17.02.1959
Neðri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (1449)

33. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, því að ég hef litlu við að bæta þá greinargóðu ræðu, sem hv. 5. landsk. var að ljúka hér við að flytja um þetta mál.

Eins og hann sagði, hefur orðið allmikill úlfaþytur út af þessu frv. og jafnvel gengið svo langt, að það hefur verið leitað til erlendra aðila til þess að fá dóm um það, svo sem frsm. n. gat hér um.

Það, sem ég vildi hér segja, var í rauninni aðeins að taka undir það, sem hann einnig mælti hér og skýrt kom fram í framsögu minni, þegar þetta frv. var til l. umr., og er reyndar tekið fram í grg. frv., að því fer vitanlega víðs fjarri, að með þessu frv. sé á nokkurn hátt ætlunin að ganga á hinn eðlilega og sanngjarna rétt bæði tónskálda og annarra eigenda hugverka til þess að fá gjald fyrir notkun sinna verka. Hér er hins vegar um það að ræða, að við flm. þessa frv. höfum talið, að ekki væri með nokkru móti hægt að leyfa þá skattheimtu, sem hér hefur verið tekin upp í sambandi við segulbandstæki, og það yrði að finna annað form til þess að gæta réttar höfunda á þessu sviði heldur, en að viðhafa slíka innheimtuaðferð. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því, að tónskáld eru vitanlega aðeins einn hópur eigenda hugverka og það gjald, sem nú er innheimt af segulbandstækjum eða var byrjað að innheimta í fyrra til STEFS, gengur aðeins til tónskálda. Það liggur því í augum uppi, að það er ekkert því til hindrunar, að t.d. rithöfundar geti fyrir sitt leyti og þeirra samtök tekið upp á því að innheimta sams konar gjald, og í þriðja lagi, að leikarar gætu t.d. að sínu leyti byrjað einnig þriðju innheimtuna á slíku gjaldi. Og það sér auðvitað hver maður, að þessi tilhögun er gersamlega útilokuð og viðleitni til að sporna gegn þeirri skattheimtu á auðvitað ekkert skylt við það, að verið sé að sýna höfundum almennt nokkurn minnsta fjandskap.

Eins og frsm. n. tók hér fram, getur það vitanlega komið til mála vegna hinnar vaxandi notkunar ýmissa tækja til upptöku, bæði segulbandstækja og e.t.v. annarra tækja, sem hér kæmu til greina, að þá sé sanngjarnt að hafa einhvers konar gjöld í því sambandi, þegar um tónlist eða önnur hugverk er að ræða, sem vernduð eru. En ég held, að það verði óumflýjanlegt að fara þá aðrar leiðir í því efni, t.d. á þann hátt, að það verði lagt eitthvert sérstakt sölugjald á þessi tæki eða sölugjald á segulbandsspólur eða eitthvað slíkt í eitt skipti fyrir öll, en það sé útilokað að heimila slíka árlega skattheimtu frá hálfu einkaaðila. Svo kemur það auðvitað enn fremur til í þessu sambandi, að þetta er óframkvæmanleg skattheimta og mun aðeins leiða til þess, að einstaka menn, sem óttast þær hótanir, sem birtar eru í sambandi við þessa innheimtu og birtar hafa verið í auglýsingum, greiði sitt gjald, — allur fjöldinn auðvitað greiðir sitt gjald ekki, enda hefur reyndin sú orðið. Af þessu leiðir stórfellt misrétti og ósanngirni, því að það eru vitanlega engin tök á því fyrir þessi félög að hafa neitt eftirlit með því, hvar slíkt tæki er í notkun, og auk þess er enn annað mál, að til þess að þeir geti komið fram slíkri gjaldheimtu, þá yrði að sjálfsögðu að hvíla sönnunarbyrði á STEFI um það eða þessum aðilum, að þessi tæki hefðu verið notuð til þess að taka upp lögverndaða tónlist eða annað slíkt efni. Það er auðvitað ekki nóg að geta sannað það, að maður eigi segulbandstæki. Það væri álíka og að telja, að það mætti dæma mann fyrir morð fyrir það eitt, að hann hefði keypt sér byssu, sem hægt væri að nota til slíkra hluta.

Við þurfum ekki að fara lengra, en hingað í Alþingi, til þess að fá vitneskju um, að það mundi sennilega teljast hæpið að taka af segulbandstækjunum hér skatt til STEFS. Náttúrlega eru ýmsir þingmenn söngvnir, en ég veit ekkí, hvort nokkur þeirra er í STEFI eða mundi vera eðlilegt, að STEF ætti slíka gjaldheimtu á Alþingi og þau segulbandstæki, sem hér eru. Og vitanlega eru margvísleg slík tæki í notkun, sem nær ekki nokkurri átt að séu skattlögð á þennan hátt.

Ég held, að það sé því augljóst mál, að það verði að finna önnur úrræði til þess að ná fram þessum rétti höfunda til greiðslu fyrir sín hugverk heldur en það, sem STEF hefur hér gripið til.

Það er vitanlega alveg sjálfsagt mál, að fengið verði um það álit hinna fróðustu manna, hvort hér er um að ræða eitthvert brot á skyldum okkar með hliðsjón af Bernarsáttmálanum. Ég fæ að vísu ekki séð eftir mína athugun á þeim sáttmála, að það sé nokkur stoð fyrir því, að það sé ekki réttur til slíkrar lagasetningar eins og hér er, enda ber þess að gæta, og það veit ég að allir hv. þm. sjá, sem athuga okkar höfundaréttarlöggjöf, að hún er byggð algerlega á því grundvallarsjónarmiði, að gjaldskylda til höfunda sé því aðeins fyrir hendi, að verk þeirra séu notuð í hagnaðarskyni. Og það er vitanlega alveg sjálfsagt og á allan hátt ósanngjarnt, hvort sem er tónlist eða önnur hugverk, að nota þau til fjáröflunar, án þess að höfundar þeirra fái eðlilega og sanngjarna greiðslu fyrir.

Eins og hv. frsm. n. benti á, hefur af hálfu listamanna verið tekin upp andstaða gegn þessu frv. og talið, að það bryti í bága við hinn eðlilega rétt þeirra. Ég tel mig hafa bent á nokkur meginatriði þessa máls því til sönnunar, að þar er um algeran misskilning að ræða, og ég tel, að það geti vitanlega mjög vel komið til álita, og ég vil skjóta því fram til þeirrar hv. n., sem hefur með þetta mál að gera, að Bandalagi íslenzkra listamanna verði gefinn kostur á því, að framkvæmd verði heildarendurskoðun á höfundaréttarlöggjöf okkar með hliðsjón af þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þeim efnum í okkar nágrannalöndum. Það er vitanlega á engan hátt sanngjarnt, að höfundar njóti hér minni réttar, en aðrar þjóðir veita þeim, sem svipaðar eða sambærilegar geta talizt. En í því sambandi yrði að sjálfsögðu að taka upp höfundaréttinn í heild, og ég sé ekki, að það gæti haft nein áhrif í þá átt, að þetta frv. hér yrði ekki samþykkt, vegna þess að meðan höfundarétturinn er í því formi, sem hann er í dag, álit ég, að skattheimta sem þessi komi ekki til greina, það verði að byggjast þá á heildarendurskoðun á höfundaréttarákvæðunum, sem m.a. fyrirbyggja, að það geti orðið um að ræða svo margþætta skattheimtu, eins og ég gat um áðan, að hver hópurinn um sig komi með sinn sérstaka skatt, slíkt getur auðvitað ekki gengið. Í þetta allt verður að fást samræmi og einhver skynsemd. Ég fyrir mitt leyti mundi því síður en svo hafa á móti því, ef hv. menntmn. þætti það rétt, að setja t.d. bráðabirgðaákvæði í þetta frv., þess efnis, að ríkisstj. væri falið að endurskoða höfundaréttbarlöggjöfina í heild, t.d. í samráði við Bandalag íslenzkra listamanna, með það sjónarmið í huga, sem ég hef áður greint frá.

Ég fyrir mitt leyti læt það að sjálfsögðu algerlega á vald hæstv. forseta, hvort hann frestar þessari umr. eða það verði athugað milli 2. og 3. umr., hvort hér séu einhver rök fyrir hendi hjá STEFI eða réttara sagt yfirstjórn Bernarsambandsins um, að hér sé ekki í samræmi farið við skyldur okkar samkv. Bernarsáttmálanum. En hins vegar mundi ég telja það mjög æskilegt, að frv. yrði afgr. á þessu þingi, til þess að forðast þau leiðindi og árekstra, sem áreiðanlega hljóta að verða, ef á að halda áfram þeirri gjaldheimtu, sem hér hefur verið byrjað á.