05.03.1959
Neðri deild: 86. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

123. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í núgildandi lögum um kosningar til Alþingis er svo ákveðið, að gildistími kjörskráa fyrir alþingiskosningar sé frá 15. júní til jafnlengdar næsta ár og réttur manna til að vera á kjörskránni m. a. miðaður við búsetu í febrúarmánuði það ár. Þessi tilhögun var talin eðlileg, á meðan manntöl voru tekin af prestunum eða síðar af mönnum, sem bæjarstjórnirnar settu til þess um hver áramót og meðan ekki var um að ræða neina samræmingu manntalsskráningar á milli sveitarfélaga. En þetta hefur breytzt mjög, eftir að þjóðskráin kom til sögunnar.

Nú er samin íbúðaskrá, sem er miðuð við 1. des., og skattskrár, iðgjaldaskrár Tryggingastofnunar ríkisins, sóknargjaldaskrár og fjöldamargar aðrar eru miðaðar við þennan tíma. Það er þess vegna talið eðlilegt, að einnig kjörskrárnar til Alþingis verði við þessa dagsetningu miðaðar og þá er líka hægt að færa fram gildistímann um hálfan annan mánuð, eins og gert er ráð fyrir í frv., frá 15. júní, sem nú gildir, til 1. maí, þannig að gildistími kjörskrárinnar verði, eins og lagt er til í þessu frv., frá 1. maí til 30. apríl næsta ár á eftir, í stað þess, eins og nú er, að vera frá 15. júní til jafnlengdar næsta ár á eftir.

Þá er einnig lagt til í þessum brtt., að fellt sé niður það ákvæði, sem nú er í 14. gr. kosningalaganna, að samin skuli sérstök kjörskrá fyrir hverja kjördeild, heldur aðeins ein fyrir kjördæmið í heild, sem svo sé notuð í heild, þótt aðeins sé um hluta kjördæmisins að ræða. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að spara vinnu, bæði hagstofunni og öðrum, því að samning kjörskrárinnar á þennan hátt, miðað við 1. des., þegar íbúaskráin er samin, er talin vera miklu auðveldari. en ef haldið yrði áfram að miða við febrúarmánuð og rekja þá allar þær breyt., sem orðið hafa frá þeirri íbúaskrá, sem gerð var 1. des., og til febrúarmánaðar. Í öðru lagi verður það að teljast ávinningur, að gildistími kjörskrárinnar sé færður fram, eins og frv. gerir ráð fyrir, um hálfan annan mánuð, ef kosningar falla á þann tíma, því að ef kosningar falla nú á tímabilið fyrir 15. júní, þá verður að notast við kjörskrá, sem byggð er á manntali, sem er nálega hálfs annars árs gamalt og tilflutningar á því tímabili sjálfsagt miklir.

Frv. er í aðalatriðum samið af hagstofustjóra, og þetta eru aðalbreytingarnar eða nánast þær einu, sem í því felast. Það kom til greina líka við samningu frv., hvort ekki væri ástæða til að fella úr gildi það ákvæði, sem nú er í kosningalögunum um, að kjörskrár til Alþingis skuli samdar, hvort sem um kosningar á því ári er að ræða eða ekki, en að athuguðu máli var horfið frá að fella þetta ákvæði úr gildi og er það því óbreytt frá því, sem verið hefur.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, það er ofur einfalt og leyfi mér að leggja til, að að umr. lokinni verði málinu vísað til hv. allshn.