04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

Landhelgismál

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum, sem hér hafa fallið í sambandi við utanrmn., vil ég segja nokkur orð.

Á s.l. hausti, þegar mjög svipað atvik kom fyrir eins og það, sem nú hefur gerzt, var haft náið samstarf við utanrmn. um, hvernig með málið skyldi fara. Að sjálfsögðu verður einnig nú haft samstarf við utanrmn., eftir því sem málsatvik gefa tilefni til. Ástæðan til þess, að ég hef ekki enn þá óskað eftir því, að nefndin verði kölluð saman, er sú, að von er nýrra upplýsinga í málinu á hverri stundu, upplýsinga, sem verulegu máli skipta fyrir meðferð þess. Þessar upplýsingar hafa verið lengur á leiðinni en búizt var við, og verður þeirra naumast beðið lengur, en til morguns.