18.04.1959
Neðri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þó að það sé ekki fyrst og fremst vegna þeirrar till., sem hér liggur fyrir og nú hefur verið gerð grein fyrir af hv. 2. landsk., sem ég kvaddi mér hljóðs, þá ætla ég þó að fara örfáum orðum um hana.

Það er ekki vafi á því, að það vandamál, sem hér er um að ræða, er raunverulegt. Skattstigarnir eru orðnir svo háir, að það er ekki vafi á því, að það kann að eiga sinn þátt í því, að örðugleikar geta oft og tíðum verið á því að fá fólk til þess að vinna nauðsynlega eftirvinnu í þágu framleiðslunnar. Á hinn bóginn er ég ákaflega hræddur um það, að reynast muni skatttæknilegir örðugleikar á því að framkvæma þetta, sem verði lítt yfirstíganlegir. Það er gert ráð fyrir því, að atvinnutekjur, eins og það er orðað í till., sem skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar, séu skattfrjálsar. Ég er hræddur um, að það yrði ákaflega erfitt að skera úr því í mörgum tilfellum, hvaða störf séu í þágu útflutningsframleiðslunnar og hvaða ekki, því að nú er það þannig með ýmsar atvinnugreinar hér á landi, — má þar nefna t. d. landbúnaðinn, — að þær afurðir, sem hann framleiðir, eru jöfnum höndum seldar á innlendum og erlendum markaði. Það er að vísu fordæmi fyrir því, að inn á þá braut hefur verið farið að gera eftirvinnu skattfrjálsa, en með því á ég við löggjöf, sem sett var fyrir nokkrum árum um það, að vinna í þágu eigin íbúða skyldi vera skattfrjáls. Það var út af fyrir sig nytsamt mál og sjálfsagt ekki vafi á því, að skattfrelsi vinnu við byggingu eigin íbúða hefur orðið til þess að hvetja menn til þess að leggja fram meiri vinnu, en ella í því skyni. Á hinn bóginn má auðvitað segja, að umrædd störf í þágu útflutningsframleiðslunnar séu líka nauðsynleg og má um það deila, hvort nauðsynlegra sé. En það er þó sá munur á þessu, að það er auðveldara að skera úr því, hvenær er um að ræða störf í þágu bygginga eigin íbúða, heldur en hinu, hvaða störf eru í þágu útflutningsframleiðslunnar, þannig að þeir skattteknísku örðugleikar, sem mundu vera á því að framkvæma þetta, eru undir öllum kringumstæðum minni, þegar um vinnu í þágu eigin íbúða er að ræða.

En það, sem liggur til grundvallar því vandamáli, sem hér er um að ræða og ég tel fulla ástæðu til þess að vekja athygli hv. þdm. á því, er skattalöggjöfin í heild og fyrst og fremst það, að stighækkun tekjuskattanna er komin út í öfgar. Ég felst út af fyrir sig á það sjónarmið, að réttmætt geti verið, a. m. k. hvað snertir tekjuskatta einstaklinga, að þeir séu stighækkandi að vissu marki. Það er sjálfsagt rétt, að það sé tilfinnanlegra fyrir mann, sem hefur aðeins 50 þús. kr. í tekjur, að greiða 10% af sínum tekjum, heldur en þann, sem hefur 200 þús. kr. En stighækkunin er komin út í öfgar og ein af ástæðunum til þess er einmitt sú, að skattstigunum hefur ekki verið breytt með tilliti til vaxandi verðbólgu, þannig að af því leiðir, að stighækkunin kemur nú til að bitna á tekjum, sem alls ekki hefur upphaflega verið ætlazt til að stighækkunin bitnaði á, eins og t. d. tekjum, sem verkamenn vinna sér inn við yfirvinnu.

Nei, kjarni málsins er sá, að skattamálin í heild eru komin í mikið öngþveiti. Það hafa að vísu verið gerðar ýmsar tilraunir til lagfæringar á einstökum atriðum þessara mála. Fyrir utan það, sem ég minntist á að samþykkt hefur verið og sett lög um, að undanþiggja vinnu við eigin íbúðir sköttun, var á síðasta þingi gerð nokkur lagfæring á skattamálum hjóna og sjómönnum hafa verið veittar skattaívilnanir og þær hafa smám saman verið auknar. Allt er þetta réttmætt út af fyrir sig. Hér hefur verið um vandamál að ræða í sambandi við skattaálagninguna, sem þurftu úrlausnar.

En það er önnur hlið á þessu máli, sem ekki má láta sér sjást yfir og hún er sú, að þar sem það hefur nú þrátt fyrir allt verið þannig, að skattarnir hafa farið stöðugt hækkandi frá ári til árs, þá þýða þessar ívilnanir það, að skattbyrðin kemur stöðugt til að þyngjast á þeim, sem ekki njóta skattfríðinda, t. d. fastlaunafólki og ýmsum öðrum. Það verður því gjarnan þannig með þessar lagfæringar, að þeim má líkja við það, þegar verið er að bæta gatslitnar flíkur. Það er kannske sett bót yfir gatið, en vegna þess að flíkin er slitin, þá rífnar út frá bótinni, þannig að hún verður ekki betri en áður.

Það, sem þarf að gera í þessum málum, er framkvæmd á heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar og á öðrum grundvelli, en hingað til hefur verið. Nú vantar það ekki, að á undanförnum árum hafa verið skipaðar nefndir og hver nefndin á fætur annarri, sem átt hefur að endurskoða stundum skattalöggjöfina í heild, stundum einstök atriði hennar. Frá þessum nefndum hafa vissulega komið ýmsar nytsamlegar ábendingar og till., sem hafa verið til bóta, en sá er galli á þessum nefndarstörfum og ástæðan til þess, að þrátt fyrir þær lagfæringar, sem þannig hafa verið gerðar á einstökum atriðum, er skattalöggjöfin í heild í sama öngþveiti og áður, er sú, að það er ekki heildarsjónarmið, sem hefur legið til grundvallar þeirri endurskoðun, sem framkvæmd hefur verið.