12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Mér heyrðist hv. 1. þm. Reykv. vera hér áðan að áfellast stjórn Hermanns Jónassonar fyrir að hafa haft samráð við verkalýðssamtökin í efnahagsmálum. Það átti að vera óvirðing við Alþingi og eitt stærsta stjórnmálahneyksli, sem hér hefur skeð, skildist manni.

Nú vil ég spyrja: Ætlar Bjarni Benediktsson og Sjálfstfl. að taka ákvarðanir í efnahagsmálum án nokkurs samráðs við verkalýðssamtökin? Ef þeir gerðu það, þá þori ég að fullyrða að það yrði tilgangslaust. Allar slíkar ráðstafanir mundu falla um sjálfar sig, svo sterk eru verkalýðssamtökin orðin a.m.k.

Það er sannarlega einstæð og furðuleg ríkisstj., sem við höfum haft á Íslandi síðan á Þorláksmessu. Til skýringar á fyrirbærinu koma mér helzt í hug orð Gamla testamentisins, þessi: „Röddin er Jakobs, en hendurnar Esaú.“ — Þessi orð voru, sem kunnugt er, sögð í sambandi við fúlmannleg svik. Frumburðarréttinum skyldi náð með svikum.

Víkjum aftur að hæstv. ríkisstj. Röddin er Emils og Alþfl., en hendurnar og handarverkin eru sannarlega íhaldsins. Loðin loppa íhaldsins var víssulega að verki, þegar lækkað var nýumsamið fiskverð sjómanna, þegar ráðizt var á kaup verkafólks og það lækkað um 13.4%, þegar ráðizt er á orlofslöggjöfina og reynt að eyðileggja hana undir fölsku yfirskini sparnaðar, þegar útvarpið undir tvívaldaðri yfirstjórn Alþfl. beitti alþýðusamtökin fáheyrðu ranglæti 1. maí s.l., þegar lækkuð voru framlög til verkamannabústaða og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, þegar fellt var niður framlag til lamaðra og fatlaðra, skorin eru niður framlög til verklegra framkvæmda og fjárveiting til atvinnu- og framleiðslubóta stórkostlega lækkuð, — og þannig mætti lengi telja. Þarna er alls staðar að verki loðin loppa íhaldsins.

Í öllu þessu þekkjum við hina loðnu hönd Esaú, þ.e.a.s. íhaldsins. En röddin er Jakobs, Alþfl. er látinn túlka þetta allt saman fyrir þjóðinni og sérstaklega fyrir alþýðu manna, og í því liggja ljótu svikin, eins og í biblíusögunni. Og þá er komið að frumburðarréttinum, þegar ráðizt er á helgasta rétt verkalýðsfélaganna, samningsréttinn. Ég held, að varla sé unnt að túlka sannar eða betur, hvílíkt alvörumál eða stórmál hér er á ferðum fyrir verkalýðshreyfinguna, en með orðum hv. 8. landsk. þm., Björns Jónssonar, formanns Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, sem hann hefur nýlega sagt. Þau eru á þessa leið:

„Þegar slíkt athæfi er í frammi haft af flokki, sem í öndverðu taldi það sína helgustu skyldu og stefnumál að berjast fyrir sjálfsákvörðunarrétti verkalýðshreyfingarinnar og frelsi hennar til ákvarðana um lífskjör alþýðunnar, þá hljóta menn að staldra við og spyrja: Hvert er þá orðið okkar starf, öll þessi baráttuár, ef það er nú orðið helzta bjargræðið að kippa sjálfum grundvellinum undan verkalýðshreyfingunni með því að afnema samningsréttinn, réttinn, sem brautryðjendurnir unnu stétt okkar með svo miklu erfiði og fórnum? Er þá ekki sjálfsagt, að næsta skrefið geti orðið það að leggja verkalýðsfélögin hreinlega niður með lögum, því að hvers virði eru þau, ef launakjörin eiga að ákveðast af löggjafarvaldinu, hvenær sem því kann að þóknast?“

Þessi orð Björns Jónssonar sýna okkur alvöru málsins. Verkalýðsfélög án samningsréttar eru ekki mikils virði né mikils megnug. En í þessu ráni frumburðarréttarins var flokkur alþýðunnar samt að verki, knúinn áfram af stjórnanda sínum, íhaldinu. Það er hin hörmulega staðreynd. Röddin var Jakobs, en hendurnar eru Esaú.

Mjög hefur verið reynt að fá launastéttirnar til að sætta sig við kaupránið með því að telja þeim trú um, að þær væru að taka þátt í almennri þjóðarfórn á örlagastundu og þess vegna bæri þeim að sætta sig við það möglunarlaust. En nú er mikil blekking á ferðum. Hvað hefur gerzt með kauplækkuninni? Þetta og þetta eitt, að verkamaðurinn, sem t.d. vinnur í Cóca-cóla-verksmiðju Björns Ólafssonar, skilur eftir 700–800 kr. af áður umsömdu kaupi sínu í kassa hans. Séu þeir 50, verkamennirnir, sem þetta gera, er fúlgan, sem eftir verður í kassa Björns um hver mánaðamót, 35–40 þús. kr. eða 420–480 þús. kr. á einu ári. En hverju er þá þjóðfélagið bættara við þessa tilfærslu tekna úr vasa verkamannsins í vasa Björns? því getur víst enginn svarað. Eða við skulum taka banka með 100 manna starfsliði. Laun hvers starfsmanns hafa a. m. k. lækkað um 900–1000 kr. á mánuði að meðaltali. Þarna hefur mánaðarlega verið fært úr vasa launafólksins yfir í kassa bankans 90–100 þús. kr. En á einu ári er þetta 1 millj. og 80 þús. kr. til 1 millj. og 200 þús. kr. Og þjóðfélagið, auðvitað er það engu bættara við þessa tilfærslu. Ekki hafa menn heyrt um vaxtalækkun. Hins vegar má búast við meiri útlánum eða aukinni fjárfestingu af hendi bankans, og það þýðir aukna verðbólgu.

Það er ekki hægt að hugsa sér meiri fjarstæðu, en að halda því fram, að 4.000 kr. mánaðarkaup verkamannsins sé undirrót verðbólgunnar á Íslandi og stofni þjóðfélagi okkar í hættu. Og nú hefur reynslan líka gefið sitt svar. Kaupið hefur verið lækkað, en verðbólguþróunin hefur aldrei verið örari. Þarna er greinilega ekkert samband á milli.

Grófari ósannindum hefur aldrei verið beitt, en þegar Alþýðublaðið og Alþýðuflokksmenn eru að dásama íhaldsstjórn Alþýðuflokksins, fyrir að hafa ráðið niðurlögum verðbólgu og dýrtíðar. Fjárlög eru afgreidd með raunverulegum halla. Útflutningssjóður verður með stórfelldum halla. Fjárútvegun vegna niðurgreiðslnanna er slegið á frest fram yfir tvennar kosningar. Allt eykur þetta hraða verðbólguhjólsins, en stöðvar það ekki. Svokölluð niðurfærsluleið Alþýðuflokksins er því ein hliðarkauplækkunarleið. Hún er því miður jafnframt verðbólguleið, og dýrtíðin vex hröðum skrefum. Enginn getur nefnt vörur, sem lækkað hafa í verði, nema niðurgreiddu vörurnar, og þá lækkun á fólkið sjálft eftir að borga að fullu. En menn vita hins vegar, að fasteignagjöld hafa verið hækkuð, að húsaleiga er á uppleið af þeim sökum, að benzín hefur hækkað, að rafmagn hefur hækkað, að tóbak og áfengi hefur hækkað í verði, að egg hafa verið hækkuð í verði stórlega og margar fleiri vörur.

Það er hvimleiður skolli, þegar skrá fer í baklás. En nú hefur verra óhapp skeð. Verkalýðsflokkur hefur hrokkið í baklás, og það er Alþfl., og þessi bilun hans kemur fram í því, að hann rekur nú í einu og öllu öfuga verkalýðsmálapólitík. Á sama tíma og margir tugir milljóna eru með þessari Alþýðuflokkspólitík teknir úr vösum verkafólks og annarra launþega og færðir yfir í fjárhirzlur atvinnurekenda, eru útgerðarmönnum auk þess réttar 80 millj. kr. og enn til viðbótar gefnir nokkrir milljónatugir í þurrafúalánum, án alls tillits til þess, hvort þeir eru örsnauðir eða með auðugustu mönnum þjóðarinnar, eins og sumir þeirra sannarlega eru. Það er þetta hróplega misrétti, þetta ranglæti, sem verkalýðurinn á verst með að þola.

Hæstv. fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, las í gærkvöld langan kafla úr grein minni, sem birtist í Vinnunni í nóvembermánuði í haust, og eitthvað var hæstv. dómsmrh. líka að vitna til hennar hér áðan. Guðmundur Í. Guðmundsson vildi, eins og hæstv. menntmrh. í vetur, láta líta svo út sem tillögur minar væru grundvöllur núverandi stjórnarstefnu. Eftir þeim hefði verið farið í einu og öllu, skildist manni. Þetta er vægast sagt hin grófasta fölsun. Ég ræddi í nefndri grein um verðbólguþróunina, sem væri leið til glötunar. Hana sagði ég að yrði að stöðva, og er það í samræmi við margyfirlýsta stefnu verkalýðssamtakanna. En ekkert hefur verið gert til þess að stöðva verðbólguþróunina. Ég sagði, að byrðunum yrði nú að deila á allra bök. Það er nú eitthvað annað, en svo hafi verið gert, eins og þegar hefur verið sýnt fram á. Ég sagði, að framleiðslan ætti og gæti tekið á sig nokkurn hluta byrðarinnar. Það hefur ekki verið gert, heldur voru margir milljónatugir færðir úr vösum launþega til atvinnurekenda og myndarlegir gjafapinklar lagðir þar ofan á. Ég taldi samdrátt nauðsynlegan í ríkisrekstrinum. Framkvæmdin varð þriðjungshækkun á útgjöldum fjárlaga. Ég taldi álagningarlækkun vera sjálfsagða. Hún hefur orðið heldur lítilvæg samanborið við kauplækkunina. Ég taldi, að sveitarfélög og einstaklingar ættu að draga dálítið úr fjárfestingu. Ekki veit ég til, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess. Og að lokum taldi ég, að ef bændur lækkuðu framleiðsluvörur sínar í verði án niðurgreiðslna, þá bæri verkamönnum að svara því með niðurfellingu nokkurra vísitölustiga af kaupi sínu. Allt þetta er ég reiðubúinn til að standa við enn í dag.

Ég lauk grein minni í Vinnunni með þessum orðum: „Takmarkið með öllu þessu á að vera það, að kaupgjald og verðlag nemi staðar, þar sem það nú er,“ þ.e. 185 vísutölustig, „svo að atvinnulífið geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar eftir þessa aðgerð og þjóðartekjurnar geti haldið áfram að vaxa, eins og þær gerðu á þessu ári,“ þ.e. 1958. „Og það er raunar það eina, sem tryggt getur varanlegar kjarabætur.“

Eins og á þessum seinustu orðum sést, lagði ég aldrei til, að 10 vísitölustig væru auk þessa alls skorin niður bótalaust og þannig farið með vísitöluna niður í 175 stig, eins og Alþfl.- stjórnin hefur nú gert. Þar með er fölsunin á mínum till. fullkomnuð. Þessir herrar geta því hvorki sannað á mig skoðanaskipti með tilvitnunum í þessa grein né heldur haldið því fram, að eftir mínum till. hafi verið farið.

Við þetta vil ég svo einungis bæta því, að Alþýðusambandsþing bauð að styðja stöðvunaraðgerðir í efnahagsmálum miðað við 185 vísitölustig. En á það var ekki hlustað, heldur rokið í stjórnarslit, án þess að reyndar væru nokkrar samkomulagsleiðir um till. stjórnarflokkanna.

Það eitt er víst, að ástæðan til stjórnarslitanna var ekki neitun Alþýðusambandsþings á frestun 17 vísitölustiga um einn mánuð, ekki heldur smávægilegur vandi efnahagsmálanna, sem leysa þurfti. Ástæðan var sú, að framsóknarmenn gerðu sér nú fyrst ljóst, að Hræðslubandalagið var dautt, að Alþfl, var genginn úr framsóknarvistinni og búinn að gera varanlegan hjúskaparsáttmála við íhaldið. Þetta var ástæðan til stjórnarslitanna. Að þessu uppgötvuðu, var það mat framsóknarmanna, að nú væri gott að standa upp af stjórnarstólunum. Rekstur atvinnuveganna stæði með miklum blóma, atvinnuleysi ekki til, fólksflóttinn til Suðvesturlandsins stöðvaður, mikið dregið úr hernámsvinnu, gjaldeyristekjur vegna aukinnar útflutningsframleiðslu 200 millj. kr. hærri, en árið áður, fjárhagur ríkissjóðs með miklum blóma o.s.frv., og svo væri gott að knýja Sjálfstfl. til þess fyrir kosningar að sýna úrræði sín í efnahagsmálunum.

Það er sannfæring mín, að þetta var ástæðan til stjórnarslitanna í haust. Hvernig Alþfl. og Framsfl. vilja svo deila með sér sökinni að bregðast þannig málstað vinstri sinnaðra manna í landinu, er algerlega þeirra mál. En aldrei verður það af þeim skafið, að þeir og engir aðrir eru sekir fyrir stjórnarslitin. Gegn þessum flokkum ber vinstri sinnuðu fólki að snúa reiðl sinni og hegna þeim út af stjórnarrofinu. Hitt er rétt, að síðan, þegar Sjálfstfl. hafði gefizt upp á stjórnarmyndun, reyndist Framsókn fús til að taka upp þráðinn á ný. En þá var Alþfl. fyrir löngu orðinn drepinn í þann íhaldsdróma, sem honum var langt um megn að slíta.

Langstærsta málið, sem vinstri stjórninni auðnaðist að leysa, var landhelgismálið. Lausn þess máls er og verður tímamótaviðburður í þjóðarsögunni. Mun aldrei verða um það deilt, að það var Alþb., sem forustuna hafði um lausn málsins, né heldur um hitt, að Lúðvík Jósefsson átti allra Íslendinga mestan þátt í að knýja málið fram. Þess er skylt að geta, að á Framsfl. var aldrei neinn bilbugur í landhelgismálinu, hvorki út á við né inn á við. Hið sama verður því miður ekki sagt um hina flokkana, Alþfl. og Sjálfstfl.

Eins og kunnugt er, lá við sjálft, að stjórnarsamstarfið rofnaði út af lausn landhelgismálsins s.l. vor. Hvað þá gerðist raunverulega, hefur þjóðin aldrei fengið að vita. En það var þetta: Sjálfstfl. og Alþfl. bundu það þá órofa samningum sín á milli að koma í veg fyrir gildistöku 12 mílna fiskveiðilandhelginnar. Það, sem því olli, var einkum tillitið til vina beggja í Atlantshafsbandalaginu. En á yfirborðinu skyldi látið heita, að deilt hefði verið og málið sprungið á ágreiningi um grunnlínupunkta og veiðirétt íslenzkra togara innan línunnar. En þegar Alþb. lýsti því yfir, að það gengi að öllum skilyrðum Alþfl. í málinu, að því einu tilskildu, að fiskveiðilandhelgin yrði ákveðin 12 sjómílur frá grunnlínum, þá guggnaði Alþfl. á seinustu stundu á því að sprengja ríkisstj. Hann fann, að það var óframbærilegt, þjóðin mundi dæma þann stjórnmálaflokk til dauða, sem yrði ber að svikum í landhelgismálinu. Íhaldið víssi að kvöldi ekki annað en málið væri klappað og klárt, stjórnin væri fallin og órofa samstarf Alþfl. og Sjálfstfl. væri þegar hafið. En þegar þetta brást, urðu sjálfstæðismenn ofsareiðir við og brugðu Guðmundi Í. Guðmundssyni um svik, — hann hefði látið Lúðvik Jósefsson kúga sig, sögðu þeir. Síðan hélt Sjálfstfl. áfram að hafa kápuna á báðum öxlum í málinu, eins og þjóðin veit, þar til hann rétt fyrir 1. sept. í haust sneri við blaðinu af hræðslu við einróma og óbugandi þjóðarvilja.

Það var þegar þessir atburðir gerðust bak við tjöldin, sem Hræðslubandalagið dó drottni sínum, þó að framsóknarmenn gerðu sér það ekki ljóst ,fyrr en á haustnóttum.

Á sama hátt hefur það nú tekið margar vikur að fá Sjálfstfl. og Alþfl. til að sameinast um ályktun á Alþ. um landhelgismálið. En nú fóru kosningar í hönd, og nú hefur Alþ. loks einróma lýst yfir skýrum þjóðarvilja um 12 mílna fiskveiðilandhelgi og friðun alls landgrunnsins sem takmark. Þetta er mikill sigur í landhelgismálinu. En þó tel ég öruggast að leggja ekki örlög þessa máls í hendur þeirra manna, sem alltaf eru að tala um að skjóta málinu til andstæðinga Íslands í Atlantshafsbandalaginu og ítreka jafnframt alltaf yfirlýsingar sínar um órofa vináttu sína við Breta. Ég finn mig aldrei öruggan fyrir því, að slíkt gæti ekki leitt til einhvers konar Færeyingasamninga, t.d. eftir seinni kosningar. Það er því bezt, að þjóðin haldi vöku sinni í landhelgismálinu, þar til fullur sigur er unninn.

Hér hefur margt verið rætt um kjördæmamálið. Um það skal ég vera fáorður, en þetta vil ég þó taka fram : Framkoma framsóknarmanna í málinu hefur verið fádæma klaufaleg og ekki að fullu drengileg. Í tvö og hálft ár átti hún þess kost að fá málið leyst með Alþb. og Alþfl. Um það var samið í stjórnarsáttmálanum hjá vinstri stjórninni, að málið skyldi leyst á starfstíma stjórnarinnar. En þetta var svikið, aðeins kallaður saman einn fundur til málamynda fjórum dögum áður en forsrh. kaus að beiðast lausnar. Einasta afsökun Framsóknar kann að vera sú, að hún hafi ekki vitað, að Alþfl. hafði gengið af Hræðslubandalaginu dauðu þá þegar í júnímánuði um vorið. En svo leið allur veturinn. Engar till. í réttlætisátt komu frá Framsókn, þar til flokksþingið birti sína alkunnu ályktun um málið. Og hvílíkt réttlæti, sem þá birtist! Einmenningskjördæmi og engin uppbótarsæti til jöfnunar. Það þýddi að mestu útþurrkun allra annarra flokka, en íhaldsins og Framsóknar. Alþb. hefði samkv. þessu fengið 2 þm. þrátt fyrir 16 þús. kjósendur. Þá var ekki lengur eftir neinu að bíða. Þá var teningunum kastað, og þá fyrst komu till. Framsóknar: Jafnmikil fjölgun þm. í þéttbýlinu, Reykjavík með 12, þingmannatalan alls 60, en ófrávíkjanlegt skilyrði að kjósa í sem smæstum heildum, og það er nú það einasta, sem á milli ber. Þess vegna hittir Framsókn sjálfa sig fyrir og þarf um það við engan að sakast nema sjálfa sig, — ranglætinu var með engu móti unað lengur, og vissulega fær Framsfl. fullkomið jafnrétti við aðra flokka eftir hinni nýju skipan. Hefur hún þannig undan engu að kvarta, en með hinni nýju kjördæmaskipun á að fást meiri jöfnuður milli flokka, en áður var.

Það eru einkum íhaldsmenn, sem halda því fram, að Alþb. hafi brugðizt umbjóðendum sínum í herstöðvamálinu. Þetta er fjarri öllum sanni. Hið rétta er, að bæði Alþfl. og Framsfl. sviku samþykkt sína frá 28. marz. Þar með var vonlaust um að koma málinu fram í samstarfi við þá. En hví þá ekki að fara úr stjórninni í mótmælaskyni? segir einhver. Með því var engu og engum þjónað nema íhaldinu. Og svo var það sammæli allra forráðamanna Alþb., að frá landhelgismálinu mætti undir engum kringumstæðum hlaupa. Það var málið, sem enginn vildi fórna fyrir nokkuð annað, ef nokkur kostur yrði að koma því í höfn.

Góðir hlustendur. Alþb. mótmælir hinni öfugu verkalýðsmálapólitík Alþfl. Alþb. dregur Sjálfstfl. fyrst og fremst til ábyrgðar fyrir þeirri pólitík, sem nú er rekin. Það eru hans úrræði, og það er hans stefna, sem birtist í þessari pólitík. Alþb. telur, að allar launastéttir landsins hafi orðið fyrir óréttmætri árás undir því falska yfirskini, að verið væri að stöðva verðbólgu og dýrtíð og þess vegna yrðu allir að taka á sig fórnir. Alþb. neitar því, að 4.000 kr. mánaðarkaup verkamanna sé undirrót verðbólgunnar og því hafi verið nauðsynlegt að ráðast á launakjör þeirra. Alþb. minnir menn á, að Sjálfstfl. boðar áframhaldandi aðgerðir í efnahagsmálum, þetta sé aðeins fyrsta skrefið. Gengislækkunin er hans úrræði, en það er haft uppi í erminni þangað til eftir kosningar. Alþb. telur aukna framleiðslu vera einu varanlegu úrlausnina í efnahagsmálum. Ég heiti því á allan landslýð að fylkja sér fast um framleiðslustefnu Alþb. — Góða nótt.