17.04.1959
Neðri deild: 110. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

115. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það skal vera örstutt. Það er svo sem ekki neitt nýtt um hv. 1. þm. S-M. (EystJ), þó að hann sé fljótur að snúa við snældu sinni og það með stuttu millibili, eins og hann gerir nú. Í fyrri ræðu sinni var hann búinn að tala um það hvað ofan í annað, að ég hefði verið hlutdrægur í mínu starfi eftir því, hver færi með völd og hlutdrægur í aths., og það miðaðist við það, hverjir væru við völd. Nú tekur hann þetta í raun og veru allt aftur og segir, að hann hafi átt við þær ræður, sem ég hafi haldið hér á Alþingi og þær séraths., sem ég geri við þennan reikning. Ekki geta þær miðast við það, hver er við völd, því að það er bara hann einn, sem þar er um að ræða og það hefði þá verið nær að segja, að þær væru ósanngjarnar í hans garð, ef hann vildi viðhafa þau orð.

Þessa aths. vildi ég aðeins gera, en annars hef ég mjög litla tilhneigingu til að halda áfram þrætum við hv. þm, út af þessum reikningi nú. Maðurinn er farinn frá starfi sem fjmrh., sem betur fer og ég vona, að hann komi aldrei í það starf framar.