17.10.1958
Neðri deild: 5. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1361)

9. mál, biskupskosning

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, voru á árinu 1935 sett lög um aldurshámark embættismanna og þar gert ráð fyrir því, að hin almenna regla skyldi vera sú, að embættismenn skyldu láta af störfum, þegar þeir næðu sjötugsaldri. Sá skilningur komst þó strax á, að þessi ákvæði tækju ekki til biskups Íslands. Þáverandi biskup, herra Jón Helgason, varð sjötugur á árinu 1936, en gegndi þó embætti, að því er ég hygg, fram til ársloka 1938, þegar hann sjálfur óskaði eftir að fá lausn. Það mátti að vísu deila um, hvort þessi framkvæmd laganna hefði næga stoð í bókstaf þeirra, en ég minnist ekki, að verulega hafi að þessu verið fundið, heldur mun það hafa verið að öllu eða mestu mótmælalaust, studdist líka við þá reglu, að þeir, sem kosnir eru almennri kosningu, mega vera til 75 ára aldurs, ef þeir eru kosnir til starfans á ný, að því er í lögunum segir. Þetta hefur fyrst og fremst haft þýðingu um presta, en hefur ætíð verið framkvæmt þannig, að prestarnir hafa haldið störfum, ef nógu margir sóknarmenn þeirra hafa goldið samþykki sitt til þess, án þess að formleg kosning ætti sér stað. Þannig hafa lögin verið framkvæmd þann tæpa aldarfjórðung, sem þau hafa verið í gildi.

Hitt er annað mál, að deila má um, hvort biskup sé kosinn almennri kosningu, vegna þess, hversu takmarkaður hópur það er, sem þar hefur kosningarrétt. Engu að síður varð raunin sú, að almennt var talið, að biskup mundi mega sitja í embætti til 75 ára aldurs, og það var í vitund þessa, sem meginhluti íslenzku prestastéttarinnar skoraði á kirkjumrh. nú eða rétta aðila um að framlengja embættissetu herra Ásmundar Guðmundssonar, sem nýlega er orðinn 70 ára að aldri. En kirkjumrn. taldi þá ekki fært án frekari athugunar að verða við þessum óskum og leitaði álits tveggja ágætra kennara við lagadeild háskólans um, hvort næg stoð væri í lögum fyrir því að veita biskupnum þessa heimild til að vera áfram, og hinir góðu lögfræðingar hafa að sögn gefið álitsgerð, sem gengur ótvírætt í þá átt að þetta sé óheimilt.

Ég skal ekkert um þá álitsgerð segja. Ég tel víst, að hana megi rökstyðja með bókstaf laganna, þannig að telja megi, að hin fyrri framkvæmd og nokkuð viðtekinn skilningur hafi ekki haft við næg rök að styðjast. A.m.k. er það víst, að kirkjumrh. treysti sér ekki að óbreyttum lögum til þess að verða við óskum prestastéttarinnar þess efnis, að herra Ásmundur Guðmundsson sitji áfram í embætti sinu. Okkur flm. þessa frv. og mörgum öðrum þykir, að hér sé að ástæðulausu verið að láta góðan og gegnan starfsmann hætta fyrir aldur fram.

Ég út af fyrir mig gagnrýni ekki ákvörðun kirkjumrh., úr því að þessi álitsgerð liggur fyrir, en ég tel rökrétta afleiðingu þess úrskurðar og hins almenna vilja, sem fram hefur komið hjá prestastéttinni um að núv. biskup sitji áfram, að lögin séu gerð ótvíræð í þá átt, að heimild sé fyrir hendi, og þarf í raun og veru ekki að rökstyðja það mörgum orðum, því að ljóst er, að úr því að heimilt er, að menn megi gegna jafnvel hinum vandasömustu og umfangsmestu prestsembættum til 75 ára aldurs, þá er ekki siður ástæða til þess, að biskup megi sitja í sínu embætti. Um margt eru þessi störf lík, þó svo, að biskupsembættið nú orðið er ekki eins amsturssamt og hin umfangsmestu prestsembætti, en það er þess eðlis, að þar þarf mjög á að halda lífsreynslu og þeirri vizku, sem með aldrinum fæst, og virðuleika.

Um núverandi biskup skal ég ekki fara öðrum orðum en þeim, að prestastéttin, sem bezt þekkir hans störf, hefur kveðið upp sinn dóm með því að mælast til þess, að hann fái að gegna embætti sínu áfram. Biskupinn hefur ferðazt mjög víða um landið í sinni biskupstíð og sennilega fleiri Íslendingar séð hann, en flesta aðra framámenn og átt við hann tal, og almenningur getur því dæmt um það af eigin raun, að hann er enn jafnfær til starfa og menn á léttasta skeiði.

Þetta frv. er að vísu borið fram af þessu ákveðna tilefni. En það er hugsað, að það sé sett sem almenn regla, sem gildi áfram, og verður þess vegna auðvitað að hafa fleira í huga, en núverandi biskup. En hin almennu rök hníga öll að því, að ástæðulaust sé, að biskup hverfi fyrr eða yngri úr sínu embætti, en tíðkanlegt er innan prestastéttarinnar.

Hér er einnig á það að líta, þótt það skipti ekki mjög miklu máli, að vitanlega er að því nokkur aukinn kostnaður, ef biskup þarf nú að hverfa úr embætti og skipa mann í hans stað. Um sparnað tala menn mikið, það gengur erfiðlega að koma honum fram, en ráðið til þess að spara er að spara hvar sem því verður við komið að meinfangalausu, eins og áreiðanlega er hægt hér, þar sem allur vinningurinn fæst við það að spara, en gengið verður á móti þeim, sem bezt þekkja til, með því að taka á sig útgjöldin.

Ég legg svo til, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og allshn. Ég hygg, að biskupskosningalögin hafi á sínum tíma verið fyrir allshn.