30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er eins ástatt um þetta mál og oft áður um stórmál, sem hafa komið fyrir þessa hv. d. til meðferðar, að það hefur þegar verið rætt ýtarlega í hv. Nd., og auk þess hafa farið fram um það útvarpsumræður í áheyrn alþjóðar, að vísu kappræður milli flokka, eins og gengur og gerist um slíkar umr., — en þó má vænta þess, að allar þær umr., sem þegar hafa farið fram um málið, hafi skýrt það svo í meginatriðum, að ekki sé ástæða til þess að hafa um það langar umræður í þessari hv. deild.

Öll þau ár, sem ég hef átt sæti í þessari hv. d., hefur það verið venja þdm. hér nálega án undantekningar, að þegar svo hefur staðið á eins og um þetta mál nú, þá hafa menn ekki kosið að eyða um of tíma hv. d. í umr., sem ekki geta verið annað, en að verulegu leyti endurtekningar á því, sem búið er að segja um málið annars staðar.

Auk þess má svo segja, að örlög þessa máls séu ráðin þegar, áður en kom til þessarar hv. d., framgangur þess sé nú tryggður með þeirri afstöðu, sem hv. þm. Framsfl. í Nd. tóku til þess við lokaatkvgr. þar.

Að vísu stendur ekki nákvæmlega eins á um skipun þessarar hv. d. eins og Nd. Það er, eins og kunnugt er svo, að hér í þessari hv. d. hafa hv. stjórnarflokkar, sem betur fer, ekki meiri hl. Þrátt fyrir það tel ég víst, að hv. framsóknarmenn hér muni eins og flokksbræður þeirra í Nd. ekki vilja, að þetta mál, eins og það liggur fyrir, falli. Þeir líta hýru auga til þeirrar kauplækkunar, sem í þessu frv. felst og það mun ráða mestu um afstöðu þeirra. Þeir kunna að vera óánægðir með það í einstökum atriðum, eins og fram hefur komið og þeir segja berum orðum, að þeir vilji enga ábyrgð bera á neinum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, eins og þau hafa nú verið lögð og skýrð fyrir Alþingi. En um leið segja þeir og færa rök að því, að með þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. sé stefnt út í stórfelldan hallarekstur á ríkissjóði og útflutningssjóði á þessu ári og þar með stefnt að stórfelldum nýjum álögum á þjóðina, þótt síðar verði, e. t. v. ekki fyrr en eftir kosningar og þar með stóraukinni aukningu verðbólgunnar í landinu.

Ég verð að segja, að einhvern tíma hefði t. d. hv. 1. þm. S-M. (EystJ) ekki viljað láta bendla Framsfl. við svo ábyrgðarlausa afstöðu, að Alþingi skildi svo við aðalráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum, að það þætti víst, að stefnt væri út í hallarekstur og ekki gerðar neinar ráðstafanir til þess að afla tekna, áður en Alþingi hyrfi frá þeim málum. Þeir vænta þess, hv. framsóknarmenn, að þeir geti sloppið við alla ábyrgð á því að hleypa í gegnum Alþingi öllum þeim ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., sem nú liggja fyrir og ráðgerðar eru, um leið og þeir lýsa þeim sterkum orðum sem einhverju mesta ábyrgðarleysi, sem nokkur ríkisstj. hafi leyft sér á undanförnum árum.

Það getur verið, að hv. Framsfl. verði að þeim vonum sínum, að kjósendur í landinu geri hann ekki ábyrgan fyrir þessari afstöðu. En ég hika ekki við með tilliti til þess, að hér í hv. d. eru andstæðingar hæstv. ríkisstj. í meiri hl., sem væri hægt að nota til þess að stöðva svo ábyrgðarlausa afgreiðslu mála, — ég hika ekki við að gera Framsfl. meðábyrgan flokkum hæstv. ríkisstj. um þetta.

En eins og nú er komið, þá er vafalaust ekki um annað að gera en reyna að gera hér á lokastigi þessa máls í þessari hv. d. tilraun til þess að fá fram einhverjar lagfæringar á því frv., sem hér liggur fyrir, gera það á einhvern hátt skaplegra fyrir launþegana í landinu, heldur en það nú er. Við þm. Alþb. hér í hv. d. höfum þess vegna flutt nokkrar brtt. við frv. á þskj. 215, en þegar hefur verið gerð grein fyrir þeim af hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ). Auk þess flytjum við nú á þskj. 217 brtt. við frv., sem mundi, ef samþykkt yrði, að mínu viti hafa verulega þýðingu til þess að sætta launþegana í landinu við þá miklu kaupskerðingu, sem ákveðin er í frv. Þessi brtt. er þess efnis í aðalatriðum að auka fjölskyldubætur fyrst og fremst til þeirra, sem lægstar tekjur hafa og allt upp í það, sem nú má kalla góðar meðaltekjur manna. Með þessari brtt. er ekki hróflað við þeim grundvelli, sem nú gildir í l. um almannatryggingar, þó að um hann kunni að mega deila. Fjölskyldubætur eru nú greiddar með þriðja barni, og eru þær 600 kr. í grunn á fyrsta verðlagssvæði og 450 kr. á öðru verðlagssvæði, en með fjórða barni og þaðan af fleirum 1.200 kr. í grunn á fyrsta verðlagssvæði.

Fyrir allmörgum árum var að vísu tekið í lög hér á hv. Alþingi að greiða bætur með öðru barni í fjölskyldu, en það var afnumið aftur, eftir að það hafði staðið tiltölulega skamma hríð, fyrir forgöngu stjórnar Sjálfstfl. og Framsfl.

Í till. er gert ráð fyrir, að þessar fjölskyldubætur, sem samkv. frv. eiga nú að greiðast með vísitölunni 185, verði hækkaðar um 100% til hinna lægst launuðu. Þetta mundi þýða, að bæturnar, sem nú eru um 1.100 kr, með fyrsta barni, sem greitt er fyrir nú, eftir vísitölunni 185, hækkuðu um helming, upp í 2.200 kr. 1.100 kr. uppbót til fjölskyldu með þrjú börn er ekki stórvægileg og ekki til fulls á móti þeirri beinu kaupskerðingu, sem leiðir af þessu frv. En kjaraskerðingin, sem leiðir af þessu frv. og raunar með þeim niðurgreiðslum, sem eiga sér stað og ráðgerðar eru, er þungbærust fyrir stærri fjölskyldurnar, barnfleiri fjölskyldur og þar yrðu fjölskyldubæturnar samkvæmt okkar brtt. verulegri, ef um lágtekjumenn er að ræða. En við gerum hins vegar ráð fyrir, að mjög verði dregið úr upphæð bótanna með stighækkandi tekjum. Við gerum ráð fyrir, að hækkunin um 100% nái aðeins til þeirra, sem hafa 40 þús. kr. skattskyldar tekjur eða lægri. 40 þús. kr. skattskyldar tekjur nú mundu fyrir fjölskyldu með þrjú börn svara til 70 þús. kr. nettótekna. Þetta mundi ná yfir allan lægsta launaflokkinn, verkamenn, jafnvel þó að þeir ynnu, eins og nú er orðið algengt og vafalaust verður ekki minna eftir samþykkt þeirra ráðstafana, sem nú eru hér til meðferðar, meira en venjulegan vinnutíma. Við gerum sem sagt ráð fyrir, að fullaukning fjölskyldubóta nái ekki nema til þeirra, sem hafa tekjur eins og verkamenn nú yfirleitt hafa eða rétt ríflega það, síðan lækki bæturnar eða aukning bótanna verulega, svo að til þeirra, sem hafa yfir 60 þús. kr. skattskyldar tekjur, verði ekki aukning á fjölskyldubótum frá því, sem nú er. Það kann nú að mega finna að þessu, að þarna verði þrep, svo að benda mætti á, að einstaklingar, sem hefðu aðeins lítið eitt yfir 60 þús. kr. skattskyldar tekjur, fengju enga aukningu fjölskyldubóta. Þetta er vandi, sem alltaf kemur fyrir, ef menn vilja miða við stighækkandi tekjur og draga úr, eftir því sem tekjur hækka; þá verður alltaf eitthvert lítils háttar þrep. Ef einhverjir hv. þm. teldu þetta höfuðókost á till. eða annað í formi hennar, þá erum við flm. reiðubúnir til að ræða slíkar breyt, ef það væri þá meiri von um, að till. næði fram að ganga.

Þá er í till. gert ráð fyrir, að á þessa aukningu bótanna verði ekki lagður tekjuskattur né útsvar. Þetta er gert vegna þess, að þetta eru að okkar áliti þær naumustu uppbætur, sem hægt væri að hugsa sér, á móti þeirri beinu kaupskerðingu, sem gert er ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur.

Inn í till. er auk þess sett, að sú fjárhæð, sem þessar bætur kynnu að nema, skuli greiðast af tekjuafgangi Áfengisverzlunar ríkisins. Það hefur verið til áður, að tekjuafgangi einkasala ríkisins, tóbaks og áfengis, hafi verið ráðstafað sérstaklega og mörg dæmi þess, að sérstökum tekjum ríkissjóðs hafi með sérstökum lögum verið ráðstafað til ákveðinna hluta og ekki gömul þau dæmi sum. En flm. þótti rétt að láta það fylgja með í till., hvaðan fjár til þessa skyldi aflað og við mundum ekki telja það neina goðgá, þó að verð á áfengi yrði hækkað vegna samþykktar þessarar till. og þannig aflað tekna sérstaklega til þess að bæta launþegunum þá skerðingu kaups og kjara, sem felst í þessum ráðstöfunum.

Ef, eins og ég sagði áðan, einhverjir hv. þdm. teldu einhverja formgalla á þessari till. og vilja ræða þá, þá er það auðsótt mál við okkur flm.

Ég vil ekki trúa því að óreyndu, að ekki finnist í þessari hv. d. meiri hl. fyrir þessari till.

Ég man ekki betur, en að á flokksþingi Alþfl., sem haldið var um mánaðamótin nóv.–des., hafi verið gerð samþykkt, sem birt hafi verið í Alþýðublaðinu, þar sem það var sett fram sem till. flokksins, að launþegum yrði einmitt bætt upp sérstaklega með auknum fjölskyldubótum eða með lækkun skatta, t. d. með lækkun sjúkrasamlagsgjalda, kjaraskerðing, sem þeir kynnu að verða fyrir með væntanlegum ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem flokkurinn stæði að. Ég vil því ganga út frá því sem gefnu, að hv. þm. Alþfl., sem sæti eiga í þessari hv. d., muni geta fallizt á þessa till.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá finnst mér ekki sérstök ástæða til þess að halda langar ræður um þetta mál, eins og það liggur nú fyrir, eftir allar þær umr., sem um það hafa farið fram. En ég heyrði hér áðan hæstv. forsrh., þegar hann var að ræða um þá ríkisstj., sem hann veitir forstöðu, færa það fram henni til afbötunar, að hún væri aðeins minnihlutastjórn og bráðabirgðastjórn og til orðin aðeins vegna þess, að á annan hátt hefði ekki verið hægt að mynda þingræðisstjórn. Mér þykir leitt að verða að segja, að ég get ekki fallizt á, að hæstv. forsrh. fari hér með rétt mál og ég hefði ekki búizt við því, að hæstv. forsrh. kæmi fram opinberlega með slíka fullyrðingu.

Ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. minnist þess ekki, að í umr. um myndun stjórnar kom það skýrt fram af hálfu bæði Framsfl. og Alþb., báðir þeir flokkar treystu núverandi hæstv. forsrh. til þess að mynda stjórn, sem þessir flokkar stæðu að ásamt hans flokki, Alþfl. og það hefði verið fullkomlega þingræðisstjórn, sem hefði haft fullan meiri hl. þings að baki sér. En hæstv. forsrh. færðist undan því að taka þetta að sér. Og síðar kom það fram, að Alþfl. neitaði með öllu að eiga nokkurn þátt í stjórn, sem mynduð yrði af sömu flokkum og stóðu að fyrrv. ríkisstj. Frá þessu hefur verið skýrt af hálfu Framsfl. Og ég veit, að hv. þm. Str. mun ekki vefengja þetta. Alþfl. tilkynnti Framsfl., að hann vildi ekki eiga nokkurn þátt í myndun stjórnar með Framsfl. og Alþb., vegna þess að þeir flokkar vildu ekki falla frá þeirri kröfu sinni, að slík stjórn væri mynduð á þeim grundvelli, að hún sæti út kjörtímabilið. Það var það, sem á strandaði. Það gat Alþfl. ekki hugsað sér. Hann gat ekki hugsað sér neitt nema bráðabirgðastjórn, sína eigin aumu bráðabirgðastjórn. En hæstv. forsrh. er nú að færa það fram til afbötunar sinni stjórn, að hún sé aðeins minnihlutastjórn og bráðabirgðastjórn. Það er eftir hans eigin vali, hæstv. forsrh., að stjórn hans er minnihlutastjórn og bráðabirgðastjórn.

En hvað líður þeim ágreiningi um efnahagsmál, sem var í fyrrv. ríkisstj., þá vil ég segja það, að allt, sem um það hefur verið sagt og kann að verða sagt, að ágreiningur milli Alþb. annars vegar og Framsfl. og Alþfl. hins vegar hafi verið svo mikill í þeim málum, að hann mætti ekki brúa, það er rangt. Það var gengið úr skugga um það, meðan stjórnarkreppan stóð yfir, að það væri hægt með góðum vilja að brúa það bil, sem vitanlega var milli skoðana þessara flokka um lausnir í efnahagsmálunum. En það er ekkert nýtt, að það sé allbreitt bil milli skoðana flokka í stórum málum, þó að þeir standi saman að einni og sömu sambræðslustjórn.

Alþb. var alltaf reiðubúið til þess að horfast í augu við vanda efnahagsmálanna og til þess að taka fullkomlega ábyrgan þátt í lausn þeirra í ríkisstj., sem það stæði að. En það var hins vegar aldrei fáanlegt til þess að standa að því að fara þá leið eina í efnahagsmálunum að lækka öll laun í landinu og gera svo ekkert annað. Að leysa eða láta sér detta í hug, að hægt sé að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar eingöngu á kostnað launþeganna, það var og er Alþb. ófáanlegt til að gera. Það viðurkennir, að launahækkanir með eftirfarandi verðlagshækkunum og hækkunum skatta og áframhaldandi verðbólgu eru ekki hagsmunamál launþeganna. En ef og að því leyti sem kann að verða að fara þá leið að skerða á einhvern hátt kaup launþega, þá hefur Alþb. sagt: þá eru ráð til þess að bæta launþegum það með öðrum hætti, t. d. með hækkun tryggingarbóta, eins og við þm. Alþb. leggjum hér til og Alþfl. lagði til í flokkssamþykkt á sínu flokksþingi fyrir skömmu, eða lækkun nefskatta, eins og Alþfl. lagði einnig til. Það væri t. d. fullkomlega hægt og ekki langsótt, að ríkisstj., sem segist vilja lækka, ekki aðeins laun, heldur allt verðlag, að gera ráðstafanir til þess, að skattar yrðu einnig lækkaðir. Mér er ekki kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hafi enn gert neinar ráðstafanir til þess. Þvert á móti er það margupplýst, að skattar eru einmitt nú að stórhækka ýmsir.

Ég tel, að það væri hægt að gera ráðstafanir til þess að tryggja það a. m. k., að ekki hækkaði þungbærasti beini skatturinn, sem landsmenn greiða, en það eru útsvör til bæjarfélaga. Sumum kann að virðast það koma úr hörðustu átt frá mér, því að ég hef farið með stjórn og borið ábyrgð kannske meira en aðrir á stjórn míns bæjarfélags um meira en áratug. En ég fullyrði, að það er hægt að lækka útsvör flestra bæjarfélaga í landinu frá því, sem þau voru á s. l. ári. Ég get fullyrt, að Kópavogskaupstaður hefur komizt af með lægri útsvarsstiga og lægri útsvör á s. l. ári, en nokkur hinna kaupstaðanna og getur þó lifað. Hann hefur þó miklu meiri þörf en nokkur hinna bæjanna fyrir fjárfestingu, framkvæmdir fyrir íbúana, vegna þess að hann tekur við á ári hverju og hefur gert í mörg ár hlutfallslega miklu fleiri nýjum þegnum, en nokkurt annað bæjarfélag.

Ég vil fullyrða, að það væri hægt að lækka útsvörin í Reykjavíkurbæ frá því, sem þau voru 1958, stórlega, þó að ekki hefði komið til sú launalækkun, sem ákveðin er með þessu frv. Það er engin þörf fyrir Reykjavíkurbæ að hafa hærri útsvarsstiga, en Kópavogur, en Kópavogskaupstaður lækkaði sinn útsvarsstiga stórlega með stórauknum fjölskyldufrádrætti á síðasta ári. En nú á ég eftir að sjá, og það eiga skattgreiðendur í Reykjavík líka eftir að sjá, hvað Reykjavíkurbær verður nú stórtækur í því að lækka sín útsvör á árinu 1959, eftir að þessi löggjöf hefur náð fram að ganga.

Þetta frv. er, eins og hefur verið bent á í umræðum um það, aðeins einn þáttur í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum og fjármálum sem núv. hæstv. ríkisstj. hyggst gera, en hinir þættirnir eru sumir fram komnir, en sumir ókunnir.

Fyrsti þátturinn var vitanlega hinar stórauknu niðurgreiðslur á vísitöluvörum, aðallega landbúnaðarvörum, sem voru ákveðnar rétt um áramótin. Til þeirra ráðstafana þurfti enga löggjöf og vildi ég um það aðeins segja, að það væri út af fyrir sig í mínum augum íhugunarefni, að um allar hinar stórfelldu niðurgreiðslur gildir það, að til þess að auka þær stórkostlega — um milljónatugi — þarf ekki löggjöf né heldur um það, hvernig þeim er hagað á nokkurn hátt í framkvæmd.

Annar þátturinn í aðgerðum ríkisstj. var svo hin stórfellda hækkun bóta til framleiðenda útflutningsafurða, sem einnig var ákveðin upp úr áramótunum. Þar var einnig um milljónatugi að ræða og ég verð að segja verulega miklu meira, en brýn nauðsyn krafði, ef hæstv. ríkisstj. hefur þá, þegar hún ákvað að auka svo bæturnar til útflutningsframleiðenda, verið ráðin í því að fara þá leið í efnahagsmálunum, sem felst í þessu frv. Það er alveg víst, að sérfræðingar í þeim málum hafa ekki talið, að hagur útflutningsframleiðslunnar væri svo bágborinn nú fyrir áramótin, að ef kaupgjaldsliðurinn væri svo stórlega lækkaður eins og gert var ráð fyrir í þessu frv., þyrfti að auka stórlega bæturnar til útflutningsframleiðslunnar. Hæstv. forsrh. hefur svarað því einu til um þetta í umr., svo að ég hafi heyrt, að þeir, sem beri einhverjar brigður á það, að þessar stórauknu bætur til útflutningsframleiðslunnar hafi verið nauðsynlegar, séu að segja þar með, að hann hafi ekki verið maður til þess að standa í þeim samningum og meta það, hvað útgerðinni og fiskvinnslunni væri bráðnauðsynlegt.

Ég held, að þetta dugi ekki neitt sem rök hjá hæstv. ráðh. Ég treysti honum sem manni vel til margra góðra hluta, m. a. að standa í slíkum samningum, en ég veit það, og ég held, að hann viti það líka af sínu fyrra starfi, að afkoma frystihúsanna og togaranna á þessu ári var ekki svo bágborin, að þar þyrfti stórlega viðbótar við.

Það var allt öðru máli að gegna eftir síðustu áramót, 1957–58, þó að þá þyrfti nokkra viðbót, vegna aflabrestsins á árinu 1957. En það var nú ekki stórvægileg viðbót, sem útflutningsframleiðslan fékk með samningum um þau áramót, — það var ekki stórkostlegt, — en allir vita, að afkoma framleiðslunnar á árinu 1958 var stórum betri en 1957.

Þriðju þátturinn í aðgerðum og ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. í þessum málum er svo þetta frv. um niðurfærslu verðlags og launa, eins og það er orðað í fyrirsögn þess. Í frv. er gert ráð fyrir, að ráðstafanir verði gerðar til þess að lækka verðlag. Ákvæðin sjálf í frv. eru að mínum dómi heldur losaraleg, en ég veit ekki, hvort það er rétt að liggja hæstv. ríkisstj. svo mjög á hálsi fyrir það sérstaklega. Ég veit, hvað það er erfitt að gera ráð fyrir því, að hægt sé að færa niður verðlag, svo að nokkru verulegu nemi. Það er miklu auðveldara að standa á móti verðlagshækkunum með traustu verðlagseftirliti, en hitt vita allir, að það er afar erfitt að fá fram verulega lækkun á vöruverði með opinberum ráðstöfunum.

Þetta er einn ókosturinn og jafnvel aðalókosturinn við þá leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið, svonefnda niðurfærsluleið og á þetta hefur verið bent af fjölda sérfræðinga, sem fyrirfarandi ríkisstjórnir hafa kallað til sér til ráðuneytis um efnahagsmál. Það er óhætt að fullyrða, að enginn sérfræðingur, enginn hagfræðingur, sem ríkisstj. hér á landi hafa kallað sér til ráðuneytis síðasta áratuginn, hefur mælt með þessari leið í efnahagsmálum, niðurfærsluleiðinni. Þess vegna m. a. hefur hún ekki verið farin nema að nokkru leyti á árunum 1947–49, og þá mistókst hún í öllum aðalatriðum. Ég er hræddur um, þó að reynslan ein geti skorið úr því, að svo fari enn. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. forsrh. í þessum efnum, en ég get ekki gert mér mikla von um það, að verðlagið í landinu lækki stórlega með kauplækkuninni, sem ákveðin verður með þessu frv.

Fjórði þátturinn í ráðstöfunum ríkisstj. í efnahagsmálum, ef þær eru hugsaðar fyrir allt fjárhagsárið 1959, hlýtur svo að vera afgreiðsla fjárlaga fyrir það ár. Það hefur verið venja öll undanfarin ár af ríkisstj. að reyna að afgreiða þessi mál öll á sama tíma, efnahagsmál og fjármál, en því miður hefur ekki verið tekin upp sú regla að gera áætlun, sem birt er fyrir þjóðinni um þjóðarbúskapinn og ríkisbúskapinn í heild sinni fyrir árið. Ég get ekki ráðizt á hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún hefur ekki komið þessu í verk nú, en það verður öllum ljóst, eins og þessi mál eru orðin flókin og margþætt, að þetta er brýn nauðsyn.

Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir hátíðlega hvað eftir annað, að hún vilji í efnahagsmálum gera þær ráðstafanir einar, sem ekki kalli á nýjar álögur á þjóðina og ég kann að meta þetta. Ég kann að meta þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh. Það er vitað mál, að allar nýjar álögur á þjóðina nú mundu fara út í verðlagið í landinu og gera að engu allar ráðstafanir, sem annars yrðu gerðar til lækkunar því. En ef svo færi, að nýjar álögur reyndust óhjákvæmilegar, — og það er auðheyrt á ræðum hæstv. forsrh., að hann gerir enn ráð fyrir þeirri leið, þá yrði afleiðingin af því, sem ríkisstj. hefur þegar gert, stórauknum útflutningsbótum og niðurgreiðslum, að öll stefna ríkisstj. væri í molum, þá kæmi ekki fram nein lækkun á verðlaginu í landinu, aðeins kauplækkunin, sem ákveðin er með þessu frv., og ný verðbólgualda skylli yfir þjóðina. Þetta veit ég að hæstv. forsrh. mun viðurkenna.

Þess vegna er það, að ég skil ekki í svo greindum og gegnum manni eins og hæstv. forsrh. er, að hann skuli ekki þegar, þegar hann myndaði sína ríkisstj., hafa samið um það við aðalstuðningsflokk ríkisstj., Sjálfstfl., hvernig yrði í meginatriðum gengið frá fjárl. ársins 1959. Hæstv. forsrh. segir, að til þess hafi ekki verið neinn tími. Ég trúi því ekki og tek það ekki gilt, að ekki hafi verið tími til þess að semja milli þessara flokka um afgreiðslu fjárl. í höfuðatriðum, í meginatriðum um það t. d., hve margir milljónatugir skyldu skornir niður á útgjöldum fjárl. Þó að ekki væri að fullu frá því gengið, hvar það kæmi niður í einstökum atriðum, þá trúi ég því ekki, að það hafi ekki verið tími til þess að semja um slíkt höfuðatriði,

Ég veit, að ef síðasta ríkisstj. hefði setið áfram, þá hefði auðvitað orðið að semja um þetta og væri búið að semja um þetta, því að þetta voru meginatriði, kjarni vandamálsins, eins og það lá fyrir. Og ég verð að segja, að það að láta óumsamið um þetta við stuðningsflokk sinn, Sjálfstfl., það verð ég að kalla ábyrgðarleysi hjá hæstv. forsrh. og hreint ráðleysi að koma svo fram fyrir Alþ. og geta ekki sagt annað en þetta: Um þetta eru engir samningar. Um þetta veit enginn neitt, hvort það tekst að skera útgjöld á fjárl, niður um nokkra milljónatugi og láta þannig endana ná saman. — En hæstv. forsrh. sagði hér áðan í síðustu ræðu, sem hann hélt hér í hv. d., að það væri enn algerlega óséð, hvort tækist fyrir hans ríkisstj. að láta endana ná saman í þessum efnum og ef það tækist ekki að láta endana ná saman, þá væri tvennt til: enn þá meiri niðurfærsla launa eða nýjar álögur á þjóðina. Og enn veit hann ekkert, þegar hann stendur hér frammi fyrir þessari hv. d., enn veit hann ekkert um þetta, hvort sé fram undan, enn þá meiri niðurfærsla kaups, en gert er ráð fyrir í þessu frv. eða nýjar álögur á þjóðina.

Ég vék hér áðan nokkuð að þeim umleitunum um stjórnarmyndun, sem fóru fram, meðan yfir stóð stjórnarkreppa fyrir jólin. Ég vil láta það koma fram, um leið og ég tala hér um þessi mál, að af hálfu Alþb. var því höfuðatriði slegið föstu í þeim umræðum, við hvern flokk sem rætt var, að hver sú ríkisstj. sem mynduð yrði, af hverjum sem hún væri mynduð, þá væri það okkar álit, að hún ætti að setja stöðvun verðbólgunnar á stefnuskrá sína sem fyrsta mál og einmitt þess vegna væri nauðsynlegt, að hver sú ríkisstj., sem mynduð yrði, væri mynduð á þeim grundvelli, að hún sæti til ársins 1960, þegar reglulegar alþingiskosningar eiga að fara fram, af því að að okkar áliti væri hver sú ríkisstj., sem segði: Við ætlum að stöðva verðbólguna í landinu á þessu ári, — en segði því næst: Næsta atriðið á stefnuskrá okkar er að efna til einna eða jafnvel tvennra kosninga á næstu mánuðum, — hver sú ríkisstj., sem þetta gerði, væri að blekkja þjóðina, því að þetta tvennt gæti ekki farið saman. Það var með þessum rökum, sem Alþb. neitaði að eiga þátt í bráðabirgðaríkisstj. til nokkurra mánaða með hverjum sem væri. Ef það er rétt, að vandi efnahagsmálanna, eins og þau liggja nú fyrir, sé mikill, þá verður hver, sem það segir, að játa, að þá á fyrst að snúa sér að því að leysa þann vanda, en ekki jafnharðan að efna til kosningabaráttu, sem stendur vafalaust hálft árið og verður, eins og kosningabarátta gerist í þessu landi, barátta allra gegn öllum, um öll möguleg þjóðmál, um allt annað, en vanda efnahagsmálanna.

Margir munu segja, að vandi efnahagsmálanna, eins og hann horfir nú við, sé svo mikill, að það sé mesta nauðsyn íslenzku þjóðarinnar að stöðva verðbólguna og það verði að gerast nú, ef það á að gerast. Ég held, að hæstv. forsrh. sé einn af þeim, sem segja þetta: Það þarf að gerast á þessu ári, þetta verður úrslitaárið um það, hvort þetta tekst. Og það er þetta, segir hann, sem hans ríkisstj. er að gera, það sé úrslitatilraunin um það, hvort það tekst eða ekki. Og ef það tekst ekki, þá er þjóðinni stefnt út í ægilegri verðbólgu, en nokkurn tíma. En hver sá, sem segir þetta, hann hlýtur að segja: Þess vegna, einmitt þess vegna má ekki eyða helmingi þessa úrslitaárs í kosningabaráttu allra gegn öllum.

Það er ekkert áhlaupaverk að stöðva verðbólguna á Íslandi, eins og hún er orðin. Það verður ekki gert á nokkrum mánuðum. Það verður ekki unnið með einni löggjafarráðstöfun á Alþingi í eitt skipti fyrir öll, ekki með neinum pennastrikum. Hver sá, sem segir það, hann fer með blekkingar og ósannindi. Það verk verður ekki unnið nema með staðfastri stefnu stjórnarvalda í landinu um langan tíma og samstilltu átaki margra afla í þjóðfélaginu.

Þessa staðreynd veit ég að hæstv. forsrh. og allir hugsandi stjórnmálaforingjar í þessu landi verða að viðurkenna. Og stöðvun verðbólgunnar verður ekki framkvæmd með neinum ráðstöfunum, sem launþegarnir í landinu geta ekki sætt sig við. Þetta er líka staðreynd, sem ég veit að allir vitrustu stjórnmálaforingjar í þessu landi hafa fyrir löngu viðurkennt. Ég veit það um hv. formann Sjálfstfl., ég veit það um hv. formann Framsfl., og ég trúi því líka, að hæstv. forsrh., formaður Alþfl., líti eins á.

Þess vegna er það í ljósi þessara staðreynda, að ég álít, að hæstv. forsrh. hafi unnið óþarft verk með því að taka að sér að mynda sína veiku bráðabirgðastjórn til þess að stofna til kosningaástands í landinu hálft það ár, sem hann veit að verður úrslitaár um það, hvort þessi mesta nauðsyn íslenzku þjóðarinnar, að verðbólgan verði stöðvuð, verði leyst eða ekki.

Ég andmæli ekki þeim mönnum, sem halda því fast fram, að það sé aðkallandi mál, nauðsynjamál, að leiðrétta kjördæmaskipun landsins. Ég er alveg sömu skoðunar og þeir um það. En ég álít, að það sé ekki eins bráðaðkallandi og að gera viðhlítandi traustar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna í landinu. Og ég get vel beðið til 1960 eftir því að fá leiðrétt það ranglæti, sem ríkir í kjördæmaskipun landsins og er það þó hvergi augljósara, en um það kjördæmi, sem ég hef verið í framboði í.

Ég sagði áðan, að ég tryði ekki á, að það væri til nein ein lausn á öllum vanda í efnahagsmálunum hjá okkar þjóð. Ég hef ekki heldur trúað á, að það væri til nein endanleg og varanleg lausn. Ég held, að það vandamál vinnist ekki nema glíma við það langan tíma. Ég hef sannfærzt um það af umr. um þetta mál við stjórnmálamenn og hagfræðinga, að í sjálfu sér sé ekki til á því nein sérfræðileg lausn. Ég hef aldrei í umr., hvorki hér á Alþingi né fyrir kosningar frammi fyrir kjósendum, lýst því yfir, að ég sé og verði alltaf t. d. á móti gengislækkun. En ég er orðinn sannfærður um eftir allar þær umr., sem orðið hafa hér um gengislækkanir, framkvæmdar og fyrirhugaðar, að allar gengislækkanir, beinar og óbeinar, verða unnar fyrir gýg, eru engin lausn á okkar vanda, hvað sem hagfræðingar kunna að segja um það.

Ástæðan er sú, — þó að ég viðurkenni margt, sem ágætir hagfræðingar hafa haft um þessi mál að segja, fyrr og síðar, — ástæðan til þessa er sú, að okkar þjóðfélagskerfi og efnahagskerfi er með allt öðrum hætti, en í flestum öðrum löndum. Kerfi verðlagsmyndunar og kauplagsmyndunar er með allt öðrum hætti en í flestum öðrum löndum og flestir þeir ágætu hagfræðingar, sem til hafa verið kallaðir, hafa ekki gert sér nógu ljósa grein fyrir því, hvernig okkar efnahagskerfi er að þessu leyti gerólíkt og ósambærilegt og í hinum stóru löndum, þar sem þeir hafa lært sín fræði.

En alveg eins og ég er sannfærður um það, að gengislækkanir, beinar og óbeinar, duga ekki sem nein patentlausn á okkar efnahagsmálum, hvað sem hagfræðingar segja, þá er ég jafnsannfærður um það, að þessi leið, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur valið, niðurfærsluleiðin, er ekki heldur einhlít og leiðir okkur ekki heldur út úr vandanum, jafnvel þó að það stæðu að framkvæmd hennar — sem er höfuðatriði — miklu sterkari öfl og traustari í þessum málum en standa að hæstv. núverandi ríkisstj.

Það er auðvelt að segja, þegar rætt er um vandann og nauðsynina miklu í þessum málum, eins og Sjálfstfl. leyfir sér að segja: Það er bara að sleppa út úr svikamyllu hafta og styrkja, þá er öllu borgi, og það skulum við gera einhvern tíma seinna, þegar við komum í okkar ríki. — En hvers vegna ekki að segja það núna fyrir kosningarnar og t. d. hér í hv. d.? Hv. Sjálfstfl. á góðum og gegnum og greindum þm. á að skipa hér í hv. d. Hví ekki að segja það hérna í stuttu máli og skýru, hvernig á að sleppa út úr svikamyllu styrkja og hafta í þessu landi, hvernig, bara í meginatriðum? Nei, um það kemur ekki neitt orð.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. forsrh. láti í umr. um þetta mál ekki við það sitja að segja, eins og hann hefur sagt: Við vitum ekkert um það, hvernig verður endanlega gengið frá efnahags- og fjármálum þjóðarinnar á þessu yfirstandandi Alþingi. — Ég vil vona, að hann fari að geta sagt eitthvað um aðalatriði málsins.

Ég hef þegar talað nokkru lengur, en ég ætlaði í upphafi að gera. Ég hef lýst skoðunum mínum aðeins á meginatriðum þessara vandamála og nú síðast lýst eftir nánari skýringum á stefnu hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokka. Ég lýsi enn eftir stefnu hv. Sjálfstfl. í efnahagsmálunum.

En ég vil að síðustu ítreka það, sem ég sagði um þá till., sem ég flyt ásamt öðrum þm. Alþb. að, að henni samþykktri mundi ég telja það frv., sem hér liggur fyrir og ég get ekki fylgt, stórum aðgengilegra fyrir launþega landsins. Og ég geri mér enn fyllstu von um það, að hæstv. ríkisstj. geti fallizt á þessa till. Hún kostar ekkert stórfé. Það er erfitt að reikna út nákvæmlega, hvað mikið fé hún kostaði, en það er óhætt að segja, að hún kostar ekkert stórfé. Þrátt fyrir samþykkt hennar væri hægt að ná endunum saman með góðum vilja og ég mundi telja það vera viturlegt af hæstv. ríkisstj. að láta launþegana fá, um leið og þetta frv. er samþykkt, þá litlu uppbót á kaupskerðingunni, sem felst í okkar brtt.