19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (2250)

18. mál, smíði 15 togara

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það var mjög leitt, að hæstv. sjútvmrh. skyldi ekki treysta sér til þess að skýra frá ferðalagi aðalbankastjóra Seðlabankans að undanförnu og taldi það vera fráleitar spurningar. Hann hefur einmitt sjálfur skýrt frá því, að seðlabankastjórinn væri erlendis að vinna að þessum málum, og það er þess vegna full nauðsyn fyrir þingheim, ekki aðeins að vita, hvar bankastjórinn hefur verið, heldur hvað hann er að gera og hver árangur hans verka er.

Hæstv. ráðh. beinir því til okkar sjálfstæðismanna, hvaða afstöðu við munum taka til einhvers láns, sem hann nú upplýsir að sé fáanlegt í Sovétríkjunum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að taka afstöðu til slíks lánstilboðs, nema vitað sé, hvað að öðru leyti hefur gerzt í málinu. Það er frumskilyrði þess, að við getum gert okkur grein fyrir því, hvað hagkvæmast er að gera. Hann segist sjálfur ekki vera reiðubúinn til þess að leggja til, að þetta rússneska lán, sem hann nú segir að sé fyrir hendi, verði tekið, fyrr en árangur af umleitunum seðlabankastjórans er upplýstur. En ef hann sjálfur, ráðherrann, getur ekki gert upp sinn hug, hvernig getur hann þá ætlazt til þess, að við, sem hann heldur fyrir öllum upplýsingum um aðgerðir og ferðalög seðlabankastjórans, getum tekið afstöðu til þessa einstaka atriðis?

Um þetta þarf ekki að fara fleiri orðum. Það liggur alveg í augum uppi. Hins vegar er það alger nýjung, ef það nú liggur fyrir, að lán sé fáanlegt með þeim kjörum, sem hæstv. ráðh. segir. Og því miður er það svo, að eðlilegt er, að menn óski eftir frekari gögnum, en lauslegri umsögn þessa hæstv. ráðh. um, hvers eðils lánstilboðið er, áður en þeir ræði frekar um það mál. Það er nauðsynlegt, að þar liggi öll gögn fyrir og allar upplýsingar, áður en menn taki afstöðu til málsins. Og hér sem ella, er það auðvitað frumskilyrði, að ríkisstj. skýri þingheimi frá því, hverjar till. hennar eru í málinu.

Vildu ekki t.d. þessir tveir hæstv. ráðh., sem sitja þarna með einn stól á milli sín, lýsa því yfir, hvort þeir eru sammála um afstöðuna til þessarar lántöku, og vill hæstv. fjmrh. gera okkur þann greiða að skýra frá því, hvort hæstv. sjútvmrh. hafi í einu og öllu farið með rétt mál í sinni frásögn af málinu? Ég vil ekki segja, að ég trúi skilyrðislaust öllu því, sem hæstv. fjmrh. segir, en a.m.k. skaðar ekki að heyra vitnisburð beggja, áður en tekin er afstaða til þess, sem hvor um sig heldur fram. (Gripið fram í.) Já, það er ljóst, að ráðh. er heldur illa við að láta uppi sína skoðun, við sjáum, hvað verður í því.

En þá kemur það til, sem hv. síðasti ræðumaður vék að og hefur auðvitað úrslitaþýðingu í þessu efni: Hvers eðlis eiga þessir nýju 15 togarar að vera? Áður en tekin er ákvörðun um, að við með ákveðinni lántöku bindum okkur við tilteknar skipasmíðastöðvar um gerð þeirra skipa, þá er það, það minnsta, að þingheimi sé skýrt frá því, hvers eðlis skipin eigi að vera. Það hefur aldrei verið látið svo lítið að skýra Alþ. frá því. Eins sýnist ekki óeðlilegt, að áður en haldið er áfram smíðum skipa í þessum skipasmíðastöðvum, sem hæstv. ráðh. vék að, væri sýnt, hvernig til tekst eða tekizt hefur til með smíði þeirra 12 miklu minni skipa, sem stöðvar þessar hafa að undanförnu unnið að. Það mundi sannast sagt vera mjög hæpin ráðstöfun að taka ákvörðun um miklu meiri skipasmíðar í þeim stöðvum, áður en eitt einasta skip af hinum minni er komið til landsins og menn hafa áttað sig á því, um hvers konar framkvæmdir þar er að ræða.

Auðvitað gerir svo glöggur maður sem hæstv. ráðh. sér grein fyrir öllu þessu, og þess vegna eru spurningar hans til okkar orðaleikur til þess að breiða yfir það, að hann getur ekki svarað því, sem mestu máli skiptir. En hitt er fullkomin ástæða, að skora á hæstv. ráðh. að skýra Alþ. ekki aðeins frá öllum ráðagerðum varðandi smíði þessara 15 skipa, heldur gefa umbúðalausa og umsvifalausa skýrslu um hin rússnesku lánstilboð, þannig að alþm. eigi þess kost að dæma um, hvort það hefur verið fyrir fordóma, sem ríkisstj. hefur ekki komið sér saman um að þiggja þessi rússnesku lán, eða hvort gildar ástæður liggja fyrir þessu máli. Og eftir hálfyrði hæstv. ráðh. hér er sannast sagt óþolandi annað en fullkomin skýrsla berist til Alþ. um það efni.