13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

4. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar d. fékk í upphafi þings til meðferðar frv. til l. flutt af hv. þm. V-Húnv. um breyt. á l. um almannatryggingar. Efni frv. er það, að greiðslur frá sérstökum lífeyris- og eftirlaunasjóðum svo og tekjur af tryggingum, sem menn hafa keypt sér sérstaklega, skuli ekki valda skerðingu á greiðslum frá almannatryggingunum.

Vissulega mundi samþykkt þessa frv. vera nokkur réttarbót fyrir þá, sem efni hafa á að kaupa sér sérstaka tryggingu eða njóta réttinda í sérstökum lífeyrissjóðum, þar sem hin hvimleiðu skerðingarákvæði almannatryggingalaganna mundu þá ekki lengur ná til þessa fólks. En þá vaknar aftur spurningin: Væri slíkt réttlátt gagnvart þeim gamalmennum og öryrkjum, sem skerðingarákvæði almannatryggingalaganna ná til, ef atvinnutekjur þeirra fara yfir visst hámark? Mér finnst meira en hæpið, að það væri réttlátt.

N. ræddi málið á tveimur fundum og lét ég strax í ljós þá skoðun, að ég gæti því aðeins fallizt á þessa takmörkun á skerðingu ellilífeyris og örorkubóta, að skerðingarákvæði tryggingal. yrðu þá algerlega felld niður. Á þessa skoðun mína féllust þeir hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) og hv. þm. V-Sk. (ÓskJ), en hv. þm. Ísaf. (KJJ) og hv. 8. þm. Reykv. (RH) óskuðu, að ákvörðun yrði frestað, þar til þeim hefði gefizt kostur á að ræða málið frekar við þingflokk Sjálfstfl. N. varð auðvitað við þessari ósk.

Þar sem ég er ekki viss um, að hv. þm. sé í fersku minni, hvernig þessum umræddu skerðingarákvæðum tryggingal. er háttað, vil ég fara um þau nokkrum orðum.

Eins og menn sjálfsagt muna, er landinu samkv. almannatryggingalögunum skipt í tvö verðlagssvæði. Á 1. verðlagssvæði njóta hinir tryggðu hærri bóta, enda eru iðgjöld þar líka hærri. Á 2. verðlagssvæði er hvort tveggja lægra. Hefur mér alltaf fundizt þessi skipting landsins mjög vafasöm og jafnvel ranglát, þar sem vöruverð af eðlilegum ástæðum hlýtur í mörgum tilfellum að verða hærra úti um land, m.a. sökum aukakostnaðar, sem á vörurnar fellur við flutning frá Reykjavík og einnig með tilliti til hins, að nú er kaup vinnandi fólks líka orðið yfirleitt jafnt um allt land. Þessi skipting hefur þó ekki fengizt afnumin. En það er ekki vert að orðlengja um það. Réttara er að athuga heldur skerðingarákvæðin sjálf.

Einstaklingslífeyrir á 1. verðlagssvæði er nú 5.380 kr. á ári í grunn, eða 448 kr. í grunn á mánuði. Með vísitölu 185 verður einstaklingslífeyrir á 1. verðlagssvæði 9.954 kr. á ári, eða tæpar 830 kr. á mánuði að vísitölu meðtalinni. Einstaklingslífeyririnn á 2. verðlagssvæði er nokkru lægri en þetta, eða 4.035 kr. í grunn á ári, og gerir það, eins og menn sjá, einar 336 kr. í grunn á mánuði. Með fullri vísitölu verður lífeyrisgreiðslan til einstaklings á 2. verðlagssvæði þannig 7.466 kr. eða 622 kr. á mánuði með vísitölu. Ég hygg, að það mundi verða okkur flestum vandlærð list að lifa af slíkum tekjum. Hjónalífeyrir á 1. verðlagssvæði er svo 8.609 kr. í grunn á ári, eða 717 kr. í grunn á mánuði. Með fullri vísitölu, 185 stigum, er þetta 15.927 kr. á ári, eða 1.327 kr. á mánuði. Hjónalífeyrir á 2. verðlagssvæði er hins vegar 6.157 kr. í grunn á ári, eða 538 kr. á mánuði. Með vísitölu hafa hjón á 2. verðlagssvæði þannig 11.945 kr. á ári, og gerir það á mánuði 995 kr. Þannig ber enn að sama brunni, að mikil má vera kunnátta þeirra hjóna, sparneytni og hagsýni, sem dregið geta fram lífið á tæpum 1.000 kr. á mánuði. En þetta verða þó þau gamalmenni og þeir öryrkjar að gera, sem geta ekki aflað sér neinna annarra viðbótartekna.

En þá kemur að hinu fólkinu, sem er svo lánsamt að hafa getu og löngun til þess að vinna eitthvað meira eða minna. Slík gamalmenni halda fullum lífeyrisgreiðslum hjá tryggingunum, þótt atvinnutekjur þeirra verði allt að 50% hærri, en fullum lífeyri nemur,og sama regla gildir um öryrkja. En verði atvinnutekjurnar hærri en þetta, skerðast ellilífeyris- og örorkulífeyrisgreiðslur í vaxandi mæli með vaxandi tekjum, unz greiðslur frá tryggingunum falla alveg niður við ákveðið tekjumark. Nánar tiltekið kemur þetta þannig út, að einstaklingur á 1. verðlagssvæði má hafa 14.939 kr. árstekjur, án þess að greiðslur frá tryggingunum skerðist við það. M.ö.o.: 1.245 kr. mánaðartekjur skerða ekki lífeyrisgreiðslur frá tryggingunum. En verði þær hærri, fara greiðslur frá tryggingunum lækkandi að sama skapi sem atvinnutekjurnar hækka, unz ellilífeyris- eða örorkulífeyrisbætur falla niður með öllu, ef mánaðartekjur nema 2.628 kr. eða sem svarar hálfum verkamannstekjum. Virðist sem sé vera stórrefsivert athæfi að afla sér slíkra tekna, enda er það algengt, að gamalmennin segi: Þjóðfélagið vill víst ekki nota vinnugetu okkar gamla fólksins. Það refsar okkur, ef við vinnum. Og í reynd er svarið, sem við fáum, þetta: Ef þið aflið ykkur nokkurra atvinnutekna að ráði eftir 67 ára aldur, þá skuluð þið ekki hafa betra af því, því að þá tökum við af ykkur allan ellilífeyrinn. — Á 2. verðlagssvæði er það þó enn refsiverðara af gömlum manni að afla sér tekna og taka þátt í framleiðslustörfum þjóðfélagsins, því að þar falla allar lífeyrisgreiðslur frá tryggingunum niður, ef atvinnutekjur hans nema 2.282 kr., en á 1. verðlagssvæði voru það, eins og ég áðan sagði 2.628 kr.

Nú er mér spurn: Er nokkur sá hér inni, sem vill telja þetta hyggileg lagaákvæði eða vill nokkur taka að sér að verja þetta sem mannúðleg eða réttlát lagaákvæði? Ég vona a.m.k., að enginn vilji leggja sig í það. Og mér finnst nánast sagt frekar óhugnanlegt að sjá það í álitsgerð frá Tryggingastofnun ríkisins, að á árinu 1957 hafi Tryggingastofnunin sparað, eins og hún orðar það, 15–20 millj. kr. á skerðingarákvæðunum, sem ná til gamla fólksins og öryrkjanna. Hélt ég þó, að Tryggingastofnunin væri einmitt til að skapa þessu fólki öryggi, en ekki til að spara á því fyrst og fremst.

Starfsmaður hjá Tryggingastofnuninni hefur sagt mér, að mjög algengt sé, að gamalt fólk komi í Tryggingastofnunina og spyrji: Hvað má ég vinna mikið, án þess að ég missi allan lífeyrinn minn? Ég kæri mig nefnilega ekki um það, segja sumir, að missa það, sem ég á að fá hérna. — Og er ekki von, að menn spyrji á þessa leið, því að við vaxandi atvinnutekjur, eftir að komnar eru rúmlega 1.200 kr. á mánuði, fara greiðslurnar frá Tryggingastofnuninni lækkandi að sama skapi, svo að allt ézt upp og situr við sama um einkatekjurnar. Og elli- eða örorkustyrkurinn er horfinn, ef tekjurnar eru orðnar rúmlega hálfar verkamannstekjur, eins og ég áðan sagði. Þessi lagaákvæði aftra eldra fólki bókstaflega frá því að taka þátt í framleiðslustörfunum, þó að heilsa og kraftar leyfi og því verra er þetta sem það er alkunn staðreynd, að gamalt fólk, sem erfiðað hefur alla ævi, þolir sízt af öllu að hætta að vinna. En hver getur þó ætlazt til þess, að það vinni kauplaust? Samt gerir margur öldungurinn það, heldur en hætta að vinna.

Ég skal segja frá því hér, að ég hitti fyrir skömmu 81 árs gamlan verkamann í blómlegri útgerðarstöð úti á landi. Hann vann enn þá fullan vinnudag í hraðfrystihúsinu. Hann hakaði fisk úr kösinni á gólfinu og lyfti fiskinum upp í fiskþvottavél og hreistrunarvél og það sögðu mér samverkamenn hans, að þegar mikið bærist að og vinnutíminn yrði langur, þá skorðaði sá gamli sig af upp við þil eða einhvern annan fastan hlut og héldi síðan áfram vinnunni heldur en að gefast upp og þess yrði ekki vart, að vélarnar fengju ekki full verkefni. En hvað um ellilífeyri þessa manns, þessarar vinnuhetju? Ellilífeyririnn hans er ekki einn einasti eyrir. Hann hefur verið felldur niður, hann hefur fallið fyrir skerðingarákvæðum almannatryggingal., sem fyrst voru hugsuð sem bráðabirgðaákvæði til 5 ára, en hafa alltaf síðan verið framlengd. Ef hann færi heim í rúm og legði sig, hætti að vinna, þá væri hann kominn á fullan ellilífeyri.

Sumir segja nú: Það liggur ekkert á að fella skerðingarákvæðin niður núna. Það má a.m.k. biða að athuga það eftir endurskoðun l., sem á að fara fram einhvern tíma á árinu 1960. — Það má kannske segja, að þetta ranglæti sé búið að æpa að okkur svo lengi, að litlu muni, þótt við unum því t. d, eitt ár enn þá. En ég held, að þetta ranglæti eigi að nema úr lögum nú þegar, ekki sé eftir neinu að bíða með það. Auk þess liggur ekkert fyrir um, að ætlunin sé að afnema skerðingarákvæðin, þegar hin almenna endurskoðun almannatryggingal. fer fram. Það væri áreiðanlega sómi þessa þings að afnema skerðingarákvæðin gagnvart ellistyrk og örorkubótum, nú þegar, án nokkurrar tafar.

Í frv., sem hér er til umr., er lagt til, að keyptar lífeyrisgreiðslur skuli ekki bætast við atvinnutekjur manna og valda þannig aukinni skerðingu. En sé á annað borð farið að hreyfa eitthvað við skerðingarákvæðunum, get ég ekki sætt mig við, að þau gildi áfram gagnvart mönnum eins og ég gat hér um áðan og þeir eru, sem betur fer, allmargir í okkar þjóðfélagi. Þess vegna hef ég gefið kost á að fylgja þessu frv. með því móti, að 1. gr. þess breytist þannig, að skerðingarákvæðin, sem felast í 1. og 2. mgr. 22. gr. almannatryggingal., falli alveg niður. Breyt. á frv. þess efnis er borin fram í nál. á þskj. 33 og stendur meiri hl. heilbr.- og félmn, að till. Minni hl., hv. þm. Ísaf. og hv. 8. þm. Reykv., tók ekki þátt í atkvgr, í n. og þannig ekki afstöðu til málsins, en áskildi sér rétt til að gera grein fyrir afstöðu sinni annaðhvort í sérstöku minnihlutaáliti eða þá undir umræðum.

Ég held, að það væri þess vert, einkum með tilliti til þess, að Alþfl., flokkur hæstv. ríkisstj., sem tryggingamálin heyra undir, á ekki fulltrúa í þeirri n., sem hefur fjallað um málið, að gefið væri hlé, kannske bara nokkurra mínútna hlé, til þess að það yrði tekið til athugunar, hvort flokkarnir gætu ekki komið sér saman um það allir að standa að því að fella skerðingarákvæði almannatryggingalaganna, að því er snertir ellilífeyri og örorkubætur, niður á þessu þingi. Annars má segja, að það er kannske hægt að gefa flokkunum kost á þessari athugun milli 2. og 3. umr. um málið og legg ég ekki kapp á það, hvort heldur væri gert. En ef málið ætti að fá afgreiðslu, þá má auðvitað engan tíma missa til þess að koma því gegnum Ed. einnig.

Till. okkar þremenninganna, sem skipum meiri hl. heilbr.- og félmn., er sem sé sú, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að 1. og 2. mgr. 22. gr. almannatryggingal., en það eru skerðingarákvæðin varðandi elli- og örorkulífeyri, skuli falla niður.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og læt í ljós ákveðna von um það, að frv. svo breytt fáist afgreitt sem lög frá þessu þingi.