12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þeim hv. landsk. þm. Alþb., Karli Guðjónssyni og Alfreð Gíslasyni, sem töluðu hér í gær og reyndu af veikum mætti að halda uppi gagnrýni á ríkisstj. og aðgerðir hennar í efnahagsmálum og fjármálum og aðgerðir þær, sem Alþ. hefur gert í vetur í þeim málum, vil ég einfaldlega segja þetta: Þeir ættu að taka sig til og lesa nóvembergrein flokksbróður síns, Hannibals Valdimarssonar, í Vinnunni, því að bersýnilegt er, að þeim hefur ekki nægt að heyra utanrrh. lesa hana hér í gær. Þessi grein kollvarpar allri þeirra gagnrýni. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson var ekki heldur kominn í stjórnarandstöðu, þegar hann skrifaði hana.

Þessir hv. þm. og einnig ræðumenn Framsfl. töluðu fjálglega um það, að efnt hefði verið til útgjalda upp á 250 millj. kr. Þeir töluðu hins vegar ekki um það, hvers vegna þetta hefði verið gert, og helzt var á þeim að skilja, að þetta hefði verið af einskærri fúlmennsku.

Þeir vöruðust að geta þess, að þetta var gert til þess að forða fyrirsjáanlegu efnahagslegu hruni og til þess, að atvinnuvegirnir gætu starfað af fullum krafti á þessu ári. Eru þessir hv. þm. búnir að gleyma því, hvað gerðist 1956 og 1957? Var þá kannske ekki stofnað til stórfelldra útgjalda til þess, að atvinnuvegirnir gætu haldið áfram? Og ég spyr: Var það gert án þess, að almenningur væri skattlagður? En það hrökk því miður ekki til, til þess að halda í horfinu 1958–59. Þetta vita þessir hv. þm. og einnig það, að sú leið, sem nú var farin, var sú léttbærasta leið, sem til var út úr ógöngunum.

Svo leyfa þessir menn sér að segja landsfólkinu það t.d., að sparnaður, sem gerður var á fjárlögum, sé fyrst og fremst fólginn í minnkuðu vegaviðhaldi, þegar viðhaldsfé vega nú er 8 millj, kr. hærra í fjárlögum, en nokkru sinni fyrr hefur átt sér stað, eða minnka eigi flugvallarframkvæmdir, þegar aldrei hefur verið jafnhá upphæð í fjárlögum til flugvalla og einmitt nú, og annað, sem þeir sögðu, var í stíl við þetta. Þannig leyfa þessir menn sér að hagræða sannleikanum og bera á borð fyrir landsfólkið hreinan uppspuna í blekkingaskyni í málefnafátækt sinni.

Hv. landsk. þm., Alfreð Gíslason, sagði í gærkvöld, að Alþfl. hefði unnið gegn útfærslu landhelginnar, en verið kúgaður til fylgis við málið. Það er fáheyrð ósvífni af hv. þm. að halda þessu fram, og ég veit, að honum er sjálfum ljóst, að þetta er rakalaust með öllu. Hið sanna í málinu er, að þáverandi hæstv. ráðh., Lúðvík Jósefsson, var kúgaður til að draga í örfáar vikur að gefa út reglugerðina um útfærslu í 12 mílur, til þess að hæstv. utanrrh. gæfist nokkurt ráðrúm til að kynna málið á erlendum vettvangi og afla því stuðnings, sem líka tókst þannig, að útfærslan hefur verið viðurkennd í reynd af öðrum þjóðum en Bretum. Þetta vildu þeir Alþb.-menn koma í veg fyrir. Þeir vildu haga framkvæmd málsins þannig, að af því hlytist ófriður við sem flestar þjóðir.

Sami hv. þm, sagði digurbarkalega, að Alþb. hefði tekizt að koma í veg fyrir gengislækkun í tíð vinstri stjórnarinnar. Hefur hann alveg gleymt 55% yfirfærslugjaldinu, sem er hrein gengislækkun, þótt það sé kallað öðru nafni?

Þá brigzlaði þessi sami hv. þm, minnihlutastjórn Alþfl. um það, að hún framkvæmdi ekki stefnuskrá jafnaðarmanna. Mér er spurn: Er þessi hv. þm. að reyna að telja þjóðinni trú um, að hann sé svo mikill fáviti, að hann viti ekki, að Alþfl. hefur ekki þingfylgi til að framkvæma stefnu sína? Hins vegar get ég sagt þessum hv. þm. og allri þjóðinni það, að Alþfl. tók að sér þann vanda, þegar hann fékk til þess þingstuðning Sjálfstfl., að bjarga þjóðinni í bili, ég segi í bili, — frá þeim geigvænlega háska, sem hún var komin í, í efnahagsmálum, atvinnumálum og fjármálum í desember s.l., og enginn annar flokkur virtist hafa tök á. Þjóðin mun dæma um það í næstu kosningum, hvort hún metur meir, þær raunhæfu aðgerðir, sem komið hafa í veg fyrir efnahagslegt öngþveiti og hrun, ella þær rangfærslur og blekkingar, sem þessir hv. þingmenn fóru með. Ég býst við, að fleirum en mér hafi orðið að brosa, þegar hv. þm. Alfreð Gíslason klykkti út með því að segja af smekkvísi sinni, að þeir kommúnistar stæðu á traustum grundvelli þjóðlegra verðmæta.

Annars var það ætlun mín að ræða hér kjördæmamálið nokkuð og mun ég nú víkja að því. Undirstaða lýðræðisskipulagsins er réttur

fólksins í landinu til þess að ráða því, hvernig löggjafarsamkomu þjóðarinnar er skipað. Forsenda þess, að svo geti orðið, er, að kosningarréttur sé rúmur og kjósendur hafi jafnan eða sem jafnastan rétt til að hafa áhrif á, hverjum sé falinn sá trúnaður að ráða málum á löggjafarþingi, og þá um leið, hverjir fari með stjórn landsins. Alþfl. hafði frá upphafi á stefnuskrá sinni, að kosningarréttur skyldi miðast við lágt aldursmark og hann skyldi með engum hætti miðast við efnahag manna. Hann átti á sínum tíma hlut að því, að aldursmarkið var fært í 21 ár, og einnig að því að afmá þann blett með öllu, að snauðir menn og hjálparþurfi af þeim sökum hefðu ekki atkvæðisrétt. Þetta var þó ekki nóg. Agnúarnir voru fleiri, sem af þurfti að sníða, en þeir voru fyrst og fremst fólgnir í ranglátri kjördæmaskipun.

Það var 1934, sem sú mikla réttarbót var gerð í þessum efnum, að tekin voru upp 11 þingsæti til jöfnunar milli flokka. Það var einnig þá, sem kosningarrétturinn var færður niður í 21 ár og þingmönnum í Reykjavík var fjölgað úr 4 í 6 og Hafnarfjörður gerður að sérstöku kjördæmi. Enn var gerð nokkur bragarbót í kjördæmaskipuninni 1942, en þá var tekin upp hlutfallskosning í 6 tvímenningskjördæmum, Siglufjörður gerður að sérstöku kjördæmi og fjölgað þingmönnum í Reykjavík úr 6 í 8. Úrslitum um það mál réð samvinna Alþfl. og Sjálfstfl., eins og einnig nú hefur átt sér stað, gegn heiftarlegri andstöðu Framsfl.

Landinu er nú skipt í 28 kjördæmi, þar af 21 einmenningskjördæmi, 6 tvímenningskjördæmi með hlutfallskosningum og eitt 8 manna kjördæmi, Reykjavík.

Það fyrsta, sem við blasir, er spurningin um það, hvaða rök séu fyrir því, að kjördæmakjörnir þingmenn skuli kosnir með mismunandi hætti. Hvers vegna eru þeir ekki allir kosnir meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða allir með hlutfallskosningum, annaðhvort í einu lagi fyrir landið allt eða svo og svo margir í fáum, en stórum kjördæmum? Engin rök eru fyrir þessum mismunandi kosningaaðferðum. Í öðru lagi rekur maður sig á það, að fólksfjöldi innan kjördæmanna er svo mismunandi, að fáránlegt getur kallazt. Í fólksfæsta einmenningskjördæminu nú eru 447 kjósendur, en í því fólksflesta 7.961. Hlutfallið er nálega 1:18. Í fólksfæsta tvímenningskjördæminu eru nú 1.506 á kjörskrá, en í því fólksflesta 3.861. Í Reykjavík eru nú um 42 þús. manns á kjörskrá eða 5.260 á bak við hvern hinna 8 þingmanna. Eins og sjá má á þessum samanburði, er hér hinn ótrúlegasti munur á milli kjósendanna í landinu. Þessi munur hefur stöðugt færzt í aukana undanfarin ár vegna fólksfjölgunar á sumum stöðum í landinu og fólksfækkunar á öðrum. Við þetta misrétti milli kjósendanna bætist svo það, að af því leiðir óhjákvæmilega misrétti milli stjórnmálaflokkanna.

Með stjórnarskrárbreytingunni 1933, sem gekk í gildi 1934, var viðurkennd sú meginregla, að þingflokkarnir ættu að hafa þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðamagn við kosningar, og þessi meginregla var enn staðfest með stjórnarskrárbreytingunni 1942. Með núverandi skipulagi fer því þó fjarri, að þessi eðlilega og sjálfsagða meginregla fái að njóta sín í framkvæmd, og með fólksfjölgun á sumum stöðum og fækkun á öðrum raskast öll hlutföll meir og meir. Það gat því engum komið á óvart, að við þetta yrði ekki unað lengur. Kjósendur sætta sig ekki við það til lengdar, að þeim sé mismunað í atkvæðisrétti eins stórkostlega og nú er raunin á, og þeir flokkar, sem afskiptir verða í þingmannatölu vegna hins úrelta og rangláta skipulags, sætta sig ekki heldur við sinn skarða hlut til lengdar.

Á flokksþingi Alþfl. um mánaðamótin nóv. og des. s.l. var mál þetta tekið til ýtarlegrar meðferðar og samþykkt ályktun um það, að kjördæmaskipun í fáum, en stórum kjördæmum, með uppbótarþingsætum til jöfnunar milli þingflokka, væri líklegasta leiðin til þess að tryggja mest réttlæti í þessum málum. Flokkurinn lýsti sig þá reiðubúinn að taka höndum saman við aðra flokka um lausn málsins á þessum grundvelli. Sjálfstfl. lýsti því yfir um svipað leyti, að einnig hann alhylltist kjördæmaskipun með fáum, en stórum kjördæmum og hlutfallskosningum. Þegar minnihlutastjórn Alþfl. var mynduð fyrir næstliðin jól með stuðningi Sjálfstfl., sömdu þessir flokkar um það að beita sér fyrir því á yfirstandandi Alþingi, að kjördæmaskipuninni yrði breytt í þetta horf. Málið var síðan tekið upp á Alþingi, svo sem alþjóð er kunnugt. Það hefur verið rætt þar og í flokksblöðum, meira en nokkurt annað mál um þessar mundir og hefur fyrir fáum dögum verið samþykkt á Alþingi með stuðningi þriggja flokka, en í andstöðu við Framsfl.

Hið nýja skipulag gerir ráð fyrir 5 fimm manna kjördæmum, 2 sex manna kjördæmum og 1 tólf manna kjördæmi, Reykjavík, auk 11 uppbótarsæta til jöfnunar, samtals 60 þingmenn.

Með þessu skipulagi vinnst það, að mönnum, er stórum minna mismunað eftir því, hvar þeir búa á landinu. Nú verður ekki lengur um það að ræða, að víssir kjósendur hafi allt að 18faldan rétt á við aðra. Í öðru lagi fæst með þessu skipulagi miklu meiri jöfnuður milli flokka. Og í þriðja lagi, að eitt kosningakerfl gildir um allt land, hlutfallskosningakerfið.

Sjálfsagt er að viðurkenna, að fullkomið réttlæti verður seint tryggt. En með hinu nýja skipulagi má telja öruggt, að komizt verði miklu meir í námunda við réttlætið, en með því stórgallaða kerfi, sem nú er.

Því er hins vegar ekki að leyna, að við Alþýðuflokksmenn teljum, að betur hefði verið hægt að leysa þetta mál í sumum atriðum, en gert var. Við töldum, að í Reykjavík hefðu átt að vera 14 þingmenn í stað 12, í Reykjaneskjördæmi 6 þm. í stað 5, í Norðurlandskjördæmi eystra 7 þm. í stað 6. Þegar miðað er við kjósendafjölda í kjördæmunum, eru þessi kjördæmi, sem ég nefndi, afskipt eða verða afskipt í þingmannatölu, og kjósendur þar hafa því rýrari atkvæðisrétt, en í öðrum kjördæmum. Því má að vísu halda fram, að þetta sé réttlætanlegt með höfuðborgina Reykjavík, sem nýtur þeirra forréttinda, að löggjafarþingið situr þar og æðsta stjórn landsins auk flestra opinberra stofnana. Því má ef til vill einnig halda fram um Reykjaneskjördæmi, að það njóti þeirra hlunninda að vera í næsta umhverfi við höfuðborgina. En þá er á það að líta, að þó að 14 þingmenn væru í Reykjavík og 6 í Reykjaneskjördæmi væri það samt lægri þingmannatala — stórum lægri — en fólksfjöldi gæfi tilefni til. En hvað sem þessum höfuðborgarsjónarmiðum líður, geta þau engan veginn átt við Norðurlandskjördæmi eystra. Öll rök brestur fyrir því, að þeir, sem þar búa, eigi að sitja við skarðari hlut en aðrir, en það munu þeir óhjákvæmilega gera. Hér skiptir engu máli, þó að þar sé stór kaupstaður, Akureyri. Í öllum hinum kjördæmunum eru líka kaupstaðir, og kaupstaðafólk á vitanlega jafnan rétt og annað fólk. Einhverjum kynni að vaxa í augum að fjölga þingmönnum upp í 62–65 í stað 60. En ég held, að það sé alveg ástæðulaust.

Ef svo heldur fram sem nú horfir, verða Íslendingar orðnir 200 þús. eftir 10 ár og 300 þús. eftir 40 ár, og kosningakerfið mundi haldast því lengur óbreytt, sem það væri nær því, sem réttlátt væri og skynsamlegt.

Ég ætla, að meginþorri þm. Sjálfstfl, hafi einnig haft þessa skoðun um kjördæmi þau, sem ég áðan nefndi. Þeir vildu einnig hafa 7 þm. í stað 6 í Suðurlandskjördæmi, og á það gátum við Alþýðuflokksmenn fallizt. Um þessa hluti gat því orðið fullt samkomulag við Sjálfstfl.

En þá komum við að leiðinlegum og ófélegum kapítula, þar sem voru samningarnir við Alþb. um málið. Það kom sem sé í ljós, þegar til þeirra kasta kom, að þeir höfðu ekki meiri áhuga á réttlætismálinu en svo, að þeir kváðust mundu snúast gegn því með Framsfl., ef þingmannatalan færi fram úr 60, og ekki aðeins það, heldur heimtuðu þeir einnig, að þeim væri borgað fyrir að fylgja málinu. Og þar sem svo illa vildi til, að Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu ekki nægilegt þingfylgi til að koma málinu fram, varð ekki hjá því komizt að hlusta á þá Alþb.-mennina og prútta við þá um verðið.

Í fyrsta lagi vildu þeir, að stjórnin segði af sér, þegar fjárlög hefðu verið samþykkt, og mynduð yrði ný stjórn, sem þeir ættu aðild að ásamt Sjálfstfl. og Alþfl. Enginn áhugi var á þessu, hvorki hjá Alþfl. né Sjálfstfl. Þegar þeir fengu þessu ekki ráðið, settu þeir fram nokkur atriði, er þeir vildu setja sem skilyrði fyrir stuðningi við kjördæmamálið. Þessi atriði skiptu sáralitlu máli, og var um flest þeirra enginn ágreiningur, enda féllu þeir Alþb.-menn frá þeim skilyrðum, sem verulega þýðingu höfðu.

Hitt skipti miklu máli, að þeir voru ekki til viðtals um málið, nema á því yrðu gerðar þær skemmdir, sem ég hef áður lýst og m.a. fólu það í sér, að á bak við hvern þm. í Norðurlandskjördæmi eystra væri 1.881 kjósandi, þar sem á bak við hvern þm. í öðrum kjördæmum utan Reykjavíkur og Reykjaness eru frá 1.182 til 1.520 kjósendur. Ef þm. hefðu verið 7 í Norðurlandskjördæmi eystra, hefðu samt verið 1.612 kjósendur á bak við hvern þm. þar, eða talsvert fleiri, en í öðrum dreifbýliskjördæmum.

Í þessu er svipaða sögu að segja um Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Kommúnistar eða Alþýðubandalagsmenn, sem þeir nú vilja kalla sig, höfðu þá aðstöðu að geta skammtað naumt réttlætið til handa því fólki, sem hér á hlut að máli, með þeirri yfirskinsástæðu, að þingmannafjöldi mætti með engu móti vera meiri en 60, en heimtuðu þó jafnframt, að öllum 11 uppbótarþingsætum yrði úthlutað, enda þótt ekki væri þörf fyrir þau öll til jöfnunar.

Ástæðan til þess, að gengið var að þessum kostum, var einfaldlega sú, að þrátt fyrir það misrétti, sem Alþb.-menn heimtuðu að yrði viðhaldið, þótti sú réttarbót, sem með breytingunni fæst, svo mikilsverð, að ekki var áhorfsmál að sætta sig við þetta, heldur en að Alþb.-menn tækju höndum saman við framsóknarmenn og felldu frv.

Þeir framsóknarmenn hafa, sem kunnugt er, haldið uppi hatrammri andstöðu gegn kjördæmamálinu. Þeir hafa þó viðurkennt, að umbóta sé þörf á kjördæmaskipuninni. Á flokksþingi sínu í vetur kváðu þeir upp úr með það, að skipta bæri landinu í einmenningskjördæmi, nema Reykjavík, þar skyldi vera hlutfallskosning, uppbótarsætin skyldu afnumin. Drepið var á það, að til mála kæmi að fjölga þingmönnum í einhverjum kaupstöðum, og skyldi þar vera hlutfallskosning. Einmenningskjördæmaskipan skyldi vera aðalregla. Framsóknarmenn segja, að ekki eigi að taka tillit til flokkssjónarmiða, er kjördæmaskipun sé ákveðin. En nú er mér spurn: Ef þeir telja, að einmenningskjördæmaskipulag sé skynsamlegast og réttlátast, hvers vegna vilja þeir þá ekki hafa einmenningskjördæmi um land allt, hvers vegna vilja þeir ekki skipta Reykjavík í einmenningskjördæmi? Það skyldi þó ekki vera, að það væru flokkssjónarmið, sem ráða þeirri afstöðu?

Þá vilja þeir leggja niður uppbótarþingsætin, en í þeim till. felst það nánast, að Framsfl. og Sjálfstfl. fái tvo af hverjum þremur þingmönnum Alþfl. og Alþb., af því að 2/3 þingmanna þessara flokka eru uppbótarþingmenn. Þannig var það í sniðum, réttlætið þeirra framsóknarmanna og lýðræðisást á flokksþingi þeirra í vetur.

Hv. þm. Karl Kristjánsson sagði hér áðan, að lýðræðið stæði föstustum fótum í þeim löndum, þar sem einmenningskjördæmaskipun væri. Þetta er auðvitað rakalaust með öllu. Hvað segir hv. þm. um Norðurlöndin, Noreg, Svíþjóð og Danmörk, eða Holland, Belgíu og Sviss?

Er eitthvað bogið við lýðræðið í þessum löndum? Nei, þetta eru einhver mestu lýðræðislönd heims. Hið sanna er, að einmenningskjördæmi eiga vel við hjá stórþjóðum. Hins vegar á hlutfallskosningareglan betur við í fólksfærri löndum.

Á Alþingi höfðu framsóknarmenn uppi tillögu um að fresta afgreiðslu kjördæmamálsins og láta helzt endurskoðun þess og stjórnarskrárinnar í heild fara fram á sérstöku stjórnlagaþingi. Til þess að stjórnarskrárbreyting geti átt sér stað með þeim hætti, þarf a.m.k. þrennar kosningar og eina þjóðaratkvæðagreiðslu til viðbótar: tvennar alþingiskosningar til þess að breyta stjórnarskránni í það horf, að heimilt sé að breyta henni á sérstöku stjórnlagaþingi, þriðju kosningarnar til stjórnlagaþings og þær fjórðu, sem væru þá þjóðaratkvæði um stjórnarskrárbreytinguna. Kjósendurnir þyrftu sem sé að ganga fjórum sinnum að kjörborðinu, áður en stjórnarskrárbreyting yrði gerð með þessum hætti. Þetta er fyrirhafnarsöm leið, og með henni væri þetta þýðingarmesta löggjafarmál þjóðarinnar tekið úr höndum löggjafarþingsins. Þessi till. var því vægast sagt mjög óaðgengileg.

Varatill. var sú að fjölga kjördæmakjörnum þm. í þéttbýli, þannig að kjördæmakjörnir yrðu 50 þingmenn, og auk þess væru 10 uppbótarþingsæti, 60 þingmenn alls. Með þessu hafa framsóknarmenn gengið inn á, að uppbótarmenn skuli ekki lagðir niður, aðeins fækkað um einn, og réttmætt sé að fjölga þingmönnum í þéttbýli.

Ágreiningurinn, sem eftir var, var hlutfallskosningakerfið í fáum stórum kjördæmum. Af hálfu framsóknarmanna er því haldið fram, að verið sé að fremja grófasta ranglæti gagnvart strjálbýlinu með hinu nýja kosningakerfi. Hvert er þetta ranglæti? Það er þannig, að dreifbýlisfólkið fær allt að því þrefaldan atkvæðisrétt á við kjósendur í Reykjavík og réttur minni hlutans er stórum betur tryggður, en nú er. Það er vitanlega alveg út í hött og hrein firra, að þetta sé ranglæti gagnvart dreifbýlinu.

Þá tala og skrifa framsóknarmenn um málið stundum eins og afnema eigi sýslurnar. Slíkt er vitanlega hrein fjarstæða og hefur aldrei komið til mála í þessu sambandi. Ég veit ekki nema um einn stjórnmálaflokk, sem hefur sýnt einhvern áhuga á að afnema sýslurnar eða a.m.k. að rýra vald þeirra, og það er, þótt hlálegt sé, einmitt Framsfl. Það er ekki ýkja langt síðan ýmsir forustumenn framsóknarmanna á Austur- og Norðurlandi, og þar var í broddi fylkingar hv. þm. Karl Kristjánsson, börðust fyrir því með oddi og eggju, að landinu yrði skipt í fjórðunga eða fimmtunga, og skyldi þingum þessara fjórðunga eða fimmtunga fengið það vald, sem sýslunefndir hafa nú, og ef til vill meira. Kjördæmin áttu helzt að vera einmenningskjördæmi eða — ef ekki næðist um það samkomulag — þá fá stór kjördæmi. Það átti að „stofnsetja um landið stærri, sterkari og sjálfstæðari félagsheildir“, eins og það var orðað í Gerpi, tímariti Austfirðinga, og það átti að „losna við hið danskættaða stjórnarform, sem hefur drepið niður alla sjálfstæða byggðastjórn í landinu“, eins og segir orðrétt í sama riti. Það eru hv. framsóknarmenn, sem segja þetta, en ekki ég.

Nú þýtur öðruvísi í þeim skjá hjá þessum hv. framsóknarmönnum. Nú er þetta danskættaða stjórnarform, sem þeir svo nefndu fyrir nokkrum árum, orðið að helgri stofnun, sem hvergi má við hrófla. Nú eru þeir með sálsýkiskenndar upphrópanir í flokksblöðum sínum um það, að hin fyrirhugaða kjördæmabreyting feli í sér dauðadóm hins íslenzka lýðræðis, endalok íslenzkrar bændamenningar, samsæri gegn lýðræðinu og landsbyggðinni og guð má vita hvað fleira. Öllu meira öfugmæli er vart hægt að hugsa sér.

Moldviðrið, sem þeir þyrla upp, á að vera svo þétt, að það geti blindað kjósendur landsins og það geti komið í veg fyrir, að almenningur sjái, heyri eða skilji, hvað um er að ræða. Þeim verður áreiðanlega ekki kápan úr því klæði. Fólk lætur ekki blekkjast af slíkum upphrópunum.

Því er haldið fram af hálfu framsóknarmanna, að hin nýja kjördæmaskipun muni verða til þess að fjölga stjórnmálaflokkum í landinu úr hófi fram, og því er einnig haldið fram, að tilgangurinn með breytingunni sé að draga úr öllum opinberum framkvæmdum í dreifbýlinu í landinu. Þetta eru vitanlega staðlausir stafir. Hvoru tveggja þessu héldu þeir líka fram 1942, þegar kjördæmaskipuninni var þá breytt. Þeir spáðu því þá, að flokkunum mundi fjölga um helming og að breytingin yrði til niðurdreps fyrir dreifbýlið í landinu. Þetta reyndist vitanlega tómt slúður. Flokkunum hefur ekki fjölgað, og aldrei hafa verið meiri framfarir úti um land, en einmitt síðan. Einnig nú mun þetta reynast innantómt orðagjálfur. Þeir héldu því líka fram 1942 eins og nú, að verið væri að syngja útfararsálm þingræðisins í landinu með kjördæmabreytingunni. Þetta er vitanlega jafnfáránleg fullyrðing nú og reynslan hefur rækilega sýnt að hún var þá.

Það var athyglisvert, sem hv. þm. Str., Hermann Jónasson, sagði hér í gærkvöld, að þó að búið væri nú að samþykkja á Alþingi kjördæmabreytingu, væri alls óvíst um, hver endalokin yrðu. Ef Framsfl. fengi aukinn styrk í næstu kosningum, þó að hann fengi ekki meiri hluta, þá mundu væntanlega einhverjir þeir, sem nú hefðu léð málinu fylgi, endurskoða afstöðu sína. Við hvað átti hv. þingmaður? Hverjir eru þeir, sem hann býst við að endurskoði afstöðu sína eftir kosningar? Það liggur raunar í augum uppi. Það eru þeir hv. þm. Hannibal og Finnbogi Valdimarssynir og Alfreð Gíslason. Það er alkunna, að þeir gengu með hangandi hendi með kjördæmamálinu, og það er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér grein fyrir því, áður en gengið er til kosninga, hvers hún getur vænzt í kjördæmamálinu, ef Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn fá aukið brautargengi í kosningunum. Hv. þm. Str. hefur vafalaust vitað, hvað hann var að fara. En bráðum kemur röðin að kjósendum landsins, sem segja til um, hvort þeir vilja efla þessa flokka og stofna þar með réttlætis- og mannréttindamáli í hættu.

Að lokum vil ég segja þetta: Þó að auðvelt hefði verið að fá fullkomnara réttlæti í kjördæmamálinu, ef kommúnistar hefðu ekki staðið í vegi, er ég sannfærður um, að næst þegar stjórnarskránni kann að verða breytt, mun fást á þessu leiðrétting. En eitt er víst, að lausn kjördæmamálsins mun marka tímamót í stjórnmálasögunni. Hún táknar það, að Alþingi mun framvegis verða sannari mynd af þjóðarviljanum. Allir landsmenn eiga að vera jafnir fyrir lögum og rétti. Lausn kjördæmamálsins, eins og hún er ákveðin, er mikilvægt skref í þá átt, að svo geti orðið. — Góða nótt.