27.04.1959
Efri deild: 108. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að ég verði við þeim tilmælum að fresta umr. og þá væntanlega líka, að málið fari til nefndar til þess að fá fljóta afgreiðslu. En mig langar til að benda á þessu stigi málsins á tvö atriði: Í fyrsta lagi það, að þessi sölusamlög, sem talað er um í brtt. Karls Kristjánssonar og eru komin inn í 1. gr., hafa lengi verið til í Vestmannaeyjum og ég held, að menn haldi, að þau séu með ákaflega þungum skattabyrðum og till. sé einhvern veginn af því komin. Mér er kunnugt um það sem ríkisskattanefndarmanni, að það hafa komið kærur frá þessum — félögum svo að segja árlega undan útsvörum og stundum líka sköttum og þau hafa alltaf verið afgreidd frá ríkisskattanefnd eins og samvinnufélögin. Það stendur svo á árlega bæði með samvinnufélögin og þessi samlög, að þau eiga við áramót svo og svo mikið í sjóði, sem í raun og veru er óafgreiddur arður eða uppbót á verð. Hann hefur aldrei verið skattlagður sem tekjur, en hann hefur alltaf verið skattlagður sem eign og næsta ár á eftir er það, sem úthlutað var, alltaf dregið frá og aðeins skattlagt það, sem samlagið bætir við eigin sjóði. Um tvísköttun er því aldrei að ræða. Hins vegar hafa þau fengið á sig hátt veltuútsvar, sérstaklega þar sem það er hátt og það hefur verið lagt á, eins og t. d. í Vestmannaeyjum, og það höfum við líka viljað lækka, þannig að þessi samlög hafa ekki orðið fyrir neinum þeim skattabyrðum fram yfir aðra, að það sé ástæða til að kippa þeim undan sem skattfrjálsum, eins og gert er í frv., eins og það liggur fyrir núna. Þessu til staðfestingar vil ég benda á það, að ef n. vill athuga málið, þá getur hún fengið uppi í ríkisskattanefnd einhvern úrskurð um Olíusamlagið, Lýsissamlagið o. s. frv., o. s. frv., sem til eru í Vestmannaeyjum, og séð, hvernig þau eru skattlögð þarna.

Hitt vil ég svo benda á flm. (BjörnJ, SE), að ég held, að eins og þeirra till. er orðuð, þurfi að betrumbæta hana. Það er talað um eftirvinnu við útflutningsframleiðslu og átt sýnilega við sjávarafurðir og þá fyrst og fremst fisk. Hver er nú eftirvinnan hjá bóndanum, sem sumarlangan daginn slær í 10–12 tíma og framleiðir sina ull, sínar gærur, sitt fé, sem af fást útflutningsvörur? Hver er eftirvinnan hjá öðrum, sem vinna að útflutningsframleiðslu á svipaðan hátt, þegar unnið er að framleiðslu, sem að nokkru leyti er útflutningsframleiðsla og að öðru leyti innanlandssöluvara, eins og t. d. kjötið, hvernig á þá að skilgreina tímann, sem fer í að vinna að því, sem er útflutningsframleiðsla og að því, sem ekki er útflutningsframleiðsla? Mér finnst vanta þarna eitthvað í greinina, ef hún á að ná sínum tilgangi og létta sköttum af þeirri vinnu, sem unnin er að útflutningsframleiðslunni.

Á þetta tvennt vildi ég benda nefndinni, sem væntanlega fær málið til meðferðar, því að ég vil leggja það til sem forseti, að umræðum um málið verði frestað og n. fái að athuga málið eftir ósk 6. þm. Reykv.