02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér nægir áreiðanlega athugasemd, því að hv. þm. Dal. sveikst um að segja meira, eins og hann var að lofa áðan. Hann sagði nefnilega ekkert nýtt og ekkert, sem raunverulega þarf að svara. Hann segir aðeins, að ég hafi hjálpað til þess að hafa af bændum það, sem þeim bar að fá. Vissulega hefði bændum borið miklu meira en þessi 2%, sem um var að ræða, en þau var ekki löglega hægt að krefja, fyrr en í haust. Og hv. þm. Dal. og framsóknarmenn, á meðan þeir fóru með landbúnaðarmálin, létu það viðgangast, að bændur gætu ekki verðlagt vöru sína nema einu sinni á ári. Það var ekki leiðrétt, fyrr en þeir fóru úr stjórn. Hann segir, að bændur séu settir skör lægra, en aðrir með þessum lögum. En hvers vegna stöðvuðu framsóknarmenn þá ekki þetta frv. í Ed., úr því að verið var að níðast á bændum? Þeir gátu fellt frv., en þeir gerðu það ekki. Þeir létu það líðast, að níðzt væri á bændum. Hver tekur svo mark á því, sem þessir menn eru að segja og fullyrða?

Hv. þm, segir, að ég hafi rætt um annað mál áðan, en búnaðarmálasjóðinn. Þegar þessi hv. þm. er að núa mér því um nasir, að ég sé að níðast á bændum, þá getur hann ekki undrast það, þó að bent sé á þær augljósu staðreyndir, sem fyrir liggja, að Framsfl. hefur snuðað bændur raunverulega um 20–30% með bjargráðalögunum á s. l. ári, með því að skattleggja brýnustu nauðsynjar bænda án þess að tryggja, að þeir fái það bætt, eins og t. d. útgerðin. Þetta liggur fyrir, og undan þessu geta hv. framsóknarmenn á engan hátt komizt. Og hv. þm. Dal. er svo blindur í sinni trú, að hann vill líkja fiskifélagsbyggingunni við búnaðarfélagshúsið. Hann gerir sér ekki grein fyrir því, að útgerðarmenn og sjómenn hafa ekkert borgað frá sjálfum sér í fiskifélagshúsið, heldur hefur það opinbera beinlínis byggt þetta hús. Hann gerir sér ekki grein fyrir því, að með þessu frv. er verið að setja bændur skör lægra, en sjómenn og útgerðarmenn, því að þeim er gert með þessu frv. að greiða úr sínum vasa byggingarkostnaðinn.

Þá segir hv. þm., að með því að byggja þetta hús séu bændur að tryggja framtíð sína, félagssamtök og framfarir, ræktun og annað slíkt. Ja, skyldi nú ekki þessi höll, þegar hún kemur hér upp, auka ræktunina í sveitunum, skyldi hún ekki verða til þess að ýta undir nauðsynlegar framkvæmdir? Hvernig stendur á því, að hv. þm. Dal., bóndi og bóndasonur, er svona blindur á augljósar staðreyndir, blindur á það, að verið er að flytja fjármagn úr sveitunum í hallarbyggingu hér í Reykjavík, verið er að leggja að óþörfu skatt á bændastéttina, vegna þess að það liggur fyrir og það hefur verið viðurkennt af forsvarsmönnum þessara mála, að Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið hafa nóg fé í sjóði til þess að byggja stórhýsi hér í bænum, sem gerir miklu meira, en nægja bændasamtökunum. Það liggur fyrir staðfest, að það er verið með þessu frv. að leggja nýjan skatt á bændur, af því að það á að byggja helmingi stærra hús, en þörf er fyrir til þess að halda uppi sæmd bændastéttarinnar, til þess að geta leigt út verzlunarhús, sýningarsali, bókaherbergi og skrifstofuherbergi. Það er þess vegna, sem er verið að leggja á nýjan skatt, en ekki vegna þess, að það séu ekki peningar fyrir hendi með þeirri tekjuöflun, sem búnaðarmálasjóður nú hefur, til þess að byggja stórt og vandað hús yfir bændastéttina. Ég segi það, að ef hæstv. Alþ. vill ekki gera annað hvort, að taka þennan skatt inn í verðlagið eða bera málin undir bændur við almenna atkvgr. í búnaðarfélögunum, þá er verið að níðast á bændum, og það er Alþingi til skammar að afgreiða málið á þann hátt.