14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

4. mál, almannatryggingar

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég hef alltaf litið á þetta skerðingarákvæði í almannatryggingalögunum sem einhvern allra versta ókost þessara laga. Það er ekki nema eitt ár, þangað til þessi skerðingarákvæði eiga af sjálfu sér að falla á brott og það er oft svo hér á Alþingi, að það eru afgreidd stórkostleg fjárhagsmál, án þess að nákvæmlega sé vitað um tölur, þannig að á þann hátt væri ekki vikið frá venjum, sem viðgengizt hafa. Nú síðustu dagana er hv. Alþingi t.d. búið að afgreiða ný stjórnskipunarlög, sem fyrirsjáanlega hafa í för með sér mjög verulega útgjaldaaukningu. Ég heyrði engan af forsvarsmönnum þeirra laga tiltaka neinar sérstakar upphæðir og ég efa, að þeir hafi í stjórnlaganefndunum nokkuð um það sérstaklega sagt. En það er nú kannske öðruvísi vaxið.

Mér finnst alveg sérstök ástæða til þess að afgreiða þetta mál frá þessu þingi, að láta þetta verða síðasta lagafrv., sem afgreitt væri frá því Alþingi, sem kjörið var og er síðasta þingið, sem kjörið er undir hinu gamla skipulagi, sem hér ríkir, — að þetta þing hefði sett í það metnað sinn að afnema nú þegar hið mikla óréttlæti, sem gamla fólkinu hefur verið sýnt með þessu skerðingarákvæði.