekki hafa aðstöðu til vegna fjarlægðar og ókunnugleika að kynna sér málavöxtu til fullrar hlítar, enda þótt á engan hátt sé í vafa dreginn vilji og ástundun í þær áttir. Lögin um fjárhagsráð marka enga stefnubreytingu. Þau eru aðeins sýnishorn af því, hvernig síaukin íhlutun ríkisvaldsins er tryggð höfuðborginni án tillits til þess, hvað hagkvæmt og eðlilegt mætti teljast fyrir landsfólkið almennt og dagleg störf þess.“

Og ráðið, sem þeir vilja beita fyrst og fremst til þess að draga úr þessum samdrætti ríkisvaldsins var breytt kjördæmaskipun, þar sem kosið yrði sérstaklega til Ed. á fylkisþingunum af þeim, sem þar ættu setu. Og þeir vildu enn fremur, að fylkisþingin, sem stofnuð yrðu úti um land, fengju til sín hluta af því ríkisvaldi, þar sem þræðirnir liggja nú í höndum stjórnmálaflokkanna, sem hafa höfuðaðsetur hér í Reykjavík.

Það virðist því, þegar á þetta er litið, næsta langt gengið, þegar leitað er eftir rökum fyrir því frv., sem hér liggur fyrir, með samanburði við þessar till., þar sem í öllum aðalatriðum er bent á gagnstæða meðferð mála. Það verður að segja, að ill er hin fyrsta ganga í umr. um þetta mál, þegar þannig er haldið á málafærslu.

Með frv. þessu er ákveðið, að taka skuli upp hlutfallskosningar til Alþingis um land allt. Þau rök eru færð fyrir því, bæði nú og stundum áður, að hlutfallskosningar tryggi betur réttlæti, einkum milli flokka, heldur en þegar kosið er í einmenningskjördæmum, og í umr. um þetta mál, a. m. k. í blöðum og jafnvel hér á þingi líka, hefur verið vitnað þessu til stuðnings í ummæli merkra manna, sem höfðu forustu á þjóðmálasviðinu eftir síðustu aldamót.

Nú er það svo, að þó að aukið réttlæti, hvar sem hægt er að koma því við, sé út af fyrir sig fögur hugsjón, þá hefur bitur reynsla fært mönnunum heim sanninn um það, að fögrum hugsjónum fylgja stundum annmarkar í framkvæmd. Það er langt síðan ýmsir forustumenn mannkynsins tóku að flytja boðskapinn um frelsi, jafnrétti og bræðralag meðal þjóðanna. Samt á þessi fagra hugsjón örðugt uppdráttar, eins og allir kannast við. Það þótti líka fögur hugsjón,þegar Ísland var að verða fullvalda ríki, að lýsa því hátíðlega yfir, að Ísland ætlaði að fylgja ævarandi hlutleysi, og þeir forustumenn þessarar þjóðar, sem það gerðu, hafa áreiðanlega mælt það af heilum hug. En reynslan hefur fært okkur, sem nú störfum, heim sanninn um það, að nú er jafnvel ekki hið ævarandi hlutleysi það, sem mest gildi hefur fyrir þessa þjóð, því að nú keppast margír forustumenn þjóðarinnar og þ. á m. þeir forustumenn, sem að þessu frv. standa, keppast við að halda því að þjóðinni, að þátttaka okkar í öflugu varnarbandalagi sé það, sem skapi þessari þjóð mest öryggi. Þannig getur bitur reynsla fært mönnunum heim sanninn um, að hugsjón, sem í sjálfu sér er fögur, fylgja stundum annmarkar í framkvæmd.

Enn er talið, að hlutfallskosningar hafi fyrst verið reyndar í Belgíu 1899. Þegar Hannes Hafstein flutti frv. sitt, sem stundum er vitnað til og rætt var hér á hv. Alþingi 1905 og 1907, að ég hygg, þá var lítil reynsla fengin af þessu kosningafyrirkomulagi, aðeins örfá ár síðan hlutfallskosningar höfðu fyrst verið teknar upp. Þeir, sem mæltu þá þau orð, sem nú eru færð fram sem rökstuðningur fyrir þessu frv., höfðu vissulega hrifizt af hugsjóninni, en þá skorti reynslu. Og vegna þess að síðan — nú á meira, en hálfrar aldar skeiði — hefur reynslan sýnt þá annmarka, sem fylgja hlutfallskosningakerfi, þar sem því er fylgt út í æsar í ýmsum löndum, þá eru þessi gömlu ummæli ekki gild rök gagnvart þessu máli, þó að þau séu höfð eftir merkum mönnum, sem þá voru uppi.

Þegar talað er um frv. Hannesar Hafsteins, má bæta því við, að hvað sem segja skal um sjálfa meginstefnuna, hugsjónina, sem þar var brugðið upp, þá er það raunar furðulegt, ef menn í einu og öllu vilja eða ætla sér að fara að mæla því frv. bót. Ég ætla, að það hafi haft að geyma ákvæði, sem ég efast um að nokkur þm. nú vildi fallast á, eins og það að kljúfa sumar sýslur milli kjördæma, t.d. Vestur-Skaftafellssýslu í tvennt, hafa annan hlutann í einu kjördæmi, sem nær austur í Norður-Múlasýslu, og hinn hlutann í öðru kjördæmi á Suðurlandi. Ég ætla, að í frv. Hannesar Hafsteins hafi svipað átt sér stað um Eyjafjarðarsýslu og Norður-Múlasýslu.

Þegar minnzt er á hlutfallskosningar, ber þess að gæta, að í viðbót við þá reynslu, sem fengin er af þeim í ýmsum ríkjum utan Íslands, þá virðist svo sem þeir, er nú mæla með þessu frv., kosti ekki kapps um að koma á hlutfallskosningum í ýmsum greinum í þjóðfélaginu, þar sem þeir hafa vald til þess og eru ekki hindraðir í því hvorki af Framsfl. né ríkisvaldinu yfirleitt. Það vekur eftirtekt, þegar athugað er um framkvæmd hlutfallskosninga hér á landi, að t.d. fjölmenn hreyfing, eins og t.d. verkalýðshreyfingin, hefur ekki enn þá beitt sér fyrir því eða komið því í framkvæmd að taka það kosningakerfi upp. Þar er þó kosið í mörgum félögum um marga fulltrúa í senn og atkvæðamunur milli þeirra flokka, sem keppa í kosningunni, ekki ýkjamikill. En af einhverjum ástæðum, sem þeir væntanlega gera grein fyrir í þessum umr., hverjar eru, hafa forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hliðrað sér hjá að beita hlutfallskosningaaðferðinni á þeim vettvangi. Það lítur út fyrir, að þeir hafi gert sér ljósa einhverja þá galla á hlutfallskosningafyrirkomulaginu, sem geri það óæskilegt fyrir verkalýðshreyfinguna.

Í nál. meiri hl. stjskrn. er farið nokkrum orðum um kosningafyrirkomulag í ýmsum ríkjum erlendis, og hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar vék einnig að því í ræðu sinni hér áðan.

Í nál. meiri hl. segir svo:

„Þegar vitnað er til fordæma eða hliðstæðna, tjáir ekki að taka það eitt, sem hverjum um sig hentar, heldur verður að skoða heildarmyndina.“

Þetta virðist mér vel sagt. En mér virðist, að það sannist hér, að hægara er að kenna heilræðin en að halda þau og að ýmislegt sé a.m.k. undan fellt í nál. meiri hl., sem eðlilegt er að fram hefði verið dregið, ef á að skoða heildarmyndina í réttu ljósi. Ég mun því leyfa mér að víkja nokkrum orðum að þessum þætti málsins.

Það er oft vitnað til þess, hve stjórnarfarið í Bretlandi sé miklu traustara en stjórnarfarið í Frakklandi. Sjálfsagt koma þar ýmsar ástæður til, en kosningafyrirkomulagið í þessum ríkjum er áreiðanlega mjög áhrifamikill þáttur að þessu leyti. Í Bretlandi er, eins og kunnugt er, einmenningskjördæmafyrirkomulag, og hefur það leitt til þess, að þar eru tveir stjórnmálaflokkar, sem hafa langmest áhrif í landinu og skiptast oft á um að fara með framkvæmdavaldið. Í Frakklandi aftur á móti hefur kosningafyrirkomulaginu oft verið breytt, það hefur verið horfið frá einni reglu til annarrar með stuttu millibili, stundum reynd einmenningskjördæmi, oft reynd hlutfallskosning með ýmsu sniði, og þar hefur stjórnmálaflokkum fjölgað mjög og þetta allt leitt til þess, að stjórnarfar ríkisins hefur orðið mjög veikt, flokkaskipun sundurleit, og nú síðast hefur verið gripið til úrræða, sem a.m.k. orkar tvímælis að séu fullkomlega lýðræðisleg. Segja má, að nokkuð fjarstætt sé að líta á þetta sem hliðstæðu, og því skal fleira nefnt.

Það er lögð áherzla á það í sambandi við þetta mál, að hvað sem öllu öðru líði, þá sé það þó nauðsynlegt, að kosningakerfið fari eftir einni ákveðinni línu, það séu annaðhvort tóm einmenningskjördæmi eða stór kjördæmi með hlutfallskosningum alls staðar.

Nú er það kunnugt víða um heim, að eitt áhrifaríkt ríki hér í álfu, Vestur-Þýzkaland, hefur grundvallað nýtt stjórnskipulag nú á síðustu árum. Og það hefur vakið eftirtekt víða um heim, hve þetta ríki hefur risið af miklum þrótti upp af rústum styrjaldarinnar, þar sem nú er svo komið um efnahagsmál þess, að það er fremur orðið veitandi, en þiggjandi meðal þjóðanna á því sviði. Þá má spyrja: Hvað er það, sem veldur því, að svo hefur til tekizt í Vestur-Þýzkalandi? Ég get ekki svarað þeirri spurningu til hlítar, en ég vil álíta, að þar komi til mikill dugnaður þjóðarinnar og góð gáfa til skipulagningar á þeim félagslegu málum, sem um er fjallað. Það er því ekki ástæðulaust að líta á það, að þessi þróttmikla uppbygging Vestur-Þýzkalands og það þjóðskipulag, sem þeir hafa grundvallað að nýju nú á síðustu árum, er grundvallað á blönduðu kosningakerfl. Kosningalög Vestur-Þjóðverja eru staðfest 8. júlí 1953, og samkvæmt þeim lögum er kosningakerfi það, sem þeir hafa byggt upp, þannig, að af 484 þm, er helmingurinn kosinn í einmenningskjördæmum, og hlýtur kosningu sá frambjóðandi, sem flest fær atkv., en hinn helmingur þm. er kosinn hlutfallskosningum á landslistum, sem stjórnmálaflokkarnir gera úr garði. Vestur-Þjóðverjar grundvalla sitt kosningakerfi þannig með því að blanda saman þessum tveim meginreglum, annars vegar einmenningskjördæmunum til þess að tryggja það, að hið persónulega samband milli þingmannsins og kjósendanna sé sem traustast, og hins vegar hlutfallskosningakerfi til þess að tryggja það, að flokkarnir fái þingsæti í hlutfalli við fylgi sitt eða í meira samræmi við fylgi sitt en orðið gæti með tómum einmenningskjördæmum.

Nú má enn segja, að þetta sé svo fjarlægt, að það sé ekki hliðstæða við það, sem gera á nú hér á landi. Þá er að líta okkur nær og líta á Norðurlöndin.

Þegar litið er til Norðurlandanna, sem hafa beitt hlutfallskosningum — á mismunandi hátt þó — um alllangt skeið, þá verður það fyrst fyrir, að stjórnmálaflokkarnir þar eru fleiri en hér á Íslandi, og liggur nærri að draga þá ályktun af því, að kosningafyrirkomulagið á Norðurlöndum hafi leitt til þess. Ég hygg, að í Finnlandi séu nú 8 þingflokkar, í Danmörku 6, í Noregi 6 og í Svíþjóð 5. En ef bera á saman kosningareglur Norðurlandanna annars vegar og ákvæði þessa frv. hins vegar, þá kemur í ljós, að jafnvel hvergi þar er hægt að finna fullkomlega sambærilega hliðstæðu við það, sem hér er lagt til.

Í Svíþjóð er kosið til efri deildar þingsins með gerólíkum hætti og til neðri deildarinnar og meira að segja svo ólíkum hætti, að kjördæmin eru alls ekki þau sömu eftir því, til hvorrar þingdeildarinnar er kosið. Þegar kosið er til neðri deildarinnar, er kosið hlutfallskosningum í 28 kjördæmum í landinu. En þegar kosið er til efri deildarinnar, eru kjördæmin aðeins 19, og þá eru kosnir óbeinum kosningum, þ.e.a.s. kjörmannakosningum, af landsþingum og bæjarstjórnum nokkurra stærstu borganna fulltrúar til efri deildarinnar. Með þessu kosningafyrirkomulagi girða Svíar fyrir það, að hlutfallskosningarnar hafi einhliða áhrif á skipan þingsins. Með kosningafyrirkomulaginu til efri deildarinnar tryggja þeir rétt landsbyggðarinnar til áhrifa á val þingfulltrúa, en löggjöf verður þar eins og hér að fá samþykki í báðum deildum þingsins, og eru deildirnar að því leyti, þegar það er skoðað, jafnvaldamiklar. Báðar geta þær fellt frumvörp. Þetta er því ekki hliðstæða við þær tillögur, sem hér liggja fyrir.

Þá skal víkja að Noregi, og segja má, að þar sé að finna það fyrirkomulag, sem einna helzt sé hægt að taka til samanburðar við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þess vegna vil ég gera nokkuð ýtarlegan samanburð á því, kosningaskipan í Noregi og þeirri, sem stefnt er að því að koma hér á.

Í Noregi höfðu um langa hríð verið einmenningskjördæmi, en fyrir alllöngu var kjördæmaskipuninni þar breytt þannig, að stofnuð voru 20 stór kjördæmi í landinu með hlutfallskosningum. Þingmannafjöldi í þessum kjördæmum er misjafn. Hann er fæst 4 þm. og flest 13 þm., og kjósendafjöldinn á bak við hvern þingmann er einnig mjög misjafn í Noregi. En þrátt fyrir það, þó að kjósendafjöldinn sé misjafn, hafa Norðmenn ekki gengið lengra, en það í að jafna milli flokka, að þeir láta þá jöfnun, sem fæst úti í kjördæmunum, þegar kosið er hlutfallskosningum milli 4-13 manna, nægja sem jöfnun milli flokkanna jafnframt og hafa engin uppbótarsæti. Kjósendatalan á bak við þm. í hverju kjördæmi í Noregi er þannig, og þessar tölur, sem ég fer með, eru teknar úr norskum hagskýrslum, gefnum út eftir síðustu kosningar til Stórþingsins, sem fram fóru á árinu 1957, en það eru síðustu opinberu tölur, sem fyrir liggja um þetta efni: Í einu kjördæmi eru rúmlega 10 þús. kjósendur á bak við þingmann. Í einu kjördæmi í Noregi eru 11–12 þús. kjósendur á bak við þingmann. Í fjórum kjördæmum eru 12–13 þús. kjósendur á bak við þingmann, í fjórum kjördæmum 13–14 þús. kjósendur, í tveimur kjördæmum 14–15 þús. kjósendur, í þremur kjördæmum 15–16 þús. kjósendur, í þremur kjördæmum 16–17 þús. kjósendur, í einu kjördæmi 20–21 þús. kjósendur, og loks í einu kjördæmi, þ.e. höfuðborginni, 25–26 þús. kjósendur á bak við þingmann.

Við sjáum á þessu, að það skortir allmikið á, að frændur okkar Norðmenn hafi gert jafnróttæka breytingu á kjördæmaskipan sinni og þá, sem nú er stofnað til hér á landi. Einkum verður þetta ljóst, þegar tillit er tekið til þess, sem ég sagði áðan, að í Noregi eru engin uppbótarsæti.

Ég hygg, að þegar á þetta er litið, hefðu frændur okkar Norðmenn leyft sér að láta þann landshlutann, sem fjarlægastur er höfuðborginni, Austurland, halda sinni þingmannatölu frá því, sem verið hefur, en það er meira en sagt verður um það, sem stefnt er að með því frv., sem fyrir liggur. Þetta verður einnig ljóst, þegar á það er litið, að höfuðborg Noregs kýs einungis 13 þm. af 150.

Hvað sem segja má um það réttiæti, sem hlutfallskosningar eiga að veita, sýnir reynslan, þar sem þeim hefur verið beitt til lengdar, að þær ýta undir fjölgun flokka og að í kjölfar þeirra kemur aukið flokksræði. Með þingræðisskipulagi og hjá lýðræðisþjóð liggur almannavaldið í raun og veru í höndum kjósendanna, en þeir fela þingmanni sínum eða þeim fulltrúa, sem þeir veita umboð, að fara með þetta almannavald fyrir sína hönd. Það liggur í augum uppi, að atvik verða oft svo mörg og mismunandi í félagsmálabaráttunni, að kjósandinn getur aldrei séð það með víssu fyrir í öllum atvikum, hvernig sá, sem fer með umboðið, beitir valdinu. En því betur sem kjósandinn þekkir manninn og því meira persónulegt traust sem hann ber til þess manns, sem fer með umboðið, því meiri trygging er fyrir því, að vel sé frá sjónarmiði kjósandans með valdið farið. Og það hefur oft komið fyrir hér á landi, að þetta traust kjósandans á manninum sjálfum, sem umboðið hlýtur, er svo öruggt, að það nær langt út fyrir raðir flokkanna. Það hefur komið fyrir hér á landi alloft, að einstakir þingmenn hafa verið kosnir gagnsóknarlaust í almennum kosningum þó. Sá þm. í okkar hópi, sem setið hefur hér á þingbekk lengur, en við hinir, hv. þm. Borgf. (PO), hefur þrisvar sinnum á sínum þingmannsferli í almennum kosningum í landinu verið kosinn gagnsóknarlaust í kjördæmi sínu. Þetta er ekki einsdæmi með hann. Þm. Mýr., Pétur Þórðarson, var a.m.k. einu sinni í almennum kosningum kosinn gagnsóknarlaust í kjördæmi sínu. Hið sama gildir um Benedikt Sveinsson, þm. N-Þ. En þetta hefur ekki gerzt í almennum kosningum á síðari árum. Það er þó ekki vegna þess, að kjósendurnir, fólkið úti í héruðunum, treysti ekki þeim mönnum, sem það gerþekkir, til þess að takast umboðið á hendur með svona kosningaaðferð; það sýna aukakosningar, þegar fólkið sjálft fær að ráða. 1945 fóru fram aukakosningar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þá var kjörinn gagnsóknarlaust Björn Kristjánsson. 1946 fóru aftur fram almennar kosningar í landinu, og var þá að sjálfsögðu kosið í Norður-Þingeyjarsýslu eins og í öðrum kjördæmum. Björn Kristjánsson var nákvæmlega jafnöruggur í kjördæmi sínu 1946 og á árinu áður, og hann naut jafnóskoraðs trausts kjósenda þá og í aukakosningunni, en í almennu kosningunni er hann ekki kosinn gagnsóknarlaust. Það var ekki fólkið í héraðinu, sem krafðist þess. Flokksstjórnirnar hér í Reykjavík sáu fyrir því. Eftir að reglan um uppbótarþingsætin 1933 var lögfest, var loku skotið fyrir það, að nokkur maður, hversu eindregið traust sem hann hafði í héraðinu, fengi lengur að koma inn á Alþingi Íslendinga gagnsóknarlaust í kjördæmi sinu. Það olli því, að keppt var við Björn Kristjánsson 1946.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, á að reka smiðshöggið á þetta verk. Það á að koma í veg fyrir, að nokkurn tíma í almennum kosningum geti þessi kosningaaðferð orðið viðhöfð, hversu eindregið fylgi sem einn frambjóðandi kann að hafa. Og það á samkv. þessu frv. að gera meira til þess að ganga á snið við persónufrelsi manna. Það er í kosningalögunum, sem nú gilda, og í þingsköpum Alþ. ákvæði um utanflokkaþingmenn, — menn, sem eru utan flokka, og þeim er í þessum lögum tryggður viss réttur til áhrifa á Alþ., viss réttur í útvarpsumræðum á Alþ. og annað slíkt. Með þessu frv. á að koma í veg fyrir það, að nokkur einn Íslendingur, hversu mikilhæfur sem hann kann að vera, geti af eigin rammleik framvegis brotið sér braut inn á Alþingi Íslendinga án þess að safna um sig nokkuð mörgum mönnum á lista. Og ég fæ ekki betur séð, en það verði tímabært, þegar eftir að þetta frv. hefur verið samþ., ef svo fer, að strika út úr kosningal. og þingsköpum Alþ. þau ákvæði, sem lúta að rétti utanflokkaþingmanna.

Allt miðar þetta að því að skerða áhrif og hið persónulega frelsi einstaklingsins, en auka vald flokksins. Það þingræði og það ríkisvald, sem er grundvallað á auknu flokksræði og hlutfallskosningum, breytist, hvort sem kjördæmin eru út af fyrir sig gömul eða ný, hvort sem þau eiga sér sögulegan uppruna eða ekki. Það fer eins og við í minni hl. í n. komumst að orði í nál. okkar. Það hlýtur að fara þannig, að sú breyting að taka upp margmenniskjördæmi með hlutfallskosningu í stað persónulegra kosninga eins eða tveggja fulltrúa skapar út af fyrir sig nýjan grundvöll þingræðis, þar sem hún er gerð, hvort sem þau kjördæmi, sem hlut eiga að máli, eru gömul eða ný, hvort sem þau eiga sögulegan uppruna eða ekki.

Þingmaður, sem kosinn er persónulegri kosningu einn í kjördæmi, ber ótvírætt ábyrgð, sem ekki verður á aðra lögð eða skipt að vild til hagræðis. Þessa ábyrgð ber hann persónulega, bæði að því er varðar meðferð mála fyrir kjördæmið og afstöðu til ríkisheildarinnar. Sjálfur hlýtur hann að finna glöggt til þessarar persónulegu ábyrgðar og láta hana hafa áhrif á meðferð umboðs síns. Það er fráleitt, að slíkur þm. geti leyft sér að virða að vettugi vilja og óskir í héraðsmálum, þótt þar kunni að eiga í hlut kjósendur, sem hafa ekki greitt honum atkvæði. Eftir kosningu skoðar hann sig að jafnaði, a.m.k. að því er snertir staðbundin mál, fremur sem þm. kjördæmis en flokks, þótt hvort tveggja komi til greina. Það er í miklu ríkari mæli, en í einmenningskjördæmum kosið milli flokka, þegar kosið er hlutfallskosningu um marga menn. Hin persónulega ábyrgð breytist í flokksábyrgð. Það þingræði og það ríkisvald, sem áður hvíldi á herðum persónulega ábyrgra manna, tekur að hvíla á herðum flokka. Í stað samvizku manns kemur ópersónulegt sjónarmið flokks, þegar dæma skal um rétt og rangt. Þetta frv. er því ekki frv. um aukið lýðræði í landinu, það er fyrst og fremst frv. um aukið flokksræði.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, leggjum við í minni hl. til, að afgreiðslu þessa máls verði nú frestað og að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að stjórnarskrárnefndin, sem skipuð var samkv. þál. 24, maí 1947, taki stjórnarskrármálið í heild til endurskoðunar á árinu 1959 með það fyrirnx augum, að till. hennar verði lagðar fyrir Alþ. eigi síðar en í ársbyrjun 1960, og athugi sérstaklega tillögur þær, sem fram hafa komið um, að málið verði afgreitt á sérstöku stjórnlagaþingi (þjóðfundi), tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er aðaltillaga okkar í minni hl. stjskrn. En fari svo mót von okkar, að þessi till. nái ekki samþykki, þá leyfum við okkur til vara og til þess að leita samkomulags um málið að leggja til sem brtt. við það frv., sem fyrir liggur, till. um, að bætt verði við nokkrum kjördæmum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest hér við Faxaflóa, að þm. Reykjavíkur verði fjölgað upp í 12 og að einum þm. verði bætt við á Akureyri. Þetta er flutt til þess að leita samkomulags í málinu og til þess að freista þess að halda hinum forna kjördæmaskipunargrundvelli, sem hefur verið undirstaða þingræðis í þessu landi a. m. k. nokkuð á aðra öld. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af sinni ræðu?) — Ég hef þegar lokið máli mínu eða svo að segja. Ég skal verða við óskum forseta og ljúka nú þessari ræðu og ætla, að ég hafi í meginefnum gert grein fyrir afstöðu minni hl. stjskrn.