30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fram. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. S-M. (LJós) dró mjög í efa, að sú áætlun, sem gerð hefur verið um innflutning á bílum, mundi gefa þá upphæð, sem þar er gert ráð fyrir og verð ég því að fara dálítið nánar út í þetta atriði, því að ég vil ómögulega, að hv. þm, sé í neinum vafa um, hvernig þetta er byggt upp, eins og mér sýnist hann mjög vera.

Þar er fyrst til að taka, að hann hefur gert ráð fyrir, að hver bíll kostaði 27 þús. kr. að meðaltali í innkaupi. Ef við miðum við s. l. ár, kostaði hver bíll, sem þá var fluttur inn, um 16.500 kr. að meðaltali. Nú skal ég hugga hv. þm. með því, að það er hvort tveggja gert: það er miðað við það meðalverð, sem hefur verið á bílunum að undanförnu og það er enn fremur búið að draga frá þá bíla, sem búið er að veita leyfi fyrir á þessu ári, og til þess að hann sé ekki í vafa um, hver upphæð kemur út úr þessu, þá lítur dæmið einfaldlega svona út:

Útflutningssjóður fær:

1. Hækkun á þeim gjöldum, sem nú eru, miðað við þann bílafjölda, sem var fluttur inn á s. l. ári, þ. e. a. s. 402. Hækkun úr 160% í 300% gerir 9,2 millj. En frá þessu dragast 2,2 millj., sem eru vegna 75 bíla, sem búið er að leyfa, þannig að út úr þessu koma 7 millj., hækkun á gjaldeyrislausa bíla, miðað við sömu tölu og í fyrra.

2. Aukning um 250 bíla, sem gefur útflutningssjóði 13,9 millj.

Þetta er þá saman 20,9 millj.

Við þetta bætast svo gjaldeyrisbílarnir. Þar er fyrst miðað við sömu tölu og í fyrra, 454 bíla. Þeir kostuðu að meðaltali 17.500 kr. Það gerir 7,1 millj. Frá dragast 130 bílar, sem búið er að veita leyfi fyrir, 2 millj., og út úr því kemur 5,1. Og svo er gert ráð fyrir að fjölga um 100 bíla með gjaldeyris- og innflutningsleyfi, sem gert er ráð fyrir að kosti það sama og þeir gerðu á s. l. ári 17.500, og þessir 100 bílar gefa útflutningssjóði 4,4 millj.

Þá er þetta þannig, að af gjaldeyrislausum bílum á aukningin til útflutningssjóðs að verða 20,9 millj., af bílum, sem veitt eru gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir, 9,5 millj. Út úr þessu fæ ég 30,4 millj. Þannig liggur málið fyrir.

Ég vænti þess, að eftir þessar upplýsingar fari ekki á milli mála neinar upphæðir í þessu. Það, sem getur þá farið á milli mála og eftir stendur, er það, hvort eftirspurnin verði nægjanlega mikil, til þess að þessir bílar gangi allir út. Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, miðað við þá miklu eftirspurn, sem hefur verið að undanförnu og er enn, því að í innflutningsskrifstofunni liggja umsóknir, svo að hundruðum skiptir, um bíla, bæði með og án gjaldeyris, sem við höfum ekki afgreitt og nú getum við væntanlega eitthvað farið að byrja á þeim stóra stafla.