24.11.1958
Neðri deild: 27. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1380)

9. mál, biskupskosning

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Eins og ég tók fram í ræðu minni áðan, lít ég svo á, að þær breyt., sem ég legg til að gerðar verði á frv., séu eingöngu formlegs eðlis. Af því leiðir, að þær hafa ekki áhrif á afstöðu mína til efnis þessa frv. Um aðra get ég ekki sagt.

Út af b-lið brtt. við 1. gr. skal ég taka það fram, að ég lít svo á, að sú till., þótt samþ. yrði, breyti ekki efni frv. Það var a.m.k. ekki ætlun mín, að hún gerði það. Ég lít svo á, að orðalagið „má“ í stað „skal“ eigi aðeins við hlutaðeigandi embættismann sjálfan, en ekki kirkjustjórnina að öðru leyti. Þá er hér aðeins um að ræða breyt. á orðalagi.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á, að það gæti orkað tvímælis, hvort gera ætti breyt. á aðallöggjöfinni eða sérlögum, og benti á, að ákvæði um aldurshámark dómara væru í sérlögum. Það er rétt, að þau eru í sérlögum, en þau eru einnig í aðallöggjöfinni, þannig að í aðallöggjöfinni er vitnað til sérlaganna í sambandi við ákvæði um embættisaldur dómara. Mér sýnist á allan hátt heppilegra, að breyt. séu gerðar á aðallöggjöfinni.

Varðandi það atriði, hvort þinglegt sé að bera fram brtt. á þskj. 84, þ.e.a.s. 1. tölulið a og 2. tölulið, um það, að breyt. verði á öðrum lögum, eins og þar er gert ráð fyrir, þá var það svo, að þegar málið var til umr. síðast, var ég einmitt að velta þessu fyrir mér, og ég tók það fram í umr., að ég óskaði eftir fresti, vegna þess að ég tel þurfa lögfræðilega athugun á þessu atriði. Ég hef síðan rætt þetta mál við skrifstofustjóra Alþ., og eftir að ég hafði rætt við hann, ákvað ég að flytja brtt. Þá viðræðu skal ég ekki rekja nánar, sem ég átti við skrifstofustjórann, enda ræðir hæstv. forseti sennilega við hann, ef ástæða þykir til úrskurðar um þetta atriði.