11.12.1958
Efri deild: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1391)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 21 27. júní 1921, um biskupskosningu. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n., þeir hv. þm. V-Sk. og 11. landsk., leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Meiri hl. taldi hins vegar ekki rétt að samþykkja frv. og leggur til, að það verði fellt.

Frv. felur það í sér, að verði biskup Íslands sjötíu ára að aldri, þá skuli hann, ef aðrar ástæður hindra ekki, halda embætti sínu þar til hann verður 75 ára, ef þrír fimmtu þeirra, sem atkvæðisrétt hafa við biskupskjör, bera fram ósk þar um.

Talið er og vafalaust með réttu, að núv. biskup, sem er nýorðinn 70 ára, sé hinn mesti ágætismaður og það heilsugóður, að hann geti af þeim ástæðum gegnt embætti sínu enn um sinn. Af því tilefni hefur frv. verið flutt og er einungis miðað við þennan eina mann, en ætlað þó að gilda sem almenn regla um biskup Íslands framvegis.

Flm. frv. segja í grg., sem fylgir því, að þeir muni fáir, sem ekki viðurkenna sérstöðu biskupsembættisins að því er aldurshámark varðar, sízt séu minni rök til þess, að maður haldi embætti biskups fram til 75 ára aldurs, en þeir, sem til starfs eru kosnir almennri kosningu, eins og sóknarprestar, ef kjósendur æskja þess.

Það er hins vegar skoðun okkar, sem skipum meiri hl. allshn., að þetta sé rangt. Í fyrsta lagi fyrirfinnast ekki rök fyrir því, að biskupsembættið sé að þessu leyti ósambærilegt við fjölmörg önnur embætti. Þess vegna er óheppilegt og óæskilegt, að sérreglur verði settar um þetta eina embætti að þessu leyti, þó að svo standi á sem nú um þann mann, sem embættinu gegnir. Fullkomin ástæða væri þá til, að mörg fleiri eða ýmis fleiri embætti yrðu látin lúta sömu eða svipuðum lögum.

Það má vel vera, að næg rök séu til þess, að lagaákvæði um aldurshámark opinberra starfsmanna almennt verði endurskoðuð með það fyrir augum að hækka aldurshámarkið, því að vafalaust eru margir embættismenn færir um að gegna starfi sínu lengur en til sjötugsaldurs.

Um þetta voru uppi raddir í allshn. hv. d., þegar n. ræddi um frv. Að svo komnu er ég því ekki andvígur út af fyrir sig, að slík endurskoðun færi fram, en hinu er ég andvigur, að sett séu sérstök lög um eitt og eitt embætti, enda verður ekki séð, að biskupsembættið hafi að neinu leyti sérstöðu að þessu leyti, og ég þykist mega ganga út frá því vísu, að verði þetta frv. samþ., þá sé það alveg vafalaust, að fleiri frv. muni á eftir koma um hækkun aldurshámarks annarra embættismanna, og af slíku mundi einungis leiða hættulegan glundroða.

Sérreglur um aldurshámark presta byggjast einfaldlega á þeirri staðreynd, að ávallt hefur verið skortur á prestum, a.m.k. nú um nokkurra áratuga skeið, og mörg prestsembætti hafa verið óskipuð af þeim sökum. Þau hafa því fullkomna sérstöðu að því leyti. Hins vegar mun varla vera talin hætta á því, að biskupsembættið þurfi að vera autt og óskipað af slíkum ástæðum.

Hér vil ég bæta því einu við, að ég er persónulega andvígur opinberri undirskriftasöfnun eins og þeirri, sem ráðgerð er í frv. Mér virðist hún jafngilda nokkurn veginn opinberum kosningum, og mig furðar raunar á, að menn skuli vilja hafa slíkan hátt á um þetta. Verði frv. samþ. til 3. umr., þá áskil ég mér rétt til að bera fram brtt. um þetta, sem fæli það í sér, að kosning yrði leynileg meðal þeirra, sem atkvæðisrétt hafa þar um.

Þetta eru í fáum orðum sagt rökin fyrir því, að meiri hl. allshn. er andvígur þessu frv.