12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði nokkuð hér um þessa till., sem við hv. 8. landsk. (BjörnJ) berum fram og minntist þar á áætlun um tekjur og gjöld útflutningssjóðs. Við vitum náttúrlega, að slíkar tekjuáætlanir eru aldrei nákvæmar og ég ætla engan dóm á það að leggja, enda hef ég ekki haft aðstöðu til að kynna mér það. En ég vil aðeins benda á, að eftir þeirri innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið fyrir þetta ár, á að flytja inn nokkuð miklu meira magn af hátollavarningi, en gert var t. d. á síðasta ári, og einmitt með hliðsjón af þessari innflutningsáætlun kom inn þetta ákvæði um að veita 100 innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til atvinnubifreiðastjóra á þessu ári.

Bifreiðar voru, jafnvel áður en þessi nýju gjöld komu á, sú vörutegund, sem mest gaf í ríkissjóð og útflutningssjóð, og það er álit a. m. k. nokkuð margra innflytjenda, að það sé vafamál, að hátollagjaldeyririnn gangi allur út á þessu ári til svipaðs innflutnings og hann var notaður til í fyrra. Við vitum, að ef atvinnubifreiðastjórum eða leigubifreiðastjórum yrðu veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, þá mundu langsamlega flestir þeirra kaupa bifreiðar, sem eru í innkaupi nokkuð miklu dýrari og gefa með 160% leyfisgjaldi meiri tekjur í útflutningssjóð en flestar, ef ekki allar bifreiðar t. d. frá Vestur- og Austur-Evrópu, þannig að þetta ákvæði um að veita 100 innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til leigubifreiðastjóra ætti einmitt að auka tekjur útflutningssjóðs frekar, en minnka þær. Og þar er alveg öruggur markaður fyrir gjaldeyri, sem á að nota til kaupa á hátollavörum, — alveg öruggur markaður, sem nokkur vafi gæti verið á að annars væri til staðar.

Ég vil endurtaka, að þetta ákvæði um 100 innflutningsleyfi fyrir bifreiðum til þeirra, sem með vinnusamningum hafa gjaldeyristekjur, er að mínu viti mjög mikilvægt. Við vitum, að á síðasta ári fóru farmenn í verkfall m. a. út af 55% yfirfærslugjaldinu og fengu þar á nokkra leiðréttingu og við vitum einnig, að innflutningsskrifstofan hefur að fyrirlagi ríkisstj. hverju sinni gefið þeim, sem hafa þessar tekjur, kost á að flytja inn einstakar vörutegundir. Það skal ekki afsakað, að nokkuð af þessum vörum hefur vafalaust lent á svartan markað og í brask, en þrátt fyrir það tel ég nauðsynlegt, að þessum mönnum sé sýnt það og sannað, að þeir sitja við sama borð og aðrir landsmenn, a. m. k. ef þeir ætla að nota þær vörur til eigin þarfa, sem þeir flytja inn.

Við vitum líka, að ef á að flytja inn 450 gjaldeyrislausar bifreiðar, þá verður að útvíkka eða útvatna verulega þær reglur, sem gilt hafa um úthlutun slíkra bifreiða og verður örugglega að nota til kaupa á þeim nokkuð af þeim gjaldeyri, sem er aflað á vafasaman hátt og ég út af fyrir mig sé ekki neina ástæðu til að hafa á móti því, að þeir menn séu látnir borga há gjöld.