08.05.1959
Efri deild: 114. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Jónsson:

Herra forseti. Með frv. því til stjórnskipunarlaga, sem hér er rætt, er stefnt að því að tryggja rétt meiri hluta kjósenda til þess að ráða skipun meiri hl. Alþ. Það er einnig stefnt að því að draga verulega úr því misrétti um raunverulegan kosningarrétt, sem ríkjandi er eftir búsetu í landinu. Og það er stefnt að því að tryggja minni hluta kjósenda fullt valfrelsi í kosningum og fulltrúatölu á Alþ. í sem fyllstu samræmi við fjölmenni hans.

Fyrir þeim, sem viðurkenna og trúa því, að frumatriði og grundvöllur þingræðis og lýðræðis sé valfrelsi, jafnrétti og vald meiri hl., ásamt eðlilegri vernd minni hl., getur enginn vafi leynzt um það, að þetta frv. er mikilvægt spor í átt til fyllri mannréttinda, en við höfum átt við að búa. Og er þó ekki þar með fullyrt, að svo sé umbúið, að ekki verði um bætt, né að einstök atriði mættu ekki betur fara. Um slíkt má auðvitað ætíð deila, þó að það breyti engu um höfuðatriði málsins.

Það fer mjög að líkum, að andmælendur þessa frv. hafa hliðrað sér hjá því að gera hreint fyrir sínum dyrum, varðandi það, hvort þeir telji, að meiri hluti Alþingis eigi skilyrðislaust að vera skipaður í samræmi við meirihlutavilja þjóðarinnar. Sjálfir stóðu þeir að því fyrir réttum þremur árum að reyna að hrifsa til sín meiri hluta á Alþingi ásamt Alþfl, með rífum þriðjungi atkvæða þjóðarinnar, og hurð skall þar svo nærri hælum, að það tilræði tækist, að augu margra, sem áður voru sjóndaprir, opnuðust fyrir þeim geigvænlegu hættum, sem lýðræðinu og þingræðinu í landinu eru búnar af þeirri stjórnskipun, sem opnar leiðir fyrir slíku valdabraski. Menn eru ekki heldur búnir að gleyma því, að ekki eru nema sex ár síðan Sjálfstfl. og málgögn hans töluðu um það af yfirlæti, að flokkinn skorti aðeins 300–400 atkvæði í tilteknum smákjördæmum til þess að ná hreinum meiri hluta á Alþingi, enda þótt fylgjendur þess flokks teldust þá ekki langt yfir þriðjung landsmanna.

Sem betur fer, hafa þessar skuggalegu fyrirætlanir, sem þannig hafa verið bruggaðar til skiptis af foringjum allra borgaraflokkanna í landinu, mistekizt til þessa. En ekki sannar það, að svo mundi alltaf fara. Og hvar væri þá þingræði okkar statt, ef slík vélabrögð heppnuðust? Ef valdarán af slíku tagi yrði framið, væri eftirleikurinn auðveldari fyrir þá, sem fyrir valdbeitingunni yrðu, og kynni þá að styttast bilið milli stjórnarfars okkar og til dæmis ríkja Suður-Ameríku, sem stundum er vitnað til. Og mundu slíkar hættur vera minni í hernumdu landi, þar sem erlendur herafli og tilvist hans stendur í nánu sambandi við stjórnmálalegar hræringar?

Með þeirri stjórnlagabreytingu, sem nú er fyrirhuguð, er svo sem verða má girt fyrir það, að valdarán í líkingu við það, sem Hræðslubandalagið hugðist framkvæma 1956 og Sjálfstfl. 1953, yrði reynt eða gæti heppnazt, og yfirgnæfandi líkur tryggðar fyrir því, að flokkar, sem hefðu að baki sér meiri hluta kjósenda, hefðu stjórnarforustu á hendi, — og hver vill ekki, að svo verði?

Í orði er það viðurkennt af talsmönnum allra stjórnmálaflokkanna, líka Framsfl., að óhjákvæmilegt sé að draga verulega úr því misrétti um kosningarrétt, sem ríkjandi er eftir því, hvar kjósendur eru búsettir í landinu. Og ekki getur vafi leikið á því, að sú skipan, sem fer næst því að tryggja jafnan rétt allra landsmanna til áhrifa á löggjafarvaldið, samrýmist bezt grundvallarhugmyndum manna um raunverulegt lýðræði. Á hitt ber að líta, hvort íbúar þéttbýlisins hafa með öðrum hætti, en hinum beina kosningarrétti slíkt áhrifavald í stjórnmálum, að réttmætt sé, að þeir eigi að tiltölu færri fulltrúa á Alþingi en þeir, sem í dreifbýlinu búa. Það mat verður að sjálfsögðu alltaf erfitt og óhugsandi, að þar geti nokkurn tíma orðið um óumdeilanlegan dómsúrskurð að ræða, að hvaða marki eigi að þrengja kosningarrétt fólksins í þéttbýlinu, af þessum sökum. Líka kemur þar til, að ekki eru menn á eitt sáttir, þegar til þess kemur að skilgreina, hvað sé þéttbýli og hvað dreifbýli. Ræður þar fjarlægðin ein frá höfuðborginni, eða nær dreifbýlishugtakið aðeins til sveita og næstu sjávarþorpa? Nokkuð hafa mér virzt hugmyndir manna á reiki um þetta og þá ekki síður framsóknarmanna en annarra.

Með þeirri breytingu, sem þetta frv. felur í sér, er gert ráð fyrir því, að þingmönnum Reykjavíkur verði fjölgað um fjóra og Reykjaneskjördæmis um þrjá. Kjósendur að baki hverjum þingmanna Reykjavíkur yrðu þá um 3.500 og Reykjaneskjördæmis um 2.500, en annars staðar á landinu er kjósendatalan frá tæpum 1.100 og upp í rúm 1.800, miðað við kjörskrár, eins og þær nú eru.

Er nú unnt að ganga skemmra til móts við eðlilegar kröfur Reykvíkinga og íbúa á Reykjanesskaganum? Það segir sína sögu um þetta atriði, að andstæðingar frv., framsóknarmenn, lýsa því yfir, að þeir séu fúsir til að fallast á nákvæmlega sömu fjölgun og frv. gerir ráð fyrir í Reykjavík. Aðalmálgagn þeirra, Tíminn, hefur látið liggja að því, að lítil reisn væri í þeirri úrlausn, sem Reykvíkingum væri gerð nú, þar sem hlutur þeirra yrði nú tiltölulega minni, en eftir kjördæmabreytinguna 1942. Að vísu tala framsóknarmenn nokkuð tveim tungum um fjölgun Reykjavíkurþingmanna. Láta þeir suma af þingmönnum sínum halda því fram, að hlutur Reykjavíkur sé gerður allt of mikill, og í sumum blöðum þeirra er því aftur haldið fram, að ekki ætti að fjölga þingmönnum höfuðstaðarins, þeir séu sannarlega nógu margir. Þannig spyr blaðið Dagur á Akureyri 22. f.m. með mikilli vandlætingu: „Hafa hagsmunamál Reykvíkinga verið fyrir borð borin á undanförnum árum vegna þess, að þeir hafi ekki átt nógu marga fulltrúa á Alþingi?“ En þessi tóntegund er ekki ætluð Reykvíkingum, og þegar við þá er talað, er breytt um róm. Þá er talin lítil reisn í fjögurra þingmanna fjölgun í Reykjavík, og þó er það einmitt hin sama fjölgun og þeir sjálfir leggja til. Sem sagt: fjölgun þm. í Reykjavík um fjóra er allt í senn: of lítil, of mikil og loks alveg hæfileg. Auðvitað sýnir slíkur málflutningur aðeins eitt, að hér er svo hóflega í sakirnar farið, að andmælendur frv. vita ekki sitt rjúkandi ráð, er leita skal mótraka gegn þeirri leiðréttingu, sem íbúum höfuðstaðarins er hugsuð í þessu frv.

Svipað er að segja um fjölgun, þingmanna í Reykjaneskjördæmi, á Miðvesturlandi og Norðausturlandi. Framsóknarmenn vilja, að Gullbringu- og Kjósarsýslu verði skipt í fjögur kjördæmi og Hafnarfjörður kjósi áfram einn þm. eða kjördæmið fái fimm kjördæmakosna þingmenn alls, en það er einmitt sú fulltrúatala, sem frv. gerir ráð fyrir. Einnig vilja framsóknarmenn fallast á nákvæmlega sömu þingmannafjölgun á Miðvesturlandi og Norðausturlandi og ráðgerð er með stjórnlagafrv. Hið eina, sem á milli ber að þessu leyti, er, að framsóknarmenn leggja til að fækka uppbótarþingmönnum um einn og láta fulltrúatölu Austurlands haldast óbreytta, þ.e.a.s. að Seyðisfjörður verði sérstakt kjördæmi, eins og verið hefur. Það er að vísu sagt, að þessar till. séu eins konar miðlunartill., sem þeir geti fallizt á til þess að forða öðru verra. En eru þær ekki samt nokkur vitnisburður um það, að nærri sanngjarnri lausn sé farið, þegar miðlunartill. frá hendi andstæðinga frv. eru ekki að þessu leyti, að því leyti sem tekur til atkvæðisréttar eftir búsetu, frábrugðnari frv. en svo, að þar skakkar aðeins einum fulltrúa? Minni gat sá munur tæplega orðið og því síður þar sem hér er um að ræða matsatriði, sem vafalaust má endalaust um deila. Persónulega er ég t.d. þeirrar skoðunar, að Norðausturlandskjördæmi bæri með réttu vegna fjölmennis og fjarlægðar frá höfuðborginni einum þingmanni fleira, en því er ætlaður. Samkomulag gat hins vegar ekki orðið um þá breytingu, án þess að slík fjölgun yrði annars staðar á fulltrúatölu og þingmannafjölda í heild, að út á hálan ís hefði verið farið, bæði hvað snerti hlutföll milli fulltrúafjölda kjördæmanna og tölu þingmanna í heild.

Hv. þm. S-Þ. ræddi nokkuð í sinni framsöguræðu um Norðausturlandskjördæmið sérstaklega og taldi, að meiri hluti stjskrn. hefði sýnt ábendingum sínum um hinn rýra hlut þessa kjördæmis fullkomið tómlæti. Í nefndinni lýsti ég skoðun minni á þessu atriði, eins og ég hér hef gert, en sagði jafnframt, að ég teldi ekki koma til mála að stofna afgreiðslu málsins í hættu vegna ágreinings um eitt þingsæti í þessu kjördæmi Við það álit mun ég standa, hvar sem er og hvenær sem er. Ég þykist sjá, að hv. þm. S-Þ. og ef til vill fleiri flokksbræður hans hyggist geta notfært sér til framdráttar á Norðausturlandi, að því er ekki ætlaður stærri hlutur, en raun er á. En hver er alvara Framsfl. um þetta atriði málsins? Hvar eru till. þeirra um, að Norðausturlandi verði ætlaðir 7 þingmenn í stað 6? Þær hafa ekki sézt enn þá. Refirnir eru aðeins skornir til þess að reyna að vekja óánægju, en ekki til þess að freista þess að koma fram réttlæti. Annars hefðu þeir strax í hv. Nd. flutt brtt. um þetta, og annars hefði hv. þm. S-Þ. flutt till. um fjölgun þingmanna á Norðausturlandi í stjórnlaganefndinni í þessari hv. deild, en hvorugt hefur gerzt, og því falla ásakanir hv. framsóknarmanna af þessu tilefni um sjálfar sig eins og fleiri. Þeir hafa sannanlega aldrei ætlað Norðlendingum stærri hlut, en þetta frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar hafa þeir lagt til, að fjölgun þeirri um einn þingmann, sem fyrirhuguð er, yrði þann veg háttað, að Akureyri yrði gerð að tvímenningskjördæmi. Hlutfallskosning, svo banvæn sem hún er að dómi framsóknarmanna, var nógu góð handa Akureyringum, — og hvers vegna? Auðvitað vegna þess, að verulegar líkur mætti telja á, að Framsfl. fengi annan þm. kjördæmisins og tryggði sér þannig fjóra af sex þingmönnum Norðausturlands, enda þótt fylgið gefi ekki tilefni til fleiri, en þriggja í mesta lagi. Þessi flokkur, sem þannig stendur að tillögugerð, er sannarlega ekki að taka afstöðu eftir þröngum flokkssjónarmiðum, eins og þeir orða það. Réttlætið er þar sannarlega ofar öllu öðru!

Hv. þm. S-Þ. gerði fleiri atriði varðandi Norðausturlandskjördæmi sérstaklega að umræðuefni, og var þar sumt ekki alls ófróðlegt. Hann sló á þann strenginn nú, að Akureyri mundi, er fram liðu stundir a.m.k., vaxa hinum byggðum kjördæmisins yfir höfuð og þar flestu ráða, allir þm. kjördæmisins mundu verða þar búsettir innan tíðar, sem sagt: hlutur Akureyrar yrði allt of mikill. Vel mætti segja mér, að þegar þessi hv. þm. kemur til Akureyrar í sumar til þess að leita sér þar fylgis, muni hann ekki minnast á þetta, heldur leggja á það þunga áherzlu, að verið sé að leggja Akureyri niður sem kjördæmi og slíkt sé þyngra böl, en tárum taki. Það styður þá skoðun mína, að þannig muni þetta verða, að í málgagni Framsfl. á Norðurlandi, sem ætlað er bæði Akureyringum og sveitunum norðanlands, eru þessar andstæðu fullyrðingar túlkaðar til skiptis, sína vikuna hvor þeirra. Auðvitað mun Akureyri ekki verða sniðgengin, þegar flokkarnir ákveða frambjóðendur sina. En engum mun heldur reynast hagstætt að hunza vilja þeirra kjósenda, sem byggja Þingeyjarsýslur, eða kjósenda í Eyjafirði, sem eru samtals nokkru fleiri, en helmingur kjósenda í þessu kjördæmi. Hitt skiptir þó mestu máli, að þegar stundir líða, munu bæði kjósendur og fulltrúar þeirra hætta þeirri fásinnu að metast á um það, hvaðan úr kjördæminu hver fulltrúi, sem á þing er kosinn, er, heldur verður það úrslitaatriði, hvort hann er nýtur fulltrúi kjördæmisins sem heildar, alveg á sama hátt og ekki er um það barizt, hvort frambjóðandi í Suður-Þingeyjarsýslu er búsettur í Húsavík eða í Mývatnssveit eða Eyfirðingur í Ólafsfirði eða á Dalvík. Á það er einnig að líta, að úrslit — barátta um 1–2 þingsæti í stóru kjördæmi — hljóta ávallt að ákvarðast af tiltölulega fáum atkv. Frambjóðandi í Norðausturlandskjördæmi t.d., þótt hann væri búsettur á Akureyri eða á Raufarhöfn, mundi því víssulega leita eftir kjörfylgi Flateyinga ekkert síður en annarra og telja sér hagstætt og skylt að beita sér fyrir málefnum þeirra. Þetta hlýtur hverjum manni að liggja í augum uppi. Hins vegar þótti mér ekki aðlaðandi sú lýsing, sem hv. þm. S-Þ, gaf hér af því, hvernig hann hefði unnið að málefnum Flateyinga í fjvn., haft sín mál fram varðandi þá með því að kaupa því við þm. Ak., að hann skyldi sjálfur veita málefnum Akureyrar lið, ef hinn styrkti Flateyinga. „Þannig gerði ég Flatey jafnsterka Akureyri“, sagði þm., og gætti stolts í röddinni. Það hafa þá ekki verið málefnin sjálf, skoðuð hlutlægt og metin, sem ráðið hafa atkv. þessara hv. þm., heldur vonin um, að greiði kæmi gegn greiða, og óttinn við, að mál hlyti ekki liðstyrk nema með hrossakaupum. Er ekki mikil eftirsjá í slíkum vinnubrögðum? Eða eru margir af hv. þm. orðnir svo samdauna þessu, að þeir geti ekki hugsað sér annað verklag heiðarlegra og vænlegra til árangurs fyrir byggðir landsins? En hvað um það, ég vil þakka fræðsluna um vinnubrögðin í fjvn., og það má sjálfsagt skilja ýmsa hluti betur í ljósi þeirrar fræðslu.

Hv. þm. S-Þ. sagði, að þm. kjörnir af mismunandi flokkum í sama kjördæmi hlytu ávallt að leitast við að bregða fæti hver fyrir annan og mundu því ekki vinna saman að framgangi héraðsmála, og ekki batnaði, þegar uppbótarmennirnir kæmu til skjalanna. Mér liggur við að halda, að hér sé mælt gegn betri vitund. A.m.k. er reynslan allt önnur. Mér hefur t.d. virzt, að þingmenn tvímenningskjördæmanna hér á hæstv. Alþ., þótt kjörnir hafi verið af tveim flokkum, hafi yfirleitt snúið bökum saman um málefni sinna kjördæma, og hið sama er að segja um kjördæmakosna þm. og landskjörna þm. Auðvitað er engin regla án undantekningar. Sitt kann hverjum að sýnast í einstökum málum, og ekki er heldur alltaf full samstaða um öll mál heima í héruðunum. En ekki held ég, að neinum reyndist það til pólitískrar farsældar að smeygja sér út úr samstarfi þm. hinna stóru kjördæma. Ég held, að almenningsálitið heima í héruðunum mundi þrýsta á slíkt samstarf og það mundi takast um flest héraðsmál, þm. hinna stóru kjördæma mundu mynda þingflokka, að nokkru leyti óháða flokkunum, um málefni sinna héraða og það mundi ólikt sigurstranglegra þeim til framgangs, en kaupmennska eins þm. eða tveggja, jafnvel þótt kænlega væri verzlað, eins og ég efast ekki um að Flateyjarverzlun hv. þm. S-Þ. hafi verið.

Fullt og óskorað valfrelsi kjósenda telja menn einn helzta hyrningarstein lýðræðis. En hafa menn að fullu notið þess með þeirri kjördæmaskipun, sem gilt hefur, þ.e.a.s. aðallega skipulagi einmenningskjördæma og hlutfallskosninga í tvímenningskjördæmum? Ég held ekki. Í einmenningskjördæmum hlýtur kosningabarátta langoftast að snúast um það, hvor tveggja hinna sterkustu flokka beri sigur úr býtum, algeran sigur, þar sem hinn sterkari fær allt, en hinn veikari ekkert. Oftast er þó raunverulega aðeins í milli tveggja frambjóðenda að velja, enda þótt margir flokkar bjóði fram. Þeim, sem hvorugan hinna sterku flokka aðhyllast, eru því raunverulega gerðir þeir kostir að velja hið skárra af tvennu illu eða láta atkvæði sín falla dauð að öðrum kosti. Í orði kveðnu er mönnum frjálst að skipa sér í flokka samkv. skoðunum sínum og sannfæringu, en í reyndinni er þetta frelsi miklum takmörkunum háð í landi, sem byggir stjórnskipun á einmenningskjördæmum, og hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum eru bæði lítil og hæpin úrbót í því efni. Ekki leikur vafi á því, að skipulag einmenningskjördæma hefur haldið stjórnmálasamtökum alþýðunnar í landinu í skrúfstykki, hefur bútað sundur tengsl verkalýðsins í sjávarþorpum og kaupstöðum landsins og varnað honum að sameinast stjórnmálalega. Með því skipulagi hefur tekizt að viðhalda vonleysi meðal verulegs hluta verkalýðsstéttarinnar um árangursríka stjórnmálabaráttu. Verkalýðsstéttin hefur verið beitt andlegum pyntingum til þess að dreifa atkv. sínum á andstöðuflokka sína. Ekki er einasta, að atkv. hennar hafi verið metin allt að þrisvar sinnum minna en annarra stétta, heldur hefur raunverulegt valfrelsi hennar verið stórlega skert. En þetta vilja foringjar Framsfl. telja hið fullkomnasta lýðræði. Er það næsta ótrúlegt, að svo reynist, að bændastéttin, hinn eðlilegi bandamaður verkamanna í stjórnmálabaráttunni, sé almennt þeirrar skoðunar, að svipta beri alþýðustéttir bæjanna og sjávarbyggðanna stjórnmálalegu frelsi og sjálfsákvörðunarrétti. En mikil má blinda foringjanna vera, svo að notað sé orðalag framsóknarmanna, ef þeir halda, að í slíkri afstöðu felist umhyggja fyrir bændastéttinni. En því miður fer ekki á milli mála, að foringjar Framsfl. vita, hvað þeir eru að gera og hvað þeir vilja í þessu efni. Tilgangur þeirra er sá að neyða alþýðustéttirnar til þess að skipta sér upp til hópa í milli Framsfl. og íhaldsins. Helmingaskiptaregluna alræmdu á sem sé að útfæra í nýrri flokkaskipun, með nauðung. Einmenningskjördæmi alls staðar utan Reykjavíkur og jafnvel í Reykjavík, — a.m.k. gat hv. þm. S-Þ. vel hugsað sér það, að Reykjavík yrði einnig skipt í einmenningskjördæmi — er framtíðarmarkmiðið, og uppbótarþingsætin á að leggja niður. Í dag mundi þetta þýða það, að Alþfl. fengi engan þm. kjörinn og Alþb. í hæsta lagi 3–4. Fulltrúar verkalýðsstéttanna yrðu ekki lengur að þvælast fyrir gömlu helmingaskiptaflokkunum á Alþ., og þeir gætu óáreittir ráðið þar öllu.

Í aðalmálgagni Framsfl., Tímanum, 21. marz s.l. er af tekinn allur vafi um það, að foringja Framsfl. dreymir um það að koma á þeirri kosningaskipun, að verkalýðshreyfingin glati með öllu stjórnmálasamtökum sínum og verði neydd til að leggja þau niður. Þar segir: „Meiri og furðulegri blekkingu er ekki hægt að hugsa sér,“ — þ.e.a.s. en þá, að till. framsóknarmanna séu hnefahögg í andlit vinstri manna. „Ef tillögur framsóknarmanna næðu fram að ganga, mundu vinstri menn sameinast í eina stóra fylkingu, eins og t.d. hefur átt sér stað í Bretlandi. Sú kosningatilhögun yrði til þess að sameina vinstri öflin. Tilgangur Sjálfstfl. með þessu fyrirkomulagi, þ.e. hinni breyttu kjördæmaskipun, er líka fyrst og fremst sá að auka sundrungu vinstri aflanna. Það sorglega er, að foringjar Alþfl. og Alþb. eru svo blindir og halda slíku dauðahaldi í flokksbrot sín, að þeir sjá ekki þennan tilgang Sjálfstfl.“

Hér er víssulega ekki talað neitt tæpitungumál. Það er hin argasta blekking af foringjum Alþfl. og Alþb., argasta blinda að leggja ekki flokka sína niður og gerast áhrifalausir fylgisveinar Framsfl. Sú sameining vinstri aflanna, sem foringjar Framsfl. virðast hafa mestan áhuga fyrir, á ekki að verða til fyrir málefnalega samstöðu eða frjálsan vilja alþýðustéttanna, heldur á hún að byggjast á nauðungarlögum, sem veita Framsfl. og Sjálfstfl. alla valdaaðstöðu í landinu. Slík vinstri samvinna á sér áreiðanlega formælendur fáa utan foringja framsóknarmanna. En það er einmitt sú afstaða, sem í þessu lýsir sér, sem verið hefur verstur þrándur í götu árangursríkrar vinstri samvinnu í stjórnmálum um langan aldur, þ.e.a.s. tillitsleysi foringja Framsfl. við bandamenn sína úr verkalýðsstéttinni, og er reynslan af fyrrv. ríkisstj. og starfi hennar og þá ekki sízt stjórnarslitunum glöggt dæmi um þetta.

Með hlutfallskosningum í allstórum kjördæmum verður af létt þeirri nauðung, sem fylgismenn minnihlutaflokka og þá alveg sérstaklega flokka verkalýðsstéttarinnar eru og hafa verið beittir til þessa dags. Stjórnmálasamtök verkalýðshreyfingarinnar fá í fyrsta skipti eðlileg og réttlát skilyrði til vaxandi áhrifa á löggjafarvaldið. Þess vegna lítur verkalýðsstéttin ekki aðeins á þessa stjórnlagabreytingu sem réttlætis- og mannréttindamál, heldur sem mikilvægan áfanga í hagsmunabaráttu sinni. Þetta sjónarmið reyna framsóknarmenn að gera tortryggilegt með því að benda á áhuga Sjálfstfl. og stuðning hans við kjördæmabreytinguna. Ekki geti honum gengið til velvilji til alþýðustéttanna. Honum hafi þótt núverandi kjördæmaskipun góð, meðan hann hafði von um að geta náð meiri hl. á Alþ. eftir þeirri skipan. Ranglætið hafi verið gott, meðan það gaf vonir um flokkslegan hagnað, en illt, þegar ekki var lengur hagur í því. — Auðvitað gera allir sér ljósa grein fyrir því, að afstaða Sjálfstfl. til kjördæmamálsins mótast gersamlega af sama hugarfari og afstaða Framsfl., þótt ólík sé, þ.e.a.s. af hagsmunum flokkanna, eins og þeir eru metnir af flokksforingjunum nú í augnablikinu. Nú í bili telur Sjálfstfl., að hin nýja skipan henti sér betur, — Framsfl., að hann missi eitthvað af rangfengnum þingstyrk sínum. Báðir flokkarnir gera sig broslega í augum alþjóðar með því að veifa fána réttlætisins. Það fer báðum jafnilla, þegar lítið er til fortíðarinnar. Og Alþfl. getur líka fylgzt með að þessu leyti. Allir vita, að hann leitar nú eftir hverju hálmstrái til þess að bjarga líftórunni, og því undrar engan, þótt hann grípi nú í þann bjarghring, sem að honum er réttur. Við Alþýðubandalagsmenn erum hinir einu, sem höfum alltaf verið sjálfum okkur samkvæmir í kjördæmaskipunarmálunum og eigum ekkert sökótt við fortíð okkar í því efni.

Hv. þm. Str. (HermJ) sagði hér í umr., að allir flokkar hefðu lýst því yfir 1942, að þeir mundu aldrei fallast á stór kjördæmi. Þetta er rangt. Einar Olgeirsson, fulltrúi Sósfl. í stjskrn. Nd. þá, lýsti skilmerkilega þeirri afstöðu sinni, að hann teldi, að heppilegasta breytingin á kjördæmaskipuninni væri sú, að landið yrði gert að nokkrum stórum kjördæmum og að þorri þm. yrði kosinn í þeim með hlutfallskosningum og væri tala þm. í hverju kjördæmi í hlutfalli við kjósendatölu þess, en 11 uppbótarþingsæti yrðu auk þess, svo sem nú er. Með kjördæmabreytingunni nú er því í öllum meginatriðum fylgt þeirri stefnu, sem Sósfl. mótaði 1942.

Framsóknarmenn halda því að fólki, bæði beint og óbeint, sem nokkurs konar grýlu, að af þessari kjördæmabreytingu muni leiða það, að Sjálfstfl. nái meiri hl. á Alþ., og að þeim voða verði naumast forðað nema með því að viðhalda óbreyttri kjördæmaskipun eða a.m.k. að öllu óréttlætinu, sem henni fylgir, verði haldið, og helzt þyrfti þó að herða á því með því að fella niður uppbótarþingsætin.

Við Alþýðubandalagsmenn álítum hins vegar, að ekkert annað en frjáls stjórnmálaleg samstaða vinstri manna geti reynzt fær leið til þess að hnekkja valdi Sjálfstfl. og þvílíkra flokka. Við höfum enga trú á því, að sú ógæfa, að Sjálfstfl. nái völdum í landinu, verði hindruð með því að standa gegn því, að hann fái þingstyrk í samræmi við fylgi sitt meðal þjóðarinnar, allra sízt ef það á einnig að kosta það, að verkalýðsstéttin sé svipt lýðræðislegum réttindum og valdi. Sterk og sameinuð verkalýðshreyfing verður alltaf og alls staðar traustasta vörnin gegn yfirgangi afturhaldsflokka, og henni einni er fært að undirbyggja þá samstöðu með bændum og millistétt bæjanna, sem getur tryggt þverrandi áhrif og völd flokka á borð við Sjálfstfl. Hin fyrirhugaða kjördæmabreyting skapar á margan hátt aukna möguleika á slíkri samstöðu.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar, að Framsfl. sé ekki svo heillum horfinn, að hann sannfærist ekki um það, að honum muni ekki reynast lífvænt sem áhrifamiklum flokki í framtíðinni, ef hann heldur áfram að sýna verkalýðsstétt sjávarþorpanna og bæjanna sama tillitsleysi og oft hefur viljað við brenna, þegar sú skipan er komin á, að verkamenn og bændur beita kosningavaldi sínu í hinum sömu kjördæmum. Á sama hátt hljóta þeir flokkar, sem aðallega hafa byggt á fylgi verkafólks, að leitast við að móta stefnu sína í samræmi við þarfir bændastéttarinnar og sinna málefnum hennar betur en áður. Þannig er líklegt, að meðal vinstri manna fari ágreiningur minnkandi og traustari grundvöllur fáist til samstarfs. Og auðvitað eru þessar röksemdir jafngildar, þótt Sjálfstfl. reikni dæmið á annan veg.

Höfuðröksemdir framsóknarmanna gegn þessu frv. eru tvær: Í fyrsta lagi sú, að hlutfallskosningar séu úreltar og leiði til einræðis. Í öðru lagi, að kjördæmabreytingin sé árás eða tilræði við dreifbýlishéruðin, til þess gerð að eyðileggja þar allar framfarir og eyða byggðinni. Framsóknarmenn halda jafnfast við fullyrðingu sína um, að hlutfallskosningar séu ólýðræðislegar og stefni til einræðis, þrátt fyrir vitneskju sína og annarra um það, að sú skipan er í fullu gildi um öll Norðurlönd, sem þeir þó gjarnan sem margir aðrir benda til sem hinna þroskuðustu lýðræðisþjóða. Þeir benda á Frakkland sem dæmi þess, hverjar afleiðingar hlutfallskosningar hafi. En hvernig er það í Frakklandi? Er ekki einmenningskjördæmaskipun einmitt sú leið, sem einræðisöfl eftirstríðsáranna hafa gripið til, til þess að hnekkja þar áhrifum verkalýðshreyfingarinnar og koma á einræði? Gerist það ekki jafnsnemma þar, að komið er á einmenningskjördæmum yfir allt landið og að stærsti verkalýðsflokkur landsins, sem jafnframt er stærsti flokkur frönsku þjóðarinnar, er svo til þurrkaður út úr franska þinginu? Væri þá ekki eins hægt að halda því fram, að þróunin í Frakklandi sannaði það, að víssast væri að taka upp einræðisskipulag eða eitthvað í áttina við það, vegna þess að þá yrði bezt hindrað, að vankantar lýðræðislegrar stjórnskipunar yrðu stjórnarfarinu að fótakefli? Þannig liggur nærri að álykta. Og svo er jöfnum höndum og leitað er fanga í Frakklandi bent á kjör hreppanna í sýslunefndir, ekki detti neinum í hug að breyta því, að hver hreppur, smár eða stór, kjósi einn fulltrúa í sýslunefnd. Og þegar hoppað hefur verið frá Frakklandi til sýslunefndanna, þá er þetta þrístökk fullkomnað með því að bregða niður hjá Sameinuðu þjóðunum. Það þarf vissulega mikla íþróttamenn til þess að koma óbrotnir niður eftir slíka fimleika, sérstaklega fyrir þá menn, sem telja sig svo gróna við fortíðina og þá skipan, sem henni tilheyrir, að þeir geta sig hvergi hreyft. Annars vegar er talið, að stjórnskipunina eigi að sníða eftir kosningafyrirkomulagi til valdalausra n., sem hverjum manni í landinu stendur algerlega á sama um, hvernig eru skipaðar, enda svo lítill áhugi fyrir þeim, að allajafna er aldrei hróflað við neinum, sem þangað hefur einu sinni verið kosinn, jafnvel þótt hann sé kominn að kör, og hins vegar til alþjóðastofnunar, þar sem stórveldin hvert fyrir sig hafa neitunarvald í öllum þeim málum, sem mestu skipta.

En ef farið er að miða stjórnskipunina eftir öðrum félagslegum stofnunum, þá væri auðvitað nær lagi að taka kjör til sveitarstjórna sem hliðstæðu, m.a. vegna þess, að sveitarstjórnir fara með mikilsvert vald í þjóðfélaginu og við kjör til þeirra hafa sömu menn kjörgengi og kosningarrétt sem til Alþingis. Til sveitarstjórna hefur um langan aldur verið kjörið hlutfallskosningum. Og aldrei hafa heyrzt um það raddir, ekki heldur frá framsóknarmönnum, að þeirri skipan bæri að breyta. Samkvæmt kenningu þeirra nú væri þó tvímælalaust rétt að afnema hlutfallskosningar í bæjarfélögunum og skipta þeim hverju fyrir sig í hverfi, sem hvert um sig kysi einn fulltrúa. Með því væri lýðræðishugmyndum bezt fullnægt og sambandið við kjósendur tryggt að þeirra dómi. Íbúar úthverfanna eða einstakra gatna yrðu þá ekki hlunnfarnir eða afskiptir um framkvæmdir. Í Reykjavík yrðu göturnar í úthverfunum malbikaðar samtímis og miðborgin og hitaveitan yrði lögð í Kleppsholtið og Blesugrófina samtímis og í næstu hverfin við Hringbrautina. Eða halda menn ekki, að þessi bragarbót yrði á og aðrar slíkar, þegar það fyrirkomulag væri komið á, sem tryggði Sjálfstfl. ekki aðeins 10 bæjarfulltrúa af 15, eins og hann hefur nú, heldur að líkindum alla fulltrúana í bæjarstjórn Reykjavíkur? Halda menn ekki, að allt framferði þessa flokks mundi gerbreytast til bóta, ef hann fengi algert einræðisvald og enginn talsmaður minnihlutaflokka gæti komið fram gagnrýni innan borgarstjórnarinnar? Eða leynist kannske vafi hjá framsóknarmönnunum um, að þessi skipan reyndist þeirri betri, sem nú gildir? Ég veit það ekki, enda er það sjálfsagt þyngra á metunum, að með því að afnema hlutfallskosningar til sveitarstjórna mundi Framsfl. missa fulltrúa sína í bæjarstjórnum allra kaupstaða í landinu og gæti enga von haft þar um nein áhrif. Það eru flokkshagsmunirnir, sem ráða stefnunni, alveg eins og í afstöðunni til kjördæmabreytingarinnar.

Framsfl. vill láta trúa því og notar það raunar sem eina höfuðröksemd í þessu máli, — þó að það sé ekki kannske alltaf bein röksemd, þá er það sú undirstaða, sem raunverulega allt er byggt á, — að hann sé hinn eini og sanni málsvari og verndari þeirra, sem búa í dreifbýli landsins. Hann einn standi gegn þeirri eyðingu landsbyggðarinnar, sem allir hinir flokkarnir hafi myndað samsæri til að fullkomna með kjördæmabreytingunni, en í kjölfar hennar eigi að sigla fjárfestingarstefna, sem svipti byggðirnar öllum möguleikum til framkvæmda og framfara og reki þar fólkið nauðugt úr átthögum sínum. Lýðræðið sé ekki aðeins búið að vera, heldur standi fyrir dyrum útþurrkun þeirrar menningar, sem íslenzkar byggðir hafa haldið uppí í þúsund ár. Og þetta er víst ekki dekksta myndin, sem dregin hefur verið af öllum þeim ósköpum, sem af stjórnlagabreytingunni leiði. Það er auðvitað mál fyrir sig, hvort Framsfl. hefur reynzt dreifbýlinu sú stoð og stytta og slíkur bjargvættur sem hann vill vera láta og hvort réttlætanlegt sé af þeirri ástæðu að gefa honum sérréttindi umfram aðra flokka í landinu eða þverbrjóta grundvallarreglur þingræðis og lýðræðis til þess, að svo megi verða. Sumir draga það í efa. Sumir eru það langminnugir, að þeir minnast þess, að Framsfl. hefur síðustu áratugina verið meðsekur Sjálfstfl. um fjölmargar stjórnmálalegar aðgerðir, sem hafa orðið þungbærastar fyrir fólkið, sem heyr lífsbaráttu sína utan Reykjavíkur og Faxaflóabyggðanna, og mest hafa stutt að því, að byggðirnar hafa eyðzt. Og hann hefur einnig staðið gegn ýmsum þeim fyrirætlunum, sem drýgstar gætu orðið til þess, að þar yrði jafnlífvænlegt sem í þéttbýlinu á Suðvesturlandi. Því skal ekki neitað, að Framsfl. hefur oft reynzt ýtinn varðandi fjárveitingar til ýmissa framkvæmda í sveitum landsins, og skal það sízt lastað. Þeir hafa líka viljað halda uppi afurðaverði til bænda og styrkjastarfsemi ýmiss konar til landbúnaðarins. Allt er þetta gott, svo langt sem það nær, þó að misviturlega kunni að hafa verið að staðið oft og tíðum. En að undirstöðunni að velmegun bændastéttarinnar, þeirri, að almenningur í kaupstöðunum og sjávarþorpunum hefði næg og góð atvinnuskilyrði og afkomu, hefur minna verið hugað, enda ástandið orðið slíkt undir langri samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., að til landauðnar hefur horft víðs vegar í þrem landsfjórðungum, eins og hv. þm. S-Þ. lýsti hér svo skilmerkilega með lestri sínum úr grg. fjórðungsþinganna, svo að það er í raun og veru ekki mikil ástæða til þess að bæta miklu við þá lýsingu, því að hún er alveg sönn.

Togararnir, sem keyptir voru á nýsköpunarárunum, hétu á máli framsóknarmanna gums, og það var talið mesta óráð að dreifa þeim til sjávarbyggðanna. En þeir hafa víða til þessa dags verið sú undirstaða, sem öll afkoma fólksins byggðist á. Að kröfu Alþb. lofaði vinstri stjórnin að kaupa 15 nýja togara til landsins. Þetta loforð var svikið af Framsfl. og Alþfl. En kaupstaðirnir, sem hugðust njóta góðs af þessum skipum, eru reynslunni ríkari, en þjóðin öll þeim mun verr á vegi stödd efnalega. Framsóknarmenn skamma íhaldið réttmætum skömmum fyrir það, að það standi og hafi staðið fyrir þeirri þróun, að mestur hlutinn af fjármagni þjóðarinnar dragist til Reykjavíkur og næsta nágrennis hennar. Sjálfir eru þó framsóknarmenn litlir eftirbátar íhaldsins í þessu efni. Samband íslenzkra samvinnufélaga t.d. undir þeirra forustu hefur víssulega átt sinn ríka þátt í því að draga alla inn- og útflutningsverzlunina til höfuðstaðarins, en það hefur einmitt verið einn allra veigamesti þátturinn í því að beina fjármagninu þangað, en mergsjúga landsbyggðina. Þeir hafa ekki heldur verið tregari, en aðrir, til að draga hverja stofnun hins opinbera, sem við hefur verið komið, til höfuðstaðarins. Og loks hefur Framsfl. átt sinn fulla hluta og tekið fulla ábyrgð á þeim verknaði, sem öllu öðru fremur hefur orsakað hina óeðlilegu og óæskilegu tilfærslu fólksins í landinu og ýtt hefur fleiri landsmönnum frá þjóðnýtum framleiðslustörfum úti um landsbyggðina og til óarðbærra og jafnvel þjóðhagslega háskalegra þjónustustarfa, en nokkuð annað, þ.e.a.s. hernáminu.

Undir hinni sameiginlegu stjórn íhalds og Framsóknar hélt þessi öfugþróun áfram í vaxandi mæli, og það var ekki fyrr en áhrif verkalýðshreyfingarinnar og Alþb. komu til með vinstri stjórninni fyrir þremur árum, að nokkuð tók að rofa til eftir margra ára stjórn þessara flokka og ráðstafanir voru gerðar til þess, að fólksflóttinn yrði stöðvaður, með því að renna nýjum stoðum undir atvinnulíf sjávarþorpanna og kaupstaðanna úti á landi. Og hamlaði þó Framsfl. gegn því, að átak vinstri stjórnarinnar yrði svo sterkt sem þurft hefði að vera.

Þetta er kannske útúrdúr. En það mætti virða hann til vorkunnar, þegar sá áróður klingir við dag eftir dag og viku eftir viku, bæði utan þings og innan, að Framsfl. sé sjálfkjörinn forustuflokkur dreifbýlisins og verðskuldi því eins konar einkaleyfi ásamt Sjálfstfl. til þess að fara með umboð fyrir það á löggjafarþingi þjóðarinnar. Verðskuldun hans að þessu leyti er víssulega ekki meiri en svo, að hann eigi rétt á þingstyrk í samræmi við fylgi sitt í dreifbýlinu og meðal landsmanna í heild. Og þann þingstyrk mun hann fá með hinni nýju kjördæmaskipun. Honum er unnt réttlætis, en ekki forréttinda.

Það hefur ekki leynt sér í umr. um kjördæmamálið, að ótti foringja Framsfl. um það, að hin nýja skipan auki áhrif verkalýðsstéttarinnar, er ein höfuðástæðan til andstöðu þeirra. Hlutfallskosningar í stórum kjördæmum séu hinn æskilegasti vettvangur fyrir kommúnista til þess að vinna niðurrifsstefnu sinni fylgi, segja þeir. Þegar búið er að þýða slíka frasa á mælt mál, t.d. það, sem margir framsóknarmenn tala, þegar þeir eru í stjórn með okkur Alþýðubandalagsmönnum eða í annarri samvinnu, þá þýða þau, að hin nýja skipan skapi verkalýðshreyfingunni betri vígstöðu.

Hv. þm. Barð. (SE) spáði því í sinni ræðu og raunar hv. 1. þm. Eyf. (BSt) líka, að svo mundi fara nú líkt og 1942, að það yrði ekki íhaldið, sem uppskæri mesta vinninginn út úr kjördæmabreytingunni, heldur þeir, sem nú eru nefndir kommúnistar, en ekki Alþb.-menn, eins og þeir framsóknarmenn hafa þó tamið sér síðustu þrjú árin. Þessi ótti við áhrif verkalýðsstéttarinnar er víssulega ekki ástæðulaus. Um leið og þeim þvingunum, sem úrelt kosningaskipan beitir verkalýðshreyfinguna, er aflétt, þá mun hún notfæra sér fengin réttindi og senda fulltrúa úr sínum röðum úr hverju hinna nýju kjördæma inn á löggjafarþingið. Og þeir fulltrúar munu ekki stuðla að eyðingu byggðanna, fólksflótta til Suðurnesja né hlaða undir ofurvald verzlunarauðvaldsins hér í höfuðstaðnum, eins og hinir svokölluðu landsbyggðarfulltrúar borgaraflokkanna hafa gert. Þeir munu reynast beztu samstarfsmenn bændastéttarinnar um það að byggja upp atvinnulífið í dreifbýlinu og skapa þar skilyrði til menningarlífs. En stóryrði framsóknarmanna nú um endalok íslenzkrar menningar og lýðræðis og eyðingu byggðanna munu verða aðhlátursefni hverjum, sem þeirra minnist, en þeir sjálfir því fegnastir, að þau lægju gleymd og grafin. Þetta er mín trú.

Hv. þm. Str. (HermJ) sagði hér í frumræðu sinni, að Framsfl. hefði gert sér ljóst, að Alþfl. og Alþb. gætu ekki fengið eðlilegan fjölda þingmanna og af þeirri ástæðu hefði verið samið um það, þegar vinstri stjórnin var mynduð, að kjördæmaskipunin skyldi endurskoðuð. Hér viðurkennir hv. þm. gagnstætt því, sem flokksbræður hans yfirleitt halda fram, að það sé réttmætt, að hver flokkur hljóti þingstyrk í samræmi við fylgi sitt, en það er einmitt fyrst og fremst það, sem deilan snýst nú um, hvort tryggja eigi, og Framsfl. berst hatramlegast gegn. En hann hefur, eins og kunnugt er og ég hef lýst, lýst yfir þeirri stefnu, að þurrka eigi þessa flokka út af löggjafarþinginu, þó að þeir haldi fylgi sínu meðal þjóðarinnar. Og svo hefur hv. þm. Str. brjóstheilindi til þess að fullyrða, að með þeirri kjördæmaskipun, sem hann berst fyrir að koma á, verði hlutföll milli flokka svipuð og verða mundu eftir því fyrirkomulagi, sem nú er fyrirhugað, eins og hann orðaði það í ræðu sinni. Hið sanna er, að samkvæmt aðaltill. Framsfl. um einmenningskjördæmi og afnám uppbótarsæta yrði Alþfl. sviptur öllum þingsætum nema ef til vill einu, en Alþb. öllum nema 2–4, hvort tveggja miðað við fylgi þessara flokka í síðustu kosningum. Ef farið væri að svokallaðri miðlunartill. Framsfl., mundi mjög hallast á þá hlið, að misrétti milli flokka ykist frá því, sem nú er, en minnkaði ekki, enda eru till. þeirra miðaðar við það. Samkvæmt þessum till., þ.e.a.s. miðlunartill., á að fjölga þingmönnum um 8, en svo vísdómslega er að staðið, að sterkar líkur séu á því, að Framsfl. hlyti 50% hinna nýju þingsæta, enda þótt fylgi hans yxi ekki frá því, sem verið hefur. Á þennan hátt lýsa hv. framsóknarmenn hugmyndum sínum um lýðræðið og þykjast svo hafa efni á því að ausa aðra flokka brigzlum fyrir einræðishneigð og flokkshagsmunastreitu. Svona eru þeirra till. Það stoðar vissulega ekki neitt fyrir hv. þm. Str. að halda því fram, að þeirra till. tryggi nokkurt réttlæti milli flokka.

Allir eða flestir ræðumenn Framsfl. í þessum umr. hafa rætt um, að sérstöku stjórnlagaþingi bæri að leiða stjórnarskrármálið til lykta, með því væri bezt tryggt, að þröng flokkssjónarmið réðu ekki úrslitum þess. Nú er að vísu erfitt að sjá annað, en fulltrúar á slíku þingi mundu skiptast í flokka nákvæmlega eins og á Alþingi. Eða dettur nokkrum í hug, að flokkarnir mundu láta lönd og leið, hvernig stjórnskipun lýðveldisins yrði ákveðin? En m.ö.o., ef framsóknarmenn hafa talið og telja, að þennan hátt eigi skilyrðislaust að hafa á, hvers vegna sömdu þeir þá um það við myndun vinstri stjórnarinnar, að málið yrði leyst af Alþingi? Gleymdist þeim þá lífsnauðsynin á sérstöku stjórnlagaþingi, eða var fyrir fram ákveðið að svíkja loforðið um endurskoðun stjórnarskrárinnar, eins og reyndar varð niðurstaðan? Annað hvort hlýtur að hafa verið.

Ein af helztu röksemdunum gegn breyttri kjördæmaskipun telja framsóknarmenn þá, að í stórum kjördæmum slitni hin ágætu og lífsnauðsynlegu tengsl þingmanns og kjósanda. M.a. fjölyrti hv. 1. þm. N-M. (PZ) um þetta í athyglisverðri ræðu. Sagði hann m.a., að sá væri munur á sveitamenningunni og múgmennsku bæjanna, að sveitamenningin gerhugsaði þjóðmálin, en í bæjunum ríktu lögmál hópsálarinnar, þar hugsuðu menn ekki sjálfir, heldur flokkarnir fyrir þá. Mér virðist nú einsætt, að þeim ógæfusömu fórnardýrum múgmennskunnar, sem bæina byggja, gagni lítið tengsl við þingmenn sína, fyrst þeir eru sneiddir hæfileikanum til sjálfstæðrar hugsunar, og virðist þá samkv. þeirri göfugu kenningu þessa hv. þm. einu gilda, þótt þau tengsl séu af tekin. Þegar litið er til þessarar sannfæringar hv. þm. og ef til vill fleiri flokksbræðra hans, þá skiljast kannske betur áhyggjur þeirra. Hv. 1. þm. N-M. orðaði þetta svona: Það á að gera sveitafólkið að múgmennum, sem fara eftir því, sem flokkurinn hugsar. — Og þetta eru sömu mennirnir, sem segja þetta, sem með flokksræðið að vopni freistuðu þess fyrir þremur árum að reka fylgismenn sína í mörgum kjördæmum eins og kvikfénað til þess að kjósa annan flokk en þann, sem öll sannfæring þeirra og skoðanir stóðu til, að þeir gerðu. Eða leituðu kannske hv. 1. þm. N-M. og aðrir foringjar Framsfl, eftir því með fundum í hverjum hreppi, sem þeir tala nú svo fjálglega um að vera þurfi undirstaða frjálsrar skoðanamyndunar, hvort þeir féllust á Hræðslubandalagsfyrirtækið? Nei, ég held, að þeim hafi verið stillt upp frammi fyrir orðnum hlut og skipað. — Auðvitað er allt fjasið um, að tengslin við þingmenn rofni, fjarstæða og öfugmæli. Með stækkun kjördæmanna hljóta allir þeir, sem leita eftir kjörfylgi, að leitast við að ræða við kjósendur sína sem víðast í hverju kjördæmi og kynna sér viðhorf þeirra, áhugamál og viðfangsefni. Í stóru kjördæmi hlýtur því hver þingmaður að ná persónulegum tengslum við fleiri kjósendur, en í litlu kjördæmunum. Tengslin vaxa því, en minnka ekki.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að enginn væri hæfur þingmaður, nema hann hefði heildaryfirsýn yfir þarfir hvers einasta byggðarlags í landinu. En hvernig má slíkt verða, ef það á að vera hverjum manni ofraun að hafa yfirsýn yfir öll helztu vandamál og viðfangsefni þeirra kjördæma, sem nú eru fyrirhuguð? Er ekki einhver smáveila í þessu öllu saman? Sýnir þetta ekki, að leitin eftir rökum, sem eitthvert hald er í, er nokkuð torsótt?

Ég ætla ekki að fara hér í neinn eltingaleik við hv. framsóknarmenn í þessu máli, enda liggja höfuðatriði þess ljóst fyrir. Annars vegar er um það að ræða að viðhalda eða auka á ranglæti og mismunun um almenn mannréttindi, sem orðið er svo hróplegt, að jafnvel þeir, sem af því hafa hagnað, treystast ekki til að verja það nema með því að dulbúa varnir sínar í voðir misskilinnar eða tilbúinnar umhyggju fyrir þeim, sem þó verða í rauninni harðast úti. Hins vegar er það, hvort draga eigi úr misrétti, skapa heiðarlegri og réttlátari leikreglur í stjórnmálabaráttunni og tryggja eftir föngum, að Alþingi verði skipað í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Um þetta snýst málið, og út frá þessum meginatriðum hlýtur þjóðin að skera úr um það í kosningunum í sumar.