26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

Landhelgismál

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. S-M. spyrst fyrir um það, hvort samið hafi verið um, hvar íslenzkir bátar megi leggja veiðarfæri sín innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi, og hvort slíkir samningar hafi verið gerðir milli foringja íslenzka varðskipsins Þórs og brezks flotaforingja.

Það er rétt, að viðræður fóru fram milli þessara aðila nú fyrir nokkru. En ég staðhæfl, að samningar um það, hvernig íslenzkir bátar megi leggja veiðarfæri sín innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi, hafa ekki átt sér stað, enda hefði það að sjálfsögðu verið fjarstæða og markleysa, og foringi varðskipsins hefur engar heimildir til að gera slíka samninga.

Í öðru lagi er spurt, hvort settar hafi verið reglur um það, hvar íslenzkir bátar megi leggja veiðarfæri í sjó utan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar. Það hefur ekki heldur verið gert og ekkert um þetta samið við hinn brezka flotaforingja.

Það er vitað mál, að það hefur því miður æði oft viljað við brenna, að erlend veiðiskip hafa farið með veiðarfæri sín yfir veiðarfæri íslenzkra báta hér í kringum land og skemmt þau eða eyðilagt. Viðtal það, sem átti sér stað milli Eiríks Kristóferssonar og flotaforingjans brezka, var einungis um það að reyna að bægja frá þeirri hættu, sem stöðugt vofir yfir um slíkar skemmdir á veiðarfærum bátanna okkar. Viðtal þeirra snerist eingöngu um þetta. Þar var ekki verið að ræða um veiðarfærin innan 12 mílna landhelginnar, heldur fyrir utan, eða e.t.v. væri réttara að orða þetta þannig, að landhelgislínu bar ekki á góma í því efni, enda stóð það ekki til. Niðurstaðan af þessum viðræðum varð sú, eftir því sem mér hefur verið tjáð, að brezki flotaforinginn hét því að áminna brezku veiðiskipin um að fara með varúð í grennd við bátana og gæta þess að skemma ekki veiðarfæri þeirra, enda er þá til þess ætlazt, að veiðarfæri íslenzku bátanna séu sómasamlega merkt, þannig að auðveldara sé að vekja á þeim athygli.

Þetta er allt og sumt, sem ég get upplýst í þessu máli, og eftir því sem ég bezt veit, er þetta allt og sumt, sem fór fram milli þessara aðila í þessu viðtali nú fyrir fáum dögum.