09.02.1959
Efri deild: 66. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

95. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1959

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Undanfarin allmörg ár hefur Alþingi ekki hafið störf sín á þeim tíma, sem fyrir er mælt í lögum, þ. e. a. s. 15. febr., heldur hefur samkomudeginum verið frestað til haustsins og þá þangað til í kringum 10. okt. venjulega. Þingstörfum hefur þá venjulega ekki verið hægt að ljúka fyrir reglulegan samkomudag og þá hefur í mörgum tilfellum eða flestum eða öllum, að ég ætla, verið frestað til næsta hausts að láta Alþingi koma saman. Þetta er augsýnilega einnig tilfellið nú. Það liggur ljóst fyrir nú, að Alþingi muni ekki hafa lokið sínum nauðsynlegustu störfum, svo sem afgreiðslu fjárlaga, fyrir 15. febr. og verður því að veita frest til þess að láta það koma saman síðar.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að reglulegt Alþingi 1959 skuli koma saman í síðasta lagi 12. okt. n. k., hafi forseti Íslands ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu. 12. okt. er valinn í þetta skipti í staðinn fyrir 10. okt. oft áður, vegna þess að 10. okt. ber upp á laugardag og því talið heppilegra að miða við 12. í stað 10.

Um þetta er ekkert sérstakt annað að segja. Þetta er nákvæmlega sami hátturinn og áður hefur verið hafður á og leyfi ég mér að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt. Frv. hefur verið afgr. í Nd. og var þar afgr. nefndarlaust, svo að ég geri ekki tillögu um neina nefnd í þessari hv. deild heldur.