20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög 1959

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst til þess að gera grein fyrir smávægilegri brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 409, að ég hef kvatt mér hljóðs. Það er brtt. við 14. gr. fjárlaga, um það, að tekinn verði upp nýr liður: til byggingar barnaskóla í Bolungavík, 150 þús. kr. Til þess er ætlazt, að þessi fjárveiting verði notuð til stækkunar barnaskólans í Bolungavík, en það er óhjákvæmileg framkvæmd. Gamli skólinn á staðnum er orðinn gersamlega ófullnægjandi. Ég leyfði mér á síðasta hv. Alþ. að flytja brtt. um það, að nokkur ný fjárveiting yrði upp tekin til stækkunar þessa skóla, en hún náði þá ekki fram að ganga. Ég hafði þá gert mér von um, að það tækist að fá hana tekna upp nú. Því miður hefur fjvn. ekki séð sér fært að verða við þeirri beiðni og þess vegna hef ég fundið mig til knúinn til þess að flytja þessa till. Ég skal ekki rökstyðja hana frekar, aðeins láta í ljós þá von, að milli umræðna gefist tækifæri til þess að ræða þetta mál nánar við hv. n. og leiða þau rök að nauðsyn þessarar fjárveitingar, að hún fáist tekin upp.

Ég vil svo aðeins fara örfáum orðum um nokkrar verklegar framkvæmdir. Fyrst vildi ég láta í ljós ánægju mína með það, að fjvn. hefur nú lagt til, að hækkað verði allverulega framlag til svokallaðs Vestfjarðavegar, þ. e. þess vegar, sem gert er ráð fyrir að liggi af Barðaströnd yfir í Arnarfjörð og tengi þann hluta Vestfjarða, sem enn er án sambands við akvegakerfi landsins, við akvegakerfið. Á síðustu fjárlögum, fyrir árið 1958, voru veittar 400 þús. kr. á 13. gr., fé til nýbyggingar þjóðvega, til þessa vegar. Enn fremur var varið, að ég hygg, 300 þús. kr. af svokölluðu benzínfé til þessarar vegagerðar, þannig að samtals var til þessarar þjóðvegagerðar varið 700 þús. kr. Nú er lagt til, að varið verði 700 þús. kr. af benzínfé til þessarar vegagerðar, þannig að samtals mun verða varið til hennar 1.1 millj. kr.

Ég hef áður hér á hv. Alþ. rætt um nauðsyn þess að hraða akvegasambandi við Vestfirði, þar sem enn þá búa 5–6 þús. manns, sem eru án akvegasambands. Við hv. þm. Ísaf. fluttum fyrr á þessu þingi till. um þetta og leiddum þá gild rök að því, að ósæmilegt væri að mismuna landsmönnum þannig, að heilir landshlutar væru í áratugi látnir vera akvegasambandslausir, eftir að meginhluti byggðra bóla í landinu nyti slíkra samgangna. Mér virðist nú rofa nokkuð fyrir umbótum í þessum efnum og að aukinn skilningur sé fyrir hendi á nauðsyn þess, að lokið verði við vegagerð, sem tengi þetta fólk á Vestfjörðum við meginakvegakerfi landsins og er vissulega ástæða til þess að fagna því. Hitt verð ég að segja, að ég hefði einnig talið réttlátt, að fjvn. hefði lagt til, nú þegar hún hefur tekið að sér úthlutun hins svokallaða benzínskatts, að verulegt fé væri lagt í annan meginveginn, sem á að tengja Vestfirði við akvegakerfi landsins, eða þann hluta þeirra, sem enn þá er akvegasambandslaus, þ. e. a. s. veginn meðfram Ísafjarðardjúpi sunnanverðu. En það hefur hv. n. ekki séð sér fært. Ég hefði talið, eins og ég sagði, réttlátt og eðlilegt, að einnig sá vegur hefði fengið verulega upphæð af benzínfé.

Ég geri varla ráð fyrir því, að það þýði að flytja brtt. um aukna fjárveitingu af benzínfé til þessa vegar. En ég verð eindregið að láta þá skoðun í ljós, að þegar á næsta ári beri að snúa sér að því að setja aukinn kraft á þessa vegagerð. Vegurinn meðfram sunnanverðu Ísafjarðardjúpi liggur til Ísafjarðarkaupstaðar og þéttbýlisins utar með djúpinu, þriggja þorpa þar og hann á fyllilega rétt á því, að honum verði á næstunni sýnd aukin rækt. Auk þess má á það benda, að þó að akvegasamband skapist af Barðaströnd yfir í Arnarfjörð, þá nægir sá vegur engan veginn til þess að skapa varanlegt akvegasamband við byggðina á norðanverðum Vestfjörðum, þar sem á leiðinni frá Ísafjarðardjúpi vestur yfir heiðar eru svo háar heiðar, að þær lokast þegar í fyrstu snjóum, vanalega í lok september eða í byrjun októbermánaðar. Hins vegar mundi vegurinn inn með sunnanverðu Ísafjarðardjúpi verða fær miklu lengur, er oft fær fram undir jól og enn fremur mundi vegurinn yfir Þorskafjarðarheiði verða miklu lengur fær, en Breiðadalsheiðarvegurinn, sem — eins og ég sagði — lokast oftast nær í fyrstu snjóum í lok september eða í byrjun október.

Einnig þetta er atriði, sem ber að taka til greina, þegar rætt er um það, hvernig tryggt verði frambúðarakvegasamband milli Vestfjarða og annarra landshluta. En í stuttu máli sagt, ég fagna því, að barátta okkar hér fyrr á þessu þingi, þm. Vestfjarða og þá fyrst og fremst okkar þm. Ísaf., hefur borið þann árangur, að nú kemst verulegur skriður á vegarlagninguna af Barðaströnd yfir í Arnarfjörð og þaðan áfram yfir að norðanverðu Ísafjarðardjúpi og um Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Þá vildi ég aðeins benda á það, að enda þótt tillögur hv. fjvn., þ. e. a. s. hv. 1. minni hl. fjvn. og hæstv. ríkisstj., feli í sér nokkra hækkun á framlögum til hafna, þ. e. a. s, hækkun um 1.3 millj. kr. rúmlega, þá er sú hækkun gersamlega ófullnægjandi til þess, að hægt verði að vinna að hafnarframkvæmdum í samræmi við þá miklu þörf, sem þar er fyrir hendi og ég nefni þá miklu þörf, sem sérstaklega er fyrir hendi í hafnarmálunum, vegna þess, að fjöldi hafna stendur hálfgerður og kemur engan veginn að þeim notum, sem að er stefnt, fyrir þau byggðarlög, meðan ástand hafnanna er eins og það er. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að nú á þessu ári verði gerð alvara úr því, sem rætt hefur verið um mjög undanfarið, bæði af hálfu hæstv. núv. ríkisstj. og af hálfu margra þeirra manna, sem í fjvn. starfa, og fjölda einstakra þm., að tekið verði erlent lán, sem notað verði til þess að fullgera ýmsar þær hafnir, sem verst eru á vegi staddar og fráleitast er að láta vera hálfgerðar öllu lengur. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á það, að hluti þess erlenda láns, sem væntanlega verður tekið á næstunni, verði notaður til þess að fullgera eða hrinda mjög verulega áleiðis ýmsum þeim hafnargerðum, sem dýrast er að láta standa hálfgerðar. Þetta mál kemur að sjálfsögðu síðar til umr. hér á hv. Alþingi, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni leita heimildar hjá Alþingi til þess að taka umrætt lán.

Loks vildi ég minnast lítillega á þær till., sem fyrir liggja um atvinnuaukningarfé. Gert er ráð fyrir því samkvæmt till. 1. minni hl. hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj., að atvinnuaukningarféð svokallað verði á þessu ári 10 millj. kr. Í fjárlfrv. mun hafa verið gert ráð fyrir, að það yrði sama upphæð og var í fyrra, þ. e. a. s. 13.5 millj. kr.

Það er oft hnotabítazt út í þetta svokallaða atvinnuaukningarfé. Margir telja það gersamlega óþarfa fjárveitingu. Það er jafnvel talað um margs konar pólitíska spillingu í sambandi við þessa fjárveitingu. Ég vil segja það sem mína skoðun, að þessar fjárveitingar hafa á undanförnum árum, þó að þær hafi verið misjafnlega háar, verið mjög nauðsynlegar og gagnlegar og hafa orðið að stórkostlegu gagni í mörgum þeim byggðarlögum, þar sem haldið er uppi þróttmikilli framleiðslustarfsemi í þágu útflutningsframleiðslunnar. Hitt er svo annað mál, að úthlutun þessa fjár mætti vel hafa verið í fastara formi, þannig að tryggilegar væri frá því gengið, að fullkomið réttlæti ríkti við úthlutun þess. Við sjálfstæðismenn höfum ár eftir ár flutt frumvörp og tillögur um það að koma úthlutun atvinnuaukningarfjárins eða atvinnujöfnunarfjárins, eins og við höfum viljað kalla það, í fastara form, setja um það löggjöf og fastar reglur, hvernig því skuli úthlutað, þannig að sem bezt og varanlegast gagn megi að því verða. Ég álít, að það sé mjög til bóta, sem hv. 1l minni hl. fjvn. leggur nú til, að kosin verði sérstök fimm manna nefnd af Alþingi til þess að annast úthlutun þessa fjár, og það er von mín, að með því sé tryggð nokkurn veginn skapleg og réttlát úthlutun þess. Ég skal að öðru leyti ekki leggja dóm á það, hversu réttlát úthlutunin hefur verið undanfarin ár. Mér er kunnugt um fjöldamarga staði, þar sem þetta fé hefur orðið að miklu gagni og hefur átt ríkan þátt í því að stuðla að aukinni útgerð og framleiðslu og bættri aðstöðu fólksins á mörgum þeim stöðum, sem þessa fjár hafa notið.

Ég játa það, að mér þykir það miður farið, að framlögin í þessu skyni hafa aðeins verið lækkuð. Það má deila um það, hver sé ástæða þess, að framlögin í þessu skyni hafa verið lækkuð og ýmis önnur til ýmissa gagnlegra framkvæmda. Hitt hygg ég þó að allir hv. þm. ættu að geta verið sammála um, að það, sem gerir Alþingi sífellt erfiðara fyrir með afgreiðslu fjárl., er fyrst og fremst það, að verðbólga og dýrtíð hefur sífellt farið vaxandi á undanförnum árum. Alþingi stendur nú, eins og stundum áður, síðustu árin fyrst og fremst, frammi fyrir því, að það er illmögulegt að koma fjárl. saman vegna þeirrar staðreyndar, að verðbólga og dýrtíð þjarma að öllum rekstri hins opinbera, gera krónuna sífellt verðminni og þjóðinni stöðugt erfiðara um vik að halda uppi nauðsynlegum framkvæmdum.

Það þarf engan að undra, þó að nauðsynlegum sparnaði verði ekki við komið í einu vetfangi, það verði ekki lagðar fram ýtarlegar till. um það á örfáum mánuðum, hvernig bætt skuli úr í þessum efnum. Það þarf áreiðanlega mjög róttæka endurskoðun á öllum rekstri ríkisbáknsins til þess, að unnt sé að leggja fram nægilega víðtækar till. um það, hvernig hægt sé að haga fjárreiðum ríkisins og gera upp á milli verðugra og óverðugra.

Ég skal ekki fara út í það að svara neinu, sem hér hefur fram komið. En ég vildi aðeins af því tilefni, að hv. tveir ræðumenn Framsfl. töluðu mikið um það, að verðbólguófreskjan heimtaði nú mat sinn og þess vegna væri dregið úr ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum í landinu, — ég vildi nú aðeins mega varpa fram þeirri fsp., hvort þessi ófreskja hefði verið gersamlega matarlaus s. l. 2–3 ár, meðan hv. framsóknarmenn hafa haft forustu um fjármálastjórn ríkisins. Ekki man ég betur, en eitt af fyrstu verkum þeirrar síðustu ríkisstj., sem Framsfl, hafði fjármálaforustu í, hefði einmitt verið að leggja á 300 millj. kr. nýja skatta, eftir að hún hafði setið eitt missiri að völdum. Annað verk þessarar sömu hæstv. ríkisstj. var að leggja á 790 millj. kr., nýja skatta. Og hvaða ófreskja skyldi hafa borðað alla þessa skatta, allan þennan mat, sem borinn var á borð af síðasta hæstv. fjmrh.? Ætli það hafi ekki verið dýrtíðarófreskjan, sem sífellt var að bólgna út, einmitt á stjórnartímabili þessarar hæstv. fyrrv. ríkisstj.?

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vil beina því til hv. frsm. 1. minni hl. fjvn., að hann og n. tækju til athugunar þá brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér um 150 þús. kr. framlag til barnaskólabyggingar í Bolungavík og ég hóf mál mitt á að gera grein fyrir.