07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

6. mál, endurlán eftirstöðva af erlendu láni

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Ég vil segja aðeins fá orð út af þeim aths., sem fram komu hjá hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við þetta mál.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að til þess að koma á miklum framkvæmdum í atvinnulífi og uppbyggingu hér á landi þarf mikið fjármagn. Nú er hið innlenda fjármagn, er við höfum til slíkrar ráðstöfunar, mjög takmarkað og hefur því að undanförnu orðið að hverfa að því ráði að leita eftir erlendu lánsfé. Og ekki er annað sjáanlegt, en sá háttur verði hafður á framvegis, að ekki verði annað kleift, ef halda á uppi hér miklum framkvæmdum og blómlegu atvinnulífi. Þær aths., sem hv. 4. þm. Reykv, lét falla út af þessu máli, eiga því ekki sérstaklega við í sambandi við þetta frv., heldur eru þær miklu almennara eðlis. Það er fjárhagslegt vandamál, sem vitanlega verður að taka tillit til og leysa í heild í sambandi við efnahagskerfi þjóðarinnar. En þeir annmarkar, sem hv. 4. þm. Reykv. bendir á, koma vitanlega fram í sambandi við ráðstöfun þess hluta hins erlenda lánsfjár, sem þegar hefur verið ákveðinn. Þó að sú viðbót, sem þetta frv. felur í sér um ráðstöfun þess fjár, verði samþ., þá fylgja því ekki neinir nýir sérstakir annmarkar, heldur er það aðeins brot af miklu stærra máli. Ég verð því að líta svo á, að það sé full ástæða til að samþykkja þetta frv., þó að mér sé hins vegar ljóst, að það fjárhagslega vandamál, sem hv. 4. þm. Reykv. gerði að umtalsefni, þurfi að takast til nánari athugunar í sambandi við fjármál og efnahagskerfi þjóðarinnar.