15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

Dagskrá ríkisútvarpsins 1. maí

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Út af því stórmáli, sem hér var rætt áðan utan dagskrár, vil ég taka undir það, að okkur gagni lítið að senda nótu á nótu ofan og mótmæli. Ég held, að Alþingi verði að fjalla um málið og gera ályktun um landhelgismálið, og ég er nú að komast á þá skoðun, að það sé lítt viðunandi fyrir íslenzka þjóð að vera í bandalagi með árásarþjóð, sem er ekki í neinum smáatriðum að ýfast við okkur, heldur traðkar hvað eftir annað á sjálfstæði þjóðarinnar og virðir það einskis.

En það var ekki um þetta mál, sem ég ætlaði að ræða utan dagskrár, það var um annað. Það var um hlutleysi ríkisútvarpsins, og orðum mínum í sambandi við það ætlaði ég að beina til hæstv. menntmrh., sem er æðsti yfirmaður ríkisútvarpsins. Að vísu lít ég nú orðið svo á, að hugtakið „hlutleysi ríkisútvarpsins“ sé orðið að háðglósu í vitund almennings.

Það var svo árum saman, var orðið að fastri venju, að Alþýðusamband Íslands fékk að ráða dagskrá ríkisútvarpsins, ekki aðeins kvölddagskrá þess á alþjóðahátíðisdegi verkalýðsins, 1. maí, heldur einnig síðdegisdagskrá útvarpsins og þ. á m. barnatímanum 1. maí. Þetta gekk svo árum saman, og held ég, að flestum beri saman um, að þessar dagskrár voru með myndarbrag og ollu engum styr, svo að ég viti til. Samt sem áður varð það svo, að þessi réttur var tekinn af Alþýðusambandinu og það látið deila aðstöðu með tveimur öðrum aðilum í kvölddagskrá ríkisútvarpsins 1. maí, þ.e.a.s., þangað var sendur fulltrúi frá ríkisstj., fulltrúi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og þriðja fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands gefinn kostur á að taka þátt í kvölddagskrá með flutningi ávarps. Þannig var búið að bola Alþýðusambandinu út úr dagskrá 1. maí á þann hátt, að það tók þátt í þessari dagskrá að einum þriðja hluta.

Í fyrra þótti rétt að reyna að fá leiðréttingu á þessu, því að þá hafði fulltrúi frá verkalýðsflokki, Alþýðuflokknum, orðið formaður útvarpsráðs og því talið mjög líklegt, að alþýðusamtökunum yrði nú ekki synjað um að ráða dagskrá útvarpsins 1. maí. Um þetta var útvarpsráði skrifað bréf, en því var synjað. Rökstuðningur fyrir synjuninni var það, að útvarpsráð væri nú að hætta að leyfa nokkrum félagssamtökum að ráða sjálf dagskrá einu sinni á ári á hátíðisdögum sínum, það væri orðið svo margt af þessu og útvarpsráð væri að taka fyrir þetta, og þá skildist manni, að það ætlaði ekki að ráðast á garðinn þar, sem hann væri lægstur, það ætlaði að byrja á Alþýðusambandinu með þessa bragarhót — þessa neitun. Nú hefði ekkert verið við þessu að segja, ef það hefði verið sannleikur. En þetta var lygi, hrein lygi, eins og kom í ljós. Öll félagssamtök, sem um þetta hafa beðið, svo að vitað er, hafa á s.l. ári flutt dagskrá í útvarpið, ráðið henni sjálf og engin breyting þar á orðið. Og það er það ljóta við það: neitunin í fyrra var rökstudd með ósannindum. Það var fyrirsláttur með öllu, að þarna væri verið að breyta um venjur.

Þessi afgreiðsla útvarpsráðs í fyrra mæltist mjög illa fyrir, synjun á beiðni Alþýðusambandsins um að ráða kvölddagskrá 1. maí. Mótmæli bárust frá fjölda verkalýðsfélaga út af þessu, og menn í Öllum flokkum utan samtakanna voru einnig hneykslaðir á þessu og töldu, að verkalýðssamtökin ættu rétt á því að njóta sama réttar í útvarpinu og önnur félagssamtök. Þetta mál var svo rætt á Alþýðusambandsþinginu í haust, og tóku ýmsir til máls um þetta og létu allir í ljós vanþóknun sína á því, að ríkisútvarpið skyldi neita í fyrra Alþýðusambandinu um að ráða kvölddagskrá á hátíðisdegi verkalýðsins 1. maí.

Um þessa afstöðu útvarpsráðs var gerð einróma samþykkt á þingi Alþýðusambandsins í haust, og sú samþykkt var, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„26. þing Alþýðusambands Íslands, haldið í Reykjavík dagana 25. 29. nóv. 1958, mótmælir harðlega þeirri ákvörðun útvarpsráðs að meina fjölmennustu stéttasamtökum landsins, Alþýðusambandi Íslands, að flytja útvarpsdagskrá sína í ríkisútvarpið 1. maí t.d., á hátíðis- og baráttudegi verkalýðsins. Jafnframt samþykkir þingið eindregna áskorun til yfirstjórnar útvarpsins um, að stjórn Alþýðusambandsins verði framvegis falið að undirbúa og skipuleggja hátíðadagskrá útvarpsins 1. maí.“

Þetta var ályktun Alþýðusambandsþingsins. Nú hefur það gerzt síðan í fyrra, að samstarf hafði hafizt milli verkalýðsflokkanna í landinu, Alþfl. og Alþb., um stjórn Alþýðusambandsins næstu 2 ár, og skipa Alþýðuflokksmenn og Alþýðubandalagsmenn að jöfnu trúnaðarsæti í miðstjórn sambandsins. Var það sammæli allra í miðstjórn Alþýðusambandsins að fara þess enn á ný, einmitt í krafti þeirrar ályktunar, sem Alþýðusambandsþing hafði gert, á leit við útvarpsráð, að nú fengi Alþýðusambandið að ráða dagskrá 1. maí í þetta sinn. Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, Alþýðuflokksmaðurinn Óskar Hallgrímsson, ritaði því útvarpinu bréf um þetta þann 23. marz s.l. og fór fram á þetta í nafni sambandsins. Það bréf er í allri sinni hæversku á þessa leið, með leyfi forseta:

„Samkvæmt einróma samþykkt 26. þings Alþýðusambands Íslands, sem fram för í Reykjavík dagana 25.–29. nóv. 1958, leyfum vér oss hér með að fara þess á leit við háttvirt útvarpsráð, að Alþýðusambandi Íslands verði gefinn kostur á tíma í kvölddagskrá útvarpsins 1. maí n.k. til flutnings á efni, er snertir sögu verkalýðshreyfingarinnar og 1. maí hátíðarhaldanna. Geti útvarpsráð efnislega fallizt á að verða við þessum tilmælum, munum vér að sjálfsögðu senda yður nánari tillögur um efni og aðra tilhögun dagskrárinnar. Leyfum vér oss að vænta heiðraðs svars yðar við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst,

Óskar Hallgrímsson.

Til útvarpsráðs, Reykjavík.“

Þarna var beðið um það að fá að flytja þætti úr sögu verkalýðshreyfingarinnar, það er bannefni í ríkisútvarpinu, og um 1. maí hátíðarhöldin og boðið, að dagskráin skyldi send útvarpsráði, svo að það gæti gengið úr skugga um, hvernig hún væri, og lagt blessun sína yfir hana, hafnað henni eða strikað út úr henni.

Nokkrum dögum seinna fékk Alþýðusambandið svo hljóðandi bréf frá ríkisútvarpinu, með leyfi forseta:

„Bréf yðar, dags. 23. marz s.l., lá fyrir fundi útvarpsráðs í gær til fullnaðarafgreiðslu, og var tilmælum yðar hafnað. Samþykktí útvarpsráð, að kvölddagskrá 1. maí skyldi vera með sama sniði og verið hefur undanfarin ár:

1) Að ávörp flytji félmrh., forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

2) Að útvarpið sjái sjálft um efni kvöldsins að öðru leyti.

Þetta er yður hér með tilkynnt.

Virðingarfyllst,

Andrés Björnsson.

Til Alþýðusambands Íslands.“

Erindi Alþýðusambandsins var synjað. Þeir ætla að ráða því sjálfir, hvernig hagað er hátíðadagskrá 1. maí í nafni alþýðusamtakanna, og hefur enginn beðið þá um.

Það, sem furðu vekur, er einkum það, að á þessum sama fundl, sem erindi Alþýðusambandsins var synjað, var samþykkt að velta Landssambandi hestamanna heimild til þess að hafa kvölddagskrá í útvarpinu. Nokkrum dögum áður hafði útvarpið heimilað samtökum um vestræna samvinnu að flytja kvölddagskrá í útvarpinu um 10 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Það var hægt að leyfa. Og hestamönnum var hægt að leyfa að hafa dagskrá. Búnaðarsamtökin hafa líka átt mjög greiðan aðgang að útvarpinu og haft þar dagskrá oftar en einu sinni og fasta útvarpsþætti, og fagna ég því og tel fyllstu ástæðu til. En þá hefðu líka verkalýðssamtökin átt að eiga rétt á svipaðri aðstöðu.

Ég held, að það sé óhjákvæmilegt að vita þetta, því að þetta er hlutdrægni, en ekki hlutleysi. Þetta er að mínu áliti óþolandi móðgun við alþýðusamtökin í landinu og því verra, að formaður útvarpsráðs, Alþýðuflokksmaðurinn, skuli eiga þar höfuðsök á, eins og nú verður skýrt frá.

Það er vitað, að atkvæðagreiðsla um erindi Alþýðusambandsins fór á þann veg, að sjálfstæðismennirnir Sigurður Bjarnason og Þorvaldur Garðar Kristjánsson greiddu að sjálfsögðu atkv. á móti því, að verkalýðssamtökin fengju að halda hátíðlegan 1. maí m.a. með því að ráða dagskrá í útvarpinu. Ég undrast það ekkert. Hins vegar greiddu atkvæði með því Björn Th. Björnsson listfræðingur og Þórarinn Þórarinsson ritstjóri Tímans. Þar stóðu jöfn atkvæði, 2:2. Hver gat skakkað leikinn? Hver gat ráðið úrslitum? Það gat Alþýðuflokksmaðurinn, formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, en gerði það ekki, sat hér niðri í þinghúsi og hringdi upp á fund í útvarpinu, að þeir yrðu að afgreiða málið að sér fjarverandi. Hans atkvæði vantar. Rödd formanns útvarpsráðs, Alþýðuflokksmannsins Benedikts Gröndals, vantar við afgreiðslu þessa máls.

Enn þá hefur aðeins minni hluti útvarpsráðs tjáð sig andvígan þessu máli. Það vantar að vita um það, hvort Benedikt Gröndal er með þeim minni hluta og skapar þannig meiri hluta um að neita Alþýðusambandinu um þennan rétt. Ég álít því, að honum beri að kalla saman fund aftur í útvarpsráði og láta þar koma í ljós, hvort hans atkvæði fellur jákvætt með erindi Alþýðusambandsins eða neikvætt með atkvæðum Sigurðar Bjarnasonar og Þorvalds Garðars Kristjánssonar.

Fyrir tveim dögum eða svo hringdi svo skrifstofustjóri útvarpsráðs eða útvarpsins á skrifstofu Alþýðusambandsins til mín og lét sig hafa það, þ.e.a.s. hann á enga persónulega sök á því, að biðja forseta Alþýðusambandsins að taka nú þátt í því að fylla upp í eitthvert gat í dagskrá ríkisútvarpsins 1. maí, eftir að ríkisútvarpið hafði smánað Alþýðusambandið með því að synja því um sama rétt og önnur félagssamtök njóta. Ákaflega smekklegt! Ég þakkaði auðvitað fyrir gott boð, bar mína neitun undir meðstjórnendur mína, bæði Alþýðuflokksmenn og Alþýðubandalagsmenn í miðstjórn Alþýðusambandsins, og voru allir á einu máli um, að það kæmi ekki til mála, að Alþýðusambandið færi að rimpa í nein göt á þeirri dagskrá, sem ríkisútvarpið óbeðið ætlar að flytja 1. maí. Ég hygg, að það mundu vera fá félagssamtök í landinu, sem létu bjóða sér það, að ríkisútvarpið setti saman hátíðadagskrá fyrir þau, nema þau væru þá alveg getulaus til þess að gera það sjálf. En þetta á að bjóða Alþýðusambandi Íslands.

Ég held, að það væri sæmst fyrir ríkisútvarpið að taka orðin „Alþýðusamband Íslands“ inn á bannorðaskrá sína með dansi og gera samþykkt um það í útvarpsráði: Alþýðusamband Íslands má ekki nefna í útvarpinu, a.m.k. ekki 1. maí. — Það væri eitthvert vit í því hjá þeim. Við Alþýðusambandið eru þeir hræddir á einhvern hátt, og sjálfsagt er það samviskubitið frá launaárásinni í vetur, sem að einhverju leyti á sinn þátt í því, að ekki mátti hleypa Alþýðusambandinu í útvarpið í þetta sinn. Það samvizkubit skil ég ósköp vel. En það átti ekki að koma fram á svona lubbalegan hátt eins og nú er orðin raunin á.

Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh., því að hann er önnur silkihúfa uppi yfir formanni útvarpsráðs og getur ráðið í þessu máli, — ég spyr hann: Er það með vitund og vilja hæstv. menntmrh. (GÞG), æðsta yfirmanns ríkisútvarpsins, að Alþýðusambandi Íslands er nú í annað sinn synjað um rétt til þess að ráða dagskrá í ríkisútvarpinu 1. maí? Ef það er með hans vitund og vilja, þá veit maður það, að þá hefur Alþýðuflokksmaðurinn Benedikt Gröndal, formaður útvarpsráðs, lagzt þar gegn verkalýðssamtökunum og yfirmaður hans, hæstv. menntmrh., þá gert það líka. En ef hæstv. menntmrh. er þessu framferði andvígur, þá segi ég: Getur hann ekki og vill hann ekki gripa þarna í taumana? Það er enn þá nálega hálfur mánuður til stefnu, hægt enn þá að koma saman útvarpsdagskrá. Vill hann grípa þarna í taumana og knýja það í gegn, beita sínu ráðherravaldi til þess, að verkalýðssamtökin í landinu njóti sama réttar og önnur félagssamtök í þessu landi? Eða vill hann skipa sér í raðir andstæðinga verkalýðssamtakanna, að því er þetta mál snertir?

Það er þessi fsp., sem ég vil gjarnan fá svarað af sjálfum hæstv. menntmrh., og þess vegna gerði ég ráðstafanir til, að hann yrði hér viðstaddur. Ég vænti mér einskis frekar af útvarpsráði sjálfu, þó að enn þá standi það svo, að það er minni hluti útvarpsráðs, sem stendur að neituninni. Formaður útvarpsráðs hefur ekki enn þá talað. Hann hefur smokrað sér hjá því að greiða atkvæði, en gat þar ráðið úrslitum, og það er allri þjóðinni augljóst.