07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

Löggæsla á Keflavíkurflugvelli

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér í fundarbyrjun áðan bar ég fram fsp. utan dagskrár, beindi henni til hæstv. utanrrh., en þar eð hann og enginn hæstv. ráðh. var þá viðstaddur í húsinu, gerði ég hlé á máli mínu, til þess að ráðstafanir væru til þess gerðar, að einhverjir af hæstv. ráðh. gætu verið viðstaddir og komið fsp. áleiðis til viðkomandi ráðh. Fsp. var á þá leið, að ég hefði séð það í einu dagblaðanna í Reykjavík í morgun, að þar var frá því skýrt, að íslenzk lögregla á Keflavíkurflugvelli hefði ætlað að gera ráðstafanir til þess að taka ölvaðan mann úr umferð, mann sem var við akstur bifreiðar, en þá hafi komið þar að 30 manna sveit eða u.þ.b. vopnaðra manna, hermanna eða lögreglumanna, — það er ekki alveg skýrt í blaðinu, — og hindrað íslenzku lögregluna í því að framkvæma skyldustarf sitt. Ég tók það fram í fsp., sem ég í framhaldi af þessu beindi þá til hæstv. utanrrh., að ef þessi fregn væri að einhverju leyti röng eða villandi, þá væri fyllsta ástæða til þess, að hæstv. ráðh. gæfi skýrslu um málið og gæfi þannig fullkomlega rétta mynd af því, sem gerzt hefði. En ef fregnin væri sönn og rétt í alla staði, þá væri að mínu áliti um svo alvarlegan atburð að ræða, að það væri fyllsta ástæða til þess að óska eftir því, að hæstv. utanrrh. gerði Alþ. grein fyrir því, hvað hann hygðist gera til þess að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig, því að ég tel það vissulega jafnalvarlegan hlut, sem þarna hefur gerzt, sé fregnin rétt, eins og þegar brezkt hervald hefur að undanförnu gripið inn í störf íslenzkra löggæzlumanna innan íslenzkrar landhelgi og atburðurinn í raun og veru alveg sama eðlis, en þarna væri þá nýr aðili farinn að fremja á okkur sams konar ofbeldi og Bretar hafa gert að undanförnu. Um þetta óskaði ég sem sé að fá svör hæstv. ráðh. eða einhvers úr ríkisstj., ef hér væru menn, sem gætu gefið upplýsingar um þetta. Nú sé ég, að hæstv. dómsmrh. hefur komið hér í þingsalinn og óska þess, að hann gefi þær upplýsingar um þennan atburð, sem hann kann að geta á þessari stundu. En að öðru leyti er það ósk mín, að hæstv. utanrrh. gefi Alþ. skýrslu um þetta mál, svo fljótt sem hann fær því við komið.