25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af því sumpart, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann sagði, að það væri óljóst, hvað framsóknarmenn vildu í kjördæmamálinu. Og hann sagði, að Sjálfstfl. hefði boðið Framsfl. upp á samninga, hvort sem væri um einmenningskjördæmi eða fá og stór kjördæmi.

Það verður að segja, að þeir virðast vera samvizkuliðugir í Sjálfstfl., ef það á að fara að halda því fram nú, að þeir hafi verið reiðubúnir til þess að innleiða einmenningskjördæmi um allt landið, jafnþokkalega og hv. frsm. og sjálfstæðismenn aðrir lýsa nú því fyrirkomulagi, því að það er ekki hægt að heyra annað á því, sem þeir halda fram, en að með því yrði lögleitt í landinu herfilegra ranglæti, en nokkrum heilbrigðum manni ætti að geta dottið í hug. En þegar hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hans menn eru svo búnir heila tvo daga að lýsa því, hversu ferlegt ranglæti það væri að láta sér detta slíkt í hug, þá býður hann mönnum upp á þær tilkynningar í umræðulokin, að þeir hafi í raun og veru alltaf verið reiðubúnir til þess að lögleiða einmitt þetta fyrirkomulag, ef bara Framsfl. hefði viljað á það fallast, — það hefði ekki staðið neitt á öðru, — þetta fyrirkomulag, sem þeir eru búnir að lýsa á þessa lund, dæma óalandi og algerlega óferjandi. Þetta er nú málflutningur í lagi! Sannleikurinn er sá, að Sjálfstfl. hefur aldrei boðið Framsfl. upp á neitt í kjördæmamálinu. Þeir lögðu fram fyrir nokkrum árum vangaveltur um það, að þeir vildu ræða um annaðhvort einmenningskjördæmi um allt landið eða nokkur stór kjördæmi, en það var alveg greinilega tekið fram, að flokkurinn væri klofinn um hvort tveggja, og hefur hv. 1. þm. Reykv. verið sjálfur óþreytandi að lýsa því í ræðu og riti, að þar hafi verið ágreiningur. Hér var því alls ekki um neitt tilboð frá flokknum að ræða eða neina stefnuyfirlýsingu, eins og líka nærri má geta af því, sem þeir hafa um þessa úrlausn sagt. Þetta eru nú heilindin.

En svo er líka ástæða til að taka það fram, að ef Sjálfstfl. hefði viljað ljá máls á slíku úrræði eða nálgast Framsfl. í þessu, ætli þeir hefðu þá ekki talað við Framsfl., áður en þeir réðu það algerlega fast með sér að lögleiða ásamt öðrum það fyrirkomulag, sem þeir nú eru að lögleiða? Ætli þeir hefðu ekki grennslazt eftir því, ef eitthvað væri að marka það, sem hv. þm. segir um þetta, hvort Framsfl. væri ekki reiðubúinn að leysa málið á annan hátt, ef einhver annar háttur var til, sem þeim var geðfelldari? En það gerðu þeir ekki. Þeir töluðu ekki einu sinni við Framsfl.-menn. Þeir ákváðu þetta án þess. Mundu þeir hafa gert það, ef þeir hefðu verið að leita að einhverri annarri lausn? Hver tekur alvarlega þennan málflutning, að það sé eiginlega Framsfl. að kenna, að Sjálfstfl. hafi slysazt inn á þessa leið í kjördæmamálinu, sem hann er nú að beita sér fyrir? Að hugsa sér þetta! Það er eiginlega farið að biðja afsökunar á þessu, þetta sé óviljandi, þetta sé framsóknarmönnum að kenna, að þeir eru nú að burðast við að innleiða þessi fáu og stóru kjördæmi. Ef framsóknarmenn hefðu bara haft rænu á því að tala við þá, þá skyldi þetta aldrei hafa skeð! Þetta er í raun og veru innihald þess, sem þessi hv. þm. var að segja hérna áðan, aðeins með ofurlítið öðru orðalagi. Þetta er laglegur málflutningur eða hitt þó heldur.

Væri nú ekki miklu manndómslegra að reyna að halda við þá línu út í gegn, að þetta fyrirkomulag sé heppilegast af öllu og að það sé því aðeins lögleitt, að það sé heppilegra, en annað? Nei, það er ekki einu sinni, að það sé manndómur til þess að halda þessari hugsun eða þessari línu heilli, heldur er verið að fitla við, að það sé bara eins konar óhapp, að þetta hafi skeð, og Framsfl. að kenna. Ef framsóknarmenn hefðu bara haft betur gát á og kippt í sjálfstæðismenn, þá hefði þetta allt saman getað farið á aðra lund. Og þetta er niðurstaðan af tveggja daga umr. um það, hvað þessi leið sé ákjósanleg og hvað aðrar leiðir séu gersamlega ófærar.

Að sínu leyti eins og þetta var svar hv. 1. þm. Reykv., sem kom fram hér í gær. Það hafði verið sýnt fram á það með fyllstu rökum, hversu stórfelld hætta væri á því, að ýmsir landspartar yrðu algerlega út undan við þessa nýju kjördæmaskipun, sem nú væru sjálfstæð héruð og kjördæmi og hefðu fulltrúa fyrir sig. Og það var bent af hv. þm. V-Húnv. (SkG) í því sambandi á Vestur-Skaftafellssýslu og Norður-Þingeyjarsýslu sem dæmi. Hverju halda menn að hv. 1. þm. Reykv., frsm. meiri hl., hafi svarað þessu? Maður skyldi nú halda, að hann hefði reynt að sýna fram á, hversu tiltölulega auðvelt það væri fyrir þessa landshluta að koma vilja sínum fram innan hinna stóru kjördæma, og hefði reynt að sýna fram á það með rökum, að það væri engin hætta á því, að þeirra hlutur yrði fyrir borð borinn. Gerði hv. þm. þetta? Nei, hann sagði, að menn skyldu athuga, að það væri öllu óhætt, vegna þess að hv. 2. þm. Rang. (SvbH) mundi sitja áfram á þingi. Hann væri fæddur í Vestur-Skaftafellssýslu og hefði einu sinni verið þm. V-Sk. Þetta voru rökin. Það er sem sagt hreinleg játning um það, að þessi litlu héruð gætu kannske haft einhver ítök í manni, ef hann af tilviljun væri fyrir þingmaður á þessu svæði, en þá að sama skapi óbein játning um, að ef ekki væri neinu slíku að dreifa, þá hlyti þeirra hlutur að detta niður. Og ef þetta er svo sett í lófann, þá er röksemdafærslan sú, að af því að hv. 2. þm. Rang. er fæddur Skaftfellingur, þá er óhætt að breyta kjördæmaskipuninni á þennan hátt, það verður ekki að neinu tjóni fyrir litlu kjördæmin.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að það væri nauðsynlegt að gera þessa breyt. núna, til þess að þjóðarviljinn yrði ekki skekktur og til þess að lagfæra misrétti. Það hefur nú verið sýnt fram á það með rökum, sem ómögulegt er að hrekja, að það er hægt að lagfæra misréttið án þess að leggja héraðakjördæmin niður. Það er hægt með því að fjölga kjördæmakjörnum þm. í þeim héruðum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest, samkv. þeirri miðlunartillögu, sem Framsfl. leggur fram. En þessa miðlunartillögu vilja, að því er virðist, hinir ekki á hlusta, því að þeir vilja ekkert annað heyra en að leggja héraðakjördæmin niður. En það er einmitt, eins og kom fram í því, sem hv. þm. Mýr. (HS) las hér upp, eftir þáverandi hv. þm. V-Ísf., núverandi hæstv. forseta landsins, auðvelt að haga þessu þannig, að hinn forni réttur héraðanna haldist, en lagfæra misréttið með öðru móti. Það er að vísu reynt að benda á ágalla á þeirri leið með því að segja, að þá hafi ekki öll kjördæmin nákvæmlega jafnmarga íbúa. En að slíku hefur aldrei verið hægt að keppa og er ekki keppt, þar sem reynt er að taka tillit til staðhátta ásamt íbúatölunni við kjördæmaskipunina. En það er það, sem þeir, sem standa að þessu máli, alls ekki vilja. En slík kjördæmaskipun, þar sem ekkert tillit er tekið til staðháttanna, heldur er aðeins litið á höfðatöluna á engan rétt á sér, og hún er gerbylting frá því, sem verið hefur, og í raun og veru upplausn á því skipulagi, sem við höfum búið við frá öndverðu. Þetta er bezt, að menn geri sér algerlega ljóst, og þetta veit ég vel að þeim er ljóst, sem að þessu máli standa. Þess vegna er þetta mál ekki aðeins það, að verið sé að jafna misrétti, sem hægt er að gera með öðrum breytingum, heldur er hér verið að umbylta stjórnskipulagi landsins með því að fella alveg niður það sjónarmið að taka tillit til staðhátta, en það hefur verið annað aðalundirstöðuatriði í allri okkar stjórnarskipun frá byrjun.

Í þessu sambandi segir hv. 1. þm. Reykv., að þeir, sem séu á móti þessu máli, á móti þessari breyt., þeir vilji gera Íslendinga misgóða eftir því, hvar þeir búa á landinu. En má ég spyrja: Hefur ekki einmitt hv. 1. þm. Reykv. og hans menn verið að hrósa sér af því beinlínis að hrósa sér af því, að eftir þessa byltingu, sem þeir vilja gera, verði það einnig þannig, að þeir, sem búa í höfuðborginni, verði fleiri að baki hverjum þm. en á sér stað annars staðar á landinu? Hefur hann ekki einmitt verið að hrósa sér af því, að þannig lagaðan mismun vildi hann gera? Eða ber að skoða þessar umr. allar og þessar ræður þeirra hv. þm., sem fylgja þessu máli, svo, að þetta eigi að vera aðeins til bráðabirgða og að með þessu meini þeir í raun og veru ekki neitt? Og það má mikið vera, ef það er ekki í raun og veru lykillinn að þeim hugsanagangi, sem verður vart við af þeirra hendi í sambandi við þetta mál. Hvernig hugsa þessir hv. þm. sér að tryggja þetta „flokkslega réttlæti“, sem þeir eru alltaf að tala um, ef þeir ætla að hafa áfram miklu fleiri menn að baki hverjum þm. í höfuðborginni og þar sem þéttbýlið er mest, en annars staðar? Hvernig ætla þeir þá að tryggja hið flokkslega réttlæti? Ef fylgið skiptist misjafnt á milli flokkanna eftir landshlutum, geta þeir aldrei tryggt flokkslegt réttlæti nema með því að sleppa algerlega hinu sjónarmiðinu og láta alls staðar vera jafnmarga menn að baki hverjum þingmanni.

Og sannleikurinn er sá, að það er ráðningin á þessari gátu, sem mörgum virðist vera, og þessum tvískinnungi í þeirra afstöðu, að þetta er það, sem þeir ætla sér. Og þeir vita, að þessu marki er ekki hægt að ná nema með því að leysa gömlu kjördæmaskipunina upp, og það er fyrsta skrefið. Síðan ætla þeir að halda áfram að útþynna vald byggðanna með því að fara inn á þá braut að láta alls staðar vera nákvæmlega jafnmarga kjósendur að baki hverjum þingmanni. Allt þetta tal þeirra um flokkslegt réttlæti stefnir beint að þessu marki. Og allt þetta ofurkapp um að leggja gömlu héruðin niður sem kjördæmi stefnir einnig beina leið að þessu marki.

Og það er meira í þessu, og það er það, sem hefur komið sérstaklega greinilega fram í þeim umræðum, sem hér hafa átt sér stað, og það er þetta, að þeim mönnum, sem fyrir þessu standa, er það ofurkappsmál, það kemur fram í umræðunum, að rífa líka gömlu sýsluskiptinguna niður. Þeir halda hér hverja hrókaræðuna á fætur annarri gegn sjálfri sýsluskipuninni, velja henni hin hæðilegustu orð, segja, að hún eigi engar rætur í hinni sögulegu þróun, og eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði núna í sinni síðustu ræðu, að það mundi vart finnast maður, sem dytti í hug, að sýsluskiptingin væri í nokkru sambandi við líf fólksins í landinu. Þó eru sýslurnar þær félagslegu einingar, sem byggð hefur verið á um aldir sjálf stjórnskipan landsins. En það er alveg augljóst, að það er stefnt að því að rífa sýsluskiptinguna niður á eftir, og kemur þá að því, sem við gerðum ráð fyrir, sem höfum beitt okkur á móti þessu máli, að þetta væri bara byrjunin. Það væri meiningin að halda síðan áfram, rífa upp gömlu sýsluskipunina og draga þannig enn stórkostlega úr því valdi héraðanna, sem á þeirri gömlu skipan byggist.

Hv. 5. landsk. (BG) var sýnilega búinn að grafast eftir því, hvort það væru ekki veilur einhvers staðar að finna eða einhvers staðar hefði komið fram óánægjurödd með sýsluskiptinguna, og vitaskuld er, að það getur alltaf verið álitamál um einn eða tvo hreppa eða svo, hvar þeir ættu réttilega að eiga heima í sýsluskipuninni og hvort endurbætur gætu átt sér stað. Hv. þm. var sýnilega búinn að kynna sér þetta vandlega til þess að geta smeygt því að, að með skipunina væri nú þegar óánægja, sem hægt væri að fylgja eftir og nota til þess að rífa þetta skipulag algerlega niður. Enginn, sem hefur hlustað á þessar umræður hér í gær og í dag, efast um, að það er það, sem á að fara á eftir. En ég hygg, að það sé mikill misskilningur hjá hv. 5. landsk. þm., ef hann heldur, að þær óánægjuraddir eða sú gagnrýni, sem komið hefur fram á sýsluskiptingunni, t.d. á Fljótsdalshéraði, þýði, að þeir hinir sömu vilji leggja sýslurnar niður. Það er mikill misskilningur, ef hann heldur það. Það er allt annað, sem liggur þar til grundvallar, en að þeir vilji steypa þeim saman og leggja sýslurnar niður í sinni núverandi mynd. Það hafa á hinn bóginn komið fram tillögur um, að til viðbótar við sýslurnar séu gerðar nýjar félagslegar einingar úti um landið, sem væru fimmtungs- eða fjórðungsþing. En það á ekkert skylt við það að leysa hina fornu skipan upp, það hefur verið hugsað beinlínis til þess að styrkja og efla vald héraðanna frá því, sem það er nú.

Ég skal svo ekki þreyta frekari umræður að sinni. Ég taldi nauðsynlegt að taka þetta fram út af því, sem hv. forsvarsmenn málsins höfðu sagt nú síðast. En ég vil að lokum strika undir þetta: Ég bið menn að hugleiða, að í þessum umr. kemur það eins greinilega fram og verða má, að hér á að stíga aðeins fyrsta skrefið í framkvæmd áætlunar, sem hefur það að markmiði að gerbreyta alveg okkar stjórnskipun frá grunni í þá átt, sem ég hef bent á.