11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður ágústsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nokkur undanfarin ár hafa farið fram samningar á vegum ríkisstj. annars vegar og fulltrúa sjómanna, útvegsmanna og vinnslustöðva hins vegar um verðlag á fiskafurðum til sjómanna og útflutningsbætur o.fl. til útvegsmanna og vinnslustöðva.

30. des. 1957 voru undirskrifaðir samningar milli þessara aðila, og töldu samningsaðilar, að þeir ættu að vera í gildi fyrir allt árið 1958, eins og venja hafði verið um sams konar samninga árin á undan. Reyndin varð þó önnur. Með löggjöfinni um útflutningssjóð, sem samþykkt var á Alþingi í maílok 1958, var samningnum frá 30. des. kollvarpað og ákveðin allt önnur og óheppilegri skipan á þessi mál, með þeim afleiðingum, að gjaldeyrisatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, voru skattlagðir með það miklum þunga, að slíks dæmi hafa ekki þekkzt áður.

Með löggjöfinni var ákveðið að taka í útflutningssjóð 55% yfirfærslugjald á allar innfluttar nauðþurftir landbúnaðarins, svo sem tilbúinn áburð, fóðurbæti, jarðvinnslutæki o.fl., o.fl. Með þessu skattgjaldi hefur bændastéttinni verið gert svo erfitt með eðlilegan rekstur búa sinna, að tvísýnt er, á hvern hátt hún getur staðið undir því. Auk þess er hér um mikilvæga kjaraskerðingu að ræða, þar sem hækkunin á útflutningsbótum á afurðir landbúnaðarins, sem löggjöfin gerir ráð fyrir, hrekkur engan veginn til að standa straum af hinum gífurlegu álögum. Hafa þessar aðgerðir því óhjákvæmilega óheillavænleg eftirköst fyrir landbúnaðinn, og er enn ekki hægt að gera sér grein fyrir, hve alvarleg þau kunna að reynast.

Rétt er að hafa í huga, að hér er um atvinnuveg að ræða, sem öll þjóðin hefur brýna þörf fyrir að sé rekinn með eðlilegum hætti, og ber margt til. Íslendingum er það höfuðnauðsyn, að atvinnulíf þjóðarinnar sé sem fjölþættast, og á það einnig við um landbúnaðinn. Landbúnaðurinn veitir þéttbýlinu mikilvæga þjónustu við að sjá því fyrir kjöt- og mjólkurafurðum. Er þá ótalið hið mikla menningargildi landbúnaðarins í íslenzku þjóðlífi að fornu og nýju.

Ég lagði fsp. fyrir hv. fyrrv. fjmrh., Eystein Jónsson, er frv. um útflutningssjóð var til umr. í hv. Nd. í maí 1958, hvort bændastéttinni yrðu bættar á annan hátt en frv. gerði ráð fyrir þær óeðlilegu kvaðir, sem á hana væru lagðar, ef frv. yrði lögfest. Ráðh. leiddi hjá sér að svara fsp.

Fyrir aðgerðir þm. Sjálfstfl. hefur lagfæring fengizt á verðlagi innflutts áburðar á þessu ári. Samþykkt var í sambandi við afgreiðslu fjárl. að greiða niður innfluttan áburð, þannig að verðhækkun á honum verði ekki önnur eða meiri, en orðið hefur á innlendum áburði. Að sjálfsögðu er þetta nokkur bót, en nær þó skammt, þegar yfirfærslugjöldin liggja á öðrum nauðþurftum bænda með jafnmiklum þunga og raun ber vitni.

Þegar gengið var frá löggjöfinni um útflutningssjóð í maílok 1958, mátti heita, að stjórnarliðið væri búið að missa trúna á bjargráðin, enda lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að þetta væru aðeins ráðstafanir eða bjargráð fram á haustið og þá yrði löggjöfin að endurskoðast á ný. Það voru ekki aðeins hv. alþm. Sjálfstfl., sem mótmæltu lögfestingu frv. um útflutningssjóð og lýstu hinum óhollu áhrifum löggjafarinnar á eðlilegan rekstur atvinnuveganna, heldur voru það einnig hv. stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar, sem vöruðu við lögfestingu þess. Það voru þeir hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, og hv. 4. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson, sem töluðu allir á móti frv. og greiddu atkv. gegn samþykkt þess.

Undirstaðan að hinni öru efnahagsþróun hér á landi á undanförnum áratugum er beint eða óbeint fengin fyrir verðmæti þess afla, sem hin óvenju dugmikla og harðgerða sjómannastétt okkar hefur sótt í greipar Ægis. Ekki er deilt á mikilhæfi annarra þjóðfélagsstétta, þótt þetta sé viðurkennt. Íslendingar þurfa að vera einhuga um þá nauðsyn að efla og stækka fiskiskipaflotann, svo að hann geti gegnt því mikilvæga hlutverki að sjá þjóðarbúinu fyrir síauknum gjaldeyristekjum, sem brýn þörf er fyrir, til þess að þjóðin megi halda í horfinu með menningarlega og efnahagslega þróun. Tel ég hyggilegt í þessum efnum, að gerðar séu ýtarlegar till. fyrir atbeina ríkisvaldsins og með aðstoð Fiskifélags Íslands og Landssambands íslenzkra útvegsmanna um aukningu fiskiskipaflotans, bæði hvað viðkemur smíði togara og fiskibáta.

Það verður að viðurkennast, að nokkuð hafa aðgerðir í þessum efnum verið fálmkenndar og ekki framkvæmdar með þeirri festu og hyggindum, sem æskilegt hefði verið, þegar um jafnþýðingarmiklar ráðstafanir hefur verið að ræða. Það er álit mitt, að við Íslendingar eigum að endurnýja flotann með vissri tölu togara og fiskibáta árlega, en ekki með mörgum tugum á einum eða tveimur árum, eins og stundum hefur átt sér stað. Þessi aðferð, sem ég bendi hér á, mun reynast farsælust fyrir þjóðarbúið, þegar til lengdar lætur.

Eins og það er áríðandi fyrir þjóðarheildina að beina hugum ungra manna að sjómannsstarfinu og gagnsemi þess fyrir afkomu þjóðarinnar, eru bætt skilyrði í landi fyrir sjávarútveginn og þá sérstaklega í sambandi við hafnarframkvæmdir mjög aðkallandi. Horfir til mikilla vandræða í mörgum verstöðvum hvað þetta snertir. Hafa alþm. Sjálfstfl. beitt áhrifum sínum á Alþingi til framdráttar þessum málefnum sjávarútvegsins.

Á síðasta þingi var samþykkt till. til þál. um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir og endurskoðun hafnarlaga, sem við þrír þm. Sjálfstfl. fluttum. Þar segir, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta í samráði við vitamálastjóra gera 10 ára áætlun um nauðsynlegustu hafnarframkvæmdir í landinu og sé fyrst og fremst við það miðað, að framkvæmdirnar geti stuðlað að öruggri og aukinni útflutningsframleiðslu. Einnig verði endurskoðuð gildandi lagaákvæði um skiptingu kostnaðar við hafnargerðir milli ríkis og sveitarfélaga svo og ákvæði um landshafnir. Vitamálastjóri vinnur nú að þessum áætlunum, og munu þær bráðlega liggja fyrir hjá hæstv. ríkisstjórn.

Á þessu þingi höfum við nokkrir þm. Sjálfstfl. flutt till. til þál. um áskorun til hæstv. ríkisstj. um að beita sér fyrir því, að tekið verði allt að 60 millj. kr. lán utanlands eða innan til meiri háttar hafnarframkvæmda. Hæstv. ríkisstj. mun hafa í huga að láta nokkurn hluta þess láns, sem nú er fyrirhugað að taka erlendis, ganga til hafnarframkvæmda.

Þrír alþm. Sjálfstfl. fluttu á síðasta þingi og aftur á þessu þingi frv. til laga um breyt. á tekjuskattslöggjöfinni. Breyt. er í því fólgin, að skipverjar, sem lögskráðir eru á íslenzk fiskiskip, þar með talin sel- og hvalveiðiskip, skuli undanþegnir greiðslu á tekjuskatti. Þetta hefur ekki náð fram enn sem komið er. Nokkra tilslökun hafa sjómenn fengið um greiðslu tekjuskatts, sem nemur aðeins litlum hluta þeirra skattfríðinda, sem frv. okkar þm. Sjálfstfl. kveður á um.

Innan skamms gengur þjóðin til kosninga til að velja sér fulltrúa til Alþingis fyrir næsta kjörtímabil. Hv. framsóknarmenn telja, að kosið verði aðeins um kjördæmamálið eða þær breyt. á kjördæmaskipuninni, sem hlotið hafa samþykki hins háa Alþingis. Að sjálfsögðu verður breyt. á kjördæmaskipuninni mikið rædd á fundum og meðal manna. En ekki kemst Framsfl. hjá því að standa þjóðinni reikningsskil á starfi vinstri stjórnarinnar, sem hann bar vissulega mesta ábyrgð á og veitti forustu. Þau reikningsskil tel ég að verði mál málanna í þeirri kosningahríð, sem nú er fram undan.

Mjög halda framsóknarmenn því á loft, að með kjördæmabreytingunni sé verið að skerða vald strjálbýlisins til áhrifa um stjórnarfar og efnahagsmál á Alþingi. Þessari sömu skoðun héldu framsóknarmenn fram, er kjördæmaskipuninni var breytt 1942 og teknar voru upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum. Öllum er það ljóst nú, einnig framsóknarmönnum, að sú breyting hefur fært tvímenningskjördæmunum eða a.m.k. þeim, sem hafa þm. frá tveimur stjórnmálaflokkum, meiri og örari framkvæmdir frá hendi hins opinbera, en áður þekktust, á meðan tveir þm. frá sama stjórnmálaflokki áttu sæti á Alþ. fyrir kjördæmið.

Hrakspár Framsfl. við kosningarnar 1942 reyndust markleysa, og eins mun sýna sig, er stundir líða, að allur sá áróður, sem Framsfl. hefur nú í frammi gegn réttlátri breytingu á kjördæmaskipuninni, mun verða honum til falls. Öllum má vera ljóst, að það, sem Framsfl. berst fyrir nú, er af sama toga spunnið og í kosningunum 1942: að halda órétti sínum til áhrifa á eðlilega og réttláta skipun Alþingis í skjóli úreltrar og ranglátrar kjördæmaskipunar.

Framsóknarmenn telja, að verið sé að minnka áhrifavald strjálbýlisins með stækkun kjördæmanna. Það munu tímarnir sanna, að þetta er röng ályktun. Réttlát kjördæmaskipun er hyrningarsteinn lýðræðisins. Og sú breyting á kjördæmaskipuninni, sem hefur verið samþykkt á hv. Alþingi, mun ábyggilega efla samhug og nauðsynlegt samstarf í strjálbýlinu, sem aldrei hefur verið meiri þörf á en nú. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Það er óbilandi trú mín, að þessi breyting á kjördæmaskipuninni muni leiða af sér nauðsynlegt samstarf þm. úr fleiri stjórnmálaflokkum í sama kjördæmi framfaramálum héraðanna til eflingar og frama. Einangrun sú, sem einmenningskjördæmin hafa í mörgum tilfellum átt við að stríða, og í kjölfar þeirrar einangrunar erfið aðstaða þm. að koma á framfæri nauðsynjamálum kjördæmisins líður nú undir lok með stækkun kjördæmanna. Þetta munu tímarnir eiga eftir að leiða í ljós að sé það sanna og rétta í kjördæmamálinu.

Þrátt fyrir erfiðleika og margs konar vandræði, sem vinstri stjórnin leiddi yfir þjóðina á þeim rúmum tveim árum, sem hún sat að völdum, er það óbilandi trú mín, að Íslendingar hafi meiri og betri möguleika, en flestar aðrar þjóðir til að afla þjóðinni farsældar bæði á sviði menningar og efnahags. Gott og heilbrigt stjórnarfar er að sjálfsögðu skilyrði fyrir því, að þetta megi takast. Það er á valdi kjósendanna í sveit og við sjó að ákveða, hvort annað vandræðatímabil nýrrar vinstri stjórnar á að hefjast eða tímabil grósku í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. — Lifið heil.