02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að benda hér aðeins á eitt atriði, sem hefur verið dregið fram af hv. samþingismanni mínum með svipuðum röksemdafærslum og hann venjulega hefur. Það er það, að bændur hafi verið skaðaðir mjög með því, að þeir hafi ekki fengið bættar upp verðhækkanir, sem urðu á fóðurbæti og áburði. Með þessum áróðri, sem hann er búinn að reka lengi austur í Rangárvallasýslu og sjálfsagt víðar, er hann búinn að stórskaða marga bændur, ég gæti trúað jafnvel eins mikið og það framlag, sem bændurnir hér óska sjálfir eftir í sínum samtökum að leggja fram til sinna framfara.

Ég mundi ekki vera með þessu frv. nema vegna þess, að samtök bændanna, bæði á búnaðarþingi og stéttarsambandsþingi, hafa eindregið samþykkt þetta. Þau óska að leggja þetta á til sinna eigin framkvæmda. Það er ekki verið að taka neinn skatt til almenningsþarfa. Það er sá mikli munur, sem er á að skattleggja sjálfa síg til þess að gera framkvæmdir fyrir sjálfa sig ellegar fá skatta á sjálfa sig til þess að borga til allt annarra hluta. Þetta á ekkert skylt, ekki hið allra minnsta.

En það, sem ég ætlaði aðallega að minnast á, var áróður hv. þm. um, að það hefði verið haft af bændum stórlega, þar sem þeir hafi ekki fengið að hækka afurðaverð fyrir hækkun áburðar- og fóðurbætiskaupa. Þetta er rangt. Það er alveg jafnhagstætt fyrir bændur að kaupa fóðurbæti núna og var s. l. ár, alveg jafnhagstætt, því að það er búið að taka allan áburðinn, sem fluttist inn á þessu verðlagi og líka fóðurbætinn og setja hann inn í verðlagsgrundvöllinn og þeir fá hann í hækkuðu verði á vöru. En einmitt fyrir þennan misskilning og þennan áróður, sem hv. þm. hefur rekið, hafa sumir bændur hætt að kaupa fóðurbæti og hafa bakað sér stórtjón af því. Og meira að segja nokkrir hafa komið til mín og sagt frá þessum hlut. Nei, það þarf helzt að segja bændum rétt frá og hverjum sem er, ef maður er að starfa fyrir þá. (Gripið fram í.) Það er leitt að þurfa að vera yfirleitt og það við samþingismann sinn að leiðrétta slíkan skakkan málflutning, sem hefur verið hafður. Mér leiðist það, því að mér er heldur vel við manninn. Þó að ég þekki vel, hvernig hann hagar sínum vinnubrögðum, þá hefði ég heldur viljað leiða hann á rétta leið í þessu, en hann væri áfram að skaða bændurna með skökkum málflutningi. Það er þeim engu síður hættulegt, en að greiða atkvæði með því, að þeir skuli vera annars flokks menn í kjörum gagnvart hinu opinbera. Það er þeim engu síður skaðlegt. Að flytja þeim skakkan málflutning um þeirra eigin hagi er stórkostlegur háski, bæði fjárhagslegur og efnalegur og líka félagslegur fyrir bændurna, og það hefur verið gert í þessu.

Það verður ekki um deilt, að það eina, sem hægt er að segja að bændurnir hafi ekki fengið bætt, sé frá 1. júní, eftir að lögin gengu í gildi, fram til 1. sept., þ. e. a. s. þeir bændur þá, sem nota fóðurbæti á sumrin. Hver mælir með því, að þeir eigi að gera það? Ekki ég. Ég hef aldrei gert það, og ég hef engum ráðið til þess. Þegar búið er að leiðrétta verðlagsgrundvöllinn, eru þeir búnir að fá alveg nákvæmlega sömu aðstöðu með þetta og áður. Þetta er svo augljóst mál, að mig furðar á því, að nokkur þingmaður skuli bera slíkar firrur fram eins og hér hefur verið rætt um.

Ég ætla að geyma mér að tala um útflutningssjóðinn, þangað til hann kemur til umr., en ég skal minnast á það þá, þar sem það hefur átt sér stað líka núna í sambandi við niðurgreiðslurnar og aðstoð til bændanna þar, hvernig farið hefur verið að. Það er ekki aðeins, að þeir hafa verið skaðaðir um margar milljónir, heldur hefur þeim verið sýnd vanvirða og það svíður mig miklu meira og ég veit, að bændunum sárnar það líka, að þeir fá ekki að sitja við sama borð og aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Ég býst við, að öllum sé vandara jafnvel um heiður sinn, en peninga nema einstaka manni.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, að ekki mátti heldur fara með réttar tölur um það. Þetta er eins og vant er ævinlega, og ég má sjálfsagt leiðrétta það nokkrum sinnum, áður en lýkur, hvað bændur hafi fengið að hækka. Þegar hækkun þeirra launa gekk í gildi í fyrra, hækkuðu þau strax fyrir kostnaði. (Gripið fram í.) Þau hækkuðu strax fyrir kostnaði sínum, en því er sleppt. Og þeir hækkuðu ekki um 10%, heldur hækkuðu þeir — að ég held — um 12% í verðlagsgrundvellinum í haust, og með því hvoru tveggja áttu þeir að vera komnir nokkurn veginn jafnhliða, ef ekki yrðu aðrar breytingar.

Það er þessi óvandaða málsmeðferð, sem er umbjóðendum og öllum í landinu stórháskaleg, að geta ekki einu sinni farið með réttar tölur eða skýrt rétt frá, hvernig mál standa fyrir þá, sem eiga að njóta eða búa að þeim ákvæðum, sem sett eru. Að villa mönnum sýn, það er ekki starf okkar þm., það á heldur að vera að skýra sem bezt hlutina fyrir mönnum.

Þetta búnaðarmálasjóðsgjald er eftir ósk samtaka bændanna sjálfra til þeirra eigin framkvæmda og á ekkert skylt við það, sem haft hefur verið af þeim á öðrum sviðum og með annarri löggjöf og hv. samþm. minn því miður hefur stuðlað að, að þeir hafa orðið að búa við, eins og við afgreiðslu laganna um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds.