29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2072)

19. mál, Ungverjalandsmálið

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Um þessar mundir eru liðin tvö ár, frá því að ungverska þjóðin gerði byltingu gegn erlendum einræðismönnum, sem höfðu hrifsað völdin í landi hennar, og þeirri leppstjórn, sem þessir einræðisseggir héldu þar uppi, Óhætt er að segja, að með þeim atburðum, sem þá gerðust, hafa orðið þau tíðindi, sem ef til vill hafa komið nær hjarta þeirrar kynslóðar, sem nú lifir, heldur en nokkur önnur, sem gerzt hafa um okkar daga, og væri þó synd að segja, að atburðalaust hafi verið á síðustu áratugum. Ekki er um það að villast, að ungverska þjóðin var í senn beitt miklu ofbeldi og miklu ranglæti. Enginn efi er á því, að ef lög og réttur hefði gilt þar á slóðum, sem Ungverjaland er, þá mundi saga þessarar byltingar og viðureignar hafa orðið með allt öðrum hætt,i en raun ber vitni.

Einmitt um svipað leyti gerðust tvö stórveldi meðal vesturveldanna sek um mikla tilraun til ofbeldisbeitingar og frumhlaups gagnvart Egyptalandi. Það athæfi var allt óafsakanlegt, en var þó í eðli sínu miklu síður skaðsamlegt og frelsi Egypta ekki líkt því eins hættulegt og árás Rússa og kúgun var gegn Ungverjum.

Vegna þess, hvar Egyptaland er staðsett, guggnuðu Bretar og Frakkar í tilraun sinni til ofbeldis gegn Egyptalandi og hurfu frá Súez án þess að ná þar þeirri fótfestu, sem þeir upphaflega höfðu ætlað sér. Þetta kom af því, að hér í vestanverðum hluta heimsins gilda þær reglur, sem Sameinuðu þjóðirnar eru sagðar byggðar á og myndaðar til þess að framfylgja. Hér fer að vísu margt öðruvísi og verr en skyldi, og er þess nú skemmst að minnast, hvernig Bretar hafa komið fram gegn Íslendingum í landhelgisdeilunni. Þar er komin upp réttardeila, sem aðilar hefðu átt að geta komið sér saman um að leidd yrði til lykta eins og sæmir með siðuðum mönnum, án þess að til valdbeitingar kæmi.

Bretar hafa beitt okkur valdi og þannig orðið sjálfum sér til lítillar sæmdar og Íslendingum til tjóns. Íslendingar eru áreiðanlega allir sammála um að fordæma þetta athæfi Breta mjög harðlega. En þó verðum við að játa, að einmitt vegna þess, hvar okkar land liggur, verður deila eins og sú, sem við eigum nú í við Breta, okkur mjög til áminningar um, að hlutur okkar gæti verið miklu lakari, en hann þó er.

Ég hygg, að það séu fáir, ef nokkrir Íslendingar, sem efist um það, að fyrr eða síðar og öllu heldur fyrr en síðar munu Íslendingar sigra í þessari deilu við Breta. Við höfum þessa bjartsýni, þó að við vitum allir, að ef valdið, aflsmunurinn ætti að skera úr, þá væri barátta okkar vonlaus. Þá þyrfti ekki að leikslokum að spyrja, þá væri alveg öruggt, að Bretar hlytu að verða ofan á. En það er einmitt vegna þess, að við þrátt fyrir valdbeitingu Breta vitum, að við búum þar, sem slíkar aðferðir eru orðnar úreltar. Við trúum því og treystum, að Bretar muni með einum eða öðrum hætti, áður en yfir lýkur, guggna í því framferði, sem þeir hafa nú upp tekið. Okkar bjartsýni byggist á vitundinni um það, eins og ég sagði, að þótt hér misfari margt í þessum hluta heimsins, þá gilda lög og réttur hér, ekki aðeins að nafni, heldur að verulegu leyti í verki. Á þeim slóðum, sem Ungverjaland er, þá er aftur á móti lög og réttur í raun og veru ekki til, þá er það einungis hjúpur fyrir ofbeldið, það, sem öllu ræður, er valdbeitingin. Á þeim slóðum væri óhugsandi slík viðureign sem við eigum nú við Breta, bæði væri vonlaust fyrir litla þjóð að ætla að etja slíku kappi við Breta, eins og við gerum, vegna þess að menn vissu af biturri reynslu, að valdið væri látið skera úr, en ekki rétturinn. En eins má telja það öruggt, að þar hefði stórveldið ekki látið sitja við það eitt að taka sér valdið til úrskurðar í deilunni, heldur hefði það notað tækifærið, þegar smælinginn sýndi þá frekju að ætla sjálfum sér nokkurn rétt á móti stórveldinu, til þess að ljúka ævidögum smælingjans sem sjálfstæðrar þjóðar í eitt skipti fyrir öll.

Það er mjög hollt, að við Íslendingar gerum okkur einmitt nú þegar, — samtímis sem menn hafa það tvennt í huga, byltinguna í Ungverjalandi fyrir tveimur árum og þá viðureign, sem við eigum þessa dagana og þessa mánuði við ofbeldið, — að við gerum okkur ljósan þann reginmun, sem hér á sér þó stað, um leið og ég ítreka, að við getum ekki nógu harðlega vítt og ásakað brezka stórveldið fyrir að koma fram eins og það hefur gert.

En Ungverjar þurftu ekki að spyrja að leikslokum. Að vísu var hampað framan í þá nokkra daga voninni um frelsi og látið svo sem þeir ættu að fá að ráða sínum málum sjálfir. En þegar þeir sýndu, að þeir tóku þau loforð alvarlega, og ekkí sízt þegar þeir gerðust svo djarfir að fylgja því boðorði, sem flokksbræður valdhafanna austan járntjalds gera að sinni höfuðkenningu hér vestan járntjalds, að smáríkin eigi að vera hlutlaus og halda sér utan við deilur stórvelda, — þegar Ungverjar tóku þessi orð bókstaflega og boðuðu hlutleysi síns ríkis og óskuðu eftir að verða lausir við hersetu Rússa, sem mjög freklega höfðu blandað sér í þeirra innanríkismál, þá beittu Rússar, eins og nógsamlega er kunnugt, sínu herveldi gegn hinum frjálshuga mönnum og brutu þá á bak aftur á tiltölulega skömmum tíma. Eitt hið síðasta, sem menn heyrðu frá stjórn hinna frjálsu Ungverja, hinni síðustu réttu ríkisstjórn Ungverja, var neyðarkall hennar um hjálp til vesturveldanna, til Samelnuðu þjóðanna, sem þær þorðu ekki að verða við þrátt fyrir samningsskyldur sínar í þeim efnum, vegna þess að allir töldu víst, að ef reynt væri að láta lög og rétt gilda fyrir austan járntjaldið, þá mundi þar af óhjákvæmilega, leiða heimsstyrjöld.

Þessir atburðir eru allir með þeim hætti, að þeir mega ekki á nokkurn hátt úr minni manna falla. Þarna fékkst sá lærdómur, sem þjóðirnar verða að festa sér í huga, bæði ungir gamlir, og reyna að miða sína hegðun við.

Það má segja, að það sé að vísu svo margt, sem við beri í þessum efnum, sumt tiltölulega lítið, sem þó sé fullíhugunarvert, eins og nú síðustu dagana viðbrögð rússneskra yfirvalda og rússneskra rithöfunda við því, þegar rússneskt skáld fær Nóbelsverðlaun, að vegna þess að skáldið hefur sagt orð, sem — eins og Halldór Kiljan Laxness segir í viðtali við Morgunblaðið í dag — eru sögð hundrað sinnum á dag fyrir vestan járntjald með hinum frjálsu þjóðum og enginn lætur á sig fá, ekki heldur þeir, sem verða fyrir gagnrýninni, þó að þeim verði það sjálfsagt að einhverju leyti til hugleiðingar, — en af því að hið rússneska skáld hefur orðið svo djarft að segja slíkan hlut í einni bók, sem Halldór Kiljan segir að sé sagður hundrað sinnum á dag í okkar hluta heimsins, þá er því tekið sem fjandskap, að þessi maður skuli fá Nóbelsverðlaun. Hann er rekinn úr rithöfundafélaginu, hann er sviptur þeim hlunnindum, sem rithöfundar hafa þar í landi, og guð má vita, hvað um hann verður sjálfan, áður en langt um líður, ef ekki kemur nógu sterkt aðhald frá almenningsáliti á Vesturlöndum. Það er rétt, að vopnavaldi er ekki hægt að beita og verður vonandi aldrei beitt, og enginn á frekar að óska þess heldur en við Íslendingar. En baráttuna verður að heyja áfram, meðan slíkir atburðir geta gerzt eins og þessi síðasti nú, sem lýsir betur en flest annað og margt hið stærra því hyldýpi kúgunar og ofstækis, sem ríkir hjá þessu volduga ríki, sem ein bezta og mesta menningarþjóð hefur orðið að bráð fyrir.

Þó að atburðirnir gerist þannig stöðugt, sem geti orðið mönnum til lærdóms, þá eru, eins og ég segi, fáir átakanlegri né svo stórfenglegir, að þeir séu líklegir til að grípa jafnt hugi manna eins og atburðirnir í Ungverjalandi, ef menn kynna sér þá, utan við allan áróður og utan við fullyrðingar, bæði með og á móti. En það var einmitt það, sem Sameinuðu þjóðirnar lögðu sig eftir, að láta semja örugga, hlutlausa skýrslu um atburðina. Þær skildu sjálfar eða forustumenn þeirra máttleysi sitt til þess að koma ungversku þjóðinni til hjálpar, en þær áttuðu sig á, að eitthvað urðu þær að gera til þess að halda uppi sinni eigin sæmd og reyna að koma í veg fyrir, að þvílíkur ófagnaður henti aðrar þjóðir. Þess vegna var skipuð sérstök rannsóknarnefnd sérfræðinga til að kanna það, sem í raun og veru hefði gerzt í Ungverjalandi. Fyrir rúmu ári lauk þessi nefnd sínu starfi, lagði fyrir Sameinuðu þjóðirnar mikla skýrslu, sem ekki hefur verið hnekkt með rökum og má segja að sé eitt áhrifaríkasta mannlegt skjal, sem lagt hefur verið fram á okkar dögum. Það er að sumu leyti þungt til aflestrar, ýmislegt er þar, sem má segja að okkur hér norður á Íslandi varði ekki svo mikið um. Þess vegna má spyrja: Væri ekki nóg, að tekinn væri útdráttur úr þessari skýrslu, svipað og brezka stjórnin lét gera, skömmu eftir að hún kom út, og lét selja við vægu verði. Þar er að vísu hægt að fá hinn þurra fróðleik, hinar óyggjandi niðurstöður, en þar næst ekki hinn mannlegi blær, skilningur á þeim hryllilegu örlögum, sem heil þjóð og allir hennar einstaklingar þar með voru ofurseld þessa daga fyrir réttum tveimur árum austur á Ungverjalandssléttum.

Íslendingar geta ekki mikið gert til þess að sýna Ungverjum samúð umfram það, sem við höfum gert. Við höfum boðið nokkrum Ungverjum að dveljast með okkur, sjálfsagt hlutfallslega eins mörgum eða hlutfallslega fleiri en boðið hefur verið að dveljast með öðrum þjóðum. Þó að menn vildu senda þeim gjafir, þá fá þær ekki að komast austur yfir járntjaldið. En það er eitt, sem Ungverjar segja, sem sloppið hafa undan kúguninni, sem lagðist yfir þeirra land. Þeir biðja þjóðirnar um að gera eitt fyrir sig, að sýna með sinni hegðun, að Ungverjar hafi ekki barizt að árangurslausu, að aðrar þjóðir hafi manndóm og dug til þess að hagnýta sér lærdóminn af baráttu ungversku þjóðarinnar. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, en undirstaða þar eins og alls staðar ella er sú, að menn viti í raun og veru, hvað hefur átt sér stað, hvaða atburðir það eru, sem voru að gerast í Ungverjalandi fyrir tveimur árum. Flestir okkar eða öll, sem hér erum nú, munum þetta í stórum dráttum. Hjá öllum fjöldanum hverfa þessir atburðir fyrir öðru, sem síðar kemur. Upp vex ný kynslóð, sem veit þetta einungis af afspurn eða man óljóst eftir því frá bernskudögum.

Það er enginn vafi á því, að það mundi verða íslenzku þjóðinni til mikils gagns sem merkt heimildarrit, sem fróðleiksfúsir menn mundu lesa um áratugi og jafnvel aldir, að fá skýrslu Ungverjalandsnefndarinnar þýdda á íslenzku. Það er ekki að búast við mikilli sölu á slíku verki. Hún er ekki svo aðgengileg, að það sé eðlilegt, að nokkrir einstaklingar ráðist í útgáfuna á skýrslunni, enda er þar um alveg sams konar plagg að ræða og þingtíðindi og aðrar opinberar skýrslur, sem talið er sjálfsagt að ríkið eða almannavaldið sjái um að séu fyrir hendi fyrir allan almenning til þess að átta sig á. Þess vegna flutti ég í fyrra þá till., sem ég flyt nú aftur. Henni var þá vísað til hv. utanrmn. og fékk þar aldrei afgreiðslu. Eins og kunnugt er, var tregt um fundarhöld í utanrmn. á síðasta þingi, og kann það að vera einhver ástæða fyrir því, að þessi till. fékkst ekki tekin til meðferðar. Ég er sannfærður um það, að ef þm. almennt gerðu sér grein fyrir þýðingu þessarar skýrslu, bæði í sjálfu sér og hverja þýðingu hún getur haft fyrir pólitíska og siðferðilega menntun íslenzku þjóðarinnar, þá mundu þeir allir eða a.m.k. yfirgnæfandi meiri hluti greiða atkv. með því, að till. yrði samþ. Þess vegna hef ég tekið till. upp nú aftur. Ég þarf ekki að ræða frekar um hana, en ég hef gert í þeim orðum, sem ég hef nú mælt.

Ég játa, að ég er í nokkrum vanda um það, til hvaða nefndar ég eigi að leggja til, að till. sé vísað. Ef hæstv. forseti hefur trú á því, að utanrmn. verði starfhæf á þessu þingi og afgreiði mál, eins og aðrar þingnefndir gera, þá mundi ég telja langsamlega eðlilegast, að till. yrði vísað til hennar. En ef hæstv. forseti telur, að nefndin muni starfa með sama hætti og hún hefur gert síðustu tvö ár, — sem sagt alls ekki starfa, — þá verður að taka afleiðingunum af því og leggja til, að till. sé vísað til annarrar nefndar, og þá mundi vera vænlegast að stinga upp á því, að fjvn. fengi till. til meðferðar, vegna þess að ekki getur verið neitt á móti samþykkt till. annað en það, hvort menn hafa fé til þess að verja í þessu skyni eða ekki.

En aðaltill. mín er sem sagt sú að leggja til, að till. verði vísað til utanrmn., og held fast við það, nema hæstv. forseti telji, að nefndin muni ekki hafa breytt um starfshætti frá því, sem verið hefur.