22.01.1959
Neðri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Undanfarnar vikur og mánuði hefur íslenzka þjóðin haft af því áhyggjur þungar, hve þróun verðlags- og kaupgjaldsmála árið 1958 hefur verið ískyggileg og uggvænleg. Verðbólgan hefur farið stöðugt vaxandi og með auknum hraða, eftir því sem hefur liðið á árið. Vísitala framfærslukostnaðar mundi hafa orðið 1. jan. s.l. 225 stig, ef ekki hefði um sama leyti verið horfið að mjög róttækum niðurgreiðslum. Hækkun á árinu 1958 hefði þá orðið úr 191 stigi í 225 stig, eða 34 vísitölustig. Kaupgjald hækkaði með útflutningssjóðslögunum um 5–7%. Í fyrrasumar og s.l. haust hækkaði svo grunnkaup verkamanna um 9.5% og kaup annarra stétta flestra um 6%. Opinberir starfsmenn fengu í árslokin eða réttara sagt nokkru fyrir þau 6% hækkun flestir og fáir í lægstu launaflokkunum 9% hækkun, allt reiknað frá 1. sept. s.l. Loks fengu svo bændur sína kauphækkun í hækkuðu verði landbúnaðarafurða s.l. haust og var þá hækkunin á landbúnaðarvörunum miðuð við það, að bændurnir fengju reiknað inn í verðlagsgrundvöllinn hækkað kaup hjá sér, fyrst við útflutningssjóðslagasetninguna um 5%, síðan vegna hækkunar vísitölu úr 183 í 185 stig um rúmt 1% og loks 6% miðað við þá hækkun, sem verkalýðsfélögin höfðu þá fengið, þegar verðlagsreikningur landbúnaðarafurðanna var framkvæmdur í septembermánuði s.l. Allt leiddi þetta svo til 17 stiga hækkunar á vísitölu 1. nóv. s.l., sem kom til framkvæmda í vinnulaunagreiðslum 1. des. Þess má einnig geta hér, að togarasjómenn fengu sín laun bætt á s.l. hausti um 11–13% miðað við þeirra heildarlaun.

Öll þessi þróun, þar sem hvort elti annað, kaupgjald og vöruverðlag, hefur þess vegna orðið miklu örari árið sem leið, heldur en hún hefur orðið nokkru sinni áður. Ef ekkert væri að gert til þess að stemma stigu fyrir þessari þróun, er auðséð, hvert stefnir. Verðlag og kaupgjald mundi hækka upp úr öllum skorðum og með vaxandi hraða, verðgildi peninga mundi fara hraðminnkandi og vantrúin og vantraustið á sparifjáröflun verða svo almennt, að allri efnahagsstarfsemi í landinu mundi stafa hætta af, og raunar meira en það, því að sparifjárinneignir mundu með sama áframhaldi hverfa og ýmiss konar meira og minna óþarfur varningur verða keyptur fyrir það fé. Um þetta segir svo í grg. frv., sem ég vil leyfa mér að lesa, þar sem það lýsir þessu ástandi allýtarlega:

„Áætlað hefur verið, að ef ekkert væri gert til þess að stöðva þessa þróun, en bætur til útflutningsatvinnuveganna auknar, eins og með þyrfti, og yfirfærslu- og innflutningsgjöld hækkuð nægilega mikið til að standa undir þeim bótum, mundi framfærsluvísitalan verða komin upp í a.m.k. 270 stig og kaupgreiðsluvísitalan upp í 253 stig 1. nóv. 1959. Þetta svarar til 23% hækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar og 25% hækkunar á kaupgreiðsluvísitölu á einu ári. Þessar öru víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds mundu ekki stöðvast af sjálfu sér á næsta ári og ekki heldur úr þeim draga. Þvert á móti bendir allt til þess, að þær yrðu örari og örari, þegar fram í sækti, og að þróunin mundi stefna í átt að 20–30% verðbólguaukningu á ári hin næstu ár, ef ekki yrðu gerðar gagngerar ráðstafanir til stöðvunar á verðbólgunni.

En það er ekki nóg að stöðva verðbólguþróunina við það kaupgjald og verðlag, sem nú er komið á. Augljóst er, að útflutningsatvinnuvegirnir geta ekki staðið undir þeirri hækkun kaupgjalds, sem orðið hefur síðan útflutningsbætur þeim til handa voru ákveðnar á s.l. vori. Til úrbóta er um tvær meginleiðir að velja. Hin fyrri er sú, að hækka bætur til útflutningsframleiðslunnar sem því svarar, er tilkostnaður hefur aukizt síðan útflutningsbæturnar voru ákveðnar síðast og leggja ný gjöld á landsmenn til þess að afla tekna til að greiða hækkun bótanna. Hin leiðin er sú að lækka tilkostnað útflutningsframleiðslunnar með almennri lækkun kaupgjalds og verðlags, þannig að ekki þurfi að hækka þær bætur, sem hún fær greiddar. Þá þyrfti heldur ekki að hækka þau yfirfærslu- og innflutningsgjöld, sem lögð eru á innfluttar vörur og seldan gjaldeyri til þess að standa straum af greiðslu útflutningsbótanna.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til við Alþ., að síðari kosturinn verði tekinn. Vegna þeirrar uggvænlegu þróunar, sem varð í kaupgjalds- og verðlagsmálunum á s.l. ári og þess voða, sem fyrir dyrum er, ef áfram yrði haldið á þeirri braut, vill ríkisstj. ekki leggja til, að gerðar verði nú ráðstafanir, er leiða mundu til frekari hækkunar verðlags. Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir, að tilkostnaður framleiðslunnar verði lækkaður svo sem nauðsynlegt er, til þess að bætur á gjaldeyrisverðmæti útflutningsins geti haldizt óbreyttar. Athugun hefur leitt í ljós, að það gæti orðið, ef kaupgreiðsluvísitalan yrði 175 stig frá 1. febrúar n. k. Frá 1. febr. til 30. apríl skal verðlagsuppbót á laun miðast við 175 stiga kaupgreiðsluvísitölu. Í sambandi við þá lækkun tekna, sem af þessu hlýzt, ákvað ríkisstj. fyrir síðustu áramót að auka niðurgreiðslur á ýmsum innlendum afurðum, sem svaraði til 13 stiga lækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar. Ákvæðið um kaupgjaldsvísitöluna 175 er við það miðað, að launþegar, bændur og allar aðrar stéttir afsali sér af tekjum sínum sem svarar til 10 vísitölustiga eða 5.4% af núgildandi kaupi eða tekjum. Í samræmi við það eru í frv. ákvæði til lækkunar á verði hvers konar vöru og þjónustu, svo sem innlendum landbúnaðarafurðum, fiskverði, iðnaðarvöru, verzlunarálagningu, hvers konar gjöldum og töxtum o.s.frv. Í framhaldi af þessum almennu verðlækkunarráðstöfunum er þess vænzt, að vísitala framfærslukostnaðar, sem 1. jan. s.l. lækkaði úr 220 stigum í 212 stig, lækki fram til 1. marz n. k, niður í 202 stig, en það svarar til kaupgreiðsluvísitölu 185 samkv. núgildandi reglum. Ef vísitalan hefur ekki lækkað niður í 202 stig 1. marz n.k., mun ríkisstj. auka niðurgreiðslurnar þannig, að vísitalan verði þá 202 stig. Eftirgjöf vísitölustiga yrði því aldrei meiri en 10 stig. Sú 27 stiga lækkun kaupgreiðsluvísitölu, sem frv. hefur í för með sér, á þess vegna að því er 17 stig snertir rót sína að rekja til aukinnar niðurgreiðslu vöruverðs og verðlækkana, en að því er 10 stig snertir til lækkunar tekna launþega og framleiðenda.“

Eftir að ríkisstj. hafði ákveðið að leggja til við Alþ., að þessi leið skyldi farin, hefur þessi lausn verið lögð til grundvallar í þeim samningum, sem gerðir hafa verið við útgerðarmenn og lokið var endanlega við nú fyrir nokkrum dögum, fyrri hluta þessarar viku. Náist ekki samkomulag um þessa lausn, þá falla þeir samningar vitanlega niður og til annarra ráða verður að grípa og annarra úrlausna að leita.

Ég vil aðeins með nokkrum orðum rekja aðalefni frv., áður en lengra er farið, bæði í heild og grein fyrir grein.

Meginhugsunin, sem felst í frv., kemur strax fram í upphafi þess, þar sem segir, að frá 1. febr. 1959 skal greiða verðlagsuppbót á laun og allar aðrar greiðslur, er fylgja kaupgreiðsluvísitölu, samkv. vísitölu 175 stig. Síðan er þetta ákveðið nánar, hve langt þetta á að ná og hve víðtæk þessi ákvæði skulu vera. Það á — fyrir utan að ná til allra launagreiðslna — að ná til aksturstaxta vörubifreiða og fólksbifreiða, það á að ná til launa, sem ákveðin eru með samningi og það á að ná til launa, sem greidd eru án þess, að vísitöluupphæð eða grunnlaunaupphæð sé ákveðin, m.ö.o. til launa, sem greidd eru í einu lagi. Ein undanþága er þó í þessari 1. gr. Það eru tryggingabæturnar samkv. almannatryggingalögunum, 2. kafla þeirra og 37. og 38. gr., þar sem segir, að þessar bætur skuli ekki lækkaðar á sama hátt og hin almennu laun, heldur halda sig við vísitölu eins og þá, sem nú er, 185, eða þá, sem sennilega verður eftir 1. marz. Í 2. gr. segir, að vísitala viðhaldskostnaðar húsa skuli reiknuð á sama hátt og að húsaleiga samkv. leigusamningum, sem fylgir húsaleiguvísítölu, skuli einnig greidd eftir vísitölu 175. Þá er í 3. gr. frv. gert ráð fyrir því, að húsaleigan, reiknuð á þennan hátt, verði á þann hátt tekin inn í framfærslukostnaðarreikning kauplagsnefndar, þegar vísitalan verður ákveðin 1. marz og síðar.

Í 4. gr. hafa verið tekin inn ákvæði um það, að horfið verði að nýjum vísitölugrundvelli. Núverandi vísitölugrundvöllur er frá 1939 og 1940 og neyzluskiptingin nú er orðin mikið frábrugðin því, sem hún var þá. Kauplagsnefnd hefur því haft með höndum að undanförnu undirbúning undir að breyta grundvellinum, sem framfærsluvísitalan er reiknuð eftir og meir í samræmi við núverandi neyzluskiptingu. Neyzluskiptingin nú er, það er vitað, orðin allmiklu öðruvísi en hún var fyrir 20 árum og því réttara að færa vísitöluútreikninginn til þess horfs, svo að útkoman verði meir í samræmi við raunveruleikann, en útreikningur samkv. gömlu vísitölunni, sem gerður hefur verið að undanförnu. Þessi undirbúningur kauplagsnefndar var hafinn fyrir löngu, og kauplagsnefnd mun hafa látið halda búreikninga, sem mynda grundvöllinn undir þennan vísitölureikning og þetta hefði sennilega komið til framkvæmda á næstunni, hvort sem þetta frv. hefði legið fyrir eða verður samþykkt eða ekki.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að frá 1. marz 1959 skuli verðlagsuppbót samkv. ákvæðum 1. gr. lögð við grunnupphæðir launa og hvort tveggja fært til verðs sett sem grundvöllur 100 í nýjum vísitöluútreikningi frá þeim degi.

Í 6. gr. eru ákvæði um, að á tímabilinu frá 1. maí til 30. ágúst skuli greiða verðlagsuppbót á laun og aðrar greiðslur, er fylgja kaupgjaldsvísitölu, í hlutfalli við þá hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar, sem kann að hafa orðið frá 1. marz til 1. apríl n.k. Þetta þýðir, að frá þeim tíma verði tekinn upp sami háttur og áður hefur verið og alltaf hefur verið undanfarin ár, að kaupgjaldið skuli reiknast með vísitöluálagi eftir þeim breyt., sem framfærsluvísitalan tekur. Eftir að grunnlaunaupphæðirnar hafa verið settar 100 1. marz, þá verður í fyrsta sinn, þegar þessi reikningur fer fram, framfærslukostnaðarvísitalan látin gilda fyrir kaupgjaldsálaginu, því að þá verður enginn munur á kaupgjalds- og framfærsluvísitölu, en 1. sept. 1959 skal svo reiknuð út kaupgjaldsvísitala á sama hátt og áður hefur verið gert, og verður þá sá munur á kaupgjaldsvísitölu og framfærsluvísitölu, að inn í kaupgjaldsvísitöluna kemur ekki sú vöruhækkun, sem leiðir af hækkun á launum bóndans.

Í 7. gr. er ákveðið, að færð skuli niður í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins laun bónda og verkafólks hans á sama hátt og gert er hjá öðrum eða hjá launastéttunum í landinu og nýtt landbúnaðarverð reiknað til samræmis við það, þ.e.a.s. miðað við það, að kaupgjald bóndans verði fært niður sem svarandi til lækkunar á vísitölu úr 185 stigum niður í 175 stig, og síðan, að verðlag landbúnaðarvara færist niður um leið og komi til framkvæmda á sama tíma.

8. gr. gerir ráð fyrir því, að kaup bóndans breytist nú eins og annað kaupgjald í landinu með breyttu verðlagi, þannig að laun bóndans breytist eftir vísitölu og færist þannig inn í verðlagsgrundvöllinn, þó þannig, að þessi breyting verði ekki gerð, nema hækkunin á vísitölunni hafi numið 5 stigum eða meira. Þegar það hafði verið tekið upp í samninga um fiskverð til sjómanna, að breyt. á vísitölu skyldi hafa áhrif á fiskverðið, þótti ekki sanngjarnt, að þetta yrði ekki gert líka að því er snerti bóndann og þess vegna er þetta hér inn komið, eftir það líka, að fulltrúar bændastéttarinnar höfðu látið í ljós við ríkisstj., að þeir mundu leggja verulega upp úr því, að þessi breyt. á útreikningi landbúnaðarvöruverðsins yrði gerð.

Þá eru í 9. gr. tilsvarandi ákvæði um skiptaverð á fiski til bátasjómanna, sem breytist frá því, sem ákveðið er í þeirra samningi, sem miðaður var að grunni til við 185 vísitölustig, að það skuli breytast eftir því, sem vísitalan breytist, upp eða niður og færist þá við þessar aðgerðir niður í að vera miðað við 175 stig. Þó er ein undantekning frá þessu í frv., að því er tekur til kauptryggingarinnar, sem á að tryggja sjómönnum lágmarkslaun. Sú trygging er ekki skert með frv.

Þá eru loks í 10. gr. almenn ákvæði um það, að framleiðendur hvers konar vöru og þjónustu skuli þegar eftir gildistöku þessara laga lækka söluverð til samræmis við þá lækkun launakostnaðar, sem leiðir af niðurfærslu kaupgreiðsluvísitölu í 175 stig og aðra lækkun tilkostnaðar vegna ákvæða þessara laga. Tekur þetta til gjalda fyrir hvers konar flutninga og fyrir hvers konar þjónustu, hvers konar iðnað, sem nánar er ákveðið í gr. Og fyrirmæli eru um, að verðlagsyfirvöld skuli þegar eftir gildistöku þessara laga setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar greinar.

Ég hef þá í örfáum orðum rakið aðalefni frv., sem er raunverulega það, að eftir skuli gefin alls staðar, þar sem vísitölureikningur kemur til, 10 stig af kaupgjaldsvísitölunni, án þess að bætur komi fyrir og að farið verði með hana niður í 175 stig. Þetta er kjarni málsins.

Nú kunna menn að spyrja: Er ekki framfærsluvísitalan í dag 212 stig, þrátt fyrir niðurgreiðsluna 1. jan. s.l. og hvernig má hún þá með eðlilegum hætti komast niður í 202 stig, til þess að kauplagsvísitalan komist með eðlilegum hætti niður í 185 stig og eftirgjöfin aðeins verði 10 stig? Við þessu er því að svara, að um 5 stig af framfærsluvísitölunni í dag eru afleiðing af hækkuninni 1. des. s.l. og þau hljóta því að hverfa, þegar aftur verður fært niður í það sama sem var fyrir 1. des. Verulegur hluti þessara stiga er til kominn vegna hækkunar á dreifingarkostnaði landbúnaðarvara, en auk þess hafa komið til nokkur atriði önnur, sem hafa orðið til þess að hækka vísitöluna um þessi stig vegna hækkunarinnar, hinnar almennu hækkunar, sem orðið hefur á kaupgjaldi síðan 1. des. Þetta á að hverfa út úr verðlaginu, þegar vísitalan lækkar. Hinum 5 stigum, sem þá eru eftir, er hugsað að ná á sama hátt eða svipaðan hátt, getur maður sagt, þegar vísitalan lækkar úr 185 í 175 stig, í lækkuðu verðlagi, sem leiðir af lækkun vísitölunnar um þessi stig. Nú er að vísu rétt að gera ráð fyrir því, að þessi verðlagslækkun tekur nokkurn tíma og er því ríkisstj. við því búin að þurfa að greiða niður til viðbótar einhver fá stig, sem ekki er unnt að segja á þessu stigi málsins, hversu mörg verða, en gera mætti ráð fyrir 1–2 og í hæsta lagi 3, á meðan þetta jafnvægi er að nást, því að lækkunin í vöruverði niður á við verður í sumum vörutegundum seinvirk vegna birgða og annarra atriða, sem verða að takast til greina í þessu sambandi. Þetta hefur ríkisstj. þess vegna ákveðið til þess að tryggja það, að eftirgjöfin þurfi aldrei að verða meiri en 10 stig eða 5.4%, ef miðað er við vísitöluna 185. Til þess að allt sé þó fram tekið, þá er rétt að geta þess, að í febrúarmánuði verður þessi lækkun væntanlega ekki öll komin á í þeim mánuði, og getur því útkoman þann tíma verið eitthvað óhagstæðari fyrir launþegann, en þar á móti má segja, að í janúarmánuði hefur kaupið verið miðað við annað verðlag, en það raunverulega, eftir að niðurgreiðslan var gerð 1. jan. s.l., svo að segja má, að ef báðir mánuðirnir, janúar og febrúar, verða teknir undir eitt, þá verði útkoman hagstæð, en ekki óhagstæð fyrir launþegann.

Samningar við bátaútvegsmenn og sjómenn voru teknir upp strax annan jóladag og hefur þeim síðan verið fram haldið sleitulaust, þangað til endanlega var frá þeim gengið s.l. mánudag, eins og áður er sagt. Var í samningunum gengið út frá 185 vísitölustigum sem grundvelli, en reiknað með hreyfingu samkv. vísitölu. Skiptaverð á fiski til sjómanna var hækkað úr kr. 1.55 á kg upp í kr. 1.75 á kg eða um 13% til samræmis við aðrar hækkanir, sem orðið höfðu á árinu 1958. Og þar var einnig ákveðið, að verðið breyttist samkv. breyt. á kaupgjaldsvísitölu frá 185 upp á við eða niður á við, eftir því sem þessi vísitala kynni að breytast á tímabilinu. Samningurinn við útvegsmenn og vinnslustöðvar var við það miðaður, að þessir aðilar fengju uppborinn þann kostnaðarauka, er þeir hafa orðið fyrir frá síðustu vertíð og annað ekki. Samningarnir við bátaútvegsmenn og sjómenn voru það á veg komnir og þannig frá þeim gengið í öllum aðalatriðum fyrstu dagana í janúar, að róðrar gátu þá hafizt og gerðu það víðast. Hins vegar tóku samningar við vinnslustöðvarnar og togarana lengri tíma eða réttara sagt byrjuðu seinna, þannig að þeim var ekki lokið fyrr, en nú alveg síðustu dagana og þá var líka lokið þeim umreikningi, sem þurfti að fara fram til þess að fá þá niðurfærslu í bótagreiðslum, sem leiddi af því, að vísitalan yrði færð úr 185 stigum niður í 175. Frv. til l. um breyt. á l. um útflutningssjóð o.fl., sem leiðir af þessum breyt. eða þeim breyt., sem gerðar voru á samningum við bátaútvegsmennina og vinnslustöðvarnar, hefur því ekki verið hægt að fullgera alveg enn, fyrr en nú þessa síðustu daga, en mun væntanlega verða lagt fram öðru hvoru megin við næstu helgi og þó væntanlega fyrir næstu helgi, til þess að menn þar sjái nákvæmlega, í hverju þessar breyt. verði fólgnar og það frv. geti fylgt þessu, sem hér hefur verið lagt fram.

Ég skal þessu næst leyfa mér að gera nokkra grein fyrir því, hver hefur orðið niðurstaðan af þessum samningum við bátaútvegsmenn og bátasjómennina og þeim kostnaðarauka, sem af því leiðir fyrir útflutningssjóð. Ef miðað er við þann umreikning, sem byggist á vísitölu 175, þá lítur þetta þannig út:

Til báta, sem stunda þorskveiðar: Vegna hækkunar rekstrarkostnaðar frá vertíð 1958 umfram hækkun tekna til þessa fara 9.6 millj. kr. Vegna hækkunar skiptaverðs og bóta samkv. nýjum kjarasamningum koma 17.6 millj. kr. Vegna bráðafúatryggingar, sem einnig er tekið að sér að greiða, koma 4 millj. kr. Samtals eru þetta 31.2 millj, kr. Hækkunin til togaranna verður 12.7 millj. kr., en eins og ég mun koma að síðar, þá kemur það fram á þann hátt, að það verður ekki útflutningssjóði beint til gjalda, heldur kemur það fram sem hækkun á kaupverði fiskvinnslustöðvanna á afla þeirra, eða 7 aura hækkun á þeim afla, sem þessar stöðvar kaupa. En sem sagt, hækkunin til togaranna verður 12.7 millj. kr.

Um síldveiðina er ekki samið, eins og kunnugt er, en til þess að fá heildarmynd af árinu hefur verið stungið niður á áætlunartölu fyrir síldveiðibátana, og sú hækkun, sem þar hefur verið stungið upp á eða áætluð, hefur verið fengið þannig að gefa þeim svipaða hlutfallshækkun og aðrir bátar hafa fengið og hafa þá fengizt út úr því dæmi með tryggingum og hækkun almennra bóta 20.5 millj. kr.

Fiskvinnslustöðvarnar hafa fengið nokkra hækkun í bótagreiðslum, sem hjá þeim flestum kemur fram á þann hátt, að það eru hækkaðar sérbæturnar, sem kallaðar eru, þ.e.a.s. smáfiskbæturnar, sumarbæturnar og tegundabæturnar, sem áður hafa verið greiddar, til þess að þetta komi t.d. smærri frystihúsunum meira að gagni en hinum stærri, vegna þess að það var talið og raunar upplýst, að þau voru miklu frekar vanhaldin í þessu máli heldur en þau stærri. Þessar bætur til frystihúsanna ásamt niðurgreiðslu á beitu eru samtals 8.7 millj. kr. — til hraðfrystihúsanna einna, en þar á móti kemur, að hraðfrystihúsin hafa gengið inn á vegna lækkunar í vinnslukostnaði að hækka kaupverð fisksins um 7 aura á kg. sem nemur um 18 millj. kr., sem ganga til bátanna og upp í þær bætur, sem þeir hefðu annars orðið að fá úr útflutningssjóði, þannig að nettóbætur til frystihúsanna verða, þegar þetta hækkaða fiskverð er tekið með í reikninginn, raunverulega ekki neinar, heldur þurfa frystihúsin að greiða í hækkuðu fiskverði 9.3 millj. meira, en bótunum nemur.

Til saltfisksins hafa verið veittar á sama hátt tegundabætur eða til saltfisksverkunarinnar, sem nema í allt með sérbótum um 9.4 millj. kr. En þar á móti kemur, að verkandinn kaupir einnig sinn fisk með hækkuðu verði, 7 aura hækkun á kg, og minnkar þess vegna það, sem saltfiskvinnslustöðvarnar fá raunverulega, ofan í 3.9 millj.

Hjá skreiðarverkendum er þetta nokkuð á sama hátt. Þar munar minnstu, að hækkun fiskverðsins, sem þeir greiða bátverjum, jafnist á við þær hækkuðu bætur, sem þeir fá, munar aðeins 0.7 millj. kr.

Þá verður að gera ráð fyrir, að greiða þurfi útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur vegna hækkunar á bótagreiðslum til sjávarútvegsins um 6.5 millj. kr., allt miðað við vísitölu 175.

Þessi útgjöld í allt saman tekin: til bátaútvegsins á þorskveiðum og síldveiðum allt árið, til togaranna, til frystihúsanna, til saltfiskvinnslustöðvanna, til skreiðarvinnslustöðvanna og vegna landbúnaðarvöruútflutnings nema 66.2 millj. kr. Þar við bætast svo nokkrar upphæðir, sem verður ekki hægt að komast hjá að greiða og sérstaklega hefur verið samið um, aukning bóta á síld, veidda á vetrarvertíðinni núna, sem samið hefur verið um, 0.7 millj., fúatryggingagjöld fyrir árið 1958, sem voru ekki tekin inn í reikninginn þá, en að mér er sagt gert ráð fyrir að greiða þó, eða útvegsmennirnir töldu, að þeir mundu ekki þurfa, þegar til kæmi, að greiða, svo að þetta er tekið inn og greiðslur vegna þess, að fiskverðið og allur tilkostnaður bátaútvegsins í janúar er reiknaður eftir vísitölu 202, en ekki eftir vísitölu 175 og nemur sá aukni kostnaður um 6.8 millj. kr. Samtals er þetta þess vegna, sem þannig bætist við, 11.5 millj., sem bætast við 66.2, þannig að heildarbæturnar til útvegsins á þennan hátt eru 77.7 millj. kr. Eru þá innifaldar í því bætur til síldarútvegsins í sumar, sem að vísu er ekki hægt að segja um, en það er eini áætlunarliðurinn í þessu, en hann er settur í hlutfalli við aðrar hækkanir og nemur, eins og ég sagði áðan, 20.5 millj., en hann er innifalinn í þessum 77.5 millj. kr.

Þessar upphæðir greiðast þannig til aðila, að bátarnir fá tryggingargjöld 32.3 millj. kr. allt árið. Önnur hækkun til bátanna nemur 19.4 millj., en það er að verulegu leyti í hækkuðu fiskverði, sem kemur til frádráttar síðar. Togararnir fá 12.7 millj., sem allt er í hækkuðu fiskverði. Þetta verður samtals til togara og báta 64.4 millj. Þar af greiðast í hækkuðu fiskverði 26.6, svo að nettóbæturnar úr útflutningssjóðnum til þessara aðila, togara og báta samanlagt, verða 37.8 millj. Auk þessa fá svo hraðfrystihúsin, ef frádrátturinn í hækkuðu fiskverði er ekki tekinn með, 8.7 millj., saltfisksverkendur 9.4, skreiðarverkendur 3.6 og útflutningsaðilar landbúnaðarvara 6.5, eða samtals 66 millj. kr., og svo þessir liðir, sem ég taldi áðan: vegna vísitölu 202 í janúar, bráðafúatryggingariðgjalda 1958 og vetrarsíldaruppbóta á þessari vertíð, samtals 11.7 millj., þannig að heildarupphæðin verður hér eins og í fyrra dæminu, auðvitað 77.7 millj.

Með þessum bótum úr útflutningssjóði er hægt að halda óbreyttu álagi á yfirfærslugjaldi á erlendum gjaldeyri, sem fæst fyrir útfluttu vörurnar. M.ö.o.: ef þessar beinu og óbeinu greiðslur úr útflutningssjóði koma til útvegsins og vinnslustöðvanna, þá gengur dæmið upp, án þess að grípa þurfi til nokkurrar hækkunar á nokkru yfirfærslugjaldi fyrir selda vöru til útlanda frá þessum aðilum.

Í þessu sambandi vil ég vekja máls á því, að það hefur verið orðað í mín eyru og oftar en einu sinni, hvort það hefði verið nauðsynlegt að fara með vísitöluna alla leið niður í 175, hvort það hefði ekki mátt staðnæmast ofar, t.d. í 185 og þó að það væru gefin eftir tíu vísitölustig, þá væri niðurgreiðslan höfð þeim mun minni og peningarnir, sem við það spöruðust úr ríkissjóði, notaðir til þess að greiða í útflutningssjóðinn eða gera honum kleift að standa undir auknum kostnaði bátaútvegsmanna og annarra, sem við vinnslu sjávarafurða fást.

Það hefur þess vegna verið reiknað, hvernig dæmið mundi koma út, miðað við vísitöluna 185 og ég skal nú ekki fara út í að rekja, hvernig það er brotið niður eða sundurliðað. En ég vil aðeins geta þess, að í staðinn fyrir, að útflutningssjóður þarf nú að greiða 66.2 millj. fyrir utan þessa 11.5 millj. kr. föstu liði, sem ég nefndi áðan, — í staðinn fyrir 66.2 millj. mundi hann með vísitölu 185 þurfa að greiða 147.1 millj., þannig að sá sparnaður í bótum til útvegsins, sem fæst með því að færa vísitöluna úr 185 stigum og niður í 175, er hvorki meira né minna en 80.9 millj. kr. Þar við má enn bæta því, að þó að vísitalan yrði látin staðnæmast í 185, þá yrði sparnaðurinn í niðurgreiðslu ekki sem svaraði þessum 10 stigum, því að sú lækkun, sem af þessum 10 stigum leiðir, kæmi þá ekki fram, svo að niðurgreiðslurnar þyrftu eftir sem áður að halda áfram að vera 8–9 stig í staðinn fyrir 13 nú. Sparnaðurinn í niðurgreiðslu með þessum hætti yrði því ekki nema í kringum 5 vísitölustig og ríkissjóður eftir sem áður bundinn við 8–9 stiga niðurgreiðslu í staðinn fyrir 13 nú, en fá á sig þennan bagga í viðbót, ef haldið væri í vísitöluna 185, en bæturnar til útvegsmanna og fiskverkunarmanna yrðu 147.1 millj. í staðinn fyrir 66.2.

Málsmeðferðin hér á Alþingi er hugsuð að skiptast í þrjá kafla:

Í fyrsta lagi afgreiðsla þessa frv. með eftirgjöf á 10 vísitölustigum, sem til viðbótar við niðurgreiðslurnar um áramót gefur möguleika til að koma kaupgreiðsluvísitölunni niður í 175 og það síðan að gefa möguleikana fyrir þeim samningum og þeim bótagreiðslum, sem ég hef nú nefnt, til útvegsmanna og fiskvinnslustöðva.

Síðan verði lagt fyrir Alþingi frv. um breytingu á útflutningssjóðslögunum, sem heimili þá samninga og þær greiðslur, sem felast í samkomulaginu, sem nú er búið að gera við útvegsmenn og þarf að leita staðfestingar Alþingis á.

Í þriðja og síðasta lagi kemur svo afgreiðsla fjárl., þar sem dæmið verður gert upp og metin jöfnuð.

Fjárlagadæmið, sem kemur til að liggja fyrir sem afleiðing af þessum bótagreiðslum, viðbótarbótagreiðslum útflutningssjóðs og kostnaðinum við þá niðurgreiðslu, sem átti sér stað 1. jan., lítur þannig út:

Heildarhækkun bóta, eins og ég nefndi áðan, verður 77.7 millj. kr. Kostnaður við niðurgreiðslu vísitölunnar 1. jan. er um 75 millj. kr. Og við þetta má svo bæta hreinni útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna grunnkaupsog vísítölubreytingar, sem ekki er tekin inn í fjárlagafrv. og er fram komin á þann hátt, að fyrir einn mánuð, þ.e. janúar, er reiknað með vísitölu 202 í staðinn fyrir 183, eins og gert er ráð fyrir í frv. Það þýðir kostnað fyrir ríkissjóð upp á 3.2 millj. Grunnkaupshækkun til opinberra starfsmanna og verkamanna ríkisins er talin vera 36 millj. Hækkun á kostnaði við tryggingar er áætluð 5 millj. Samtals er hækkun á þessum gjöldum upp á 44.2 millj. Þar frá dregst lækkun útgjalda vegna lækkunar vísitölu úr 183 og ofan í 175, en í fjárlagafrv. er reiknað með vísitölu 183. Verði á þennan hátt fært ofan í 175 fyrir 11 mánuði ársins, er talið, að það muni gefa í sparnað bæði hjá opinberum starfsmönnum og verkamönnum ríkisins um 22 millj. kr. Mismunurinn á þessari 44.2 millj. kr. hækkun, sem ég nefndi og 22 millj. kr. sparnaði er þá 22.2 millj., þannig að heildarútgjöld ríkisins umfram það, sem nú er reiknað með, ef reiknað er með því, að fjárl. beri uppi þá útgjaldaaukningu, sem útflutningssjóði er gert að bera, verður 174.9 millj. kr.

Og þá kemur spurningin og sá vandi, sem leysa þarf, hvort þetta sé unnt að gera án þess, að farið verði út í nýja skattlagningu. Þetta dæmi er óuppgert af hálfu ríkisstj. og það, sem ég þess vegna um það segi, er nánast mínar eigin bollaleggingar eða ábending um möguleika, sem gætu komið til greina. En í því eru þó alveg „kankret“ upplýsingar, sem ég tel rétt að komi hér fram um leið í þessu sambandi.

Mér er tjáð, að fjmrn. telji, að við endurskoðun tekjuáætlunar fjárlaganna mætti ætla, að tekjurnar gætu hækkað, miðað við sama innflutning og var í fyrra, og 83 millj. kr., úr 897.9 millj. upp í 980.9 millj. Þetta er ekki tala, sem er tilbúningur úr mér, heldur er mér fengin hún af þeim sérfræðingum fjmrn., sem telja sig þekkja bezt skil á þessu og ég hef hugmynd um, að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi einnig verið kunnugt um þetta, áður en hann lét af embætti. Þarna eru sem sagt í hækkuðum tekjum fjárl., án þess að stofnað sé til neinna nýrra tekjustofna, 83 millj.

Þá hefur oft verið um það rætt, að það væri ekki útilokað að lækka nokkra gjaldaliði fjárl., og ég skal ekki á þessu stigi eða hér fara út í að ræða, hvernig það yrði gert. En ef gert er ráð fyrir, að það væri hægt að lækka þessa liði um allt að 40 millj. kr., þá væru þarna komnar 123 millj. Þessi tala, 40 millj., er ekki heldur gripin úr lausu lofti, því að hana var ég búinn að heyra, áður en stjórnarskiptin fóru fram. Hvort sem um hana hefur verið tekin nokkur ákvörðun eða ekki, þá hafði a.m.k. þessi hugsun verið orðuð.

Af tekjuafgangi ársins 1958 væri svo hugsanlegt að bæta við 20 millj. Þá eru þetta orðnar 143 millj. Og þá er loks hugsanlegt, að hægt væri að fá nýjar tekjur umfram það, sem gert er ráð fyrir í frv., án þess að það þyrfti við nokkurn verulega að koma, upp á 35 millj. kr., og væru þá þarna komnar 178 millj. til þess að mæta þessum 174.9, sem ég nefndi.

Það má vel vera, að í þessu sé einhver óskhyggja að einhverju leyti og að dæmið sé ekki eins auðleyst og ég hef hér bent á. En það virðist mér auðsætt, að það, sem kemur út úr þessu dæmi, er ekki hundruð milljóna kr. vandamál, í hæsta lagi skiptir það nokkrum tugum millj. kr., sem þarf að fá, til þess að dæmið gangi upp og ég álít að sé alls ekki útilokað að fá, ef hæstv. alþm. vilja ganga í það verk að leysa þetta dæmi eða reyna að leysa það með góðum vilja. Stærðargráðan er ekki hundruð milljóna og dæmið ekki að mínu viti óleysanlegt, heldur er stærðargráðan kannske tveir, kannske þrír milljónatugir, kannske eitthvað ofur lítið meira eða ofur lítið minna, ég skal ekki segja um það, en á þetta reynir, þegar fjárl. verða afgr. Ég skal líka taka það fram, að með þessari hækkun tekjuáætlunarinnar er ekkert fyrir óvæntum útgjöldum gert eða útgjöldum, sem hafa farið fram úr áætlun, en þau hafa, að mér er sagt, að undanförnu numið allt upp í 35 millj. kr. á ári og yrði að taka þá til athugunar, hvort fært þætti að tefla svo djarft að sleppa því alveg, eða þá taka til athugunar, hvort ekki mætti fá einhverja upphæð upp í það líka.

Áður en frá þessu máli var gengið, var rætt við stéttarsamtök bænda eða framleiðsluráð landbúnaðarins og ýmis launþegasamtök. Launþegasamtökin, sem við var rætt, voru þessi:

Það voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, frá Verzlunarmannasambandi Íslands, frá Bankamannasambandinu og frá Iðnnemasambandinu. M.ö.o.: það voru auk Alþýðusambandsins þau samtök, sem hafa myndað með sér samstarf um efnahagsmál eða hafa samvinnunefnd um efnahagsmál sín á milli. Þessum samtökum öllum var sagt, hvað í bígerð væri og óskað eftir því við þau, að þau sýndu þessum aðgerðum skilning og beittu sér ekki gegn þeim, ef þau treystu sér til, því að ríkisstj. teldi velta á miklu, að málin yrðu leyst á eitthvað svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir. Þeim var að vísu sagt, að ef þeir hefðu einhverjar till. að gera, sem rúmuðust innan þess ramma, sem settur er í þessu lagafrv., þá væri ríkisstj. fús til þess að hlusta á þær aths. og taka þær til greina og ég get sagt það, að tvær greinar í þessu frv. eru komnar inn í það beinlínis eftir að þessi viðtöl fóru fram og eftir ósk þeirra aðila, sem við var talað.

Stéttarsamband bænda vakti athygli á því, að þeir hefðu ekki fengið til fulls teknar inn í verðlagsgrundvöllinn á s.l. hausti þær kauphækkanir, sem urðu á árinu 1958, svo að þess vegna væru þeir þar eftir um nokkur stig. Þetta vildu þeir fá lagfært, áður en til lækkunar yrði gengið. Og til vara óskuðu þeir eftir því, að tekinn væri upp vísitölureikningur á landbúnaðarvörurnar eða á kaup bóndans inn í þennan verðlagsreikning, svo að þeir fengju sínar verðbreytingar ekki einu sinni á ári eins og hingað til, heldur fjórum sinnum á ári eins og launamennirnir og töldu sig geta gengið inn á, að þessi „regulering“ hjá þeim yrði háð því, að heildarbreyting á vísitölu yrði 4–5 stig a.m.k. Inn á þetta var gengið og þetta sett inn í frv., — þetta sem fulltrúar landbúnaðarins kölluðu sína varakröfu.

Frá ýmsum launþegasamtökum komu svo óskir um það, að nýja vísitalan eða nýi vísitölugrundvöllurinn, sem vitað var um að kauplagsnefndin hafði undirbúið og var á leiðinni, yrði tekinn inn í þetta frv., til þess að þessi framfærsluvísitöluútreikningur yrði sannari og raunhæfari en sá gamli og færi nær þeirri neyzluskiptingu, sem nú er orðin, heldur en gert er í gamla útreikningnum.

Þessar tvær breytingar á lögunum eru beinlínis fram komnar vegna þessara viðtala. Ég hef frá þremur þessara aðila fengið skrifleg svör við þessari málaleitun og ég held, að það sé rétt, með leyfi hæstv. forseta, að ég lesi þau upp.

Það er í fyrsta lagi frá Alþýðusambandi Íslands. Þar segir svo í bréfi, dags. 20. jan. s.l. „Í framhaldi af viðtali forseta og varaforseta Alþýðusambandsins við yður, herra forsætisráðherra, hinn 17. þ.m., hefur miðstjórn Alþýðusambandsins á fundum sínum 18. og 19. þ.m. rætt tillögu ríkisstj. um fyrirhugaðar ráðstafanir í efnahagsmálum. Við afgreiðslu málsins komu fram tvær till., sem vér leyfum oss hér með að senda yður eftirrit af. Fyrri till., merkt fskj. 1. var samþ. með 5 atkv. gegn 4, og kom því síðari till., merkt fskj. 2. eigi til atkvæða.

Þetta leyfum vér oss hér með að tilkynna yður, herra forsætisráðherra.“

Till. 1 er svo hljóðandi:

„Miðstjórn A.S.Í. fékk í gær, sunnudaginn 18. jan., til umsagnar frv. ríkisstj. í efnahagsmálum og vill út af því taka eftirfarandi fram:

Þessar ráðstafanir hafa verið ákveðnar af ríkisstj. án nokkurs samráðs við verkalýðssamtökin, sem m.a. sést af því, að nú þegar hefur verið lokið endanlegu samkomulagi við Landssamband íslenzkra útvegsmanna um aukna aðstoð við útgerðina á þeim grundvelli, að frv. verði lögfest.

Með frv., ef að lögum yrði, er gert ráð fyrir því að breyta löglega gerðum kjarasamningi stéttarfélaganna stórlega til lækkunar og ákveða þannig kauplækkun með lögum. Getur verkalýðshreyfingin ekki látið undir höfuð leggjast að mótmæla slíku harðlega. Samið hefur verið við atvinnurekendur í sjávarútvegi um tugmilljóna auknar bætur af opinberu fé umfram það, sem felst þeim til hagsbóta í kauplækkuninni. Engin trygging er fyrir því, að fjár til þessara ráðstafana og niðurgreiðslna verði ekki aflað með nýjum álögum á almenning síðar á árinu.

Miðstjórnin telur, að aðgerðir þessar brjóti í meginatriðum í bága við stefnu þá, sem nýlokið Alþýðusambandsþing markaði í efnahagsmálum, þar sem með henni er í senn gengið á samningsrétt verkalýðsfélaganna og stefnt að stórfelldri kjaraskerðingu.

Með vísun til framanritaðs varar miðstjórn A.S.Í. alvarlega við samþykkt frv. og bendir sérstaklega á þá hættu, sem í því felst að ætla að afgreiða aðgerðir í efnahagsmálum án eðlilegs samráðs og samstarfs við launþegasamtökin í landinu.

Jafnframt lýsir miðstjórnin því yfir, að hún er reiðubúin til viðræðna við ríkisstj. um aðgerðir verðbólgunni til stöðvunar á grundvelli þeirrar samþykktar, sem þing Alþýðusambandsins í lok nóvembermánaðar s.l. gerði í þeim efnum.“

Till. þessi var flutt af Hannibal Valdimarssyni, Eðvarð Sigurðssyni, Benedikt Davíðssyni, Snorra Jónssyni og Sigurði Guðgeirssyni, og hún var sem sagt í stjórn Alþýðusambandsins samþykkt með 5 atkv. gegn 4. Þeir, sem á móti voru þessari ályktun, lögðu fram þessa ályktun, sem að vísu kom ekki til atkvæða, þar sem hin var samþ., en ég tel rétt að lesa hana einnig upp hér, til þess að hv. alþm. viti um afstöðu þessa minni helmings, ef ég svo má segja, Alþýðusambandsstjórnarinnar. Hún er svo hljóðandi:

„Miðstjórn A.S.Í. hefur átt þess kost að kynna sér tillögur ríkisstj. um fyrirhugaðar ráðstafanir í efnahagsmálum og ályktar í því sambandi eftirfarandi:

Síðasta þing A.S.Í. taldi höfuðnauðsyn, að þegar yrðu gerðar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna. Jafnframt lýsti þingið sig samþykkt því, að vísitalan yrði stöðvuð við 185 stig, enda leiddi það ekki til rýrnunar á kaupmætti launa og fjár til niðurgreiðslu yrði ekki aflað með nýjum sköttum á verkalýðsstéttina.

Í till. þeim, sem núverandi ríkisstj. hyggst leggja fram til lausnar aðsteðjandi vanda efnahagsmálanna, er gert ráð fyrir, að auk þess sem verðbólgan verði stöðvuð, verði verðlag og kaupgjald fært til baka, þannig að kaup verði greitt frá 1. febr. samkvæmt vísitölu 175. Er þetta talið nauðsynlegt vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur í kaupgjalds- og verðlagsmálum, svo og vegna nýrra samninga við bátasjómenn og útvegsmenn, ef unnt á að vera að komast hjá hækkun yfirfærslu- og innflutningsgjalda, sem mundi koma harðast niður á launþegum.

Miðstjórninni er ljóst, að ef ekki verða nú þegar gerðar ráðstafanir til lausnar efnahagsmálanna, vofir yfir stöðvun atvinnulífsins og alger upplausn, sem hvort tveggja mundi leiða til stórfelldrar kjaraskerðingar fyrir alla launþega.

Þrátt fyrir yfirlýsingu síðasta þings A.S.Í. um að stöðva við vísitöluna 185, verður að telja, að þingið hafi ekki tekið afstöðu gegn þeirri leið, sem felst í umræddum tillögum ríkisstj., ef tryggt er, að kaupmáttur launa verði ekki rýrður frá því, sem hann var í október, miðað við vísitöluna 185.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja og staðfest hefur verið á fundinum, verður að telja þetta tryggt.

Í sambandi við framlagðar tillögur ríkisstj. telur miðstjórnin nauðsynlegt, að eftirfarandi verði tryggt:

1) Fjár til niðurgreiðslna og fyrirhugaðra ráðstafana verði aflað með sparnaði í rekstri ríkisins og frestun á þýðingarminni fjárfestingarframkvæmdum svo og með því að verja til þess greiðsluafgangi ríkissjóðs.

2) Niðurgreiðslur verði auknar, þannig að tryggt sé, að framfærsluvísitala verði ekki hærri en 202 stig 1. marz n.k.

3) Síðari liður 1. gr. verði einnig látinn taka til bóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

4) 4. gr. frv. verði við það miðuð, að hinn nýi vísitölugrundvöllur verði látinn koma til framkvæmda frá gildistöku fyrirhugaðra laga.

5) Niður verði felld 2. málsgr. 6. gr. frv. Auk þess telur miðstjórnin nauðsynlegt, að bæjar- og sveitarfélög leggi vísitöluna 175 til grundvallar við álagningu útsvara ársins 1959.“

Undir þessa till. miðstjórnarhlutans í Alþýðusambandinu hafa skrifað Eggert Þorsteinsson, Magnús Ástmarsson, Sigurrós Sveinsdóttir og Óskar Hallgrímsson.

Frá stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur líka borizt svar. Það er svo hljóðandi :

„Vér leyfum oss hér með að senda hæstv. ríkisstjórn ályktun 19. þings B.S.R.B. um efnahagsmál. Eins og fram kemur í ályktuninni, gerði þingið sér ljóst, að geigvænleg verðbólguþróun væri fram undan, ef ekki yrðu gerðar róttækar ráðstafanir til úrbóta. Taldi þingið yfirvofandi upplausn í efnahagsmálum þjóðarvoða, auk þess sem víst væri, að þyngstu byrðarnar mundu þá leggjast á launþegana.

Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj., sem oss hafa verið kynntar, miða vissulega að því að stöðva þessa óheillaþróun, en stjórn B.S.R.B. vill sérstaklega vekja athygli á eftirfarandi:

1) 19. þing bandalagsins taldi nauðsynlegt til þess að forða launþegum frá kjaraskerðingu þeirri, er leiðir af verðbólguþróuninni, að komið yrði á heildarstjórn fjárfestingar, er miðaði að því, að hún yrði ekki meiri, en samrýmdist þeirri stefnu, að verðlagi yrði haldið í skefjum, enda væri og útlánastarfsemi bankanna einnig við það miðuð. Stefna hæstv. ríkisstj, virðist miða að þessu, að því er tekur til framkvæmda ríkisins, en nauðsynlegt er, að fjárfesting sveitar- og bæjarfélaga sem og annarra aðila verði einnig mótuð á sama veg.

2) Launþegar bera nokkurn kvíðboga fyrir því að greiða opinber gjöld samkvæmt tekjum s.l. árs af lækkandi tekjum þessa árs, og skorar bandalagið því á hæstv. ríkisstj. að beita áhrifum sínum til þess, að bæjar- og sveitarstjórnir miði fjárhagsáætlanir sínar fyrir þetta ár við vísitölu 175.

Við fyrirhugaða sameiningu grunnkaups og vísitölu 1. marz n.k. verði kaupgreiðsla frá 1. apríl að telja miðuð við hinn nýja vísitölugrundvöll.“

Þá hefur borizt svar frá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna, eins og það heitir: „Landssamband íslenzkra verzlunarmanna hefur haft til athugunar frv. ríkisstj. til laga um niðurfærslu verðlags og launa o.fl. Í því sambandi vill L.Í.Ú. taka eftirfarandi fram:

L.Í.Ú. hefur ekki aðstöðu til að taka afstöðu til frv. í heild. L.Í.Ú. hefur ekki tök á að sannreyna ýmis veigamikil atriði, sem þessar ráðstafanir mundu byggjast á, svo sem t.d., hversu mikið sjávarútvegurinn þarf, til þess að rekstrargrundvöllur hans sé tryggður. Enn fremur virðast vísitöluákvæði frv. nokkuð óljós. En L.Í.Ú. telur, að ef sjávarútvegurinn raunverulega þarf þær lagfæringar á rekstrargrundvelli sínum, sem honum eru ætlaðar með aðgerðum þessum, þá hafi sú leið, sem valin er, niðurfærsluleiðin, ótvíræða kosti fram yfir ýmsar aðrar leiðir, sem farnar hafa verið í þessu skyni á undanförnum árum. Þó vill L.Í.Ú. mótmæla endurtekinni skerðingu ríkisvaldsins á frjálsum samningsrétti launþega og vinnuveitenda. Telur L.Í.Ú. lögþvinganir ríkisvaldsins í þessu sambandi hættulegt fordæmi, sem verkalýðsfélögin eigi að gjalda hinn mesta varhug við.

L.Í.Ú. vill leggja sérstaka áherzlu á, að þeim byrðum, sem með frv. þessu eru lagðar á þjóðina, sé skipt jafnt og vill í því sambandi benda á eftirfarandi:

1) Nauðsynlegt er, að tryggt sé, að í raun takist að framkvæma þær lækkanir, sem skv. frv. eiga að verða á vörum og þjónustu ýmiss konar, þar eð auðvelt er að fylgjast með ákvæðum frv. um lækkun launa.

2) Að 0.85 aura verðjöfnunargjald, sem lagt var á landbúnaðarvörur s.l. haust, verði fellt niður sem svarar niðurfærslu vísitölunnar.

3) Þess verði stranglega gætt, að húsaleiga verði lækkuð að sama skapi.

4) Að vinna seld erlendum aðilum lækki ekki, og renni mismunurinn í ríkissjóð.

L.Í.Ú. álítur nauðsynlegt, að ríki, bæjar- og sveitarfélög dragi verulega úr útgjöldum sínum, sér í lagi til óarðbærra framkvæmda. Beinir skattar og útsvör verði lækkuð hlutfallslega sem svarar að minnsta kosti vísitölulækkun þeirri, sem raunverulega á sér stað við framkvæmd laganna. L.Í.Ú. álítur, að taka beri upp nýjan vísitölugrundvöll í samræmi við þær neyzluvenjur, sem nú hafa skapazt.“

Frá fulltrúum bændanna, sem ræddu við ríkisstjórnina um málið, kom það ákveðna svar í meginatriðum, að þeir væru inn á þeirri hugsun, sem frv. gerir ráð fyrir og vildu sætta sig við, að þessi leið yrði farin og þær aðgerðir gerðar, sem þar er gert ráð fyrir að þeir þurfi að beygja sig undir.

Frá öllum þessum launþegasamtökum, sem hér hafa verið nefnd, að undanskildum meiri hluta Alþýðusambandsstjórnar, tel ég að hafi komið jákvæð svör við þeirri stefnu, sem í frv. felst. Að vísu hafa þessir aðilar sitt hvað við frv. að athuga, eins og eðlilegt er, en meginsjónarmiðið, að sú leið verði farin að færa niður kaupgjald og verðlag, sé þeim nær skapi, en hin leiðin, sem blasir við, ef þessi leið reynist ekki fær.

Í bréfi Alþýðusambandsins og raunar fleiri aðila er minnzt á kaupmátt launa og þar gert að skilyrði, að kaupmáttur launa lækki ekki miðað við októbermánuð s.l. Eins og hv. alþm. hafa sjálfsagt tekið eftir, þá er yfirlit í grg. frv. um það, hvernig kaupmáttur launa hefur breytzt með breyttri vísitölu og verðlagi frá 1. febr. 1958 til 1. marz 1959, ef reiknað er með þeim niðurfærslum, sem hér eiga sér stað og kemur þá í ljós, að miðað við október s.l. hefur kaupmáttur launa, bæði hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum, aukizt um 1.6% miðað við 1. okt. s.l. Þessu skilyrði á þess vegna að vera fullnægt með þeim aðgerðum, sem hér er ætlað að gera.

Ég hef nú látið máli mínu lokið. Í þessu máli er ekki margra góðra kosta völ, það er augljóst, en ég tel og ég hef örugga sannfæringu á því, að sá kostur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sé sá skásti af þeim, sem fyrir hendi eru, þannig að verði það úr, að þessi leið finni ekki af einhverjum ástæðum náð fyrir augum hv. alþm. og leita þurfi annarra úrræða, þá er ég fyrir mitt leyti á þeirri skoðun eftir þá athugun, sem ég hef fengið tækifæri til að gera á þessu máli núna síðustu vikurnar og raunar áður líka, að þá muni hver önnur leið, sem farin verður, verða erfiðari og þungbærari, ekki einasta fyrir þjóðina í heild, heldur líka fyrir þær launastéttir, sem nú er verið að tala um 5.4% kaupskerðingu hjá og að það sé þeirra vegna og raunverulega allra vegna þýðingarmikið, að þessi skásta leið sé farin, en ekki önnur, sem ég er viss um að ekki finnst betri en þessi.