11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (2225)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í till. raforkuráðs er gert ráð fyrir því aðallega, að héraðsrafveitur og kauptúnarafveitur, sem frestað var að framkvæma 1958, verði nú unnar á árinu 1959, en ég man ekki nákvæmlega töluna og hef ekki hér fyrir framan mig, hvað það er mikið. Ég hygg þó, að það sé á milli 10 og 20 millj. kr., sem frestað var á árinu 1958 og ákveðið er að hefja framkvæmdirnar með eða taka til framkvæmda á árinu 1959 og auk þess nokkrar héraðsrafveitur að auki. Ég man ekki heldur, hvort rafveitulína sú, sem hv. þm. talar um, er þar með, en ég ætla þó, að svo sé.