29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (1894)

14. mál, votheysverkun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það hafa nú í þeim umr., sem hér hafa farið fram, komið fram ýmsar upplýsingar, sem gagnlegar eru við frekari meðferð málsins.

Hv. 1. þm. N-M. taldi mig mundu hafa lítið fylgzt með því, hvað gerzt hefði í sambandi við þessi mál, vegna þess að það hefði verið útbýtt ýmsum skýrslum, bæði frá súgþurrkunarnefnd og verkfæranefnd, varðandi ýmsa þætti þessara mála, bæði súgþurrkunina, tilraunir með votheysgerð og annað. Ég skal fúslega játa það, að ég hef kannske ekki lesið allar þessar skýrslur sem skyldi, þó að mér séu sumar þeirra kunnar, og held ég, að það þurfi nú ekki beinlínis að benda til þess, að ég hafi ekki sérstakan skilning eða þekki ekki sérlega til mála landbúnaðarins. Ekki sízt eftir að það er upplýst af hv. 1. flm. þessarar till., að hann hafi enga þessa skýrslu séð og viti ekkert, hvað hafi gerzt í málinu, þá verður mér vonandi ekki lagt það mjög til dómsáfellis, þótt ég kannske ekki hafi lesið þær allar niður í kjölinn. Hitt þótti mér mjög fróðlegt, að fá upplýsingar frá þessum hv. þm., fyrrv. búnaðarmálastjóra, sem einmitt mun hafa átt að annast það eftir þeirri ályktun, sem gerð var, að fylgjast með þessu og koma þessari þekkingu á framfæri, að hann telur að, að þessu máli hafi verið unnið af þessum aðilum svo að segja eins vel og til var hægt að ætlast, bæði varðandi votheysathuganirnar, súgþurrkunina og annað, sem gert var ráð fyrir að rannsaka. Og er það vissulega ánægjulegt, að þessir aðilar hafa sinnt því hlutverki, sem þeim var á sínum tíma fengið í hendur í sambandi við þessa ályktun.

Það ber auðvitað á engan hátt að lasta það, að vakið sé máls á þessu á nýjan leik, eins og hér hefur verið gert. En segja má þó, að óneitanlega hefði verið heppilegt, ef flm. hefðu athugað þetta mál í samhengi við það, sem áður hefur verið gert. Það er vitanlega á þessu sviði sem öðru alltaf mikið ógert. En þó hygg ég ekki heppilegt að slíta í sundur þráðinn, ef það eru vissir aðilar, sem eru að vinna að ákveðnum viðfangsefnum, að þá sé það fengið öðrum í hendur, heldur þurfi það að athugast að minnsta kosti, hvort ekki sé heppilegt, að þeir aðilar haldi málunum áfram.

Ég geri ekki ráð fyrir, að verkfæranefndin eða þeir aðilar, sem hafa rannsakað bæði súgþurrkun og votheysgerð, telji, að öllu sé lokið í þeim efnum, enda skildist mér það á hv. 1. þm. N-M., að það væri einmitt á það bent, að það þyrfti meira að fara að gera og að þessum málum væri unnið á tilraunabúunum. Og það er vitanlega mjög mikilvægt atriði, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) benti hér á og er sennilega eitt mikilvægasta atriðið í þessu sambandi, að reyna að uppræta þær hættur, sem virðast hafa komið fram í sambandi við votheysnotkunina, því að vitanlega er vonlaust, að menn taki almennt slíka verkun upp, ef í þeim er uggur um það, að því fylgi einhver veruleg hætta fyrir þeirra bústofn.

Varðandi það atriðið, að með till. frá 1955 hafi eingöngu átt að snúa sér að nýjum verkunaraðferðum, þá er það að vísu rétt, að till. ber það nafn, rannsókn nýrra verkunaraðferða. En hins vegar kom það glöggt fram í umræðum, sem þá fóru fram um málið, m.a. frá 1. flm. þeirrar till., að það vakti einnig fyrir honum, enda kemur það fram í till. og ályktuninni, að rannsakaðar væru þær heyverkunaraðferðir, sem fyrir hendi eru, vegna þess að vitanlega er það svo, að þó að um nýjar aðferðir væri að ræða að einhverju leyti, þarf það ekki að leiða það af sér, að ekki eigi að kanna, hvort þær verkunaraðferðir, sem tíðkanlegar hafi verið, geti orðið endurbættar með einhverju móti.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál. Ég endurtek það, sem ég í upphafi sagði, að þetta er mál, sem er hin brýnasta þörf fyrir landbúnaðinn að unnið verði að á skipulagsbundinn hátt og leitazt við að finna öll tiltækileg úrræði til að koma í veg fyrir þann mikla vanda, sem bændur eiga jafnan við að stríða í þessu héraði eða öðru á hverju sumri eða flestum sumrum. En það, sem ég vildi aðeins benda á, var þetta, sem mér sýnist umræðurnar hafa sýnt að hafi verið tímabært, að vekja athygli á þeirri ályktun, sem gerð var, og þeirri vinnu, sem unnið hefur þegar verið að einmitt í sambandi við þetta mál, hvort það þyki tiltækilegt að gera um þetta nýja ályktun, þannig að nýjum aðilum verði að einhverju leyti fengið þetta verkefni í hendur, eða að stuðla að því, að áfram verði haldið þeim rannsóknum með meiri hraða, sem nú þegar er unnið að. Vitanlega hlýtur alltaf að taka sinn tíma svona rannsóknarstarfsemi, það leiðir af sjálfu sér, að hún hlýtur að gera það. Um það skal ég ekki dæma, það verður að sjálfsögðu metið í þeirri n., sem málið fær til meðferðar. En það eitt út af fyrir sig leysir vitanlega hvorki vandann í þessu máli né öðru að endurtaka um það ályktanir, allra sízt mega þær, eins og ég áðan sagði, verða til þess, að á nokkurn hátt sé sundur slitinn þráðurinn við það, sem þegar er unnið að og búið er að rannsaka og undirbúa í viðkomandi málum.